17.04.1963
Efri deild: 74. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í C-deild Alþingistíðinda. (2584)

154. mál, dragnótaveiði í fiskveiðilandhelgi

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég á brtt. á þskj. 526. Ég hafði ekki tækifæri til að hlusta á umr. hér í gær, en geri ráð fyrir, að svipuð rök hafi þar komið fram og eru annars vegar í nál. minni hl. og meiri hl. og svo í grg. fyrir till., sem ég er í höfuðatriðum samþykkur. Það kannske má að vísu segja, að það sé þýðingarlítið að koma fram með brtt. við þetta mál. En ég hygg frá mínu sjónarmiði, að fáum málum hafi verið smeygt jafnlævíslega gegnum þingið eins og l. nr. 40 frá 1960, án þess að ég ætli áð fara að nota tækifærið, sem ég fæ hér til að tala, til þess að fara að vekja almennar umr. um það mál. Það er alveg dæmalaust í sjálfu sér nafnið um takmarkað leyfi til dragnótaveiða í fiskveiðilandhelgi Íslands undir vísindalegu eftirliti. Það vantar ekki skrautyrðin. En það sýnir sig, að þessu vísindalega eftirliti hefur verið erfitt að koma við, og því hefur ekki verið komið fram til þessa og litlar líkur til, að svo verði. Til þess að þessi veiði sé leyfileg, þarf samkv. l. frá 1960 Fiskifélag Íslands að samþykkja það, fiskideild atvinnudeildar háskólans á að leita álitsgerðar hjá sveitarstjórn, sjómönnum, útgerðarmönnum, verkamönnum, og ef einhverjir þeirra eru mótfallnir því, þá á að friða svæðin, sem er til athugunar hvort eigi að leyfa dragnótaveiðar á. Það sýnist þess vegna vera sæmilega um hnútana búið, og er ekki hægt að skilja lögin öðruvísi en svo, að ef sveitarstjórn, sjómenn og útgerðarmenn eða verkamenn á staðnum — ef einhver þeirra er á móti því að leyfa dragnótaveiðar á tilteknu svæði, sem er undir athugun, hvort leyft skuli, þá beri að neita um dragnótaveiðar á því svæði. En eftir að búið er að koma dragnótaveiðinni á á vissum svæðum, þá er eins og maður þekkir, — það er bara mannlegur breyskleiki, — að það er erfiðara að koma mótmælum við nema þá takmörkuðum. Menn vilja skiptast í hagsmunahópa um málin, og svo er á því svæði, sem ég óska eftir að verði friðað. Vitanlega eru dragnótabátarnir með því að fá að veiða á svæðinu, en smábátaeigendurnir, sem verða fyrir skakkaföllum af dragnótinni, eins og við þekkjum, eru undantekningarlítið eða undantekningarlaust á móti dragnótaveiðinni. Og ég hef þá afstöðu vegna friðunar á landhelginni yfirleitt, að ég var á móti þessum lögum, sem ég sá að var verið að smeygja inn á lævísan hátt og hafa verið að mínu áliti líka og verða, meðan þau eru í gildi, misnotuð.

Það má vitanlega segja sem svo við mig, og mér er það fyllilega ljóst. Samkv. þessum rökum, sem þú færir hér fram fyrir þinni till., eða máli því, sem þú rekur hér í sambandi við þína till., er auðvelt, ef sveitarstjórn, sjómenn, útgerðarmenn eða verkamenn mótmæla, að fá banni komið í gegn. En það er, eins og ég sagði, auðveldara sagt en gert, og þess vegna mælist ég til þess, að þessi brtt. mín verði samþykkt. Það er að vísu ekki um eins dýrmætt svæði að ræða og Faxaflóa, sem ég tel sjálfsagt að friða, en vegna þess að svæðið er minna, þá gætir þess jafnframt meira, að þegar fiskað er með dragnót á þessu svæði, þá hverfur aflinn, og þeir, sem stunda veiðar á smábátunum, verða fyrir skakkaföllum, sem þeim gengur erfiðlega að þola. Þeir hafa margfært rök fyrir því, að þegar fiskur gengur á fjörðinn og eftir að dragnótin hefur verið þar um tíma, þá hverfur fiskurinn, enda er sú reynslan hvar sem er, þar sem dragnótin fer um. Ég vil þess vegna mælast til þess við hv. þd., að hún sjái sér fært að samþykkja þessa brtt.