20.03.1963
Sameinað þing: 41. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í D-deild Alþingistíðinda. (2684)

123. mál, alþjóðasamþykkt er varðar misrétti með tilliti til atvinnu

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur þróazt alþjóðlegt samstarf á margvislegum sérsviðum og hefur m.a. beinzt að því að gera alþjóðlegar samþykktir, t.d. í félagsmálum, um mannréttindi og annað slíkt, í þeirri von, að þær samþykktir verði til að hvetja til hraðra framfara þjóóir, sem eru aftur úr í þessum efnum.

Við íslendingar höfum gerzt aðilar að ýmsum slíkum samþykktum, og hefur það oft verið okkur útlátalítið, vegna þess að við stöndum félagslega, hvað mannréttindi og annað slíkt snertir, mjög framarlega í hópi þjóðanna.

Þetta þing hefur til afgreiðslu a.m.k. 2 þáltill., sem fjalla um slík mál. Hin fyrri, sem er 123. mál, er um fullgildingu á alþjóðasamþykkt um misrétti með tilliti til atvinnu eða starfs. Till. þessi er tiltölulega einföld að efni og fjallar um að útrýma misrétti í sambandi við atvinnu og koma í veg fyrir, að mönnum sé mismunað eða þeim veitt forréttindi eða útilokaðir frá vinnu vegna kynþáttar, hörundslitar, kynferðis, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða þjóðfélagslegs uppruna síns, þannig að þeir njóti ekki sömu möguleika og aðrir borgarar. Samþykktin var gerð á 42. atþjóðavinnumálaþinginu í Genf 1958 og þar samþykkt með yfirgnæfandi meiri hl. atkv.

Ekki er það talið misrétti í þessu sambandi, þó að gerðar séu mismunandi kröfur til starfa, eins og eðlilegt er. Ríki, sem fullgilda samþykktina, skuldbinda sig til að lýsa yfir, að þau ætli að framfylgja stefnu, er miði að því, að allir hafi sömu möguleika og njóti sömu aðstöðu að því er varðar vinnu og réttindi á þessu sviði. Skal hafa um þetta samráð og samvinnu við samtök atvinnurekenda og verkafólks og aðra aðila, sem þessi mál snerta. Þó að ákvæði 2. gr. í samþykktinni séu afdráttarlaus um þessi réttindamál, er rétt að vekja athygli hv. þm. á því, að eins og í mörgum alþjóðasamþykktum, þar sem reynt er að sameina margar, en oft sundurleitar þjóðir, eru vissir varnaglar, t.d. í 4. gr.

Þar er sagt að menn, sem með rökum eru grunaðir um að vera þátttakendur í starfsemi, sem er hættuleg öryggi ríkisins, skuli ekki taldir beittir misrétti í þessum efnum, en það er að sjáifsögðu mat hvers ríkis, hvað það telur vera starfsemi sér hættulega.

Þingnefnd, sem fær slík mál til meðferðar, er nokkur vandi á höndum, vegna þess að þinginu er ætlað að leggja blessun sína yfir málið í heild og þar með texta viðkomandi samþykkta. Með því að reynsla er fyrir því, að þýðingar hafa ekki alltaf verið nákvæmar, valdi allshn. þann kost að fá löggiltan skjalaþýðanda til þess að bera saman þýðinguna fyrir hönd þn. Þýðingin hafði upprunalega verið gerð af öðrum löggiltum skjalaþýðanda á vegum rn. Sá, sem fór yfir þýðinguna fyrir hönd allshn., gerði við hana allmargar breytingar. Þar var þó ekki um að ræða mikilvægar efnisbreytingar. N sendi hinn breytta texta til rn. til umsagnar. Rn. lét í ljós samþykki sitt við þeim breytingum, sem gerðar voru. Það er álit allshn.-manna, að það felist eðlilegt öryggi fyrir þingið í því, að þýðingar séu þannig endurskoðaðar. Vegna þess að texti á fskj., sem er samþykktin á frummálinu og á íslenzku, hefur tekið allmörgum breytingum, þótti hentugra að endurprenta hinn breytta texta og leggja til, að breytingar yrðu gerðar með einni till., sem er till. 2 á þskj. 399.

Till. 1 er um fyrirsögn þáltill. A það var bent, þegar tilt. var fyrr til umr., að í fyrirsögninni stæði, að till. fjallaði um fullgildingu á alþjóðasamþykkt um misrétti. Þótti mönnum þetta ekki nákvæmt, því að efnislega er till. um alþjóðasamþykkt gegn misrétti. Hins vegar er þetta þýðing á heiti upprunalega samningsins, og þar stendur ekki „gegn“, heldur orðalag, sem er ekki rangt að þýða „um“, en mætti þó eins segja, að orðalagið gæti verið um alþjóðasamþykkt, „er varðar“ misrétti. Þess vegna er gerð till. um það, og geta hv. þm. valið á milli, en ég hygg þó, að hér sé um áferðaratriði að ræða, en það muni ekki valda misskilningi.

Með samþykkt á 2. brtt. á þskj. 399 — og ef hv. þm. sýnist 1. till. — mælir allshn. með því, að þingið staðfesti alþjóðasamþykktina, eins og hún þá hefði breytzt.