04.04.1963
Neðri deild: 65. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í C-deild Alþingistíðinda. (2563)

127. mál, sala Litlagerðis í Grýtubakkahreppi

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Á þskj. 230, sem þegar hefur verið samþ. í Ed., er leitað heimildar Alþingis til þess að selja Jóhanni Skaftasyni bæjarfógeta á Húsavík og sýslumanni í Þingeyjarsýslum eyðijörðina Litlagerði í Grýtubakkahreppi í Suður-Þingeyjarsýslu fyrir það verð, er um semst eða verður ákveðið samkv. mati dómkvaddra manna. Hér sýnist Alþingi fara alveg inn á nýja braut í jarðasölumálum, að leyfa sölu jarða, sem ríkið á, til einstakra manna og það án þess að setja það skilyrði, að jörðin sé gerð að ættaróðali. Söluverð jarðarinnar fari samkvæmt mati eða samkomulagi. Rökin fyrir því, að beðið er um að selja þessa jörð, eru þau, að foreldrar kaupandans hafi búið þar lengi, hann sé fæddur þar og flest hans systkini séu fædd þar. En á sama tíma kemur fram í grg., að hann vilji engan veginn gera jörðina að ættaróðali. Það er skilyrði frá hans hendi, að það skilyrði verði ekki sett um jörð, sem svo mjög er tengd við hans ætt, að hún skuli gerð að ættaróðali. Mér sýnist liggja hér á bak við, að það sé hugsað að gera þetta að einhverri braskjörð síðar meir. Og af því tilefni vildi ég mega upplýsa nokkuð hér í sambandi við jarðaráðstafanir ríkisins.

Þessi ágæti embættismaður var, eins og kunnugt er, fjöldamörg ár sýslumaður í Barðastrandarsýslu, og hann fékk þá þáv. hæstv landbrh., núv. hv. 2. þm. Vestf., til þess að byggja sér eyðijörð, sem liggur í Vatnsfirði á Barðaströnd, hafði lengi verið í eyði, en legið undir Brjánslæk, verið hjáleiga prestssetursins. Hann fékk hann til þess að byggja sér þessa jörð með erfðaábúð einmitt með þessum sömu forsendum og hér er sagt, að hann ætli að gera á þessari jörð stórkostlegar umbætur. Einu umbæturnar, sem hann gerði á jörðinni, voru þær, að hann lét flytja þangað íbúðarhús á vörubifreið, sem að vísu var ekki stærra en svo, að ef átti að borða í húsinu, varð að elda matinn úti og láta hann inn um gluggann, en ætti eð elda hann inni, varð að flytja hann út til gestanna, sem áttu að neyta hans. Þetta voru einu framkvæmdirnar, sem hann gerði á jörðinni. En hann bjó betur um hag sinn, þegar hann fluttist burt. Þá þurfti Barðstrendingafélagið að fá hluta úr þessari jörð, vegna þess að þeir hafa byggt þar veitingaskála, því að þessi jörð liggur að Pennu, en þaðan er vegurinn upp á Dynjandisheiði til Vestfjarða, og þá voru það mestu erfiðleikarnir fyrir þeim framkvæmdum að fá samkomulag við þann mann, sem réð og ræður enn yfir jörðinni, og hann var engan veginn fús til þess að gefa það eftir, að látin væri nægileg landsspilda undir slíka þjónustu. Það endaði þó með því, að þeir fengu nokkurn hluta af því landi, sem þeir þurftu á að halda, en engan veginn nægilega stórt, en með því skilyrði, að greiða skyldi til hans, sem hefur erfðaábúð á jörðinni, ákveðna upphæð af umsetningu, sem seld er í skálanum, um aldur og ævi.

Ef sami hugsunarháttur liggur á bak við þessi jarðakaup í Suður-Þingeyjarsýslu, þá held ég, að hv. landbn. ætti að athuga, hvort það sé sú stefna, sem ætti að taka upp í jarðasölumálum ríkisins.

Mér er náttúrulega ekki kunnugt um, hvaða fyrirhugaðar húsabætur kaupandi ætlar að gera á jörðinni, en e.t.v. er hann þegar búinn að flytja þetta ágæta íbúðarhús og ætlar að reisa það aftur upp á þessari nýju jörð, sem hann er að óska eftir að fá yfirráð yfir.

Mér þótti rétt að láta þessar upplýsingar koma fram, því að þær stinga nokkuð í stúf við þá grg., sem hér er gefin, og þann hugsunarhátt, sem ég hygg að liggi á bak við þessi jarðarkaup.