19.04.1963
Neðri deild: 77. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í C-deild Alþingistíðinda. (2589)

154. mál, dragnótaveiði í fiskveiðilandhelgi

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Þó að ég geri varla ráð fyrir, að frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 674, verði að lögum á þessu þingi, þykir mér þ6 rétt að fara um það nokkrum orðum, áður en því verður vísað til þeirrar n., sem það sjálfsagt mun fá athugun í.

Ég er sammála flm. eða því, sem fram kemur í grg. frv. frá honum, um það, að Íslendingum beri að sjálfsögðu að gæta þess mjög, að hrygningarsvæði og uppeldisstöðvar nytjafisks okkar séu ekki eyðilögð með ofveiði eða rányrkju. Í þessu tilfelli kemur ekkert fram um það í áliti Fiskifélagsins eða fiskideildarinnar, að því svæði, sem hér er um að ræða, Faxaflóa, stafi bein hætta enn þá af dragnótaveiði, og tel ég því ekki tímabært, að þær veiðar séu þar frekar en annars staðar bannaðar, meðan ekkert liggur fyrir um það, að þær hafi valdið þar eða komi til með að valda þar tjóni. Ef það álit fiskifræðinga lægi fyrir, að svo væri, mundi afstaða mín til þessa máls að sjálfsögðu vera önnur, þar sem ég hef áður vakið máls á því hér á hv. Alþingi og flutt um það till., að mjög þurfi að gæta þess að vernda fiskstofnana og uppeldissvæðin og uppeldisstöðvar okkar nytjafiska.

Í meirihlutaáliti hv. sjútvn. Ed. á þskj. 447 kemur fram og er reyndar aðalrökstuðningur fyrir þessu máli, að ýsuveiðar hafi mjög færzt saman og ýsuafli mjög dregizt saman á vissum svæðum í Garðsjó hér við Reykjanes, og er það tekið fram, að þar sé miðað við afla á togtíma 1959 og aftur 1962. Ég tel þetta engin rök, því að það vita allir, sem nokkuð þekkja til þessara mála, að afli hinna einstöku fisktegunda getur verið mjög misjafn á hverjum stað, þó að um sama árstíma sé að ræða, og geta ekki verið nein rök eða úrslit um það, hvort ætti að banna eða leyfa veiðar þær, sem hér er um rætt. Það, sem ég tel miklu nær því, að menn geti gert sér grein fyrir, hvort dragnótaveiðar hafi haft áhrif á ýsustofninn og ýsuveiðarnar, er það, sem kemur fram í skýrslum Fiskifélags Íslands, sem út eru gefnar og útgerðarmönnum og almenningi er að sjálfsögðu ljóst, þeim sem þær skýrslur lesa og hafa áhuga á að fylgjast með. Samkv. þessum skýrslum var heildarafli á þessari fisktegund miðað við vetrarvertíð 1959, eða frá 1. jan. til 31. maí 1959, 10239 tonn; á vetrarvertíð 1960, sama tíma, frá 1. jan. til 31. maí, 17167 tonn, eða samtals þessi 2 ár 27406 tonn. Meðaltal af ýsuveiðum þessi tvö ár á vetrarvertið var 13700 tonn. Ef við svo aftur berum saman árin 1961 og 1962, þann tíma, sem dragnótaveiði var leyfð hér við land og stunduð víða mjög mikið, sýna skýrslur Fiskifélags Íslands, að ýsustofninn hefur síður en svo dregizt saman. Dragnótaveiðarnar virðast ekki hafa haft nein áhrif á hann, ef miðað er við það, sem fram kemur í skýrslum Fiskifélags Íslands um þessar veiðar og aflamagn á þessum sama tíma. Frá 1. jan. til 31. maí 1961 er heildarveiði þessa fisks 15836 tonn og 1962, vetrarvertíðina, er hann 14447 tonn, eða samtals þessi tvö ár, sem dragnótaveiðarnar voru stundaðar að sumri til, 30283 tonn, eða að meðaltali hvort ár 15140 tonn. Aukning á afla þessarar fisktegundar er 10,5% þau tvö ár, miðað við 1959 og 1960, eftir að dragnótaveiðar voru stundaðar árið 1961 og 1962. Ég tel, að þetta sé mjög eðlilegur mælikvarði, ef menn vilja gera sér grein fyrir, hvort þessar veiðar, sem hér um ræðir, hafi valdið tjóni eða ekki, þ.e. að miða við heildarmagnið, eins og það var, vetrarvertíðina eftir að þessar veiðar voru stundaðar og vetrarvertíðina áður en þær voru stundaðar.

Samkv. skýrslum Fiskifélags Íslands hafa veiðzt í dragnót þau 3 ár, 1960–1962, sem þær hafa verið leyfðar og stundaðar, samtals um 43795 tonn. Eftir fisktegundum í stórum dráttum skiptist þetta þannig, að flatfiskur er 11337 tonn, ýsa 14636 tonn og annar bolfiskur 17816 tonn. Skýrslur Fiskifélags Íslands eru mjög glöggar og greinargóðar yfir þetta. Þar er tiltekið hvert veiðisvæði og aflamagn hverrar fisktegundar, sem í dragnót hefur veiðzt, þannig að það er mjög hægt fyrir fiskifræðinga og þá, sem við fiskideildina starfa, að gera sér grein fyrir þeim afla, sem á land kemur, og hvaða áhrif veiðarnar kynnu að hafa. Af þessum heildarafla veiddust árið 1960 4872 tonn hér á Faxaflóasvæðinu og að heita má nákvæmlega sama aflamagn sumarið 1961.

Þegar dragnótaveiðarnar voru leyfðar með lögum frá 1960, var að sjálfsögðu mjög um þau deilt, eins og vitað er, og við, sem að því frv. stóðum, héldum því fram, að það mundi ekki aðeins mjög auka útflutningstekjur þjóðarinnar, heldur mundi það og veita mjög mikla aukna atvinnu á þeim stöðum, sem dragnótaveiðar væru stundaðar frá. Ég hef nú ekki við höndina neinar opinberar skýrslur um það, hve mikið útflutningsverðmæti sá afli, sem veiðzt hefur undanfarin 3 ár í þetta veiðarfæri, hefur gefið, en eftir því sem ég hef fengið út úr þeim könnunum, sem ég hef á þessu haft, geri ég ráð fyrir, að það sé ekki undir 400–450 millj. kr. Vinnulaun við nýtingu þessa afla í landi geri ég vart ráð fyrir að séu undir 100 millj.

Ég tel ekki, að þjóðarbúið hafi efni á því, og sé ekki nokkra ástæðu til þess að draga í land með þessar veiðar eða banna þær, hvorki á einum stað né öðrum, meðan ekki liggur fyrir um það frá okkar fiskifræðingum, sem við hljótum að treysta mikið á í þessum efnum, að þær hafi skaðleg áhrif á veiðarnar á öðrum tíma árs eða einstaka fiskstofna. Eins og ég benti á, liggur það ljóst fyrir samkv. skýrslum Fiskifélags Íslands, að dragnótaveiðarnar virðast ekki hafa haft nein áhrif á aflamagn þeirra fisktegunda, sem meiri hl. sjútvn. Ed. gerir ráð fyrir eða heldur fram að mjög hafi dregizt saman. Aflamagn ýsunnar hefur aukizt samkv. skýrslum Fiskifélagsins 1961 og 1962, miðað við árin 1959–1960, en ekki dregizt saman.

Mitt álit er, að það mundi vera rangt að fara inn á þá braut að banna þessar veiðar, það mundi vera til tjóns, ekki einungis fyrir þá aðila, sem þær stunda, þá sjómenn og útgerðarmenn, sem að þeim standa, heldur mundi það einnig mjög draga úr atvinnu þess fólks, sem í fiskiðjuverunum vinnur á þeim stöðum, sem veiðarnar eru stundaðar frá. Þessi afli kemur á land að sumrinu til, þegar kannske minnst er um aflamagn og örugglega minnst er um aflamagn af öðrum fisktegundum, og hefur, að mér er kunnugt um, haldið sumum fiskvinnslustöðvum gangandi með fullum vinnukrafti yfir þá sumarmánuði, sem áður var mjög erfitt að hafa næga vinnu handa því fólki, sem annars byggði afkomu sína þar á, a.m.k. að vetrarvertiðinni til.