05.11.1962
Efri deild: 11. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í C-deild Alþingistíðinda. (2533)

69. mál, erfðafjárskattur

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. flm. þessa frv. um það, að ákvæði I. um erfðafjárskattinn séu óþarflega margbrotin og að ýmsu leyti orðin úrelt. Það er í sjálfu sér eðlilegt, að ný erfðafjárskattslög fylgi í kjölfar hinna nýju erfðalaga, sem samþykkt voru hér á síðasta Alþingi.

Hv. frsm. gat þess, að það væri e.t.v. þörf á fleiri breytingum á erfðafjárskattslögunum, og beindi því til þeirrar n., sem fengi þetta frv. til meðferðar. Í tilefni af því langar mig til að benda á eitt atriði, sem er ekki komið inn á í þessu frv., og það eru reglurnar um það, hvernig erfðafé er metið til skatts. Ég hygg, að það sé svo, að þar séu í gildi sömu reglur og þegar eignir eru metnar til eignarskatts, og er ég þó ekki viss um, að fyrir því sé ótvíræð lagaheimild. Þetta hefur leitt til þess, að erfðafjárskattur af fasteignum er reiknaður af fasteignamati, sem eins og allir vita er ekki lengur neitt nálægt því að vera neitt raunverulegt mat á eðlilegu verðmæti eignanna. Þetta hefur skapað ákaflega mikið misrétti, þannig að þeir, sem fá fasteignir í arf, fá þar að greiða erfðafjárskatt af þeim eftir fasteignamati, en þeir, sem fá aðrar eignir, verða að miða þær við fullt verð eða sanngjarnt verð. Þó að þetta sé látið viðgangast með eignarskattinn, þá tel ég, að hér gegni nokkuð öðru máli, m.a. vegna þess, að erfðafjárskattur er margfalt hærri en eignarskatturinn og misrétti verður því margfalt meira. Ég vildi því, ef hv. n., sem fær þetta frv. til meðferðar, hugleiðir að gera frekari breytingar á erfðafjárskattslögunum en lagt er til í þessu frv., að hún tæki þá m.a. þetta atriði til athugunar.