08.03.1963
Sameinað þing: 37. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (2655)

38. mál, byggingarframkvæmdir og fornleifarannsóknir í Reykholti

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Efni þessarar till. er á þá lund, að Alþingi skori á ríkisstj. að hraða undirbúningi næstu byggingarframkvæmda við Reykholtsskóla og staðsetja þær þannig, að sem fyrst verði unnt að ljúka fornleifarannsóknum á staðnum. Kjarni málsins er sá, að nokkur af húsum Reykholtsskóla, sem eru 30 ára gömul og voru í upphafi reist sem bráðabirgðahúsnæði, standa í vegi fyrir því, að unnt að að ljúka einhverjum athyglisverðustu fornleifarannsóknum, sem vitað er til að eru óunnar í okkar landi. Hér er átt við Snorragöng, sem talið er að hafi legið frá Snorralaug og sennilega í kjallara undir bæ Snorra, en íþrótta- og smíðahús skólans stendur þvert yfir göngin, þannig að aðeins hefur verið unnt að grafa upp mjög lítinn hluta þeirra.

Allshn. hefur sent þetta mál til umsagnar fræðslumálastjóra, skólastjóra og sóknarprests í Reykholti og þjóðminjavarðar, og mæla þeir allir eindregið með því, að till. verði samþ.

Með leyfi hæstv. forseta, vil ég lesa stuttan kafla úr grg. þjóðminjavarðar, þar sem hann ræðir um það verk, sem óunnið er í Reykholti, en þar segir svo:

„Þegar göngin fundust, gerði Matthías Þórðarson þá rannsókn, sem unnt var, og gróf alllangt inn eftir frá lauginni. Sömuleiðis gróf hann niður hinum megin við íþróttahúsið og komst að raun um, að göngin halda áfram þar. Meira varð ekki grafið, enda vegur fram með íþróttahúsinu að norðan og auk þess stutt í steinsteypt hús lítið, sem byggt er á gamla bæjarstæðinu. Af þessu er augljóst, að rannsókn þessi var ekki annað en tausleg könnun, enda lét Matthías Þórðarson svo um mælt, að hér þyrfti miklu ýtarlegar. um að fjalla, þegar íþróttahúsið yrði fjarlægt, hvenær sem það yrði. Er augljóst, að nauðsynlegt er að geta fylgt göngunum eftir þvers undir húsið og síðan áfram, og munúi mörgum virðast, að forvitnilegast af öllu væri að sjá, hvar og hvernig göngin enda að norðan, þ.e.a.s. hvernig þau hafa tengzt hinum forna bæ. Enginn vafi getur leikið á því, að göng þessi eru að stofni til frá dögum Snorra Sturlusonar, ef ekki eldri. Má vera, að upptök þeirra séu einmitt í kjallara undir hinum forna bæ. Fornleifarannsókn, sem unnin væri með tilhlýðilegri gát og styddist við nægilegt fjármagn, ætti að geta kastað skemmtilegu ljósi yfir þennan sögufræga stað. Vitaskuld verður aldrei sagt fyrir, hvaða árangur fornleifarannsókn kann að bera, en hér er áreiðanlega um að ræða einn af þeim stöðum, sem sjáifsagt er að rannsaka eins vel og kostur er á, þegar tækifæri býðst.“

Af þessum upplýsingum þjóðminjavarðar er ljóst, að þegar Reykholtsskóli var byggður fyrir liðlega 30 árum, var hann staðsettur rétt við gamla bæinn og — að því er virðist nú — mjög óskynsamlega nálægt Snorralaug. Síðan var reist, eftir að sjálft skólahúsið hafði komizt upp, bráðabirgðahús fyrir leikfimikennslu og smíði, gert af miklum dugnaði og atorku á þeim tíma, miðað við allar aðstæður. Eins og oft kemur fyrir í okkar þjóðfélagi, hefur þetta bráðabirgðahús verið notað í 30 ár, og það er það, leikfimihúsið, sem er svo illa á sig komið, að stundum er ekki hægt að kenna í því, þegar kalt er í veðri, og fyrirsjáanlega verður að endurnýja. Þar eð sú endurnýjun er fyrir dyrum og verður að gerast tiltölulega fljótt, er tímabært að benda á, hvaða menningarleg verðmæti er þarna um að ræða og hversu mikilsvert er, að við gerum okkur grein fyrir í tíma, að það verður að skipuleggja þennan stað á þann hátt, að fornminjunum verði viðunanleg ræktarsemi sýnd.

Allshn. mælir öll með því, að þessi till. verði samþykkt.