01.04.1963
Efri deild: 65. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í C-deild Alþingistíðinda. (2558)

127. mál, sala Litlagerðis í Grýtubakkahreppi

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég sem flm. þessa litla frv. þakka hv. landbn., að hún mælir einróma með samþykkt þess. N. hefur haft málið alilengi hjá sér og lengur en ég bjóst við að hún gerði, en ég veit ástæðurnar fyrir því, og nú hefur verið leitað umsagnar allra þeirra, sem til greina kemur að leita álits hjá í sambandi við þetta mál. Það hefur verið spurt um álit jarðeignadeildar ríkisins, landnámsstjóra og hreppsnefndar viðkomandi hrepps, þ.e. Grýtubakkahrepps. Allir þessir aðilar hafa, eins og vænta mátti, mælt með sölu Litlagerðis til Jóhanns Skaftasonar sýslumanns. Furðulegt hefði það líka verið, ef þeir, sem fara með jarðir í opinberri eigu, og sveitarstjórnin í hlutaðeigandi sveit hefði ekki viljað þiggja aðstoð sjálfboðaliða, sem vill gera eyðibýli til góða, svo að það verði byggilegt. Sá ræktarhugur til bernskustöðva er svo fallegur, að til fyrirmyndar er, og verðskuldar það, að aðstoð hans sé vel virt og fúslega með þakklæti þegin, ekki sízt í landi, sem stríðir við fólksfækkun í sveitum og hefur ekki við fyrir sitt leyti að gera jörðum, sem eru í þjóðareign, nægilega til góða.

Vegna þess, hve frv. þetta er lengi búið að vera í nefnd, er það orðið heldur seint fyrir í þinginu, en ég vænti þess, að þar sem það hefur fengið þá rækilegu athugun, sem álit hv. landbn. ber með sér, þurfi það ekki að verða fyrir neinum sérstökum töfum hér eftir og geti siglt hraðbyri gegnum þingið. Ég leyfi mér að vænta þess, að þessi hv. d. hraði fullnaðarafgreiðslu þess frá sér hér eftir.