03.04.1963
Sameinað þing: 44. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í D-deild Alþingistíðinda. (2798)

201. mál, stöðvun á fólksflótta úr Vestfjarðakjördæmi

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 3. þm. Vestf. að flytja á þskj. 402 svo hljóðandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að fela Framkvæmdabanka Íslands að semja fimm ára framkvæmdaáætlun í samráði við stjórn atvinnubótasjóðs til stöðvunar á fólksflóttanum úr Vestfjarðakjördæmi. Einkum skal miða áætlunina við það, að framkvæmdirnar verði liður í uppbyggingu þeirra staða, sem fólksfækkunin gerir illkleift að halda í byggð, þótt öll skilyrði séu þar til góðra lífskjara, ef búið væri að þeim á borð við aðra staði. Skal áætluninni lokið fyrir lok þessa árs og hún þá lögð fyrir Alþingi ásamt till. um fjáröflun.

Ég leyfi mér að vísa til hinnar ýtarlegu grg., sem gerð er fyrir tíu., svo og til fskj., sem með henni fylgir, en þar koma fram raunhæfar tölur um fólksfækkun þá, sem orðið hefur í Vestfjarðakjördæmi síðan árið 1912. Mér þykir þó rétt að bæta hér við, að öll fólksfækkunin hefur raunverulega átt sér stað á síðustu 25 árunum. Íbúatala héraðsins var árið 1927 auk 13213 íbúar og hafði þá fjölgað um 93 íbúa síðan 1912. Í árslok 1962 er íbúatalan komin niður í 10534 íbúa, eða 2679 íbúum færra en 1927, en það svarar til, að fimmti hver maður hafi flutt úr héraðinu á þessu tímabili auk eðlilegrar fjölgunar vegna fæðinga.

Hér er um svo alvarlega fólksfækkun að ræða á aðeins 25 ára tímabili, að óhjákvæmilegt er að gera skyndilega jákvæðar aðgerðir til þess að stöðva þennan flótta úr héraðinu, ef ekki á að verða af því stórtjón fyrir þjóðina, einkum þegar það er vitað, að einmitt þetta hérað veitir fólki því, sem þar býr, meiri tekjur en margir aðrir staðir á landinu og býr yfir auðlindum, sem mörgum þætti mikill fengur í að eiga, auk þess sem það fólk, sem býr þar, framleiðir útflutningsverðmæti á hvern íbúa fyrir tveimur og hálfum sinnum meira en meðalútflutningurinn á íbúa í öllu landinu. Má segja, að hér vinni hver hönd að því að skapa erlendan gjaldeyri fyrir þjóðina, en það er landinu höfuðskilyrði að verði gert í vaxandi mæli í framtíðinni.

Það þykir jafnan hið mesta áfall, er land, hérað eða sveitir missa stóran hóp íbúa sinna, hvort heldur það stafar af harðæri, dauðsföllum, slysum eða öðrum óviðráðanlegum orsökum. Eru þá jafnan margir fúsir til þess að ljá þeim lið, er eftir sitja, til þess að bæta tjónið og rétta við hag þeirra, ekki einasta einstaklingarnir, ættmenn og vinir, heldur og félagsheildir og ekki hvað sízt opinberir aðilar, sem nauðsynlegt þykir að stuðla að því, að héraðið eða hluti þess fari ekki í auðn vegna slíkra óviðráðanlegra áfalla, sem yfir hafa dunið.

Hér stafar fólksfækkunin að vísu ekki af dauðsföllum umfram það, sem eðlilegt er, eigi heldur af harðærum, heldur hinu, að fólkið leitar frá erfiðari baráttu til léttari viðfangsefna, frá fámenni í fjölbýli, frá alvöru í glaum, frá myrkri og kulda í Ljós og yl. Sýnir reynslan daglega, að jafnvel hæstu tekjur manna stöðva ekki flótta til fjölbýlisins, beinlínis vegna þess að því eru ekki búin viðhlítandi skilyrði til þess að notfæra sér tækni hins nýja tíma. Hér flýtur margur maður með sárnauðugur, hrópar á hjálp um að vera stöðvaður á flóttanum og fær ekki þá áheyrn, sem dugir. Fólk, sem fætt er við rætur fjalianna, inn til dala eða út við strönd og hefur barizt þar sinni baráttu, lifað þar langa eða skamma ævi í fangbrögðum við öfl náttúrunnar, átt þar sína sigra og sína gleði, lifað þar sína ósigra og þolað sínar raunir og sorgir, sem þó skapaði manndóm og margvísleg andleg verðmæti, sem aldrei verða keypt fyrir fé eða aflað í hringiðu glaums, flytur ekki allt af fúsum vilja frá þeim minningum, sem það hefur átt. Og flest skilur það fólk eftir eitthvað meira eða minna af sjálfu sér. Það reynir að samlagast aftur þeim hlutanum atund og stund á hverju sumri, þegar allt er í skrúða eða það á þess kost að komast þangað og lifa þá upp aftur gamlar minningar. En eftir því sem æskustöðvarnar verða meira og meira vanræktar, eftir því sem auðnin heltekur þær meira og meira, því fleiri strengir slitna, unz öll böndin eru brostin, nema síðasti þátturinn, sá þátturinn, sem bindur leifarnar við 6 feta langa hvílu í kærri mold heimasveitarinnar, moldinni, sem var þeim allt, á meðan það var og stritaði, og ávallt átti hug þess og hjarta, þótt það neyddist til þess að yfirgefa hana fyrir rás viðburðanna.

Búskaparhættir þjóðarinnar hafa breytzt svo stórkostlega og svo ört, að menn hafa ekki gefið sér tóm til að íhuga, hvert við í raun og veru stefnum. Enn síður hafa ráðamenn þjóðarinnar gert sér ljóst, að þeir eiga að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja það, að þjóðarsálin bíði eigi alvarlegt tjón af völdum hinnar ört vaxandi velmegunar, sem þjóðinni fellur í skaut frá ári til árs. Flóttanum, sem velmegunin hefur valdið, frá strjálbýlinu til fjötbýlisins, þar sem uppgripin eru meiri og skjótari, má líkja við flótta fólksins á sínum tíma til Kanada, þegar allar þjóðir kepptust um það að komast þangað, njóta þar þeirra lífsgæða, sem þar voru á boðstólum í miklu stærri mæli en heimalöndin gátu veitt. Skal ekki hér dregin mynd af þeirri baráttu, sem þar var háð, þar sem einn hlaut mikinn sigur, en aðrir og þeir miklu fleiri hlutu mikið erfiði og marga ósigra, en aðeins bent á, að nú, þegar flest lönd í Evrópu bæta kjör sín, svo að þau hafa aldrei verið betri, herja atvinnuleysi og erfiðleikar Kanada, svo að þar á nú enginn minni erfiðleika en forðum var í þeim löndum, sem fólkið flúði frá. Er vert að gefa því gaum í tíma, hvort ekki gæti svo farið hér, að hyggilegt væri að halda opnum dyrunum til þeirra staða hérlendis, sem fólkið er að flýja frá, svo að þar væri enn byggilegt, ef svo þrengdist um á þeim stöðum, sem fólkið flýr til, að til þess kynni að koma, að þaðan þyrfti fólkið aftur að leita.

Á flestum þeim stöðum, sem fólkið flýr frá úr Vestfjarðakjördæmi, er einangrunin höfuðástæðan. Samgönguerfiðleikarnir, sem að vísu á síðari tímum hafa mikið minnkað að sumrinu til, en lama allt framtak að vetri til, eiga veigamikinn þátt í því, að fólkið hefur flúið úr sveitunum, venjulega fyrst í aðliggjandi þorp og kaupstaði, en síðan í fjölbýlið, annaðhvort við Faxaflóa eða annars staðar, enda fundið, að rétt var, að úr því að allar rætur þurfti að rifa upp, þá var þó skást að hefja hina nýju baráttu á hinum breiðasta velli atvinnu og viðskipta. Vegna örðugra samgangna á sjó, landi og í lofti urðu íbúar þessara héraða á eftir með endurbætur á býlum sínum, bæði húsabætur og jarðabætur. Og alltaf féll það í þeirra hlut að byggja upp á dýrari tímum en hinir, sem betur voru settir með samgöngur, og nú, þegar nýir tímar eru í jarðabótum og húsagerð, eru þeir margfalt verr staddir með að koma frá sér á markaðinn aukinni framleiðslu og til sín auknum flutningum, sem framleiðslunni eru nauðsynlegir. Þar sem um er að ræða jarðir, er hlunnindi eiga að sjó að sækja, en sjávargötur örðugar og útfiri mikið, en fólkið takmarkað, notast ekki gæðin nema að sáralitlu leyti, vegna þess að þeir hafa ekki átt þess neinn kost að nota sér tæknina til þess að létta störfin.

Í þessum veigamiklu þáttum í lífsbaráttu vestfirzkra íbúa gátu stjórnarvöldin aðstoðað, svo að dugað hefði, og verða að aðstoða, ef þessir staðir eiga ekki að verða auðninni að bráð meira en orðið er, en það væri Vestfjarðabyggðinni og öllu landinu ómetanlegt tjón.

Annar veigamikill þáttur í baráttu fólksins, sem þar býr, er myrkrið og kuldinn. Eins og nú er háttað atvinnurekstri í landinu og eftirspurn eftir vinnuafli, er óhugsandi, að fólk fái unað við þau skilyrði að taka upp mó til eldsneytis, svo sem gert var áður fyrr, eða flytja kol um langan veg og verða að reiða þau annaðhvort á hestum eða sínu eigin baki heim til bæjar, oft um langan og erfiðan veg. Fólkið breytir ekki heldur nú á dögum áburði dýra í eldsneyti, svo sem áður var almennt. Þetta fólk sættir sig ekki heldur við lélega lýsingu frá olíulömpum, þegar það sér í kringum sig ljóma hinna akæru rafljósa. Svo lengi sem því er ekki hjálpað, svo að dugi, til þess að öðlast þau lífsþægindi, sem raforkan veitir, er það dæmt til þess annars tveggja að yfirgefa byggðina eða búa við miklu harðari kost en aðrir íbúar landsins. Við, sem í fjölbýlinu búum, heyrum allt of oft þær raddir, að það sé heppilegast að púkka ekkert upp á þetta fólk, sem býr í strjálbýlinu við erfið kjör, það sé betra fyrir landið og ríkissjóðinn að greiða þeim jarðarverðið, láta þá fylgja straumnum til þéttbýlisins, þar sem nóga vinnu er að fá og lífskjör öll betri, en kosta upp á vegi, brýr, rafmagn og síma, til þess að halda þeim í strjálbýlinu, með nýrri tækni og nýjum möguleikum geti Suðurlandið hæglega framfleytt miklu fleiri íbúum en nú eru í öllu landinu, með nýrri skipulagningu í atvinnurekstri megi spara hundruð millj. með því að færa byggðina saman í stað þess að dreifa henni um allt land, eins og gert hefur verið frá landnámstíð.

Það er mjög illa farið, ef þessi stefna yrði ráðandi í framtíðinni, en á því er einmitt meiri hætta en menn yfirleitt gera sér ljóst. og stjórnarvöld allra síðari ára hafa ekki verið hér á verði sem skyldi. Máli mínu til stuðnings, að hér sé um óæskilega þróun að ræða, skal ég aðeins benda á örfá atriði:

1) Flestir þeir menn hér á landi, sem hæst gnæfa í listum og vísindum, hafa fæðzt og alizt upp út við strönd og inn til dala. Þar hefur neistinn í sál þeirra kviknað og andinn þroskazt í faðmi hinnar íslenzku náttúru. Flestir afburðamenn í iðnaði, útvegi, viðskiptum, verzlun og landsmálum hafa stigið sín fyrstu spor utan þéttbýlisins eða í æsku notið í ríkum mæli þeirrar orku og þess víðsýnis, sem börn og unglingar teyga í sig við brjóst íslenzkrar náttúru. Og því er það, að fólkið í borgum og bæjum, sem sjálft þekkir þá nauðsyn, að unglingarnir fái notið þeirra uppeldisáhrifa, sem strjálbýlið býr yfir í svo ríkum mæli, keppist um að senda þangað börn sín að sumarlagi. En því stærri sem sá hópur verður, sem senda þarf, og því færri sem geta tekið á móti, því minni möguleikar eru til þess að uppfylla eftirspurnina, unz leiðin er að síðustu fullkomlega lokuð.

2) Fyrir hvert býli, sem lagt er í eyði, er tugum og hundruðum þúsunda kastað á glæ. Hús og lönd eru látin grotna niður og verða eyðileggingunni að bráð. Sama gildir um vegi, brýr og símalínur, engu þessu er lengur við haldið. Samtímis er fjárfest fyrir milljónir í nýjum mannvirkjum til þess að geta tekið á móti fólkinu í þéttbýlinu og veitt því þar þá þjónustu, sem því er nauðsynleg. Þarf ekki að eyða mörgum orðum, hversu skynsamlegra það væri að nota það vinnuafl, sem til þess fer, til þess að afla útflutningsverðmæta á þeim stöðum, þar sem aðstaða til þess er hin ákjósanlegasta, svo sem í Vestfjarðakjördæmi, eins og ég hef áður tekið fram.

3) Sívaxandi og óeðlilegur fólksflutningur á einstaka stað í landinu hefur að jafnaði í för með sér margvíslega erfiðleika, ekki hvað sízt í sambandi við heilbrigðis- og félagsmál. Eftir því sem sá vandi vex, því fleiri menn eru teknir frá framleiðslunni til þess að vinna að umbótum á því sviði. Það dregur aftur á móti úr öflun erlends gjaldeyris, samtímis því sem það kallar á sívaxandi innflutning á neyzluvörum fyrir þetta sama fólk. Allt miðar því að sama marki, að frá þjóðfræðilegu sjónarmiði er það hvort tveggja í senn óhagstætt og óhollt að stöðva ekki óeðlilegan fólksflótta frá landsbyggðinni í þéttbýlið.

Ég gæti dregið hér upp skýra mynd af ástandi í hverjum einasta hreppi í Vestfjarðakjördæmi og bent á orsakir þær, sem valdið hafa flóttanum, og sýnt fram á, á hvern hátt gerlegt væri að stöðva hann. En með því að svo er langt liðið á þingtímann, en mér hins vegar áhugamál að koma þáltill, til n. og fá hana síðan samþykkta, áður en þingi lýkur, þykir mér ekki rétt að tefja tíma þingsins til þess að lýsa því í einstökum atriðum. Verði þáltill. samþykkt, gefst tilefni til þess að koma þeirri vitneskju til réttra aðila. Læt ég því nægja á þessu stigi málsins að vísa til þess, sem ég hef þegar sagt, og til grg. ásamt fskj. og vænti þess, að hv. alþm. séu mér sammála um, að hér sé um svo alvarlegt mál að ræða, að það megi ekki skjóta því á Prest að rannsaka, hvað unnt sé að gera til þess að bæta úr þeim vanda, sem hér steðjar að.

Ég vil, hæstv. forseti, óska þess, að þessari umr. verði frestað og að málinu verði vísað til hv. allshn.