21.02.1963
Efri deild: 47. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í C-deild Alþingistíðinda. (2575)

154. mál, dragnótaveiði í fiskveiðilandhelgi

Flm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Á þskj. 282 hef ég leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á n. nr. 40 3. júní 1960, um takmarkað leyfi til dragnótaveiða í fiskveiðilandhelgi Íslands undir vísindalegu eftirliti. Frv. þetta kveður á um það, að dragnótaveiðar skuli eigi leyfðar í Faxaflóa.

Ætla ég, að allir geti mér verið sammála um það, að bezti sigur, sem oss Íslendingum hefur í skaut fallið á sviði atvinnumála, sé án efa alþjóðaviðurkenning á rétti vorum til 12 mílna fiskveiðilandhelginnar við strendur landsins. Með þessum mikilsverða áfanga hafa Íslendingar öðlazt til eigin afnota öll yfirráð yfir auðugum fiskimiðum á stórum hafsvæðum umhverfis landið. Af þessu leiðir, að Íslendingar einir hafa í sinni hendi fullan og óskoraðan rétt til þess að gera hverjar þær ráðstafanir, sem þurfa þykir, til þess að vernda allar uppeldisstöðvar ungfisksins í flóum og fjörðum fyrir þeirri rányrkju, sem stafar af hvers konar botnvörpu- og dragnótaveiðum. Eins og nú er komið um tækni í fiskveiðunum, bæði hvað snertir veiðarfæri og ýmiss konar fiskleitartæki, sem auðvelda veiðarnar að miklum mun frá því, sem áður var, er vissulega full þörf á því að vera vel á varðbergi og vernda uppeldisstöðvar ungfisksins á vaxtarskeiði hans. Um það verður ekki deilt, að Faxaflói er ein allra þýðingarmesta fiskuppeldisstöðin, sem um er að ræða. Kemur þar til m.a., að Faxaflóinn liggur næst hinum miklu hrygningarstöðvum við suðurströnd landsins og þangað er ungviðinu næst að leita skjóls og verndar, og er það löngu vitað, að í Faxaflóa eru frá náttúrunnar hendi öll hin ákjósanlegustu skilyrði til verndar og viðgangs fyrir uppfæðinginn. Á engu hafsvæði hér við land hafa verið gerðar jafnýtarlegar vísindarannsóknir á þessu sviði og hér í Faxaflóa. Meðan við bjuggum við landhelgi, sem aðeins náði 3 mílur frá ströndinni, voru af íslenzkum og erlendum fiskifræðingum gerðar slíkar athuganir. Niðurstöður þeirra rannsókna vöktu á sínum tíma alþjóðaathygli. Kom það skýrt í ljós, hve geysilegur munur var á vaxtarskilyrðum ungfisksins fyrir utan og innan landhelgislínurnar. Fyrir innan var þá mikið magn af uppfæðingi, sem sýnilega lifði við hin beztu lífs- og þroskaskilyrði, en utan línunnar sýndu rannsóknir þessar, að þar gegndi allt öðru máli, þar var ördeyða og uppfæðingurinn hafði hlotið þau örlög að verða rányrkjunni að bráð.

Þessu næst kom til sögunnar útfærsla landhelginnar í 4 sjómílur, en auk þess voru þá allir flóar og firðir friðaðir fyrir öllum botnvörpu- og dragnótaveiðum. Var þess þá ekki langt að biða, að fiskmagnið jókst að miklum mun, en samfara kom það til, að veiðarnar nýttust á hinn hagstæðasta hátt. Var þá mest um línuveiði, en auk þess bæði handfæra- og netaveiðar. Ég vil þó í þessu sambandi taka það sérstaklega fram varðandi þorskanetaveiðarnar, að ég tel, að sú hóflausa veiði, sem á undanförnum árum hefur verið stunduð með hinum fisknu nælonnetum á aðalhrygningarstöðvunum hér við suðurströndina, geti fyrr en varir haft hinar alvarlegustu afleiðingar. Í því sambandi vil ég skírskota til ályktunar, sem Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi í Vestmannaeyjum gerði á sínum tíma og send var hinu háa sjútvmrn., en þar var bent á nauðsyn þess að friða um vissan tíma árs ákveðin hrygningarsvæði á tilgreindum stöðum. Sú viðleitni í þessa átt, sem nú er hafin undir forustu hins háa sjútvmrn. og Fiskifélags Íslands og fyrst kemur til framkvæmda á yfirstandandi vertið, er vissulega spor í rétta átt, þótt margir telji, að of skammt sé gengið.

Fyrst eftir að 4 mílna og Síðan 12 mílna friðunin kom til framkvæmda, var hér við flóann og víðar á landinu smíðaður fjöldi smærri vélbáta, sem stundaðar voru á línu- og handfæraveiðar. Jók þessi handfæraútgerð að miklum mun það aflamagn, sem á land barst. Sama máli gegndi um aðra þá staði á landinu, sem þessar friðunarráðstafanir náðu þá einnig til. Við þetta bættist sú staðreynd, að afli sá, sem hér var um að ræða, var úrvalshráefni til hvers konar vinnslu í fiskiðjuverunum, og fór aflamagnið stöðugt vaxandi. Þessi hagstæða þróun fiskveiðanna hér í Faxaflóa stóð því miður skamma stund. Hér urðu alger þáttaskil, þegar það óheillaspor var stigið, að leyfðar voru dragnótaveiðar að nýju í flóanum. Það tók líka skamma stund, eftir að þær veiðar voru leyfðar, að draga tók úr afla bátanna, sem línu- og handfæraveiðar stunduðu, og þar kom að lokum, að útgerð þeirra flestra var algerlega lögð niður.

Þeir sjómenn, sem þessar veiðar stunduðu, áttu ekki annars úrkosta en að leita til annarra atvinnuvega og setja báta sína upp, en þar biða þeirra þau örlög, ef engin breyting verður hér á gerð, að hið mikla verðmæti, sem í þeim stendur, rýrnar og verður að engu, eigendum og allri þjóðinni til stórtjóns.

Þegar dragnótaveiði var hafin að nýju, gaf hún góða raun í byrjun og þá sérstaklega á meðan hún naut ávaxtanna af undanfarandi friðun. En brátt hefur dregið úr þeim veiðum einnig og því meira sem lengur hefur liðið. Það má segja, að rökin fyrir dragnótaveiðunum hafi verið þau, að mikil mergð af flatfiski væri fyrir hendi á grunnmiðum, sem ekki væri unnt að ná til með öðru veiðarfæri. Reynslan hér í Faxaflóa mun hins vegar vera sú, að þegar frá er dregið byrjunartímabilið, þá er bolfiskur, þorskur og ýsa, aðaluppistaðan í afla dragnótabátanna. Og nú er svo komið hér við Faxaflóa,að það er að verða fiskilaust á flestum tímum árs, í stað þeirrar fiskisældar, sem áður átti sér stað, meðan algert bann var lagt á þessa rányrkju. Hættan af dragnótaveiðunum í jafnþýðingarmikilli uppeldisstöð og Faxaflói er felst ekki fyrst og fremst í veiði nytjafiska, heldur miklu fremur í hinu gegndarlausa ungviðisdrápi, sem þessum veiðum fylgir. Er nú svo komið, að hinir stærri fiskibátar, sem veiðar stunda með línu, verða vart fisks varir, þó að gífurleg línulengd sé notuð, nema þá helzt með því að róa langt á haf út, og dugir þá sólarhringurinn hvergi til róðursins. Í þessu sambandi og til samanburðar má benda á það, að línulengdin, sem nú er notuð, er yfirleitt um 45 bjóð hjá hverjum bát. Fyrir nokkrum árum, ekki alllöngum tíma, voru það aðeins um 25 bjóð, sem hver bátur reri með, og voru þá 5 lóðir í hverju bjóði. Sjá allir af þessu, hversu gífurlega miklu meira veiðarfæramagn er nú notað til fiskveiðanna en áður var. En þrátt fyrir það er sá árangur, sem næst, eins og raun ber vitni.

Ég tel, að það tjón, sem landsmönnum er búið af þessum veiðum í Faxaflóa, verði ekki með tölum talið. Þetta tjón tekur einnig til fleiri en þeirra, sem við flóann búa eða þar í nánd. Fiskurinn, sem fær frið og næði til að vaxa upp í Faxaflóa, dreifist, er hann stækkar, um öll fiskimið við strendur landsins. Hér þarf því þegar að spyrna við fótum og bægja frá þeirri augljósu hættu, sem við blasir. En það verður ekki gert með öðrum hætti en þeim að banna með öllu dragnóta- og botnvörpuveiðar í Faxaflóa. Slíkar ráðstafanir þarf vafalaust að gera viðar, en hér í Faxaflóa er sökum legu hans og staðhátta allra mest í húfi. Þess vegna má eigi lengur dragast, að hér verði bót á ráðin á þann hátt, sem lagt er til í frv. þessu.

Herra forseti. Ég vil svo að lokum leyfa mér að óska, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.