03.04.1963
Sameinað þing: 44. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í D-deild Alþingistíðinda. (2702)

79. mál, endurskoðun girðingalaga

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Efni þessarar till., sem er 79. mál á þskj. 97, er að skora á ríkisstj. að láta endurskoða girðingalög, nr. 24 1. febr. 1952, og að þeirri endurskoðun skuli vera lokið fyrir næsta reglulegt Alþingi. Nefndin hefur haft þessa till. til athugunar og sent hana til umsagnar Búnaðarfélagi Íslands og landnámsstjóra, og hafa umsagnir borizt til nefndarinnar frá þessum aðilum. Umsögninni frá Búnaðarfélagi Íslands fylgdu till., sem vegamálastjóri hefur gert og látið Búnaðarfélaginu í té, um breytingu á girðingalögunum, sem standa í sambandi við þá endurskoðun, sem staðið hefur yfir á vegalögum. Það má þykja eðlilegt, að samræmi sé milli ákvæða vegalaga og ákvæða girðingalaga að því leyti, sem þessi tvenn lög fjalla um sama efni.

Eftir að hafa athugað þessar umsagnir urðu nefndarmenn sammála um að leggja til við Alþingi, að till. á þskj. 97 verði samþ. með breytingu, sem að því lýtur að samræma endurskoðun girðingalaga og endurskoðun vegalaga. Nefndin leggur því til, að till. verði samþ. með þeirri breytingu, sem gerð er grein fyrir í nál. á þskj. 495.