16.11.1962
Efri deild: 17. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (27)

99. mál, framkvæmdalán

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Mér virðist um þetta frv., lántökuheimild fyrir ríkissjóð, að í því sé ýmislegt fremur óvanalegt, miðað við fyrri lántökuheimildir, einkum hin síðari ár.

Hér er í fyrsta lagi gert ráð fyrir að taka lán að verulegri upphæð, 240 millj. kr., á brezkum lánamarkaði. Það hefur ekki verið gert mikið að því hin síðari ár, heldur hefur verið haldið sig við amerískan lánamarkað eða þá Alþjóðabankann.

Hér er í öðru lagi gert ráð fyrir, að Seðlabankinn, samkv. upplýsingum hæstv. fjmrh., hafi lántökuna með höndum, skildist mér, fyrir hönd ríkissjóðs. Það er líka heldur óvenjulegt hin síðari ár. Hvers vegna á ekki Framkvæmdabankinn að standa í þessu fyrir hönd ríkissjóðs, eins og til var ætlazt með stofnun hans og lögum um hann? Hvers vegna á hann nú ekki að koma nálægt lántöku fyrir hönd ríkissjóðs, sem er ætlað það hlutverk í lögum?

En fyrst og fremst er það athugavert frá mínu sjónarmiði við þetta frv., eins og hæstv. fjmrh, leggur það fyrir, að báðum deildum Alþingis er ekki ætluð nema ein vika til þess að afgreiða þetta mál, frv., sem gefur ríkisstj. óbundnar hendur með öllu til þess að ráðstafa þessu lánsfé, 240 millj. kr. Hvernig stendur á þessu, að það verður að vera svo stuttur frestur fyrir Alþingi til þess að afgreiða þessi heimildarlög? Eg gat ekki heyrt, að hæstv. ráðh. skýrði það. Er hætta á, að þetta lánsfé gangi ríkissjóði úr greipum, ef ekki verður gengið frá lánsfjársamningi á ákveðnum degi, sem þá er fyrir fram ákveðinn? Er þegar búið að semja um þetta lán, að frá því verði gengið á ákveðnum degi, áður en leitað er lánsheimildar Alþingis? Þetta er sérstaklega óviðkunnarlegt í mínum augum, vegna þess að samkv. skýringum hæstv. fjmrh. á meginhluti þessa lánsfjár að ganga til framkvæmda, sem Alþingi hefur með að gera að meira og minna leyti, ákveður framlög til á fjárlögum, svo sem hafnargerða, raforkumála, vegamála, lausnar húsnæðismála o.s.frv. Flestallar þær framkvæmdir, sem hæstv. fjmrh. drap á, eru fyrst og fremst undir ráðstöfunarvaldi Alþingis, og það er Alþingi, sem ber að ákveða ekki aðeins framlög úr ríkissjóði til þeirra, heldur hve mikil áherzla er lögð á framkvæmd þeirra á kostnað þjóðarinnar, þ. á m. með lántökum. Ég verð þess vegna að taka mjög eindregið undir það með hv. 3. þm. Norðurl. v., að þetta frv. verði ekki afgreitt í þeirri mynd, sem það nú er, heldur verði annað tveggja bætt inn í það ákvæði um, að Alþingi skipti þessu fé síðar með lögum, eða þá, sem líka hefur verið viðhaft um meiri háttar lántökur, sem einmitt hafa farið til opinberra framkvæmda, að Alþingi setji e.t.v. óformlega nefnd til þess að vinna að skiptingu fjárins með ríkisstj.

Ég verð að segja, að mér finnst það óviðkunnanlegt að bera fram frv. eins og þetta, bæði með þeim skýringum, að Alþingi verði að afgreiða það á örfáum dögum, og í öðru lagi og alveg sérstaklega að gera ráð fyrir því, að Alþingi hafi alls engin afskipti af skiptingu þessa fjár eða ráðstöfun til hinna ýmsu framkvæmda í landinu, sem hæstv. fjmrh. taldi upp. Í frv. er ekki heldur gert ráð fyrir því, hvaða aðilar endurláni þetta fé eða hluta af því fyrir hönd ríkissjóðs. E.t.v. á það að verða Seðlabankinn, eins og hann hefur haft milligöngu um töku lánsins. Það væri gaman að heyra, hvort Framkvæmdabankinn er nú alveg strikaður út úr bókum hæstv. ríkisstj.

Ég vil að síðustu taka fram, að ég álít þau tvö atriði, sem ég hef þegar lagt áherzlu á, höfuðatriðin í þessu máli, að Alþingi fái hæfilegan frest til þess að vinna að þessu máli og það verði ekki afgreitt svo, að ríkisstj. verði gefið einræðisvald um skiptingu þess fjár, sem gert er ráð fyrir með þessu frv. að taka að láni fyrir hönd þjóðarinnar.