29.10.1962
Efri deild: 8. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í C-deild Alþingistíðinda. (2528)

50. mál, afnám aðflutningsgjalda af vélum til landbúnaðar

Flm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hv. 6. þm. Norðurl. e. fyrir upplýsingarnar. En hins vegar harma ég, að enn skuli ekki hafa verið tekin ákvörðun um það af hálfu bankastjórnar Búnaðarbanka Íslands, hvort lánað skuli til dráttarvélakaupa nú í ár eða ekki, því að árið líður senn á enda, þar sem nú eru síðustu dagarnir í október og ekki svo ýkjalangur tími til jóla, sem hægt er að starfa að þessum málum, svo að mér finnst, að það sé fullkomlega tímabært að fara að taka endanlega ákvörðun um það, hvort auðið verði að lána út á vélarnar eða ekki. En ég vænti þess samt, þótt þetta sé allt heldur síðbúið, að það fari vel að lokum.

Upphæðin verður að vísu ekki ýkja stór, þótt lánað verði 30% af kaupverði vélanna, eins og hv. þm. talaði um að gert hefði verið, þegar vélar ræktunarsambandanna eiga í hlut. En ástæðan fyrir því, að lánað hefur verið út á vélar ræktunarsambandanna, hygg ég að muni fyrst og fremst vera sú, að ríkissjóður hafi ekki staðið við lögbundnar greiðslur til þessara vélakaupa, þar sem ákveðið er í lögum, að ríkið greiði helming af kostnaðarverði vélanna, en muni ekki hafa borgað meira en fjórða part í þessum vélakaupum hin síðari ár, og það hafi verið reynt að liðka til í þessum efnum með því að lána til þeirra úr ræktunarsjóði. Það hefur því á ýmsum sviðum, bæði hjá bændunum sem einstaklingum og einnig á félagslegum sviðum, verið þrengt að bændum af því opinbera frá því, sem áður var, svo að ástæða er þeim mun ríkari en nokkru sinni hefur áður verið að fara fram á það, að stórfelldar leiðréttingar séu gerðar í þeim efnum frá því, sem nú er.