20.02.1963
Sameinað þing: 31. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í D-deild Alþingistíðinda. (2680)

123. mál, alþjóðasamþykkt er varðar misrétti með tilliti til atvinnu

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þessi till. til þál. er flutt til þess að fá samþykkt Alþingis á alþjóðasamþykkt, sem gerð hefur verið um misrétti með tilliti til atvinnu eða starfs. Þessi samþykkt, sem hér er um að ræða, var gerð á 42. alþjóðavinnumálaþinginu í Genf fyrir 4 árum og var samþ. þar með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða. Við lokaatkvgr. um till. féllu atkvæði þannig, að 189 þingfulltrúar greiddu atkvæði með samþykktinni, en aðeins 24 á móti. Samþykktin miðar að því að útrýma misrétti í sambandi við atvinnu, þ.e.a.s. að koma í veg fyrir, að mönnum sé mismunað, þeim séu veitt forréttindi eða þeir séu útilokaðir frá vinnu vegna kynþáttar, vegna hörundslitar, vegna kynferðis, vegna trúarbragða, vegna stjórnmálaskoðana eða þjóðfélagslegs uppruna, þannig að allir njóti sömu aðstöðu til starfs og möguleika til starfs, hverrar trúar sem þeir eru, hvaða litarhátt sem þeir hafa, hvaða stjórnmálaskoðanir sem þeir hafa, og annað fleira hliðstætt, sem fram er tekið í samþykktinni.

Það er ekki talið misrétti í þessu sambandi, þó að gerður sé greinarmunur varðandi tiltekið starf, ef hann byggist eingöngu á þeim kröfum, sem starfinu fylgja, og þeim hæfileikum, sem menn þurfa að hafa, eða þeim kröfum, sem menn þurfa að uppfylla til þess að geta stundað þetta starf.

Í 3. gr. þessarar alþjóðasamþykktar er nánar tiltekið, hvað hvert aðildarríki skuldbindur sig til að gera eða hvað það undirgengst með þessari samþykkt. En það er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

1) Að leita samvinnu við félagssamtök atvinnurekenda og verkamanna og annarra viðkomandi aðila til þess að greiða fyrir viðurkenningu og framkvæmd þessarar stefnu.

2. Að setja þan lög og efla þess konar fræðslukerfi, sem telja má að tryggi viðurkenningu og framkvæmd þessarar stefnu.

3. Að nema úr gildi þau lagaákvæði og breyta þeim reglugerðarákvæðum eða venjum, sem kunna að vera ósamrýmanleg þessari stefnu.

4. Að framfylgja þessari stefnu að því er tekur til vinnu, sem er undir eftirliti opinberra stjórnarvalda.

5. Að tryggja framkvæmd þessarar stefnu í starfsemi, sem snertir leiðbeiningar um stöðuval, starfsþjálfun og vinnumiðlun, sem er undir eftirliti opinbers stjórnarvalds.

6. Að greina frá því í ársskýrslum sínum um framkvæmd samþykktarinnar, hvað gert hefur verið skv. þessari stefnu og hvern árangur það hefur borið.

Nánar er svo í öðrum greinum samþykktarinnar útfært meginefni samþykktarinnar, og sé ég ekki ástæðu til að rekja það öllu frekar. Það hafa þegar 10 ríki fullgilt þessa samþykkt, þ. á m. tvö Norðurlandaríki, Danmörk og Noregur. Og þar sem engin íslenzk lagafyrirmæli munu brjóta í bága við ákvæði þessarar samþykktar, virðist eðlilegt, að Ísland fullgildi hana og sýni með því stuðning við þau sjónarmið, sem fram eru sett í samræmi við íslenzka hætti og íslenzka réttlætiskennd.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, af því að hér er aðeins um eina umr. að ræða, að henni verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.