16.11.1962
Efri deild: 17. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í B-deild Alþingistíðinda. (28)

99. mál, framkvæmdalán

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að þakka hv. 3. þm. Norðurl. v. fyrir góðar undirtektir undir þetta mál. Eins og ég impraði á í framsöguræðu minni, taldi ég ekki óeðlilegt, að óskir kæmu fram um það hjá þm., að sett yrðu nákvæmari ákvæði inn í frv. um ráðstöfun þessa fjár. Ég gerði grein fyrir því, hverjir örðugleikar hefðu verið þar á vegi, en hins vegar aðkallandi að fá frv. samþykkt. Ég vil taka það fram, að ég er reiðubúinn til að athuga það í samráði við þá nefnd, sem fær málið til meðferðar, að hve miklu leyti er hægt að ganga til móts við óskir hv. þm. í þessu efni.

Varðandi aths., sem fram hafa komið, vildi ég aðeins rekja þær.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. minntist á framkvæmdaáætlunina, litið hefði verið á hana minnzt nú að undanförnu. Um framkvæmdaáætlunina er það að segja, að Efnahagsstofnunin nýja vinnur að henni, og er þegar búið að leggja í hana mikla vinnu. Eins og kunnugt er, voru fengnir bæði innlendir og erlendir sérfræðingar til þess að undirbúa hana, og var að því unnið á árunum 1961–1962. Síðan vinnur Efnahagsstofnunin nýja að framkvæmdaáætluninni, og það verk liggur engan veginn niðri, heldur er það í fullum gangi.

Þá var því haldið fram, að þegar lántökuheimildir hefðu verið samþykktar á Alþingi, mundi oftast eða jafnvel ætíð hafa verið ákveðið í lögum, til hverra framkvæmda lánin skyldu ganga og hve há upphæð til hvers. Þetta hefur verið sitt á hvað í meðförum Alþingis, og ýmsar lántökuheimildir hafa verið samþykktar án þess, að nokkur ákvæði væru um það, til hvers skyldi nota féð. Ef við tökum t.d. vörukaupalánin bandarísku, sem hafa numið allmiklu fé samtals, frá því að þau hófust, svo að skiptir hundruðum milljóna væntanlega frá byrjun, þá mun í heimildum til þeirrar lántöku ekki hafa verið neitt um það greint, til hvers ætti að nota þá peninga, heldur lagt á vald ríkisstj. algerlega. Varðandi 6 millj. dollara lán frá bandarísku stofnuninni ICA, sem samþ. var í 22. gr. fjárl. fyrir árið 1959, þá var að vísu tekið fram í nokkrum liðum, hvernig ætti að verja 98 millj. þess láns. Þó var það í almennum orðum þannig, að það var tekið fram, að til hafnargerða skyldi varið þessari og þessari upphæð, hins vegar ekki sundurliðað til hverra hafna eða hvað hver hafnargerð skyldi fá mikið o.s.frv. Þetta ákvæði um ráðstöfun á þessu ICA-láni var sett af sérstöku tilefni, vegna þess að þá sat hér minnihlutastjórn Alþfl. að völdum, og var talið rétt vegna þess, að Alþingi ákvæði sjálft um skiptingu fjárins. Þó var því láni ekki að hálfu Alþingis ráðstafað nema að hálfu leyti, því að samtals mun það lán hafa numið í íslenzkum krónum nær 200 millj. kr., og það voru sem sagt aðeins 98 millj., sem Alþingi ráðstafaði sjálft þannig í stórum dráttum, en ekki í einstökum atriðum, en að öðru leyti ráðstafaði ríkisstj. láninu. Hitt er svo hárrétt hjá hv. 3. þm. Norðurl. v., að oftlega hefur verið ákveðið í lögum um lántökuheimildir, til hvers skyldi nota féð. En því fer fjarri, að það hafi verið almenn regla eða undantekningalaus.

Hv. þm. minntist á, að vextir væru nokkuð háir af þessu láni, þar sem ég gerði ráð fyrir, að vextirnir mundu verða 61/2 %. Ég geri ráð fyrir, að eftir því sem almennt er og algengast nú á hinum brezka lánamarkaði, muni þetta þykja nokkuð venjulegir og viðunandi vextir.

Hv. 5. þm. Reykn. hafði nokkrar aths. að gera við frv., og var sú fyrst, að hér bæri nýtt við, þar sem farið væri inn á brezkan lánamarkað, í stað þess að Ísland hefði haldið sig að hinum bandaríska lánamarkaði, og virtist mér liggja nærri, að hv. þm. fyrtist við að menn ríghaldi sér ekki í Ameríku og geti hugsað sér lántöku annars staðar, og vil ég segja að þá ber nokkuð nýtt við frá þeim hv. þm. Ég tel þvert á móti, að það sé æskilegt að reyna að opna í fleiri löndum möguleika fyrir lántökur Íslendinga.

Þá þótti honum kynlega við bregða, að Seðlabankinn hefði haft milligöngu um þetta mál, en ekki Framkvæmdabankinn. Því er til að svara, að í lögum um Seðlabanka Íslands frá s.l. ári, 1961, segir svo í 20. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Seðlabankinn skal vera ríkisstj. til ráðuneytis um allt, er varðar gjaldeyrismál, þ. á m. erlendar lántökur, og taka að sér framkvæmd í þeim efnum, eftir því sem um verður samið.“

Hér er sem sagt ákveðið í lögum um Seðlabankann, að hann skal vera ríkisstj. til ráðuneytis um erlendar lántökur, og er því ekki óeðlilegt, að ríkisstj. leitaði til hans um þetta mál.

Þá þótti hv. þm. það undarlegt, hversu skammur tími Alþingi væri ætlaður til meðferðar þessa máls, og spurði, hvort væri búið þegar að semja um þetta mál, áður en til Alþingis væri leitað. Því er til að svara, að svo er að sjálfsögðu ekki, enda hefur ríkisstj. ekki heimild til þess. En í þessum orðum hv, þm. virðist kenna nokkurs ókunnugleika á því, hver eru eðlileg og óhjákvæmileg vinnubrögð í slíkum efnum. Þegar ríkisstj. hefur hug á því að útvega erlent lán til framkvæmda, eru að sjálfsögðu ekki rétt þau vinnubrögð að fara fyrst til Alþingis og fá heimild til þess að taka lán, áður en nokkuð er búið að kanna, hvort eða hvar sé hægt að útvega slík lán. Vitanlega verður fyrsta sporið að verða það, að ríkisstj. — og þá eins og í þessu tilfelli með atbeina Seðlabankans — kannar, hvort möguleikar séu á slíkum lántökum. Þegar þeim umleitunum er svo langt komið, að það er sýnt, að hægt er að fá slíkt lán, þó er næsta sporið að sjálfsögðu að skýra Alþingi frá því og leggja fyrir það frv. um heimild til slíkrar lántöku. Ég sé ekki, að neitt sé við þessi vinnubrögð að athuga, heldur séu þau hin einu vinnubrögð, sem hægt er að viðhafa í slíkum málum. Ástæðan til þess, að svo stuttur frestur er í þessu efni, ein vika, eins og ég gat um, er sú, að ætlunin er að bjóða þetta lán út í næsta mánuði eða í desembermánuði. Til þess að sú tímaáætlun, sem gerð hefur verið í þessu efni, geti staðizt, þarf Alþingi að hafa afgreitt heimildarlögin 23. nóv. í síðasta lagi. Ef það tækist ekki, mundi það þýða, að þessi lánsútboð yrðu að frestast fram á næsta ár. Að athuguðu máli höfum við talið réttara að fara í þessa lántöku nú þegar. Við vitum, að mikil breyting er oft og tíðum á lánamarkaði, ekki aðeins varðandi vexti og lánstíma, heldur yfirleitt möguleikana á því að fá lán. Það þarf að sjálfsögðu ekki marga atburði eins og þá, sem gerðust hér nýlega í sambandi við deilurnar um Kúbu, til þess að kippa grundvelli undan slíkum möguleikum. Ríkisstj. telur, án þess að hún sé á nokkurn hátt að spá nokkrum erfiðleikum og átökum á næstunni, og vonar í lengstu lög, að til engra slíkra alvarlegra hluta komi, þá telur hún að athuguðu máli rétt að nota þá möguleika, sem nú eru fyrir hendi, og fá heimild Alþingis til að taka þetta lán og bjóða það út í desembermánuði. Sú er ástæðan til þess hraða, sem hér er á hafður.