09.04.1963
Efri deild: 70. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í C-deild Alþingistíðinda. (2600)

167. mál, varðskip

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Það var eins og síðasti ræðumaður sagði, að þetta mál var sent til umsagnar og sjútvn. hélt marga fundi, þar sem þetta mál var tekið lítils háttar til umr., en alltaf frestað, þangað til að lokum að það lágu fyrir umsagnir frá vátryggingarfélögunum, en ekki frá landhelgisgæzlunni, eins og hv. 4. þm. Vestf. gat um hér áðan. En þessar umsagnir, bæði frá skipstjórafélaginu og landhelgisgæzlunni, komu núna í kvöld fyrst. (SE: Eru þær komnar?) Já, þær eru nýkomnar hingað, rétt áður en fundi lauk í kvöld, og n. hefur ekki athugað innihald þeirra, en það sýnist ekki hafa verið mikill áhugi hjá þeim að koma skoðun sinni í ljós. Hins vegar skýrði ég n. frá því, að forstjóri landhelgisgæzlunnar hefði komið að máli við mig og gefið mér ýmsar upplýsingar, sem voru m.a. í því fólgnar, hvað þetta væri mikið fjárhagsmál fyrir landhelgisgæzluna og skipverja á varðskipunum, t.d. miðað við s.l. ár, og að fengnum þeim upplýsingum var ekki hér, hvorki að mínum dómi né forstjóra landhelgisgæzlunnar, um svo stóra upphæð að ræða, að það skipti neinu verulegu máli, því að ég ætla, að það hafi verið samtals um 11/2 millj. kr., sem þau námu, þessi björgunarlaun fyrir alla bátana á s.l. ári, en hins vegar hefðu þeir ekki tapað upphæðinni að öllu leyti þrátt fyrir þessa breyt., því að viss greiðsla kemur fyrir aðstoðina, þó að það sé ekki um fullkomna björgun að ræða.

Að sjálfsögðu mun n. athuga milli umræðna þessar umsagnir, sem bárust í kvöld.