28.11.1962
Sameinað þing: 17. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í D-deild Alþingistíðinda. (2652)

38. mál, byggingarframkvæmdir og fornleifarannsóknir í Reykholti

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Það kann að koma hv. þm. spánskt fyrir sjónir, að saman skuti vera dregin í eina till. bygging á skólahúsi og fornleifarannsóknir, en þessi till. fjallar bæði um byggingarframkvæmdir fyrir Reykholtsskóla og fornleifarannsóknir þar á staðnum. En í þessu atviki eru þessi tvö fyrirbrigði nátengd, þannig að ekki veróur sundur skilið.

Ef hér væri eingöngu um að ræða skólabyggingu, mundi það mál að sjálfsögðu ganga aðra leið gegnum þingið, en kjarni þess eru fornleifarannsóknir í Reykholti. Ég geri ráð fyrir, að allir þeir, sem hafa komið í Reykholt, hafi komið að Snorralaug. Og þeir, sem þar hafa verið, hafa séð göng Snorra, sem fyrir nokkrum árum voru grafin upp. En ýmsum þykir sérkennilegt, að á þessum stað, — sem er einn af mestu sögustöðum Íslendinga og jafnframt staður, sem önnur þjóð lítur á sem einn af sinum sögustöðum, og á ég þar við alúð Norðmanna og áhuga á staðnum, — hefur slíkt mannvirki sem göng Snorra enn ekki verið fullkomlega grafið upp. Það er aðeins litill hluti, þeim megin sem að lauginni snýr, sem hefur verið grafinn upp og rannsakaður, en hitt liggur enn grafið í jörð, og er þó augljóst mál, að þarna hlýtur að bíða einhver merkilegasti fornleifagröftur, sem gera má í þessu landi.

Ástæðan til þess, að göngin hafa enn ekki verið grafin upp og augljósum fornleifarannsóknum hefur enn ekki verið lokið í Reykholti, er sú, að á hólnum, sem grafa þarf í gegnum, stendur rúmlega 30 ára gamalt íþróttahús. Þegar Reykholtsskóli var byggður, varð augljóst, að það skorti íþróttaaðstöðu fyrir nemendur. Af miklum dugnaði réðust þeir, sem komu skólanum upp, í að reisa bráðabirgðaleikfimihús. En eins og svo mörg bráðabirgðahús hefur það orðið að duga í rúmlega þrjá áratugi og er enn þá notað, þó að það sé að sjálfsögðu orðið mjög ófullkomið og hafi komið fyrir, að það hafi verið erfitt í köldu veðri að nota það sem íþróttahús.

Hér kemur hvort tveggja til, að skólanum er orðið nauðsynjamál að fá þetta hús endurbyggt, en fornleifafræðin knýr líka á dyr, því að þá fyrst, er þetta hús hefur verið fjarlægt, verður hægt að grafa út göngin inn að bæ Snorra. Getur hver maður séð, hversu mikilvægur sá gröftur verður og hvað kann að koma í ljós, þegar grafið verður göngin á enda.

Þessar aðstæður valda því, að hér hafa þessi tvö mál verið tengd saman í þáltill. í þeirri von að fá stuðning, sem gæti orðið til þess, að ríkisstj. ýtti á þetta mál, gerði þær framkvæmdir, sem gera þarf, áður en langt liður, til þess að unnt verði að ljúka þessum þýðingarmiklu fornleifarannsóknum, sem telja má öruggt að gera muni Reykholt að enn stærri sögustað, a.m.k. það, sem sýnilegt er á staðnum og komandi kynslóðir geta augum litið.

Fyrir fimm árum var samþykkt á Alþingi till. um að athuga framtíðarskipun Reykholts. Í kjölfar þeirrar till. fór það, að sett var á laggirnar nefnd og gert var mikið átak til þess að endurbæta skólann og tryggja viðunandi viðhald á þeim sögulegu minjum, sem þarna eru. Arangur af þeirri till. varð verulegur. En nefndin, sem að þessu stóð, kom í því máli, sem hér er hreyft, að vegg. Það er ekki á hennar valdi að ýta þeim framkvæmdum áfram, sem þarf að gera, til þess að þróun staðarins miði enn áfram eins og nauðsynlegt er. Þess vegna er þessi till. flutt í eðlilegu framhaldi af þeim vilja og áhuga, sem Alþingi sýndi 1957, og þeim framkvæmdum, sem þingið þá setti af stað.

Ég vil vænta þess, að þessi till. fái góðar undirtektir og Alþingi sýni þar með enn einu sinni áhuga sinn á sögustöðum í landinu og um leið á uppbyggingu skólanna. Hér er um áskorun að ræða, sem vonazt er til að hjálpi til að hraða þessum framkvæmdum. En það þarf að vinna alimikið undirbúningsverk, áður en tímabært er að leggja fram tillag á fjárlögum til þessara hluta.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til, að till. verði vísað til allshn.