10.04.1963
Sameinað þing: 47. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í D-deild Alþingistíðinda. (2725)

29. mál, rannsókn á orsökum sjóslysa

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd okkar flm.þáltill. á þskj. 29, um opinbera rannsókn á sjóslysum við strendur Íslands undanfarin 2–3 ár, þakka allshn. fyrir afgreiðslu hennar á málinu. En n. hefur gert nokkrar orðalagsbreytingar á till. og breytt fyrirsögn hennar í samræmi við það. Hv. 12. þm. Reykv. og hv. 7. landsk. þm. báru þessar breyt. undir okkur flm., og töldum við okkur geta á þær fallizt. Vitanlega er það aðalatriðið, að sú rannsókn, er þáltill. gerir ráð fyrir að verði framkvæmd, nái tilgangi sínum. Hitt skiptir miklu minna máli að okkar dómi, hvaða aðilar það eru og koma til með að verða, sem að slíkri rannsókn standa. Annars eru þessar breytingar ekki stórvægilegar. Eins og frsm. gat um, er aðeins um það að ræða, að bætt er inn í fulltrúum frá sjómannaskólanum og frá þeim tryggingafélögum, sem hafa með að gera vátryggingar skipa.

Því ber að treysta, að atlir þeir aðilar, sem gert er ráð fyrir í brtt. n.ríkisstj. hafi samráð við um rannsókn á skipstöpum íslendinga undanfarin ár, geri sitt til, að fyrirhuguð rannsókn verði sem ýtarlegust og að henni verði hraðað, eftir því sem frekast er unnt. Hér er á ferðinni eitt af okkar mestu vandamálum, sem okkur ber að taka til ýtarlegrar rannsóknar, leita eftir orsökum hinna ýmsu og mörgu óhugnanlegu slysa og tíðu skipstapa, sem orðið hafa undanfarin ár.

Í þessu sambandi vil ég aðeins benda á eitt. Árið 1947 voru byggð úti í Svíþjóð nokkur skip af stærðinni 70–80 tonn. Eftir því sem ég veit bezt, hafa 5 af þessum skipum farizt. Það er rétt að taka fram, að ég held, að þau séu öll byggð af sömu skipasmiðastöð og flest ef ekki öll hafi farizt úti á rúmsjó og nú síðast Erlingur IV. frá Vestmannaeyjum. Af þessum Svíþjóðarskipum, sem hér er átt við, munu nú vera, eftir þeim upplýsingum, sem ég hef getað fengið, eftir 2 skip, Snæfell frá Reyðarfirði og Sæfari frá Patreksfirði. í sambandi við það, sem ég hef hér bent á, verður manni að spyrja: Er ekki full ástæða til þess, að þau skip, sem enn eru á floti af þessum Svíþjóðarskipum, verði tekin til sérstakrar rannsóknar, áður en frekari slys kunna að hljótast af? Þessu er hér aðeins varpað fram til athugunar fyrir þá n., sem mun koma til með að hafa með höndum fyrirhugaðar rannsóknir. Að öðru leyti mun ég ekki ræða þetta mál frekar. Ég vona, að hv. Alþingi samþykki till., eins og hún nú liggur fyrir samkv. till. allshn.