19.10.1962
Efri deild: 5. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í C-deild Alþingistíðinda. (2508)

27. mál, Tunnuverksmiðjur ríkisins

Flm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Þetta frv. til l. um breyt. á lögum nr. 49 29. maí 1957, um tunnuverksmiðjur ríkisins, sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 27, er samhljóða frv., sem ég flutti á síðasta þingi. Málið hlaut þá einróma samþykki hér í hv. deild, en varð eigi útrætt í Nd. Ég hef því leyft mér að endurflytja frv., og vænti ég, að það hljóti sama stuðning og fyrirgreiðslu af hendi hv. þdm. og það hlaut á síðasta þingi. Til rökstuðnings fyrir frv. vil ég leyfa mér að vísa til framsögu, er ég hafði fyrir málinu á síðasta þingi og sé eigi ástæðu til að endurtaka. Ég vil aðeins undirstrika það, sem ég hef áður sagt varðandi þörfina fyrir slíka verksmiðju.

Til viðbótar þeim upplýsingum, sem er að finna í grg. með frv. um framleiðslumagnið, vil ég geta þess, að heildarframleiðslan á s.l. ári nam tæplega 110 þús. tunnum. Skiptist það á 6 verstöðvar, og var Akranes hæst með tæplega þriðjung af heildarmagninu eða rúmlega 30 þús. tunnur. Árið 1950 náði söltun Suðvesturlandssíldar hámarki, en þá voru framleiddar 131708 tunnur. Er það sem næst því, sem báðar tunnuverksmiðjurnar á Norðurlandi framleiða samtals árlega. Fyrir komandi síldarvertíð er nú þegar búið að semja um sölu á 85 þús. tunnum af saltsíld. Enn hefur þó ekki náðst neinn sölusamningur við Sovétríkin, en þau hafa oft verið stærstu kaupendur Suðvesturlandssíldarinnar.

Ég tel, að með þeirri reynslu, sem þegar er fyrir hendi um framleiðslu saltsildar á Suðvesturlandi, megi telja fullvíst, að hér sé um árvissan atvinnuveg að ræða, sem þegar er orðinn allstór þáttur í útflutningsframleiðslu þjóðarinnar. Það er því ekki að ófyrirsynju, að frv. er flutt, sem heimilar ríkisstj. að setja á stofn tunnuverksmiðju á Akranesi með það fyrir augum að sjá fyrir þörfum síldarsaltenda á Suðvesturlandi. Ég vil því leyfa mér að óska þess, að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.