19.04.1963
Sameinað þing: 51. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í D-deild Alþingistíðinda. (2767)

135. mál, námskeið í vinnuhagræðingu

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft till. þessa til meðferðar og athugunar, sent hana til umsagnar nokkurra aðila, sem allir senda jákvæða umsögn og mæla með samþykkt hennar. Það gerir allshn. einnig, en þó með þeirri breytingu, að till. verði um slík fræðslunámskeið, ekki aðeins fyrir trúnaðarmenn verkalýðsfélaga, heldur og vinnuveitenda, og fyrirsögn orðist í samræmi við það. N. telur, að það sé ekki síður þörf að kynna þeim aðilunum þessi mál, og þar fyrir utan sé aus ekki rétt, að ef þessi stofnun geti orðið við því, sem ályktun þessi segir, og stofnað til slíkra fræðslunámskeiða, þá sé ekki rétt, að þessi aðili eigi ekki jafnframt kost á því að senda sína trúnaðarmenn til þátttöku í þeim.

Það væri vissulega full ástæða til þess að ræða mál þetta nánar en hér verður gert, en vegna þess tímaskorts, sem er orðinn í störfum þingsins, mun ég ekki gera það, nema ástæða gefist til, bendi hins vegar á þá ýtarlegu umsögn, sem Iðnaðarmálastofnunin sendi til n. og ég hef leyft mér að láta prenta með sem fskj., en þar er einmitt bent á þær aðgerðir, sem þyrftu að eiga sér stað í þessum málum, helzt sem fyrst að sjálfsögðu, og getið þeirra aðalatriða, sem þyrfti að beita sér að. Ég vil benda hv. þm. á það, að í þessari umsögn getur framkvstj. Iðnaðarmátastofnunarinnar um mjög ýtarlega áætlun, sem hann framkvæmdi að ósk félmrh., sem aftur var að till. hinnar svokölluðu vinnutímanefndar. Sú heildaráætlun er í athugun hjá ríkisstj., en efni þeirrar till., sem hér liggur fyrir, er aðeins lítill þáttur, lítið brot af þessum málum í heild. Ég leyfi mér að mæla með því fyrir hönd allshn., að hv. Sþ. samþykki þessa till.