19.04.1963
Neðri deild: 77. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í C-deild Alþingistíðinda. (2592)

154. mál, dragnótaveiði í fiskveiðilandhelgi

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég tel, að frv. á þskj. 674 sé á margan hátt mjög athyglisvert. Ég tel, eins og nú er komið málum, að fyllsta ástæða sé til þess að viðhafa fyllstu varasemi um það að leyfa dragnótaveiðar jafnlítt takmarkaðar og verið hefur að undanförnu.

Það er óvefengjanleg staðreynd, sem ekki verður fram hjá komizt, að dragnótaveiðarnar hafa m.a. orsakað það, að sú mikla fiskigengd, sem komin var í Faxaflóa á hverju ári, hefur nú síðustu árin mjög mikið minnkað. Margir menn hér við Faxaflóa höfðu keypt sér litla báta og stunduðu á þeim þorskveiðar, en mér er sagt af kunnugum mönnum, að eins og nú sé komið megi heita, að það sé alger tilviljun, að á þessa báta fáist svo að segja nokkur afli. Ég skal viðurkenna það, að hér koma fram tvenns konar sjónarmið, og það, sem mig undrar einna mest, er það, að okkar ágætu fiskifræðingar virðast í hvoruga löppina þora að stíga í málinu, og verður það að teljast alveg furðulegt, að sérfræðingar, sem hafa kynnt sér þessi mál, skuli ekki geta sagt af eða á í málinu.

Á Norðurlandi t.d. fullyrði ég það, að langflestir smábátaútvegsmenn eru algerlega á móti dragnótaveiðunum. Á meðan dragnótaveiðarnar voru stundaðar af jafnmiklu kappi og menn vita, voru stundaðar svo að segja alveg óhindrað, varð útkoman vitanlega sú, að fiskurinn hvarf að mestu leyti af grunnmiðunum fyrir Norðurlandi. Ég er ekki að segja, að það hafi allt verið vegna dragnótaveiðanna einna saman. Þar kom vitanlega líka til greina hin mikla ásókn togara á fiskimið úti fyrir Norðurlandi. En hin ótakmarkaða og takmarkalausa dragnótaveiði, sem þar var stunduð, jafnvel inni á höfnum, hefur örugglega gert sitt til að eyðileggja fiskimiðin og draga úr aflabrögðum.

Ég tel, að það frv., sem hér liggur fyrir, eigi fyllsta rétt á sér, þó að ég hins vegar viðurkenni, að það nær ekki nægilega langt. Það skal þó viðurkennt, að eftir dómi sérfræðinga er Faxaflói talinn vera uppeldisstöð fyrir fisk miklu frekar en flestir aðrir firðir og flóar á landinu. Það má vel vera, að ef farið yrði inn á þá braut að banna dragnótaveiðar, þá gæti það á einhvern hátt orðið til þess að draga úr atvinnu hér við flóann. En við skulum bara hafa það í huga, að slík rányrkja eins og dragnótin er er í alla staði ákaflega hættuleg fyrir fiskstofninn. Það, sem gerir hana einna alvarlegasta, er það, að hún tekur bæði stóra og smáa fiska. Þó að smáfiskunum sé sleppt, þá vitum við það vel, sem höfum verið til sjós, að það er alveg undantekningarlaust, að fiskur, sem kemur á þilfar og er aftur fleygt út, er dauður. Þetta er svo ljóst mál, að það þarf ekkert um að deila.

Ég er ekki að halda því fram, að það sé alveg nauðsynlegt að banna dragnótaveiðar undir öllum kringumstæðum og alls staðar. En ég tel, að vissir firðir séu svo þýðingarmiklir sem uppeldisstöðvar fyrir okkar ágætu fiskimið, að það sé beinlínis ábyrgðarleysi að leyfa áfram dragnótaveiði á þessum stöðum, og má þar til nefna sérstaklega Faxaflóa, Breiðafjörð og firðina á Norðurlandi. Ég er meðmæltur þessu frv. og því, að bætt yrði þar inn í m.a. Breiðafirði og flóum og fjörðum á Norðurlandi og víðar, ef þurfa þykir. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram, vegna þess að við mig hefur talað fjöldi manna, sem hafa lýst því yfir sem sínu áliti, að dragnótaveiðar hér í Faxaflóa þýði ekkert annað en gereyðingu á þeim fiskstofni, sem hrygnir á þessum stöðum, og endar náttúrlega með því, að sú fiskgengd, sem var um tíma hér í flóanum, hlýtur að ganga til þurrðar fyrr eða síðar.