16.04.1963
Efri deild: 73. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í C-deild Alþingistíðinda. (2581)

154. mál, dragnótaveiði í fiskveiðilandhelgi

Fram. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Aðalrökin fyrir því, að dragnótaveiðarnar voru leyfðar á sínum tíma, voru þær staðhæfingar dragnótarmanna, að geysilegt kola- og flatfisksmagn væri hér um að ræða í Faxaflóa og á öðrum grunnmiðum við strendur landsins, og það væri á engan hátt afsakanlegt, að þetta mikla flatfisksmagn væri ekki nýtt betur en væri unnt að gera með þeim veiðarfærum, sem notuð væru. Það var líka fullyrt, eins og ég kom reyndar að áðan, að það mundi verða af hálfu sérfræðinganna, fiskifræðinganna, fylgzt með þessum málum. Það átti að vera stöðugt eftirlit. En samkv. þeim upplýsingum, sem liggja fyrir í dag í þeim efnum, er þetta stöðuga eftirlit þannig, að það eru farnar fjórar veiðiferðir á ári út í flóann, sem hér er næstur rannsóknarstöðvum fiskifræðinganna, til þess að fylgjast með þessu þýðingarmikla máli. Það segir sig alveg sjálft, að slíkar rannsóknir geta ekki gefið raunhæfan árangur. Þær geta ekki gert það, því að það er, eins og fram kemur í skýrslu fiskifræðinganna sjálfra, um ýmsar sveiflur og fiskigöngur að ræða, og með því að fara einungis fjórum sinnum út á ári geta ýmsar fiskigöngur farið fram hjá þeim, og þess vegna þyrfti að auka eftirlitið verulega, til þess að það gæti eitthvað raunhæft komið út úr málinu. En ég held, að það séu allir sammála um, að ef ætti að fylgjast ýtarlega með þessum málum, þá þyrfti það að gerast á annan hátt en að fara einungis fjórar reynsluferðir á ári til þess að taka prufur og komast að þeirri niðurstöðu, sem þróunin bendir til hverju sinni. En það er fleira, sem fram kemur í þessum skýrslum fiskifræðinganna, sem bendir nokkuð til, að hér sé öðruvísi en upphaflega var gert ráð fyrir varðandi það, um hve geysilega mikið flatfisksmagn væri hér að ræða. Það liggja fyrir aflaskýrslur dragnótabátanna fyrir árið 1961. Þar kemur fram, að heildarafli bátanna hefur reynzt 7717 tonn samtals. Þetta er að vísu nokkuð mikið aflamagn, en uppistaðan í því aflamagni er hins vegar engan veginn það, sem búizt var við, koli og flatfiskur. Þessi 7717 tonn skiptast þannig, að það eru 3800 tonn þorskur og það eru 2200 tonn ýsa, 1067 tonn ýmsar aðrar fisktegundir, svo sem steinbítur, langa og annað þess háttar, en aðeins 650 tonn eru skarkoli og flatfiskur, — aðeins 650 tonn, samkv. þeim upplýsingum, sem fyrir liggja. Þetta finnst mér tala allt öðru máli en haldið var fram af þeim, sem fylgdu fast eftir dragnótarlögunum, að dragnótaveiðar skyldu leyfðar í landhelgi einmitt á þeim forsendum, að hér væri um svo óvenjumikið aflamagn að ræða á skarkola og flatfiski. En svo kemur bara í ljós, þegar veiðarnar eru hafnar, að það er aðeins lítið brot af heildarveiðinni, sem byggist á þessum fiskstofni.

Það þarf ekki dragnót til þess að veiða þorsk eða ýsu, það vitum við. En við vitum, að dragnótin er slíkt skemmdarverkfæri í sambandi við uppeldisstöðvarnar, að það er hæpið, að það sé afsakanlegt að fórna því á slíkum uppeldisstöðvum eins og Faxaflóinn er til þess að ná aðeins í 650 tonn af flatfiski og skarkola.

Ég mun ekki orðlengja þetta frekar. Það er ekkert nýtt, sem fram hefur komið í þessu máli, frá því að það var hér til 1. umr. Ég get þó nefnt t.d., sem ég hef ekki gert áður, að hingað til Alþingis barst einróma álit Útvegsmannafélags Akraness og áskorun um að samþykkja þetta frv., og mér er kunnugt um, að það eru ýmsir fleiri, sem líta sömu augum á þessi mál.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um málið og vænti þess, að þm. verði sammála um að fella hina rökstuddu dagskrá og samþykkja frv.

Frsm. minni hl. (Sigurvin Einarsson): Herra forseti. Ég get verið stuttorður að þessu sinni. Hv. frsm. meiri hl. n. gerði það sérstaklega að umtalsefni sínu núna, að rannsóknarferðirnar, sem farnar hefðu verið, hefðu ekki verið nema fjórar og væru algerlega ófullnægjandi og þess vegna ekkert á þessu vísindalega eftirliti að byggja. Um það skal ég ekkert dæma, hvað er rétt í þessu. En mér finnst, að þetta séu ásakanir í garð hæstv. sjútvmrh., og get ég af skiljanlegum ástæðum ekki svarað fyrir það. En hafi svo verið, hafi þetta álit manna verið svo undanfarin ár, síðan lögin voru sett, að sjálft eftirlitið, þetta vísindalega eftirlit, sem lögin byggjast á, sé í raun og veru alveg gagnslaust og ekkert að marka það, af hverju hefjast þá þessir menn ekki handa um að fá friðaðan Faxaflóa með þeirri leið, sem lögin sjálf segja fyrir um, án þess að það þurfi nokkra lagabreytingu til þess? Þessi leið er opin fyrir þá hvenær sem er, og geta þá útvegsmenn og sjómenn sagt hæstv. ríkisstj. fyrir verkum, að hætta að veita leyfi til dragnótaveiða í Faxaflóa. Það er ekkert annað, sem þarf til þess.

En það vita allir, af hverju þetta hefur ekki verið gert. Ágreiningurinn er svona mikill hjá þessum aðilum, að það er ekki hægt að ná neinu samkomulagi um slíkar óskir til rn., og það er einmitt það, sem ég lagði áherzlu á í minni ræðu, að við, sem skipuðum minni hl. n., viljum í þessu efni fara eftir þeirri vísindalegu þekkingu, sem við höfum á að skipa, fyrst ekki er hægt að ná samkomulagi hlutaðeigandi aðila um það að friða Faxaflóa með þeim hætti, sem l. sjálf gera ráð fyrir.

Hv. þm. ræddi um það, að mikið væri veitt af þorski og ýsu í staðinn fyrir kola og annan flatfisk í dragnót. Þetta er alveg rétt hjá honum. Það er svona. En það er ekki merkilegt út af fyrir sig, vegna þess að ég held, að það sé útilokað að veiða í dragnót án þess að fá eitthvað af þeim fiski með. Það getur enginn „sorterað“ það niðri á hafsbotni, að ekki komi þorskur og ýsa eitthvað með, og það vissu allir aðilar, áður en lögin voru sett 1960.

Ég skal ekki dæma um þessa fullyrðingu hv. þm., að vísindalega eftirlitið sé of lítils virði eða kannske einskis virði. Sé svo, finnst mér, að hann og aðrir áhugamenn í þessu máli ættu að beita sér fyrir því, að rannsóknarferðirnar verði fleiri og eftirlitið raunhæfara. En ég get ekki lagt neinn dóm á það, hvort þessi fullyrðing hans er rétt eða ekki, að það sé lítið að marka þetta eftirlit.