06.03.1963
Sameinað þing: 35. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (2764)

135. mál, námskeið í vinnuhagræðingu

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Frsm. þeirrar till., sem hér var til umr., gerði ýtarlega og glögga grein fyrir henni og bar fram margvislegan fróðleik um nauðsyn og gildi vinnuhagræðingar fyrir atvinnulífið. Ég er honum í einu og öllu sammála að því er þetta mál snertir og skal ekki eyða tíma þingsins í að bæta neinu við það.

En í tilefni af því, að það hefur stundum komið hér fram í umr. ekki alls fyrir löngu hnútukast í garð íslenzkra verkalýðssamtaka yfir því, að á forustumönnum verkalýðssamtakanna stæði í sambandi við þessi mál, og væru því samtökin dragbítur á eðlilega þróun í þessum efnum, og með því að ég tel, að verkalýðshreyfingin íslenzka sé algerlega höfð fyrir rangri sök í þessum efnum, þá vil ég blanda mér nokkuð í þessar umr. Ég tek það að vísu fram, að frsm. till. hafði ekkert slíkt hnútukast frammi í garð verkalýðshreyfingarinnar, vitnaði aðeins í það, að erlend verkalýðssamtök væru komin allnokkuð áleiðis í þessum efnum og jafnvel lengra en við. Það skal fúslega játað, enda er þar um að ræða þjóðfélög, sem eru komin lengra áleiðis í tækniþróun en íslenzka þjóðfélagið, og samstarf hefur þegar hafizt, t.d. í okkar næstu nágrannalöndum, milli vinnuveitendasamtaka og verkalýðssamtaka á þessu sviði, en það er nauðsynleg forsenda þess, að nokkuð þokizt verulega í áttina.

Ég vil, til þess að skýra afstöðu íslenzkra verkalýðssamtaka til þessara stórmála, rekja í fyrsta lagi, hvernig afstaða mín sem forseta Alþýðusambandsins hefur komið fram gagnvart þessum mátum, í annan stað, hvernig miðstjórn Alþýðusambandsins hefur árið 1962 markað sína afstöðu til þessara mála, í þriðja lagi, að við höfum rætt við forsrh. á árinu 1961 og einnig á árinu 1962 um samvinnu ríkisvalds við verkalýðshreyfinguna um það að greiða fyrir sérmenntun manna úr röðum verkalýðshreyfingarinnar, til þess að við gætum orðið hlutgengir aðilar á móti vinnuveitendasamtökum og atvinnurekendum til að þoka þessum málum áfram. Og að síðustu vil ég upplýsa um niðurstöðu síðasta Alþýðusambandsþings, sem kom skýrt fram í tveimur ályktunum, sem þingið gerði varðandi þessi mál. Og þetta er alls ekki svar við neinum ásökunum frá hendi frsm. nú, heldur ásökunum, sem hér voru bornar fram ekki atts fyrir löngu í sambandi við annað mál, sem ég taldi óréttmætar ásakanir í garð verkalýðshreyfingarinnar.

Það hefur oft verið um það talað, að það væri kannske bót flestra meina í íslenzku atvinnulífi og til þess að draga úr kaupgjaldsþrætum að koma hér á ákvæðisvinnu, og þetta hefur hver tuggið upp eftir öðrum að lítt hugsuðu máli og talið, að þetta væri einhvers konar nýmæli í íslenzku atvinnulífi, að koma á ákvæðisvinnu, akkorðsvinnu. En það er svo fjarri því, að svo sé. Hitt er rétt, að við erum ekki komnir eins langt í því að taka upp það launagreiðslu- og vinnuform, ákvæðisvinnuna, eins og sumar nágrannaþjóðir okkar, eins og t.d. Norðmenn, en þetta er sem sé atkunnugt fyrirbæri í okkar atvinnulífi. Í fyrsta lagi er ekki hægt að segja annað en hlutaskiptafyrirkomulag, sem hér hefur viðgengizt frá alda öðli, sé eins konar ákvæðisvinnuform sjómannsins. Hann fær þar ekki greiðslu eftir vinnustundum eða miðað við ákveðinn vinnutíma, heldur eftir vinnuafköstum og vinnuárangri. Það má því segja, að allir hlutarsjómenn á Íslandi séu ákvæðisvinnumenn, vinni upp á akkorð, og það er ekki lítill þáttur í íslenzku atvinnulífi, sem þannig fellur undir eitt form af mörgum af ákvæðisvinnuformunum. Þá er það og kunnugt, að meðan saltfiskurinn var okkar aðalútflutningsvara, fór fiskþvottur langsamlega oftast fram samkv. akkorðssamningum í ákvæðisvinnu, og það voru einkanlega konur, sem þvoðu fisk í akkorði. Það var verulegur þáttur í fiskverkuninni á þeim tíma. Enn kunnugra er það, að meginþættir í störfum við síldarverkun fara fram hvarvetna á landinu í ákvæðisvinnu. Síldarsöltunin og fjöldamargir aðrir starfsþættir eru inntir af hendi í ákvæðisvinnu, eftir ákvæðisvinnuákvæðum stéttarfélagasamninga. Öll vinna við rækju og rækjuiðnað hér á landi. allt frá því að sú atvinnugrein hófst árið 1934 eða 1935, hefur farið að öllu leyti fram samkv. ákvæðisvinnusamningum. Þá eru flest stéttarfélög nú komin inn á það að hafa ákvæðisvinnuákvæði í sínum samningum um ræstingarstörf, en að nokkru leyti fara þau fram í tímavinnu, og er þá oft nokkuð frjálst val atvinnurekenda, hvort þeir óska, að þessi ræstingarstörf fari fram eftir tímavinnukaupinu eða ákvæðisvinnutöxtunum.

Allt þetta sem ég nú hef nefnt viðvíkjandi ákvæðisvinnu, er búið að fá á sig mismunandi tanga reynslu. En hér er um að ræða vinnuframkvæmd samkv. samningum hinna almennu verkalýðsfélaga, og má af því sjá, að ákvæðisvinnuform er þar ekkert nýmæli og nær ekki yfir litinn hluta af íslenzku atvinnulífi.

Þá skal ég enn fremur geta þess, að eftirtalin iðnfélög hafa í samningum sínum ákvæði um akkorð, um ákvæðisvinnu. Það er í fyrsta lagi Múrarafélag Reykjavíkur, í annan stað Málarafélag Reykjavíkur, í þriðja lagi Trésmíðafélag Reykjavíkur, í fjórða lagi félagið Skjaldborg, það er félag, sem nær yfir fataiðnaðinn, þar hefur verið langmest unnið eftir ákvæðisvinnusamningum. Sveinafélag húsgagnabólstrara vinnur nú að langmestu leyti í ákvæðisvinnu. Iðja, félag verksmiðjuólks, hefur og ákvæðisvinnuframkvæmd að sumu leyti samkv. stéttarfélagssamningum og að öðru leyti eftir ákvörðun atvinnurekenda, sem er ekki gott form á ákvæðisvinnu. Og ýmis fleiri stéttarfélög hafa ákvæði í sínum stéttarfélagssamningum um að framkvæma vinnu í ákvæðisvinnu.

Á s.l. ári skrifaði Iðnaðarmálastofnunin A.S.Í. bréf og óskaði eftir afstöðuyfirlýsingu af hendi Alþýðusambandsins viðvíkjandi ákvæðisvinnu. í því bréfi, sem Alþýðusambandið þá sendi Iðnaðarmálastofnuninni, sagði, að Alþýðusambandið væri þeirrar skoðunar, að ákvæðisvinna ætti í mörgum starfsgreinum fullan rétt á sér. En í bréfinu sagði enn fremur: „Þó viljum vér hafa allan fyrirvara á um svokölluð slumpakkorð, en þau hafa jafnvel í sumum tilfellum verið mjög óhagstæð fyrir launþega, svo að ekki sé meira sagt, enda bönnuð í nokkrum kjarasamningum.“ — Hér er um þá staðreynd að ræða, að svokölluð slumpakkorð, sem oft hafa verið ákvörðuð einhliða af atvinnurekendum, hafa í vissum kjarasamningum verið bönnuð, en það er einasta neikvæða afstaðan, sem alþýðusamtökin mér vitanlega hafa tekið gagnvart akkorðsvinnu. Síðan sagði: „Vér teljum, að ákvæðisvinnu mætti koma á við mun fleiri störf en nú.“

Af þessu held ég, að það sé ljóst, að A.S.Í. hefur ekki beitt sér á móti því, að farið væri inn á í ríkari mæli en hingað til að framkvæma verk í akkorði. Fallizt er á, að e.t.v. feli það fyrirkomulag í sér þann möguleika, að áhugi vaxi fyrir því að auka afköst, og það geti, þegar þetta á við vinnuformið og atvinnugreinina, í senn aukið þjóðartekjur og hlutdeild hins vinnandi fólks í arði vinnunnar. Ef akkorðsgreiðsla á kaupi og akkorðssamningar um vinnu í framkvæmd hefðu þann spora í sér, að bæði þjóðin og einstaklingurinn gætu af því hagnazt og þjóðarverðmæti aukizt við það, þá er þar um að ræða yfirburði yfir t.d. launagreiðslufyrirkomulag tímakaupsins, sem mjög hefur verið ráðandi í okkar launakerfi.

Þá vil ég geta þess til þess a.m.k. að sanna það, að þegar menn hafa hér verið að fullyrða í ræðum á Alþingi, að vissir forustumenn verkalýðssamtakanna hafi beitt sér á móti akkorðsvinnu og vinnurannsóknum og vinnuhagræðingu og þess konar, þá er a.m.k. ekki ég í hópi þeirra, því að á ráðstefnu um stjórnunarmál, sem haldin var að Bifröst í Borgarfirði dagana 31. ágúst til 2. sept. 1961, flutti ég erindi að beiðni formanns þeirra samtaka og ræddi m.a., enda var þess óskað, um vinnuhagræðingu og launagreiðsluform eins og tímavinnukaup og ákvæðisvinnu. Og þá sagði ég um þessi efni m.a., með leyfi hæstv. forseta, það, sem nú fer hér á eftir:

„Þegar þróun íslenzkra atvinnuvega er höfð í huga, þarf enginn að undrast það, að tæknilegur undirbúningur fyrirtækja hér á landi sé eða hafi oft verið ófullkominn, að verkstjórn hafi verið tilviljunarkennd og óvísindaleg, né heldur — að verkkunnátta og þjálfun verkamannsins í þjónustu vélvæddra atvinnuvega hafi oft verið ófullkomin og í molum.

öllum þessum sviðum þurfum við sannarlega mikilla úrbóta við. Allt þetta hlýtur svo að vera hjá fyrstu kynslóð, sem elst upp við iðnvæðingu og véltækni á byrjunarstigi, enda hefur það verið svo. Við höfum í þessum efnum verið áþekkust barni, sem er að hætta að skríða og er að stíga fyrstu sporin. Auðvitað eru þau spor hæg og hikandi og engin festa fengin í öruggan gang. Hér á íslenzk þjóð því mikið nám fyrir höndum. Hér erum við langt á eftir mörgum öðrum þjóðum, og auk þess er þróunin svo ör, að það væru út af fyrir sig ærin verkefni að fylgjast með, hvað þá þegar við þurfum að ná þeim þjóðum, sem nú eru á undan okkur. Hér þarf því tvennt að gerast: að opna alla glugga fyrir tæknilegri þekkingu og velja þróttmikið og námfúst fólk til að tileinka sér leyndardóma tæknifræðinnar hjá sérhverri þeirri þjóð, sem fremst stendur á hverju sviði. Oss koma ekki á óvart þær upplýsingar byggðar á amerískum rannsóknum, að 85–90% af afkastaaukningu starfsmanns á klst. í Bandaríkjunum á tímabilinu frá 1871–1951 stafi af tæknilegum framförum. Þetta þekkjum við sjálfir, þegar við berum t.d. saman afkastaaukningu íslenzka fiskimannsins frá því um 1870 og þar til nú. Hvað er það annað en tæknifræðilegar framfarir og umbætur, sem valda því, að íslenzki fiskimaðurinn er nú, samkv. viðurkenndum atþjóðlegum skýrslum, hinn afkastamesti í heimi? Það skal fúslega viðurkennt af mér, að tæknifræðin sé vaxtarbroddurinn eða frumaflið, þegar um er að ræða þá möguleika til stóraukinnar þjóðarframleiðslu og með réttlátri tekjuskiptingu einnig til bættra lífskjara hins vinnandi manns.

Ekkert er sjálfsagðara en að forustumenn atvinnumála, sérstaklega í iðnaðinum, afli sér hins fultkomnasta tæknibúnaðar við rekstur sinn og beiti jafnframt fyllstu nútímaþekkingu við staðsetningu véla og hvað eina með það fyrir augum, að framleiðni þeirra verði sem mest. Því fer og fjarri, að verkalýðshreyfingin hafi nokkuð við það að athuga, þó að farið sé inn á nýjar brautir til hagfelldrar og vísindalegrar hagnýtingar vinnuaflsins, þó að því tilskildu, að þess sé ávallt gætt, að heilsa verkamannsins biði ekki hnekki við og að hann fái ávallt sína réttmætu hlutdeild í auknum afrakstri vinnunnar. Bæði tæknileg hagræðing og hagræðing vinnuafls verða að vera sameiginlegt verkefni atvinnurekenda og verkafólks, ef góðs árangurs skal vænta. Og víst væri það alrangt af verkamönnum að beita sér gegn bættum vinnubrögðum. Þeir eiga einmitt að vera virkir þátttakendur í vísindalegri teit eftir sífellt betri og fullkomnari vinnubrögðum í hverju starfi með betri starfsárangur að takmarki.

Er þá komið að vinnurannsóknum og framkvæmd þeirra. Á því sviði hygg ég, að miklu varði, að þær séu framkvæmdar á þann veg, að verkamanninum sé vel ljóst, að í framleiðslustarfinu gegni hann ekki aðeins hlutverki dauðrar vélar, sem ætlunin sé að hagnýta betur, heldur sé markmið rannsóknanna aukin hagsæld og heill atvinnurekenda og verkamanna sem jafnrétthárra aðila, er hvort tveggja stefni að sama marki, fullkomnari þjónustu beggja við þjóðfélagið. Vakni andúð eða tortryggni h já verkamönnum, eru slíkar rannsóknir lítt framkvæmanlegar og jafnvel verr af stað farið með þær en heima setið. Til þess að hjá slíku verði komizt, tel ég öfluga og víðtæka fræðslustarfsemi nauðsynlega, áður en hafizt sé handa um almennar vinnurannsóknir.“

Það var nákvæmlega þetta, sem frsm, till. vék hér að áðan og sagði, að hann teldi einnig, að það væri höfuðforsenda, að fræðslustarfsemi færi fram og samráð væri haft við verkafólkið, sem á vinnustaðnum er og á að taka þátt í rannsóknunum, því að annars gæti einmitt farið miklu verr en ekki. Við erum hárnákvæmlega sammála um þetta, og lét ég þetta í ljós á sumrinu 1961 og hef ekki breytt skoðun um það síðan. Þá sagði ég enn fremur, með leyfi hæstv. forseta:

„Að lokum vil ég segja það, að verkalýðshreyfingin hefur að sjálfsögðu enga fordóma gagnvart launagreiðslukerfum, sem sums staðar hafa rutt sér til rúms meira en hér og ýmsir hafa trú á að geti glætt hvöt verkamannsins til að afkasta meira verki. Hér er einkum um að ræða launagreiðslukerfi fyrir ákvæðisvinnu eða föst laun fyrir ákveðna verkeiningu og vinnuverðlaun fyrir umframafköst. Slík launagreiðslukerfi hafa vafalaust ýmsa kosti og henta vel við ýmis störf, t.d. í fjöldaframleiðslu. En ekki dylst mér heldur, að einnig þessi launagreiðslukerfi hafa ýmsa annmarka og verður auk þess tæplega við komið við ýmis störf. Þannig mun tímagreiðslufyrirkomulagið, sem hér hefur verið algengast, að mínu áliti síður en svo verða lagt til hliðar.“

Ég þarf víst ekki að gera nánari grein fyrir minni persónulegu afstöðu. Hún var látin þarna í ljós á sumrinu 1961 að viðstöddum fjölda atvinnurekenda, sem þá samkomu sátu. En þegar hnútukast er haft í frammi við forustu verkalýðshreyfingarinnar í heild, þá er a.m.k. hægt að afsanna það, að forusta Alþýðusambandsins á síðustu árum sé sönn að sök um það að vera með þrjózku eða stífni eða hafa ekki fullan vilja á að greiða fyrir vinnurannsóknum, heldur sé fús til að taka upp ný launagreiðslukerfi, ef því er að skipta, þó að því verði ekki neitað, að a.m.k. um alla verklega hagræðingu í atvinnufyrirtækjunum verði það að vera að frumkvæði atvinnurekandans, en ekki verkafólksins. Verkafólkið hefur engan rétt til þess að skipa vélum á annan hátt í verksal en atvinnurekandinn vilt vera láta. Það er því frumskilyrðið, að framkvæmdin verði á herðum atvinnurekendanna, og ég hygg, að það verði ekki sagt með neinum sanni, að þar sem atvinnurekandi hefur haft vilja til að framkvæma undirbúning að vinnurannsóknum og vinnuhagræðingu, hafi nokkurn tíma staðið á verkafólki eða samtökum þess.

Miðstjórn A.S.Í. taldi ástæðu til þess á s.l. ári að marka afstöðu sína til þessara mála og gerði það með ályktun, sem birt var á prenti nokkru síðar, og þar er örstuttur kaflí, sem fjallar um þetta, og vil ég — með leyti hæstv. forseta — lesa hann, það er afstaða til vinnurannsókna og hagræðingar í atvinnulífinu:

„Miðstjórnin lýsir sig fylgjandi því, að reyndar verði nýjar leiðir til hagfelldrar og vísindalegrar hagnýtingar vinnuafls og atvinnutækja, þó að því tilskildu, að á undan fari hlutlausar vinnurannsóknir, enda sé þess ávallt vandlega gætt, að heilsa verkamannsins bíði ekki hnekki við og verkamaðurinn hljóti ávallt sína réttmætu hlutdeild í auknum afrakstri vinnunnar. Miðstjórnin telur, að bæði tæknileg hagræðing í atvinnulífinu og hagræðing vinnuafls verði að vera sameiginlegt úrlausnarefni verkafólks og atvinnurekenda, til þess að af þeim megi vænta góðs árangurs.

Mestu máli skiptir að dómi miðstjórnar, að allar vinnurannsóknir séu framkvæmdar á þann veg, að verkamanninum sé vel ljóst, að í framleiðslustarfinu gegni hann ekki hlutverki dauðrar vélar, sem ætlunin sé að nýta betur, heldur sé markmið rannsóknanna aukin hagsæld og heill verkafólks og atvinnurekenda sem jafnrétthárra aðila, er hvorir tveggja stefni að sama marki, nefnilega fullkomnari þjónustu beggja við þjóðfélagið.“

Þetta er hin yfirlýsta stefna miðstjórnar A.S.Í. En þessi mál voru enn fremur tekin fyrir á síðasta Alþýðusambandsþingi, því að þetta eru mikilsverð mál að áliti íslenzkrar verkalýðshreyfingar og mikið verk þar að vinna, og þar var gerð ályktun um þessi mál. Þau atriði í ályktun um launamál, sem um þetta fjalla, vil ég — með leyfi hæstv. forseta — leyfa mér að lesa nú. Þessi atriði í ályktuninni eru svo hljóðandi:

„Nú er svo komið, að verkalýðshreyfingin stendur enn í þeim sporum, að henni er óhjákvæmilegt að leggja til nýrrar atlögu fyrir hækkuðum launum og bættum kjörum, enda hefur nú þegar fjöldi verkaláðsfélaga og þar með öll stærstu verkalýðsfélög landsins sagt upp samningum í þeim tilgangi. í þeirri kaupgjaldsbaráttu, sem nú er fram undan, telur þingið, að meginverkefnin séu þau, að laun samkv. samningum sambandsfélaganna verði samræmd og hækkuð og tryggilega frá því gengið, að sú hækkun, sem fram næst, verði varanleg og að raunverulegur vinnutími verði styttur án skerðingar heildartekna. Þingið telur, að á næstu tímum bert að beita öllum tiltækilegum ráðum til þess að tryggja árlegar, raunverulegar kjarabætur að leiðum réttlátari tekjuskiptingar og á grundvelli aukinnar þjóðarframleiðslu og vaxandi framleiðni. Því telur þingið rétt að fela væntanlegri miðstjórn sambandsins að leita fyrir sér við samtök atvinnurekenda um heildarsamninga um framkvæmd vinnurannsókna og vinnuhagræðingar, er hafi að markmiði aukna framleiðslu og auknar þjóðartekjur. Í slíkum samningum telur þingið nauðsynlegt, að tryggt verði, að verkalýðsfélögin ráði framkvæmdum þessara mála fyllilega til jafns við atvinnurekendur, og þess þannig stranglega gætt, að þær leiði ekki af sér aukið erfiði eða ofþjökun verkafólksins. Áður en slíkur samningur tekur gildi, skal miðstjórnin bera hann undir sambandsfélögin eftir þeim leiðum, sem hún telur henta.“

Hér tók Alþýðusambandsþing afstöðu á sama hátt og miðstjórnin hafði áður gert og ég hafði talað persónulega fyrir löngu um þessi mál. svo að ég finn ekki neinn úr forustuliði íslenzkrar verkalýðshreyfingar, sem hægt sé að saka með rétti og sönnu um það að hafa vafizt eða þvælzt fyrir þessum málum eða orðið atvinnurekendum til tafa í því að bæta vinnubrögð í atvinnurekstrinum og auka með þeim hætti þjóðartekjur.

Önnur ályktun var einnig gerð á síðasta Alþýðusambandsþingi, og hefur Stjórnunarfélag Íslands tekið þá ályktun til birtingar í riti, sem Stjórnunarfélagið hefur nálega gefið út: Sú ályktun er aðeins örfáar línur, en er svo hljóðandi, með leyft hæstv. forseta. — hún var gerð einróma á Alþýðusambandsþinginu í nóv. 1962:

„Þar sem greinilegt er, að fram undan er veruleg breyting á vinnutilhögun í þá átt, að upp verði tekin ákvæðisvinna byggð á vinnurannsóknum, leggur 28. þing A.S.Í. fyrir væntanlega miðstjórn að gera nauðsynlegar ráðstafanir til, að nægilega stór hópur manna, sem verkalýðshreyfingin getur treyst, verði sérmenntaður á sviði vinnurannsókna.“

Það var einmitt undir lok síns máls, sem frsm. till. lagði áherzlu á, að bað bæri til þess mikla nauðsyn, að verkalýðshreyfingin eignaðist sérfróða menn í þessum efnum, til þess að vera gagnaðilar gagnvart atvinnurekendum um undirbúning og framkvæmd þessara mála. Þarna hefur verið gerð um þetta ályktun, og hún er að verulegu leyti byggð á því, að í undirbúningsviðræðum, sem nefnd frá Alþýðusambandinu átti við ríkisstj. Íslands á tveimur síðustu árum, var einmitt að þessu vikið, hvað ríkisstj. segði um það að taka þátt í kostnaði, sem að því mundi leiða fyrir verkalýðshreyfinguna að eignast sérmenntaða menn á þessu sviði. Það er af þessum undirtektum ríkisstj. að segja, að forsrh. Ólafur Thors sagði, að þetta væri mjög athyglisvert og ríkisstjórnin skyldi sannarlega hugleiða það, hvort hún tæki ekki að sér einmitt fjárhagslegu hliðina á þessu máli, því að það væri trú ríkisstj., að þannig væri hægt að vinna mikið með því að taka upp ný launagreiðslukerfi og koma af stað hagræðingu og vinnurannsóknum í atvinnulífinu. Eftir þessu hefur svo verið leitað nokkrum sinnum, en enn þá ekki orðið mikið af efndum. En ég treysti því þó enn alveg fyllilega, að þegar kemur að því, að atvinnurekendur og verkalýðssamtökin velji menn til þess, hvort sem það verður með þeim hætti að senda þá erlendis á þær stofnanir, sem beztar eru á þessu sviði, til þess að sérmennta trúnaðarmenn fyrir atvinnurekendur og verkalýðssamtök, eða með því að fá erlenda sérfræðinga hingað heim til þess að annast kennslu á þessu sviði, þá trúi ég því og treysti því, að hinar góðu undirtektir hæstv. forsrh. í þessum mátum, sem verkalýðshreyfingin hóf umr. um við hann fyrir nálægt tveimur árum, verði efndar. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað. Og það með mörgu öðru sýnir það, að verkalýðshreyfingin hefur alls ekki verið sofandi eða áhugataus í þessu efni, heldur verið knýjandi afl í því að styðja að framkvæmd þessara mála, hvort sem hefur verið um vísindalega vinnuhagræðingu og vinnurannsóknir að ræða ellegar þá um ný launagreiðslukerfi, eins og t.d. aukna ákvæðisvinnu í atvinnulífinu. Þess vegna lýk ég máli mínu með því að segja, að það gleður mig, að þessi till. er komin fram, því að hún er stuðningur við þau mál, sem verkalýðshreyfingin á Íslandi hefur unnið að og vitjað fá hraðari framkvæmd á en hægt hefur verið til þessa. Ég mun því lýsa eindreginni afstöðu fyrir mitt leyti, og veit, að ég geri það einnig fyrir hönd A.S.Í., er ég mæli fastlega með samþykkt þessarar till. og vona, að framkvæmd fylgi.