20.02.1963
Sameinað þing: 31. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í D-deild Alþingistíðinda. (2700)

79. mál, endurskoðun girðingalaga

Flm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 97 höfum við hv. 2 þm. Norðurl. v., Gunnar Gíslason, leyft okkur að flytja till. til þál. um endurskoðun girðingalaga. Á síðasta þingi flutti ég ásamt nokkrum öðrum þm. þessa þáttill. um endurskoðun girðingalaga, en hún náði þá ekki fram að ganga. Nú er þessi till. endurflutt í þeirri von, að hún nái því að vera samþ. sem ályktun Alþingis. í grg. fyrir till. gerum við flm. grein fyrir því, að nauðsyn beri til að endurskoða girðingalögin í heild. M.a. er þörf á að rannsaka þau atriði, sem ég skal nú greina:

Í fyrsta lagi, að síðan girðingalög voru samþykkt, hafa vélgrafnir skurðir komið til sem varzla, og má með réttu taka tillit til þeirra, þegar girðingar eru gerðar.

Í öðru lagi: Skylda vegagerðarinnar gagnvart landeigendum, þegar vegir eru lagðir gegnum girt land, er orðin úrelt og algerlega fjarri sanni, svo að mjög er á landeigendur hallað. Þessi mál hafa oft valdið erfiðleikum í sambandi við framkvæmd vegagerðar, og hefur vegamálastjórnin orðið að leita samkomulags til að leysa málin á eðlilegan hátt utan laganna. Þess vegna ber brýna nauðsyn til að endurskoða þetta atriði, og ekki sízt er það athugandi, þegar á það er litið, að vegalögin sjálf eru nú í endurskoðun og eðlilegt, að girðingalögin verði endurskoðuð jafnhliða.

Við viljum einnig benda á það, að viðhaldi girðinga er víða mjög ábótavant. Jafnvel er svo, að girðingar, sem niður eru lagðar, eru hin mestu hættusvæði fyrir búfé landsmanna, og þarf úr því að bæta. Þess vegna viljum við fim. einnig benda á, að það atriði þarf að taka til athugunar, þegar girðingalög eru endurskoðuð.

Við treystum því, að hv. alþm. fallist á nauðsyn þessarar endurskoðunar. Ég legg til, herra forseti, að þessi till. verði að lokinni þessum fyrri hl. umr. vísað til allshn., og treysti þeirri hv. n. til að afgreiða hana til þingsins aftur, svo að hv. Alþingi geti afgr. hana á þessu þingi.