20.02.1963
Sameinað þing: 31. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í D-deild Alþingistíðinda. (2733)

74. mál, brúargerð yfir Lagarfljót

Flm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki fara út í neinar deilur um þessi brúarmál hérna á þessu stigi. Mér þykir það að vísu ánægjulegt, að yfirleitt, þegar ég er hér að hreyfa máli, þá á ég vísan áhuga hv. 2. þm. Austf. á þeim málum, því að hann kemur hér jafnan í ræðustólinn á eftir mér. En hvað snertir þessi brúarmál á Lagarfljóti, þá er það vitanlega rétt hjá hv. 2. þm. Austf., að það hafa verið til umr. tveir staðir fyrir brýr á Út-Héraði, eins og hann sagði, á Steinboga og við Lagarfoss. En það má vera líka, að það séu eitthvað skiptar skoðanir um það, hvor staðurinn eigi að ganga á undan, en samkv. þeirri fundarsamþykkt, sem ég var hér að vitna til, sem ég því miður hef þó ekki við höndina, frá almennum fundi á Fljótsdalshéraði, þá mun þó þar hafa verið beinlínis tekið fram að leggja áherzlu á brúna við Lagarfoss. Og þó að þessi þáltill. sé flutt um fullnaðarundirbúning, felst engan veginn í henni, að það sé úrslitaorðið. En ég kynnti mér, áður en ég bar þessa þáltill. fram, hvernig þessum undirbúningsathugunum er háttað hjá vegamálastjórninni, og að þeirri athugun lokinni þóttist ég sjá, að það væri ástæða til að flytja þessa þáltill. til að fá þennan fullnaðarundirbúning gerðan. Þess vegna er ég ekki alveg sammála hv. 2. þm. Austf. um það, að hún sé þýðingarlítil, þessi þáltill., því að ef hún verður samþ., sem ég vænti, þá vænti ég einnig, að þessi undirbúningur verði unninn, en til framkvæmda getur vitanlega ekki komið fyrr en honum er lokið.

Hvað snertir brúna á Hofsá í Vopnafirði, þá er óhætt að sjá því föstu, að samþykkt þessarar þáltill. tefur á engan hátt fyrir þeirri framkvæmd, og ég skal gjarnan taka undir það með hv. 2. þm. Austf., að ég vænti þess, að sú framkvæmd verði unnin innan tíðar. En ég vil aðeins beina því til hv. fjvn., sem ég vænti að fái þessa till. til athugunar, — sem þó kannske er óþarft, — að leita umsagnar vegamálaskrifstofunnar um þetta, og þá vitanlega kemur í ljós, hvernig þessi mál standa þar, um þessi tvö brúarstæði á Lagarfljóti. Ég vildi aðeins endurtaka það hér, að þessi till. er flutt og miðuð við þennan stað vegna þess m.a., að almennur fundur á Héraði hefur í raun og veru tekið afstöðu til þess, að þessi staður eigi að ganga á undan brúarstæðinu við Steinboga. Hitt er skiljanlegt, að það geti verið einhver meiningarmunur um það, hvorn staðinn skuli velja. En ég sem sagt vænti þess, að Alþ. sjái sér fært að styðja þessa till. og fjvn. að afgreiða hana frá sér.