16.04.1963
Efri deild: 73. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í C-deild Alþingistíðinda. (2579)

154. mál, dragnótaveiði í fiskveiðilandhelgi

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 447, mælir meiri hl. sjútvn. með samþykkt þessa frv.

Áður en n. tók endanlega afstöðu til málsins, hafði hún sent frv. til umsagnar og fengið svör frá stjórn Fiskifélags Íslands og atvinnudeild háskólans, fiskideildinni. Stjórn Fiskifélagsins var klofin um málið. Meiri hl. taldi ekki tímabært að banna dragnótaveiðar, en minni hl. stjórnarinnar, þ.e. Pétur Ottesen fyrrv. alþm., mælir eindregið með samþykkt frv. Í umsögn fiskideildar háskólans eru ýmsar athyglisverðar upplýsingar. Segir þar m.a. í sambandi við tilteknar rannsóknir, sem áttu sér stað í Faxaflóa, að við tilraunaveiði á ýsu í Garðsjó 1959 var aflinn 800 fiskar á togtíma, en um sama leyti ársins 1962 reyndist aflinn hins vegar aðeins 146 fiskar á togtíma á þessu sama veiðisvæði. Síðan segja fiskifræðingarnir: „Ekki er vafamál, að dragnótin á hér einhvern þátt i, hve mikinn, vitum við ekki enn þá, né hvort það á nokkurn hátt sé hættulegt stofninum.“ Þá kemur fram í umsögn fiskifræðinganna um málið, að þeir hafa farið árlega aðeins 4 veiðiferðir í Faxaflóa til þess að fylgjast með og gera sér grein fyrir þeim áhrifum, sem dragnótaveiðarnar hafa á fiskstofnana og uppfæðinginn í flóanum.

Þegar dragnótaveiðin var leyfð með l. frá 1960, var það skýrt tekið fram af þeim alþm., sem málinu voru þá fylgjandi, að hér mundi ekki verða um neina hættu að ræða, vegna þess að veiðarnar yrðu aðeins leyfðar undir ströngu vísindalegu eftirliti og þá í tæka tíð, ef í ljós kæmi, að hér væri hætta á ferðum, hægt að stöðva veiðarnar, áður en varanlegt tjón hlytist af. Án þess að gera á nokkurn hátt litið úr þeirri fræðilegu niðurstöðu, sem fiskifræðingarnir hafa komizt að, er mér óhætt að fullyrða, að flestir hafi búizt við, að eftirlitið yrði að miklum mun víðtækara en raun ber vitni og fram kemur í umsögn þeirra um málið, þar sem aðeins eru farnar fjórar veiðiferðir í Faxaflóa árlega í tilraunaskyni. En hvað margar veiðiferðir á sama hátt eru farnar á önnur veiðisvæði, þar sem dragnótaveiðar eru stundaðar, liggur enn ekkert fyrir um. Með tilliti til hinna fáu ferða, sem fiskifræðingarnir hafa átt út í flóa, kann það að vera rétt, að með hliðsjón af þeim geti þeir ekki sagt um, að fyrir liggi upplýsingar eða niðurstöður fiskifræðilegs eðlis, er bendi til þess, að um ofveiði sé að ræða vegna dragnótaveiðanna.

En úr því að það liggur fyrir, að eftirlitið hefur ekki náð lengra eða verið viðtækara en upplýst er og sú reynsluveiði, sem um getur um dragnótaveiði í Garðsjó 1959 og 1962, nægir ekki til þess, að af því verði dregnar endanlegar ályktanir, þá finnst mér, að einnig mætti líta á reynslu fiskimannanna sjálfra, sem um áraraðir hafa stundað hér sjósókn og fiskveiðar og þekkja því af eigin raun þá þróun, sem hér hefur átt sér stað. Frá stjórn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands barst n. ályktun, sem þeir aðilar höfðu gert varðandi dragnótaveiðar í Faxaflóa. Bréf þeirra er dagsett 15. marz s.l., en þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands hefur verið andvíg þessum veiðum og skorar á Alþingi að samþykkja ofangreint frv. og stöðva þar með hina hættulegu rányrkju, sem rekin er í Faxaflóa með dragnótaveiðum.“

Í grg. fyrir þessari ályktun sinni segir stjórn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands: „Aðalrökin fyrir því, að dragnótaveiði skyldi leyfð í Faxaflóa, voru þau, að vegna friðunar flóans væri orðið þar svo mikið af flatfiski, lúðu og kola, að óverjandi væri að hagnýta sér ekki betur þau sjávarföng en gert var með smátækum veiðarfærum þeirra smábáta, sem stunduðu þessi mið til mikils gagns fyrir fjölda manna, þar til dragnótin var leyfð. Dragnótin var leyfð og skyldi rekin undir ströngu eftirliti hinnar vísindalegu smásjár, sem óþarft er að fjölyrða um. Það kom brátt í ljós, að skakkar reyndust áætlanir og fullyrðingarnar um flatfiskmagnið, því að hann reyndist minnstur hluti aflans og hvergi nærri sá, sem búizt var við og leyfisveitingin mun hafa verið byggð á. Engu að síður og þrátt fyrir þessa staðreynd hefur veiðunum verið haldið áfram og þær byggðar á öðrum fisktegundum, bolfiskinum, sem ekki þarf dragnót til að veiða.

Almennt ber mönnum saman um, að dragnót sé eitt hið róttækasta veiðarfæri. Dýrkeypt reynsla landsmanna hnígur öll í þá átt, að svo sé. Þeir, sem við sjávarsíðuna búa og hafa haft afrakstur af nærliggjandi grunnmiðum, eru sammála um, að ekki þýði að stunda veiðar með öðrum veiðarfærum, þar sem dragnótin kemur nærri, hún sópi svo rækilega, að brátt fáist þar ekki bein úr sjó.

Þessi saga hefur nú gerzt í Faxaflóa. Við því þýðir ekki að skella skollaeyrum. Það er viðurkennt, að Faxaflói sé mikil og góð uppeldisstöð fyrir ungfisk, og með það sem aðalorsök fengum við hann friðaðan fyrir ágengni annarra þjóða. Með það í huga ber oss ekki hvað sízt að vernda hann fyrir hvers konar rányrkju. Og þegar nú er sýnt, hvert stefnir með dragnótina í þessum efnum, vill Farmanna- og fiskimannasamband Íslands stuðla að því, að veiðar með dragnót séu bannaðar í Faxaflóa, svo að ungviðið fái þar næði til uppvaxtar, eins og friðun flóans var í upphafi byggð á.“

Þetta var grg., sem reyndir menn í þessum efnum, þó að ekki séu fiskifræðingar, gerðu sem rökstuðning fyrir ályktun sinni.

Það er sammála álit meiri hl. sjútvn., að það beri að samþykkja það frv., sem hér er um að ræða, og koma þar með í veg fyrir, að áfram verði haldið með þá skefjalausu rányrkju, sem kemur í kjölfar dragnótaveiðanna.