04.03.1963
Efri deild: 51. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í C-deild Alþingistíðinda. (2569)

146. mál, bústofnslánasjóður

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Orð hv. 6. þm. Norðurl. e. gefa mér ekki tilefni til margra aths. Hann tók þessu máli í sjálfu sér tiltölulega vinsamlega og viðurkenndi þá þörf, sem er fyrir lán í því skyni, sem þetta frv gerir ráð fyrir, og hafði, að mér virtist, fullan skilning, eins og vænta mátti, á vandræðum þess fólks, sem hér er sérstaklega haft í huga. Hins vegar benti hann á, að það væru fleiri atriði. sem kæmu til greina í þessu sambandi, heldur en aðeins vöntun á fjármagni, og benti í því sambandi sérstaklega á þau vandkvæði, sem væru í sambandi við veðsetningar, þegar lána ætti út á bústofn eða vélar.

Það er að sjálfsögðu rétt, að það geta verið ýmis vandkvæði í sambandi við tryggingar, þegar um slík lán sem þessi er að tefla. Bústofn og vélar þykja að sjálfsögðu almennt ótryggari sem veð heldur en t.d. fasteignir. En þar kemur á móti, að samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir tiltölulega skömmum lánstíma. Enn fremur er gert ráð fyrir, að það geti komið til greina ýmsar fleiri tryggingar en einmitt veð í vélum og bústofni. T.d. er bent á hreppsábyrgð, og er rétt að benda á það einmitt í sambandi við þá leið, sem hann var að tala um að hugsanlegt kynni að vera að sveitirnar beittu sér fyrir í þessu efni og stofnuðu einhvers konar bústofnslánadeildir, sem kæmu fram út á við gagnvart lánastofnun sem ein heild. Enn fremur er hér bent á sjálfsskuldarábyrgð tveggja eða fleiri aðila, og yfirleitt eru sjóðsstjórninni samkv. þessu frv. gefnar frjálsar hendur til að meta það, hverja tryggingu skuli taka gilda. Ég held, að þó að það sé rétt, að ýmis vandkvæði séu í sambandi við þetta, þá séu þau ekki svo mikil, að þau séu óyfirstíganleg. Það er nú svo með það atriði eins og önnur, sem snerta margs konar formsatriði, að það er venjulega hægt að finna einhverjar leiðir í þeim efnum, ef menn eru sammála um þau efnislegu atriði. Og vissulega er það eðlilegt bankamannssjónarmið að huga að tryggingunum og athuga, að þær séu í lagi. En einhvern tíma held ég, að ég hafi heyrt sögu af bankastjóra, sem lét það uppi, að hann teldi, að bezt mundi bara að lána út á andlitið á mönnum, og sannleikurinn er sá, að tryggingar, jafnvel þótt í fasteignum séu, geta brugðizt. Ég held, að þetta þurfi ekki að standa í vegi, ef menn eru á annað borð inn á nauðsyninni að veita þessi lán. En um það atriði held ég, að enginn þurfi að vera í vafa. Hitt er svo aftur á móti rétt, að það vantar náttúrlega fjármagn líka til ýmissa annarra þarfa, og það gæti auðvitað verið matsatriði, hvaða þarfir á að meta mest og hvað á að ganga á undan.

Það er að sjálfsögðu rétt, sem hv. 6. þm. Norðurl. e. benti á, það eru mikil vandkvæði, hvað veðdeildin hefur verið fjárvana, og af því hafa hlotizt mikil vandræði í sambandi við jarðakaup og jarðasölu. Og úr því þarf vitaskuld að bæta. Við framsóknarmenn höfum bent á úrræði í því efni einmitt í sambandi við annað mál, úrræði, sem vel gæti komið til greina og gæti eitthvað bætt úr þessum vanda, sem þar er við að etja. En ég held nú t.d., að því er frumbýlinga snertir, þá sé jarðaspursmálið þó, eins og nú hagar til, ekki það erfiðasta, vegna þess að það er hreint ekki svo lítið framboð af leigujörðum. Það er hægt að fá jarðir leigðar. Að vísu eru þær jarðir kannske oft ekki sem ákjósanlegastar. Í öðru lagi er ástand þeirra jarða oft þannig, að það þarf að gera þeim mjög mikið til góða. En það er þó víða svo, að t.d. fyrir ung hjón, sem hygðu á búskap í sveit, þá er hægt að fá jarðnæði, en þá standa þau uppi ráðalaus, vegna þess að þau hafa ekkert fé til þess að kaupa fyrir bústofn og vélar. Og ég held þó, að það sé eitt frumatriði í sambandi við öll þessi mál, það er að hafa nægilegan bústofn, það er bústofninn, sem byggja á á. Hitt er auðvitað rétt og mikið vandamál, sem hv. ræðumaður benti einnig á, að það geta verið takmörk fyrir því, undir hve háum lánum búskapur getur risið. En ég held, að í því sambandi komi sérstaklega til greina annað atriði, sem menn verða að gera sér alveg ljóst og gera upp við sig, og það er það, að það er takmarkað, hve háa vaxtabyrði lán til landbúnaðar geta borið. Menn verða að gera sér grein fyrir því, að þeir, sem við landbúnað fást, þurfa að eiga kost á lánum með hagstæðum kjörum — vaxtalágum lánum. Það er staðreynd, að landbúnaður hér og ég hygg viðast hvar annars staðar eða alls staðar annars staðar er þannig settur, að hann getur ekki risið undir háum vöxtum, hann ber ekki háa vaxtabyrði. Þetta er hrein staðreynd, sem verður að horfast í augu við. Jafnframt því sem þarf að sjá landbúnaðinum fyrir nægilegum fjárfestingarlánum, þá verður að gera sér grein fyrir þessu, að hann getur ekki staðið undir vaxtaháum lánum.

Það voru eiginlega ekki sérstakar aths. við frv. sem slíkt, sem komu fram hjá hv. 6. þm. Norðurl. e., svo að ég þarf ekki að ræða það frekar. Hv. þm. vildi ekki, sem vonlegt var, fallast á mitt sjónarmið um það, að skattgjaldið á bændur væri í raun og veru á lagt til þess að standa undir gengistöpum á sjóðunum. Ég skil nú hans sjónarmið að því leyti, að hann vill að sjálfsögðu ógjarnan viðurkenna það, og ég held því nú ekki fram og hélt því ekki fram í minni frumræðu, að allar fjárhæðirnar, sem renna til stofnlánadeildarinnar fari í gengistöpin. Því hélt ég ekki fram, heldur nefndi ég aðeins það skattgjald, sem á bændur er lagt. Hv. þm. nefndi engar tölur í þessu sambandi, og mér eru nú ekki alveg tiltækar tölur að þessu leyti, en ég hygg, að hann geti upplýst það, hv. þm., hve miklu t.d. skattgjaldið á bændur til stofnlánadeildar landbúnaðarins nemur á ári hverju eða hve hárri fjárhæð er áætlað að það nemi, og svo aftur á hinn bóginn, hve hárri fjárhæð á ári gengistöp bankans nema vegna þessara sjóða, og þá væri fróðlegt að vita, hve þar er mikill munur á. Ætli það láti ekki nokkuð nærri, að þetta jafni sig, eins og nú horfir? Hitt er svo auðvitað annað mál, að ef breytingar verða bæði á verðlagningu og framleiðslu, þá liggur það að sjálfsögðu ljóst fyrir, að tölurnar breytast og sú upphæð breytist, sem til stofnlánadeildarinnar rennur. En eins og þetta er nú, er mér nær að halda og mun halda mig við það, þangað til annað upplýsist, að þarna muni ekki miklu á.

Mér láðist svo víst, herra forseti, að nefna nefnd í minni fyrri frumræðu. Ég óska að sjálfsögðu eftir því, að þetta frv. gangi til n., og það er þá víst fjhn.