29.10.1962
Efri deild: 8. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í C-deild Alþingistíðinda. (2525)

50. mál, afnám aðflutningsgjalda af vélum til landbúnaðar

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð, því að ég sé ekki ástæðu til að orðlengja mjög um þetta frv. við þessa umr. málsins. Ræða hv. frsm., sem var í alla staði mjög hógvær, gaf ekki heldur mikið tilefni til langra bollalegginga, þótt hins vegar því sé ekki að neita, að þetta mál er að sjálfsögðu þess eðlis, að það geti gefið tilefni til allmikilla umræðna um aðstöðu landbúnaðarins yfirleitt í þjóðfélaginu. Ég skal spara mér allar slíkar umr., en það voru aðeins örfá atriði, sem ég vildi drepa á í þessu sambandi og einkanlega koma fram í grg. þessa frv., en hv. frsm. vék minna að í sinni frumræðu.

Því er haldið fram, að frv. þetta sé flutt fyrst og fremst vegna þess, að nú búi bændur landsins við erfiðari aðstöðu en þeir hafi áður búið við, og eins og það er orðað í grg., að sú stétt sé einna harðast leikin af núv. stjórnarvöldum. Ég geri líka ráð fyrir því, að það hljóti að vera eitthvert slíkt sjónarmið, sem eð baki er þessu frv., vegna þess að það vill nú svo til af einhverjum ástæðum, að því hefur ekki verið komið til leiðar, meðan flokkur hv. flm. þessa frv. hefur verið við völd í landinu, að búa þannig að landbúnaðinum, sem þeir telja nú sjálfsagt og sanngjarnt að gera, að hann geti fengið sínar vélar innfluttar án þess að borga af þeim nokkur aðflutningsgjöld. Maður skyldi a.m.k. halda, að ef það hefur verið svo ákaflega mikið réttlætismál, þá geti það naumast hafa orðið það allt í einu nú, nema eitthvað sérstakt komi til.

Hv. frsm. sagði, að með því að leggja til að fella niður alla þessa tolla væri ekki verið að fara fram á nein sérréttindi fyrir bændastéttina, heldur að hún njóti jafnréttis við útgerðina. Út í þá sálma skal ég ekki heldur fara, en vekja athygli á því, að mér er ekki kunnugt um, að fram hafi komið á undanförnum árum till. frá þessum hv. þm., þegar þeir höfðu valdaaðstöðu í landinu, til þess að koma á þessu jafnrétti. Og sannleikurinn er sá, að mér finnst, ef menn vilja vinna góðu máli gagn, þá sé í rauninni talsvert miklu þægilegra fyrir þá að gera það, þegar þeir ráða sjálfir, heldur en þegar þeir eru í stjórnarandstöðu, nema því aðeins að það sé skoðun þeirra, að valdhafarnir í það skiptið séu líklegri til að lita á réttlætismálið en þeirra eigin menn. Það má kannske segja, að það sé talsvert áberandi meinsemd í okkar þingstörfum, sem er kannske einstakt fyrir Ísland, að það vill oft verða svo, að menn leggja fram ýmsar tillögur, sem út af fyrir sig geta verið góðra gjalda verðar og horfa til lagfæringar fyrir einhverja aðra í þjóðfélaginu, en hreyfa þeim helzt, þegar þeir hafa ekki aðstöðu til þess að koma þeim fram eða þurfa ekki að bera ábyrgð á stjórn landsins. Með þessu er ég á engan hátt að halda því fram, að það geti ekki verið gott mál, sem hér er vakið máls á, en aðeins láta í ljós nokkra undrun yfir því, að hv. framsóknarmenn skuli hafa valið þá leið eða ekki komið auga á það fyrr, að þetta væri jafnmikið réttiætismál og þeir telja nú í dag.

Þá kem ég að hinni hliðinni, hvort það gæti þá verið, að það, sem réttlæti sérstaklega að fá þetta mál fram nú og geri það réttlátt, þótt það hafi kannske ekki verið réttiátt áður, þegar þessir menn höfðu völd, sé, að svo sérstaklega hafi verið farið illa með bændur af núv. valdhöfum, að þess vegna þurfi að gera þetta sem neyðarráðstöfun þeim til hjálpar. Ég vil einnig leyfa mér að halda því fram, að hér sé ekki rétt með farið. Það er að vísu svo, og það vitum við allir, sem nokkuð þekkjum til afkomu bænda og hags landbúnaðarins, að það er vitanlega margt, sem þarf að bæta á því sviði og þarf að bæta aðstöðu fólksins í sveitunum. En að halda því fram, að það þurfi að gera núna alveg sérstakar neyðarráðstafanir, sem ekki hafi verið ástæða til að gera áður fyrr, það hygg ég að hafi ekki við mikil rök að styðjast. Það má m.a. benda á það, að um verðlagningu landbúnaðarvara, sem er að sjálfsögðu undirstöðuatriði varðandi afkomu bænda, hefur tekizt að fá þá niðurstöðu, að það hefur ekki aðeins verið greidd í hækkuðu verðlagi sú hækkun, sem orðið hefur á kaupi annarra stétta, heldur hefur verið gert betur. Það hefur verið greitt nokkuð af þeim hala, sem áður var til kominn og er arfur frá vinstri stjórninni. Vitanlega væri mjög æskilegt, að það væri hægt að gera meira á því sviði og bæta hag bænda enn betur, en ég nefni þetta aðeins sem dæmi þess, að því fer fjarri, að sérstaklega þurfi að halda því fram, að nú hafi verið vegið að bændum af núv. ríkisstj. á þann veg, að það út af fyrir sig geri óumflýjanlegt að gera ráðstafanir sem þessar einmitt núna, ef ekki hefur verið þörf á þeim áður.

Hitt er svo allt annað mál, sem hv. flm. ræddi hér málefnalega um, að það er vissulega mikil nauðsyn á því að lækka a.m.k. verulega aðflutningsgjöld af ýmsum nauðsynlegum vélum til landbúnaðarins. Við vitum mætavel, að það er ógerlegt að búa búi sínu á Íslandi í dag nema því aðeins að hafa vissan vélakost. Öðruvísi verður það ekki gert. Og það er engum efa bundið, að þessar vélar eru orðnar mjög tilfinnanleg útgjöld fyrir bændur og því ástæða til að íhuga með öllu móti, hvernig hægt sé að auðvelda þeim að eignast þessi nauðsynlegu tæki. Með hliðsjón af því er ég hv. flm. algerlega sammála um þann kjarna málsins, að það er full þörf á að íhuga í fullri alvöru, hvað hægt er að gera í þessu efni til að létta þarna undir með landbúnaðinum.

Þegar á síðasta þingi komu fram till. um lækkun aðflutningsgjalda af dráttarvélum, var það upplýst hér í þinginu og hefur raunar einnig verið upplýst á þessu þingi af hæstv. fjmrh., að tollskráin væri í heildarendurskoðun og væri það langt komið þeirri endurskoðun, að það mætti vænta þess, að hún kæmi fyrir þetta þing. Ég geri ráð fyrir því, að þá muni að sjálfsögðu öll þessi mál hljóta gaumgæfilega athugun og að það verði farið svo langt sem auðið þykir í þá átt að lækka aðflutningsgjöld af þessum nauðsynlegu tækjum. Ég hygg því, að að því leyti til getum við hv. frsm. fullkomlega verið sammála um þann kjarna málsins og ég efast ekkert um, að það er einlægur vilji hans að vinna að því, að þessar úrbætur fáist, svo langt sem auðið er að ganga á því sviði. Hvort það þykir auðið að afnema öll þessi aðflutningsgjöld, skal ég ekkert um segja á þessu stigi málsins, það er ekki tímabært. En ég læt hiklaust í ljós þá skoðun, að á hinum þýðingarmestu vélum bænda sé nauðsynlegt að lækka aðflutningsgjöld frá því, sem nú er.

Varðandi svo að lokum það atriði, hvort það sé rétt, sem vissulega væri mjög hörmulegt, ef satt væri, að það sé háskalegur samdráttur í framkvæmdum í landbúnaði og í rauninni, eins og stundum hefur verið sagt, að það vofi yfir jafnvel landauðn í sveitum, þá held ég nú, sem betur fer, að það sé mjög orðum aukið. Hv. flm. nefndi hér nokkrar tölur, sem vissulega voru athyglisverðar í því sambandi, og það var innflutningur á dráttarvélum, sem sýndi sig að hefur farið stórvaxandi síðustu árin, þannig að ekki bendir það sérstaklega til samdráttar. Það er ekki gott að segja, hvernig verður með framkvæmdir á þessu ári. Það liggja ekki fyrir um það upplýsingar enn. En eftir þeim upplýsingum, sem þó hafa lauslegar borizt, bæði frá kaupfélagsstjórum og byggingarfulltrúum í sveitum, þá sýnist ekki ástæða til að halda, að þar sé um samdrátt að ræða, ef lítið er á landið í heild, heldur miklu fremur líklegt, að framkvæmdir hafi orðið meiri í sumar en nokkru sinni áður. Og vissulega er þetta gleðiefni. Með þessu er á engan hátt sagt, eins og ég sagði í upphafi máls míns, að það þurfi ekki að hafa vakandi augu á því að reyna eftir föngum að bæta aðstöðu bænda til búrekstrar. Það er alveg rétt, sem hv. frsm. sagði, að það er nokkuð sérstakt með landbúnaðinn, að hann verður að rækta sín mið sjálfur, og framkvæmdir hans, t.d. í jarðrækt, ef vel er að þeim framkvæmdum unnið og þær vandaðar, eiga að standa til langrar frambúðar. Þeir hafa á undanförnum árum og áratugum lagt á sig gífurlegar álögur til þess að bæta og byggja sveitirnar, og við vitum, að þar hafa orðið undraverðar framfarir. Og vissulega er það skylda löggjafarvaldsins og ríkisvaldsins á hverjum tíma að hlaupa þarna svo undir bagga sem verða má, því að ég efast um það, að hjá nokkurri þjóðfélagsstétt fari tekjur hennar jafnalmennt í uppbyggingu eins og er hjá bændastéttinni.

Það má því öllum ljóst vera, að það er mikið nauðsynjamál að vinna að því, að hagur bænda geti orðið sem beztur. En það er alltaf mjög leitt, hver sem á hlut að máli og hvaða flokkur sem það á, ef slík góð mál eru fram borin á þann hátt, að það gefur fulla ástæðu til þess að halda, að þau séu jafnvel meira borin fram til að sýnast en í fullri alvöru, þegar ekki hafa af þeim sömu hv. fim. verið gerðar neinar ráðstafanir til þess, þegar þeir höfðu tök á að koma því réttlætismáli í framkvæmd.

Það er vitanlega svo, að það er mjög vinsælt að afnema tolla og aðflutningsgjöld, og það eru vafalaust margir þjóðfélagsborgarar, sem vildu vera lausir við þau. Ég sé, að það eru tveir hv. framsóknarmenn, sem hafa flutt í Nd. frv. um að afnema viss gjöld af heimilisvélum. Þetta er líka ágætt mál. Og það er vafalaust hægt að finna mörg önnur mál, þar sem væri mjög vinsælt að afnema tolla og aðflutningsgjöld og afnema skatta. En það vita allir hv. þm., að málið er ekki alveg svo einfalt, þó að þetta geti litið vel út á pappír, svo að ég held a.m.k., að í það allt saman verði að fara með fullkomnu raunsæi.

Herra forseti. Ég skal ekki orðlengja frekar um þetta. ég vildi aðeins minnast á þessi nokkur atriði í sambandi við málið, sem mér finnst ekki hafa komið nægilega fram eða verið þannig fram sett í sambandi við grg. fyrir þessu máli, að það sé ekki fyllilega rétt með staðreyndir farið. En að öðru leyti get ég lýst því yfir, sem ég áðan sagði, að ég er sammála hv. flm. þessa máls um, að það þurfi að búa sem bezt í haginn fyrir landbúnaðinn að þessu leyti og einkum með því að gera það, sem tök eru á að gera, til þess að auðvelda bændum að eignast hin nauðsynlegustu tæki til síns búrekstrar.