06.03.1963
Sameinað þing: 35. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í D-deild Alþingistíðinda. (2713)

138. mál, lausn ítaka af jörðum

Flm. (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Með l. nr. 118 frá 21. des. 1952, um lausn ítaka af jörðum, var svo kveðið á, að á næstu sex mánuðum, eftir að l. tækju gildi, skyldu héraðsdómarar birta tvisvar í Lögbirtingablaðinu áskorun til þeirra, sem teldu sig eiga ítök í jörðum innan lögsagnarumdæmisins, um að lýsa ítaksrétti sínum innan 12 mánaða frá birtingu áskorunar. Í lýsingunni frá héraðsdómara skyldi greina efni ítaksins, hagnýtingu þess að undanförnu og eftir því sem unnt væri, hversu það væri til komið. Ef ítaki var lýst, bar héraðsdómara skylda til að senda eiganda eða ábúanda jarðar þeirrar, er ítaki var lýst í, eftirrit af lýsingunni. Vefengdu þeir lýsinguna, skyldi úr þeim ágreiningi skorið skv. l. um landamerki frá 1919. Kæmi engin vefenging fram innan 12 mánaða frá því, að jarðeiganda og ábúanda var send tilkynningin, skyldi það metið svo sem þeir viðurkenndu, að lýsingin væri rétt, og skyldi þá þinglýsa ítakslýsingunni á varnarþingi viðkomandi jarðar, hefði það ekki áður verið gert. Væri ítakinu hins vegar ekki lýst samkv. framangreindu, féll það úr gildi og bar að afmá það úr veðmálabók.

Lög þessi voru sett með það fyrir augum að koma reglu á ítök í bújörðum og gefa jarðeigendum tækifæri til að leysa þau af, ef svo bæri undir. Eftir framkvæmd l. áttu veðmálabækurnar að geta orðið nokkuð örugg heimild um ítaksrétt í jörðum. L. ná þó ekki til skógarítaka né til lax- og silungsítaka í ám og vötnum og eigi til annarra fasteigna en jarða. Ekki munu vera fyrir hendi öruggar upplýsingar um framkvæmd l., en þess munu dæmi, að bændur telji sig hafa misst réttar sakir vanlýsingar, sem stafaði af ókunnugleika um lagasetninguna. Flm. þessarar tíu. telja því eðlilegt, að fram fari athugun á framkvæmd l. að þessu leyti, og ef í ljós kemur, að einhverjir hafi orðið fyrir óeðlilegri réttarskerðingu af þessum sökum, verði leitað ráða til að bæta hlut þeirra.

Ég legg til, herra forseti, að umr. verði frestað og málinu verði vísað til hv. allshn.