29.10.1962
Efri deild: 8. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í C-deild Alþingistíðinda. (2526)

50. mál, afnám aðflutningsgjalda af vélum til landbúnaðar

Flm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Ég get þakkað hv. 6. þm. Norðurl. e. fyrir góðar undirtektir undir þetta mál, og vænti ég, að hann leggi málinu gott lið innan síns flokks og sjái um, ef umtöluð aðflutningsgjaldalækkun er fyrirhuguð af hæstv. ríkisstj., að hún verði eitthvað, sem um munar, en ekki aðeins nafnið eitt, eins og hv. þm. sagði að ég og aðrir flm. þessa frv. meintum með frv. þessu, eða að það væri sýndarmennska ein. En svo er nú ekki.

Hv. þm. ræddi nokkuð hag landbúnaðarins, og ætla ég, að hann sé honum nokkuð kunnugur, þar sem hann er bankastjóri Búnaðarbanka Íslands og hefur verið nú um nokkurt skeið og því gefizt gott tækifæri til þess að kynnast fjárhagsafkomu bændastéttarinnar í landinu og ekki sízt fyrir það, að einmitt á því tímabili, sem hann hefur verið bankastjóri, hafa farið fram svokölluð skuldaskil hjá bændum landsins. Að sjálfsögðu mætti margt um þau mál ræða, en ég ætla mér að halda mér við efni þessa frv. og skal því ekki fara langt út í þau mál, en bara það út af fyrir sig sýnir nokkuð, á hverri leið bændastéttin er stödd fjárhagslega í þeirri dýrtið, sem ríkir í landinu.

Hv. þm. taldi, að það væri ekki rétt með farið, að í framkvæmdum landbúnaðarins væri samdráttur. Ég vildi, að svo væri, að það væri rétt, er hann sagði. En því miður benda allar skýrslur, sem fyrir liggja um þau efni, í þveröfuga átt, og vil ég — með leyfi forseta — lesa nokkuð úr þeim skýrslum, sem birzt hafa um þessi efni, bæði í Búnaðarriti og búnaðarblaðinu Frey. Þar stendur, að fyrir árið 1959 er mæld nýrækt í landinu 4456 hektarar, en árið 1961 eru aðeins teknir út eða mældir 3934 hektarar, eða 522 hekturum minna en 1959, og var líka verulegur samdráttur og nokkru meiri í þessu árið 1960 frá árinu 1959. Taki maður túnasléttur, þá lætur nærri, að þær hafi nokkurn veginn staðið í stað þessi ár. En aftur á móti girðingar hafa minnkað frá 1959 allverulega. Og áburðarhús steypt hafa minnkað frá 1959 um 3059 rúmmetra. Þá eru það þurrheyshlöður steyptar. Þær voru mældar 1959 134255 rúmmetrar, en árið 1961 aðeins 79443 rúmmetrar, eða 54 812 rúmmetrum minna 1961 en 1959. Hlöður úr öðru efni hafa sömuleiðis minnkað, þar sem er minna byggt af þeim einnig á sama tímabili en var 1959. Súgþurrkunarkerfi í þurrheyshlöður, sem allir telja að sé ómissandi, hefur sömuleiðis verulega minnkað. Og votheyshlöður, sem einnig eru taldar mjög nauðsynlegar, voru mældar 15 351 rúmmetri 1959, en 6737 rúmmetrum minni 1961 eða því sem næst um helming.

Vélgrafnir skurðir komust hæst 1958 í nærri 4 millj. rúmmetra, en árið 1961 hafa þeir minnkað um því sem næst þriðjung. Og mér er sagt, eftir því sem horfur eru á með vélgrafna skurði nú í ár, að þar sé enn þá verulegur samdráttur, sem bezt kemur kannske fram í því, að aðeins 18 skurðgröfur af 30, sem vélasjóður ríkisins á, eru í gangi. Það kann að vera, að það séu fleiri orsakir, sem þessu valda, að ekki fleiri vélar eru notaðar en þetta, en aðalástæðan er sú, að bændur treysta sér ekki út í þessar framkvæmdir í stórum stíl þrátt fyrir það, að þessi framkvæmd er kostuð af ríkinu að 65% og er því sú ódýrasta framkvæmd, sem bændastéttin getur lagt út í í dag.

Þá minnti ég á það í minni ræðu áðan, að ef framlag ríkisins til jarðabóta í landinu ætti að vera hliðstætt því, sem það var 1955, eftir að endurskoðun hafði farið þá fram á jarðræktarlögunum, hefði ríkið þurft að greiða 17 millj. kr. meira út á framkvæmdirnar 1961 en gert var, þannig að þarna verða bændurnir sjálfir að leggja fram þessar 17 millj., sem þeir hefðu ekki þurft að gera, ef hlutfall ríkisins í þátttöku þessara framkvæmda hefði verið jafnmikið 1961 og það var 1955.

Ég ætla, að með þessum tölum, sem ég hef hér nefnt, sé hv. þm. ljóst, að hér er ekki talað út í bláinn, þegar sagt er, að verulegur samdráttur hafi átt sér stað í framkvæmdum á vegum bændastéttarinnar hin síðari ár. Og það er alvörumál, verulegt alvörumál, ekki fyrir bændurna sjálfa, heldur og þjóðina í heild, ef þessi samdráttur heldur áfram.

Aðalástæðan fyrir flutningi þessa frv. er sú, eins og bæði kemur fram í grg. og kom fram í ræðu minni áðan, að gengisfellingin 1960 og 1961 hefur margfaldað tollana og skattana, sem áður voru á þessum vélum, þannig að t.d. ein hjóladráttarvél kostar 28 þús. kr. meira í dag, þó að búið sé að afnema öll aðflutningsgjöld og söluskatta á þeirri vél, en hún gerði 1959, því að þá kostaði hún 53 þús. kr., en hæstv. núv. ríkisstj. hefur tekizt að hækka þessa vél í verði um hér um bil 100%. Og ég vænti þess, úr því að það er ofarlega á döfinni hjá hæstv. stjórn að endurskoða tollalögin, m.a. með tilliti til þessa, er varðar bændastéttina, að tekið verði fullt tillit til, hvernig komið er í þessum málum, og taki líka tillit til þess, að það er óhugsandi, að nokkur búrekstur í landi voru geti átt sér stað nema með fullkominni tækni, sams konar tækni og útgerðarmenn álita varðandi útgerð og iðnaðarmenn álíka varðandi iðnrekstur. Þetta er sú krafa, sem hefur orðið ljósari með hverju árinu sem hefur liðið hjá bændastéttinni og ekki að ástæðulausu.

Það var einn þáttur, sem ég vænti að hv. 6. þm. Norðurl. e. kæmi nokkuð inn á í ræðu sinni, af því að hann er bankastjóri, og það er um það að lána út á heimilisdráttarvélar úr stofnlánadeild landbúnaðarins. Ég sakna þess, að hv. þm. minntist ekki á þetta, en gott væri, ef hann gæfi nokkrar upplýsingar, hver háttur verði á hafður í þessum efnum varðandi bændastéttina, hversu myndarlega Búnaðarbankinn ætlar að taka á þessum málum og greiða á þann hátt götu bændastéttarinnar nú og í framtíðinni.