18.12.1962
Neðri deild: 30. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (261)

121. mál, ráðstafanir vegna ákvörðunar um nýtt gengi

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þegar l. nr. 28 1962, um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um nýtt gengi íslenzkrar krónu, voru sett, var gert ráð fyrir því, að þriðjungurinn af meginhluta útflutningsgjaldsins rynni til fiskveiðasjóðs, annar þriðjungurinn til stofnlánadeildar sjávarútvegsins og þriðji hlutinn til greiðslu á vátryggingariðgjöldum fiskiskipa. Auk þess voru svo minni háttar greiðslur aðrar. Þá var það einnig ákveðið með lögunum, að árin 1961 og 1962 skyldi stofnlánadeildarhlutinn notaður til greiðslu vátryggingariðgjaldsins einnig, þannig að 62% af útflutningsgjaldinu voru til greiðslu vátryggingariðgjaldanna. Þá var gert ráð fyrir því, að endurskoðun á tryggingarkerfi fiskiskipanna yrði lokið fyrir árslok 1962, og raunverulega er af hálfu ráðuneytisins þessari endurskoðun lokið fyrir alllöngu, en það hefur dregizt að ná samkomulagi við L.Í.Ú. um afgreiðslu málsins, svo að ekki fæst endanleg afgreiðsla þess fyrr en einhvern tíma á næsta ári, — ég vil vona snemma á næsta ári. En sem sagt, hún liggur ekki fyrir nú. Þess vegna er nauðsynlegt, að stofnlánadeildarhlutinn verði einnig árið 1963 notaður til greiðslu á vátryggingariðgjöldum fiskiskipanna, eins og gert hefur verið árin 1961 og 1962.

Þetta frv, fer fram á það að heimila, að stofnlánadeildarhlutinn árið 1963 verði einnig notaður í þessu skyni, og annað er ekki í frv. Mér þykir leitt, að þetta frv. hefur ekki komið fyrr fram. Það hafa orðið nokkur mistök í sambandi við afgreiðslu þess, og þess vegna er mjög naumur tími til stefnu, ef frv. á að fást afgr., áður en þingi verður frestað nú eftir 1, 2 eða 3 daga. Ég vildi því mega fara þess á leit, að frv. yrði vísað til 2. umr., án þess að þurfa að ganga til n. Málið er ákaflega einfalt, og ég vænti, að allir hv. alþm. geti á augnablikinu gert sér ljóst, um hvað er að ræða, og geti einnig léð því sitt samþykki. En ef afgreiðsla málsins á að fást, áður en til þingfrestunar kemur, er nauðsynlegt, að þessi háttur verði hafður á.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr.