29.10.1962
Efri deild: 8. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í C-deild Alþingistíðinda. (2524)

50. mál, afnám aðflutningsgjalda af vélum til landbúnaðar

Flm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Við framsóknarmenn í þessari hv. d. flytjum þetta frv., sem er á þskj. 50.

Það mun flestum kunnugt, hver þróun hefur verið á sviði tækninnar hér á landi hin síðari ár. Þar hefur tæknin, vélaaflið, leyst af hendi manns,aflið. Í stað árabátanna hafa komið vélknúin skip, og í stað þess að heyja hefur verið aflað með orfi og ljá, hafa komið afkastamiklar vélar. Þessi þróun þykir sjálfsögð. Engum dettur í hug að hefja útgerð né iðnrekstur nema með fyllstu tækni. Sama máli gegnir um landbúnaðinn. En þessi tækni kostar mikið. Hún kostar mikla fjárfestingu. Fáir eiga mikið fjármagn fyrir fram af því, sem vélvæðing kostar, og mjög erfitt er að fá fé að láni, nema þá að litlu leyti og með óhagstæðum kjörum. Hjóladráttarvél með nauðsynlegum tækjum við búrekstur kostar vart undir 200 þús. kr. En þá reikna ég með eftirfarandi tækjum fyrir utan aflvélina sjálfa: sláttuvél, múga- og rakstrarvél, lyftitæki með heyýtu, mykjudreifara og áburðardreifara, en það verð tek ég aðeins að 1/3 hluta, vegna þess að ég tel, að þar geti verið um sameign þriggja eða fleiri bænda að ræða. Síðan kemur blásari til að blása inn heyi í hlöðu og turna og súgþurrkunarblásari, sem verður nú orðið að teljast ómissandi hverju heimili. Ótalin er þá mjaltavél, sem ekki er hægt að vera án, þar sem um mjólkurframleiðslu er að ræða. Sé rafmagn til staðar frá héraðsrafmagnsveitum, er það mikill munur varðandi þægindi og fjárfestingu, en sé það ekki til staðar, þá vantar mótor til að framleiða rafmagnið fyrir heimili og enn fremur til að knýja súgþurrkunarblásara og mjaltavél. Þessi mótor með tilheyrandi kostar tæplega undir 50 þús. kr. Fjárfesting á einu búi, einungis til búrekstrar, ef vélvæðing á að vera fullnægjandi, mun því vera nokkuð mikið á 3. hundrað þús. kr. En þá er ótalið enn þá eitt ómissandi tæki hverju sveitaheimili, en það er bifreið. Hér er um mikla fjárfestingu að ræða, ef kaupa þarf allt þetta, eins og þeir verða að gera, sem byrja búskap.

Það er mikið vandamál meðal bænda og ekki sízt byrjenda í búskap, hvernig bezt er að leysa þennan þátt í bústofnsmyndun, svo að aðrir þættir í búskap gangi eðlilega, svo sem stækkun búanna, þurrkun lands og ræktun. Bændastéttin verður árlega að leggja í mikla fjárfestingu, sem framtiðin ein nýtur. Þessi fjárfesting eða þetta sparifé er bundið til margra ára og kemur aðeins þeim að notum, sem landið nytja í framtíðinni. Almennt fer hver einasti eyrir bænda í það að búa í haginn fyrir framtíðina, og flestir þeirra neita sér um ýmislegt, sem þeirra samborgarar í öðrum stéttum telja sér ómissandi á sínum heimilum, eins og t.d. skemmtileg og þægileg húsgögn og véltækni við sjálft heimilishaldið.

Þetta frv. fjallar um það, á hvern hátt við getum á viðráðanlegri hátt en nú er vélvætt landbúnaðinn. Þau tæki, sem nefnd eru í 1. gr. frv. og tilheyra 72. kafla tollskrárlaganna, svo sem hjóladráttarvélar, sláttuvélar, rakstrarvélar og snúningsvélar, mjaltavélar, áburðardreifarar og kartöfluupptökuvélar ásamt fleira til landbúnaðar, þessi tæki eru nefnd í 1. gr. frv. og skulu vera undanþegin aðflutningsgjöldum og enn fremur undanþegin sölusköttum, eins og 4. gr. frv. kveður á um. Hér er um verulega upphæð að ræða fyrir kaupendur hlutaðeigandi tækja. Hjóladráttarvél af Massey Ferguson Standard gerð kostar nú 106 þús. kr., en mundi, ef frv. þetta verður að lögum, lækka um 27 þús. kr. eða kosta þá 79 þús. kr. Sams konar vél og þessi kostaði árið 1958 53 þús. kr. eða helmingi minna en hún kostar nú. Hún mundi þrátt fyrir afnám tolla og skatta kosta 26 þús. kr. meira en hún gerði 1958.

Síðan 20. febr. 1960 er tvisvar búið að fella gengi íslenzkrar krónu, eins og landsmenn allir finna mjög fyrir. Eftirfarandi tæki mundu því lækka í verði sem hér segir, ef frv. verður að lögum:

Moksturstæki með skúffu, sem nú kostar 19 þús. kr., mundi lækka um 4400 kr. Sláttuvél með venjulegri 5 feta greiðu, sem nú kostar 11500 kr., mundi lækka um rúmlega 2000 kr. Múgavél 6 tindahjóla, sem nú kostar rúm 13 þús., mundi lækka um 2800 kr. Heyblásari, sem nú kostar nálægt 13 þús. kr., mundi lækka um 2300 kr. Og áburðardreifari, sem kostar nálægt 10 þús. kr., mundi lækka um 1800 kr.

Samkv. 2. gr. frv. er lagt til, að endurgreidd verði bæði aðflutningsgjöld og söluskattur af vörum til rafmagnsframleiðslu í sveitum, þar sem ekki er völ á rafmagni frá héraðsveitum eða samveitum. Öllum er ljóst, hversu rafmagnið og þau þægindi, birta og ylur, sem það veitir, umskapar allt líf og starf fólks. Árlega verður ríkissjóður að greiða halla á héraðsrafmagnsveitum ríkisins, og nam sá halli samkv. ríkisreikningi fyrir árið 1961 13 millj. kr. Hér er því um réttlætismál að ræða á milli þeirra annars vegar, sem búa við raforku hins opinbera, og hinna, sem staðháttanna vegna geta ekki átt þess kost, en kaupa dýrar vélar og standa að öllu leyti sjálfir undir rekstri þeirra til þess að fá raforku, en taka samt sinn þátt í halla héraðsveitna. Ekki er óalgengt, að keyptar séu dísilrafstöðvar 4 kw., en þær nægja aðeins litlum heimilum, og árið 1958 kostaði slík rafstöð 21 þús. kr. En nú kostar sams konar rafstöð af Lister-gerð 37 þús. kr. Ef frv. þetta verður að lögum, lækkar slík rafstöð um 8500 kr., en kostar samt sem áður 7500 kr. meira en hún kostaði árið 1958. Hér er um litlar upphæðir að ræða árlega hjá ríkissjóði, en þær mundu þó hjálpa mikið til þess að bæta úr brýnni þörf margra heimila, sem raforkuna skortir nú í dag.

Þá gerir 3. gr. frv. svo ráð fyrir, að endurgreidd verði bæði innflutningsgjöld og söluskattar af hjóladráttarvélum, sem fluttar hafa verið inn til landsins til landbúnaðarþarfa síðan 20. febr. 1960. Alls munu þær vélar vera, eftir því sem ég bezt hef fengið upplýst, sem hér segir: 1960 voru fluttar inn 207 vélar, 1961 416 og 1962, þ.e.a.s. fyrir hálft árið eða til júlíbyrjunar, að ég ætla, 257 hjóladráttarvélar. Á þessu tímabili hafa þá verið fluttar inn um 880 hjóladráttarvélar alls, en margar af þeim eru gamlar vélar, hafa verið fluttar inn sem notaðar vélar og því ódýrari í innkaupi en hinar nýju vélar hafa verið.

Sumum kann e.t.v. að finnast, að með frv. þessu sé farið fram á sérstöðu fyrir landbúnaðinn, en svo er ekki. Hér er hvergi farið fram á það, sem aðalatvinnuvegur þjóðarinnar, sjávarútvegurinn, hefur ekki notið og nýtur nú. Hér er því ekki farið fram á sérréttindi, heldur jafnrétti. Þá kann mönnum kannske að finnast, að hér sé um óbærilegan tekjumissi að ræða yrir ríkissjóð, en svo er ekki heldur. Hér er um örlítið brot að ræða af rekstrarhagnaði ríkissjóðs fyrir árið 1961, en þá nam rekstrarhagnaðurinn 1548 millj. kr. og greiðsluafgangur samkv. gömlu uppgjörsaðferðinni nam 57 millj. kr. fyrir það ár. Hvað væri þá, ef maður bæri þessar upphæðir saman við það, sem fjárlagafrv. fyrir árið 1963 gerir ráð fyrir eða áætlar tekjur ríkissjóðs, en þær eru þar áætlaðar nokkuð á 3. milljarð kr., svo að þarna yrði um dropa í hafinu að ræða. Enda er innflutningur þessara tækja í þágu landbúnaðarins aðeins örlítið brot af öllum innflutningi til landsins, og venjulega hefur útflutningur landbúnaðarafurða staðið að mestu leyti undir öllum þeim innflutningi, sem landbúnaðurinn hefur þurft á að halda sér til rekstrar. Á það má og benda, að þátttaka ríkissjóðs í kostnaði samkv. jarðræktarlögum nam s.l. ár 17 millj. kr. minna en hún gerði árið 1955 samkv. sömu löggjöf, ef miðað er við framkvæmdamagn og verðlag 1961 samanborið við umreiknað verðlag á framkvæmdum 1955. Hér er því ríkur þáttur í því, sem gerir afkomu bænda mun lakari með hverju árinu sem líður. Ef frv. þetta verður að lögum, er mun auðveldara að tryggja bændastéttinni fullkomna tækni við búrekstur á sambærilegu verði við það, sem gildir í sjávarútvegi. Þá mun það ekki ólíklegt, að unga fólkið aðhyllist landbúnaðinn meira en nú er, ef okkur tekst að sýna því fram á það með rökum, að í sveitum geti það lifað við fyllstu tækni frá byrjun og þurfi ekki að óttast að verða frá að hverfa sakir þess, að þjóðfélagið eða samfélagið getur ekki lyft undir vængi þess, á meðan flugið er að hefjast eða búskapurinn er að byrja. Takist okkur að búa vel að unga fólkinu, sem hefur vilja, dug og þekkingu á búskap, þurfum við hvorki að lá því né óttast það, að bændabýlin þekku verði ekki fullnytjuð og vel setin í framtiðinni, en það sannast, að íslenzka þjóðin á dugmikla bændastétt, sem er hlutverki sínu vaxin og sér þjóðinni jafnan fyrir því, sem hún þarfnast af þeirri framleiðslu, sem byggist á auðæfum gróðurmoldarinnar. Þetta frv. er aðeins einn þáttur af mörgum, sem styður að því að tryggja framtið sveitanna.

Ég legg því til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.