04.02.1963
Efri deild: 36. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í C-deild Alþingistíðinda. (2551)

116. mál, vegalög

Flm. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Frv. þetta á þskj. 174, sem við flytjum, hv. 3. þm. Vestf. og ég, fjallar um það að taka inn nokkra vegi á Vestfjörðum í þjóðvegatölu.

Það var lengi venja að breyta vegalögum einu sinni á kjörtímabili, og þær breytingar voru þær að taka inn nýja þjóðvegi. Nú hefur verið brugðið út af þessari venju á undanförnum árum, því að vegalögum hefur ekki verið breytt síðan 1955 eða í 7 ár. Þó að svo hafi verið, að ekki hafi fengizt breytingar á vegalögum undanfarin 7 ár, er það ekki vegna þess, að þm. hafi ekki haft áhuga á að koma nýjum vegum inn í þjóðvegatölu, því að öll þessi ár hafa verið flutt frv. á Alþ. um nýja þjóðvegi. Meira að segja á árinu 1956, ári eftir að vegalögum var breytt, eru flutt tvö frv. á Alþingi um þjóðvegi. Í Nd. voru flm. Jón Sigurðsson og Steingrímur Steinþórsson, en í Ed. var flm. frv. Sigurður Bjarnason. Árið eftir, 1957, eru einnig flutt tvö frv. sama efnis. Í Nd. voru flm. Jón Sigurðsson og Steingrímur Steinþórsson, eins og áður, en í Ed. Sigurður Bjarnason, eins og árið áður. 1958 eru enn flutt tvö frv. um nýja þjóðvegi. Í Nd. var flm. þá Eiríkur Þorsteinsson, en í Ed. Sigurður Bjarnason. 1959 eru líka flutt tvö frv. um nýja þjóðvegi. Flm. í Nd. voru þá Gunnar Gíslason, Einar Ingimundarson og Björn Pálsson. Í Ed. voru flm. Bjartmar Guðmundsson, Magnús Jónsson og Friðjón Skarphéðinsson. 1960 eru flutt tvö frv. um nýja þjóðvegi. Í Nd. voru þá flm. Garðar Halldórsson, Gísli Guðmundsson og Jónas G. Rafnar, í Ed. Sigurvin Einarsson, Kjartan J. Jóhannsson og Hermann Jónasson. 1961 eru enn flutt tvö frv. um nýja þjóðvegi. Í Nd. var flm. Hannibal Valdimarsson. Í Ed. voru fim. Sigurvin Einarsson og Hermann Jónasson. Og á yfirstandandi þingi, 7. þingið í röð, sem flutt eru frv. um nýja þjóðvegi, eru flm. í Nd. Halldór Ásgrímsson, Eysteinn Jónsson og Lúðvík Jósefsson, í Ed. Sigurvin Einarsson og Hermann Jónasson.

Á þessari skrá má sjá það, að þm. hafa á öllum þessum þingum haft áhuga á því að fá nýja vegi inn í þjóðvegatölu. Það er því enginn efi á því, að hér er þörf á bak við það, að öll þessi frv. eru flutt. Þörfin er heima í héruðunum og fer sívaxandi. Nú hefur orðið fólksfækkun víða í byggðarlögum landsins, en við það rýrna möguleikar sýsluvegasjóðanna til þess að leggja verulegt fé til sýsluvega. Um hreppavegi ætla ég að sé nú ekki að tala lengur í framkvæmd. Það er svo komið, að ýmis sýslufélög eiga mjög erfitt með að sinna sómasamlega viðhaldi sýsluveganna, auk heldur að leggja í nýjar framkvæmdir, að byggja nýja vegi. Afleiðingin af þessu er svo auðvitað sú, að sýsluvegir eru í mjög lélegu ástandi og lítið eða jafnvel ekkert gert af nýbyggingum sýsluvega. Þetta er ekkert óeðlilegt, því að tekjur sýsluvegasjóðanna eru ekki orðnar í neinu samræmi við kostnaðinn, eins og hann er nú orðinn við að leggja vegi. Auðvitað er þetta ein höfuðástæðan fyrir því, að þm. hafa flutt frv. um nýja þjóðvegi og vilja þannig verða við óskum héraðanna í þessum efnum. En auk þess hafa þarfir byggðarlaganna fyrir nýja þjóðvegi líka aukizt af öðrum ástæðum. Það er allvíða svo, að nú er mjög aðkallandi að leggja þar veg, sem ekki var vegur áður, vegna breyttra staðhátta, breyttra atvinnuhátta og vegna fólksflutninga. Það þurfti ekki að koma að mikilli sök fyrir allmörgum árum, þótt eitthvað drægist með að leggja veg á vissum stað, en getur nú verið mjög aðkallandi að fá slíkan veg. Með sama hætti hafa aðrar breytingar orðið, þ.e.a.s. á þá leið, að þar sem var talinn þjóðvegur, kannske lagður, kannske ólagður, er ekki þörf á að leggja veg núna, vegna þess að fólkið er flutt burt. Um þetta eru líka dæmi. Í þriðja lagi má benda á, hversu þýðingarmikið vegakerfi landsins er fyrir alla atvinnu manna, öll framleiðslustörf. Og vegir eru einnig miklu meira notaðir nú en var fyrir 5–10 árum. Þetta knýr á, að lagt sé meira fé í vegina, en það þýðir, að hið opinbera verður að koma til skjalanna, því að fjármagnið er ekki til heima fyrir. Og til þess að svo verði, þarf að taka vegina upp í þjóðvegatölu.

Ég sé ekki þörf á því á þessu stigi málsins að fjölyrða um nauðsyn þjóðvega eða möguleika sýslufélaga eða einstakra byggðarlaga til að leggja fé í vegi. Ég ætla, að allir hv. þm. þekki þetta rækilega, og þeir hafa sýnt það með öllum þeim frv., sem flutt hafa verið á undanförnum 7 árum, að þeim er þetta ekkert hégómamál. Nokkru eftir að þetta frv. var flutt, var því yfir lýst hér á Alþ.,hæstv. ríkisstj. mundi flytja frv. að nýjum vegalögum á þessu þingi. Og einn af þeim, sem áttu sæti í þeirri nefnd, sem undirbjó það frv., hv. 10. landsk. þm., gat þess í umr. hér nokkru fyrir jól, að ætlunin væri að leysa með því stjfrv. þann vanda, sem lagt er til að leysa með ýmsum þeim till. í vegamálum, sem nú liggja fyrir þessu þingi. Hann gat þess sérstaklega, að ætlunin væri að leysa með því frv. í einu lagi þau mál um þessi efni, sem liggja fyrir þinginu. Fáist sú lausn, sem telja má viðunandi, með væntanlegu stjórnarfrv., á því, sem þetta frv. fjallar um, þá get ég ekki séð, að það sé neinn skaði skeður, þótt þetta frv. komist jafnvel ekki nema til nefndar, — verði sú lausn viðunandi, sem fæst með hinu væntanlega stjfrv. Verði hún það ekki, þá er nauðsyn á að fá þetta frv. afgreitt á þessu þingi, og á það legg ég áherzlu. Það er því mikið undir því komið, hvernig verður tekið á þessum málum í hinu væntanlega stjfrv. um vegamál, sem boðað hefur verið. Ég geri enga kröfu til þess, að þetta frv. nái fullnaðarafgreiðslu, ef viðunandi lausn á þessum málum fæst með hinu væntanlega stjfrv., því að eins og allir skilja, þá er það aðalatriðið, en ekki hitt, hvaða frv. nær fram að ganga. En hitt legg ég aftur á móti ríka áherzlu á, að verði það ekki, fáist ekki viðunandi lausn með hinu væntanlega stjfrv., þá er full þörf á og nauðsyn á, að þetta frv. nái fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi.

Ég fjölyrði svo ekki frekar um þetta mál að þessu sinni, en legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. samgmn.