20.02.1963
Sameinað þing: 31. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (2732)

74. mál, brúargerð yfir Lagarfljót

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. í till. sinni til þál. nefnir hv. flm. aðeins brú yfir Lagarfljót við Lagarfoss. En hv. flm. hlýtur að vera það kunnugt, að tvö brúarstæði eru ákveðin og viðurkennd yfir Lagarfljót, það brúarstæði, sem till, fjallar um, og annað við Steinboga nálægt Hóli í Hjaltastaðaþinghá. Hóil er í yztu bæjaröð upp frá Héraðsflóa, og þaðan eru milli 40 og 50 km upp að Lagarfljótsbrú við Egilsstaði. Þeir menn frá Borgarfirði og Út-Héraði, sem hafa erindum að sinna norðan fljóts um Út-Hróarstungu, og eins menn úti í Út-Hróarstungu, sem hafa gagnkvæm erindi austur yfir fljót um Út-Hérað og til Borgarfjarðar, þurfa því að fara tvöfalda þessa leið til að komast á áfangastað. Það er því mjög eðlilegt, að þeir, sem hafa mesta þörf fyrir brú yfir Lagarfljót á Út-Héraði, óski nú sem áður, að brú við Steinboga nálægt Hóli verði byggð á undan brú við Lagarfoss, þó að slík brú sé mjög æskileg. Með brúnni við Steinboga opnast mjög víðáttumikið og þýðingarmikið hringvegakerfi um allt Út- og Mið-Hérað, og að þeirri samgöngubót hefur verið unnið nú á annan áratug. Og það má segja, að nú sé kominn bjarglegur sumarvegur nærri því beggja vegna fljóts að væntanlegum brúarsporðum þar. En aftur er þess að geta, að mjög vantar á, að vegir séu handbærir til afnota brúar við Lagarfoss, eins og nú standa sakir, og kostnaðarsamri vegagerð þar enn ólokið, sérataklega að austanverðu. Að þessu athuguðu og sérstaklega með tilliti til þess, að brú yfir Lagarfljót við Steinboga er aðkallandi og hringvegakerfið, sem fæst þá um allt Út- og Mið-Fljótsdalshérað, bíður eftir þessari brú, verður að gera ráð fyrir, að það verði á sínum tíma talið eðlilegt, að brúin við Steinboga sitji fyrir, verði í fyrri röð í sambandi við nauðsynlegar brúarbyggingar yfir Lagarfljót á Út-Héraði. En ef þessi þáltill. yrði samþ. eins og hún liggur fyrir, mætti ef til vill álíta, að hv. Alþingi hefði með samþykktinni tekið afstöðu til þeirra brúarframkvæmda yfir Lagarfljót á þann hátt, að Lagarfossbrúin eigi að byggjast á undan brúnni nálægt Steinboga. Ég geri ekki ráð fyrir, að hv. Alþingi telji slík afskipti af málinu æskileg né eðlileg á þessu stigi málsins. Ég mun því bera fram brtt. á þá lund, að um verði að ræða fullnaðarkostnaðaráætlun um brúargerð við bæði þau brúarstæði, sem um er að ræða. Á þennan hátt verður þáltill., ef samþ. verður, hlutlaus og óskaðleg þeim óskum, sem fólkið á Út-Héraði hefur ætíð borið fram, þ.e. að brú yfir Lagarfljót hjá Steinboga verði fyrst og fremst byggð.

Í raun og veru tel ég eftir sem áður þessa þáltill. fremur þýðingarlitla, því að kunnugir vita, að undirstöðurannsóknir um þessar brúargerðir eru þegar fyrir hendi, og því ekki ástæða til að óttast, að fullnaðaráætlun verði ekki til, þegar til framkvæmda getur komið að byggja slíkar stórbrýr eins og hér er um að ræða. Gera verður ráð fyrir, eins og nú horfir, að þessar brýr verði ekki byggðar nema fyrir fé úr brúasjóði. Eins og nú standa sakir er ein brú á Norðausturlandi, sem ákveðið var 1958 að byggð yrði fyrir fé úr brúasjóði, en sú brú er ekki enn þá byggð, þó að því verki ætti nú að vera lokið, ef farið hefði verið eftir þeirri framkvæmdaákvörðun, sem til staðar er frá 1958. En hér er um að ræða brú yfir Hofsá í Vopnafirði. Skv. fyrri ákvörðun tel ég, að sú brú hljóti að koma á undan brúnum yfir Lagarfljót, og því tel ég, að hv. flm. þessarar till. hefði gert stórbrúamáli Norðausturlands meira gagn með því að beita áhrifum sínum við hæstv. samgmrh. um að draga ekki lengur að láta byggja brúna yfir Hofsá í Vopnafirði og þar næst að taka höndum saman með öðrum þm. Austf. að fá tekna í framkvæmdaáætlun brúasjóðs brú yfir Lagarfljót og þá fyrst og fremst að mínum dómi við svokallaðan Steinboga.