31.01.1963
Efri deild: 35. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í C-deild Alþingistíðinda. (2546)

115. mál, söluskattur

Flm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég er nú ekki að gera þessar umr. að tilefni til þess að fara í almennt uppgjör út af viðskilnaði vinstri stjórnarinnar né heldur á efnahagsmálastefnu hæstv. ríkisstj. í heild sinni, eins og hv. síðasti ræðumaður gaf þó í raun og veru tilefni til. Hann sagði, að ég hefði viða haltað réttu máli í minni framsöguræðu, en benti þó ekki á neitt því til sönnunar, og sé ég þá ekki ástæðu til að fara ýtarlega út í málsatvik aftur.

Ég aðeins benti á nokkrar staðreyndir, sem liggja fyrir og ekki verður haggað, hvorki af hv. siðasta ræðumanni né öðrum. En ég vil benda á í sambandi við það, sem hann sagði um viðskilnað vinstri stjórnarinnar, sem allt illt á að stafa af, að nú var sá óskaplegi vandi, sem vinstri stjórnin skildi eftir sig, ekki orðinn stærri en það, að hv. ræðumaður kemst að þeirri niðurstöðu, að hann hafi aðeins kostað 1–2% kjaraskerðingu á árinu 1960. Svo óskaplegur var sá vandi, sem sú hæstv. ríkisstj. skildi eftir sig. En það mætti þá kannske spyrja þennan hv. þm.: Hverju reiddust goðin, þegar brann jörð, þar sem nú stöndum vér, — hverju hefur verið til að dreifa núna á þessu s.l. ári og árinu þar á undan? Ekki hefur það verið viðskilnaður vinstri stjórnarinnar, sem var ekki meiri en svo, að hann var leiðréttur með 1–2% kjaraskerðingu, eftir því sem hann sagði, á árinu 1960.

Á árinu 1961 sömdu íslenzkir verkamenn, íslenzkir láglaunamenn um 10% kauphækkun. Þá var vísitala framfærslukostnaðar 104 stig. Á þessu sama ári óx útflutningsframleiðslan, eins og ég sagði áðan, um 400 millj. kr. En hvernig fór? Það fór þannig, að eftir 10 mánuði var framfærsluvísitalan komin í 116 stig, þ.e.a.s. hafði hækkað um meira en nam kauphækkuninni, kjör þessarar stéttar höfðu rýrnað. Og svo núna á s.l. ári gerist enn sama sagan, þegar enn er knúin fram ofur lítil leiðrétting. Þá er vísitalan í 116 stigum. Lægst launuðu stéttir þjóðfélagsins semja um 6–9% kauphækkun, en vísitalan hækkar um 11 stig. Hverju er hér um að kenna? Það má vel vera, að það sé rétt hjá hv. þm., að það hafi ekki í hverju einasta tilviki verið leyfðar verðhækkanir á t.d. íslenzkum iðnvarningi í samræmi við kauphækkanir eða jafnvel meiri. En þar stendur auðvitað fullyrðing gegn fullyrðingu, — ég fullyrði, að það hafi verið meginreglan. Ég vildi spyrja þennan hv. þm., ef hann ætlar að hrekja þetta, t.d. um fundi verðlagsnefndar, sem voru haldnir núna í nóvembermánuði, en þar er mér kunnugt um, að einum bezt stöddu iðnfyrirtækjum í landinu voru leyfðar mjög stórfelldar hækkanir þrátt fyrir milljóna, ef ekki milljónatuga hagnað á árinu 1961.

Þá vék hv. þm. að því, að í þessu frv. væri hvergi gert ráð fyrir því, hvernig bæta ætti ríkissjóði það tap, sem hann yrði fyrir og eins og ég gat um mundi geta numið 50–60 millj. kr. Það er þá fyrst þar til að taka, að ef slíkar verðlækkunarráðstafanir eru metnar á móti kaupi, ef þær verða til þess að hindra jafnmikla kauphækkun, þá er ekki vitanlega um svona mikið tap hjá ríkissjóði að ræða, vegna þess að eitt vísitölustig í kaupgjaldi kostar ríkissjóð milli 12 og 13 millj. kr., þannig að þau 2 stig, sem þetta mundi lækka framfærsluvísitöluna, mundu spara ríkissjóði um 25 millj., og væri þá upphæðin, sem þarna væri um að ræða, sennilega komin niður í 25–30 millj. Það er auðvitað nokkur upphæð, en ég tel, að oft hafi verið teflt á tæpara vað en það, þó að slík tekjulækkun væri framkvæmd, án þess að sérstakar ráðstafanir væru gerðar, og sérstaklega með tilliti til þess, að á s.l. árum hefur verið um tekjuafgang hjá ríkissjóði að ræða. Hitt er svo rétt, að fjárl. hafa verið afgreidd. Ég vil benda hv. þm. á það, að þetta frv. var flutt, áður en þau voru afgr., og það var hugmynd mín, að það kæmi til athugunar eða a.m.k. til umræðu, áður en það yrði, þó að svo færi, að það hafi ekki verið tekið fyrir fyrr en nú, í fyrsta lagi vegna þess, að hæstv. forseta þessarar d. þóknaðist ekki að taka það á dagskrá vikum saman, eftir að það hafði verið flutt, og í öðru lagi vegna þess, að ég var veikur síðast á þinginu fyrir frí. En viðkomandi því, að algerlega vanti botninn í þetta frv. að þessu leyti, má benda hv. þm. á það, sem er yfirlýst af hæstv. ríkisstj., að fyrir þessu þingi muni liggja ný tollskrá. Þar koma auðvitað hinir mikilvægustu tekjustofnar ríkisins til endurskoðunar, og ég hygg, að það væri a.m.k. engin goðgá að ímynda sér, að það væri unnt í sambandi við svo stórkostlegar breytingar á fjárhæð til ríkissjóðs, sem þar er um að ræða, að hnika þar til, ef það þætti atveg óhjákvæmilegt, um þær upphæðir, sem þetta frv. gæti leitt af sér. Ég held þess vegna, að það séu nægar leiðir til þess, að þetta frv. geti komið til framkvæmda, án þess að af því stafi nokkur hætta fyrir tekjuöflun ríkissjóðs, og að frv. verði a.m.k. ekki hafnað af þeim ástæðum.