23.10.1962
Sameinað þing: 5. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

1. mál, fjárlög 1963

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Frv. til fjárlaga fyrir árið 1963 liggur hér fyrir til 1. umr. Rétt er að gera fyrst grein fyrir afkomu ríkissjóðs á s.l. ári.

Þegar ríkisbókhaldið hefur lokið uppgjöri ríkisreiknings, en það var nú á öndverðu sumri, fara yfirskoðunarmenn Alþingis yfir reikninginn og gera athugasemdir sínar. Af hálfu fjmrn. eru samin svör og skýringar í sambandi við þær aths., og að því loknu gera yfirskoðunarmenn tillögur um, hvernig með skuli fara. Reikningurinn er síðan prentaður með aths., svörum og tillögum, og samkv. stjórnarskránni ber að leggja frv. til laga um samþykkt á ríkisreikningnum fyrir Alþingi. Þessu er nú lokið, og var frv. til l. um samþykkt á ríkisreikningnum fyrir 1961 lagt fyrir Ed. Alþingis í gær, tekið þar fyrir til 1. umr. og vísað til 2. umr. og fjhn. Mun það vera í fyrsta sinn, sem fullgerður reikningur fyrir næstliðið ár ásamt frv. um samþykkt á honum er lagt fyrir Alþingi, áður en 1. umr. fjárlaga fer fram.

Yfirskoðunarmenn gera að þessu sinni 28 aths. við ríkisreikninginn, og er það með fæsta móti. Till. þeirra, að svörum fengnum, hafa samkv. venju verið ýmist á þá leið, að þeir telja aths. fullnægt með svarinu eða málið sé upplýst, eða þeir telja, að svo búið megi standa, að aths. sé til athugunar eða eftirbreytni framvegis, og loks, að þeir vísa málinu til aðgerða Alþingis, ef þeim þykir sérstök ástæða til. í þetta sinn var ekkert atriði, sem yfirskoðunarmenn töldu ástæðu til að vísa til aðgerða Alþingis.

Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni, að breyta þurfi þeirri venju, sem hér hafði tíðkazt um langan aldur um endanlega samþykkt ríkisreikninga á Alþingi, að þeir væru ekki lagðir fyrir Alþingi til samþykktar, fyrr en þeir eru orðnir 2–4 ára gamlir. En þessi ósiður hafði viðgengizt lengi. Nú hefur þessu verið breytt. Ríkisreikningar fyrir árin 1959, 1960 og nú fyrir 1961 hafa verið lagðir fyrir Alþingi til samþykktar strax á næsta ári eftir reikningslok. Var að því stefnt varðandi hina tvo fyrri reikninga, að unnt væri að afgreiða þá endanlega á Alþingi fyrir áramót, en sú regla þarf að komast á. En stjórnarandstæðingar lögðu á það mikið kapp, bæði á þingi 1960 og 1961, að koma í veg fyrir, að þessi umbót kæmist í framkvæmd, og tókst að tefja málið í bæði skiptin. En allt er þegar þrennt er, og nú er hin þriðja tilraun gerð til þess að fá ríkisreikninginn endanlega samþykktan fyrir áramót, og vænti ég þess fastlega, að hv. stjórnarandstæðingar láti sér nægja þá gleði að hafa tafið þessa umbót í 2 ár og allir hv. alþm. telji nú tímabært að koma á þessari sjálfsögðu reglusemi í ríkisbúskapnum.

Skal nú gefið hér yfirlit um afkomu ríkissjóðs á árinu 1961. Tekjur ríkissjóðs voru áætlaðar í fjárlögum 1589 millj. kr., en urðu 1672 millj. og fóru þannig 83 millj. fram úr áætlun. Liggja til þess aðallega tvær ástæður. Tekju- og eignarskattur .fór verulega fram úr áætlun. Það stafar einkum af réttari framtölum, sem eiga rót sina að rekja til umbóta á skatta- og útsvarslögum. Og tekjur ríkissjóðs af innflutningi, sem miðast við hundraðstölu af verðmæti innfluttra vara, urðu meiri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Á hinn bóginn urðu tekjur af rekstri ríkisstofnana, en þar er Afengis- og tóbaksverzlun ríkisins stærsti liðurinn — um 19 millj. minni en fjárlög áætluðu.

Útgjöld ríkisins eru í fjárlögum greind sundur í rekstrarútgjöld samkv. 7.–19. gr. og eignahreyfingar samkv. 20. gr.

Rekstrarútgjöldin, sem voru áætluð 1476.4 millj., reyndust 1509.8 millj., eða 33.4 millj. umfram áætlun. Nemur það um 2.3%. Til samanburðar má geta þess, að á árunum 1946 -1958 voru umframgreiðslur á rekstrarreikningi að meðaltali tæplega 11%. Arið 1959 urðu þær 0.8%. 1960 urðu rekstrargjöldin lægri en fjárlög gerðu ráð fyrir, eða 3.7% undir áætlun. Þessar umframgreiðslur árið 1961 stafa einkum af hækkuðu kaupgjaldi á miðju ári og gengisbreytingunni, sem kom í kjölfar þeirra. Launahækkun opinberra starfsmanna um 13.8% frá 1. júlí 1961 mun hafa valdið um 25 millj. kr. hækkun ríkisútgjaldanna á árinu og gengisbreytingin sjálf um 10 millj. kr. hækkun. — Þetta voru rekstrargjöldin.

Útgjöldin samkv. 20. gr. fjárlaga voru áætluð 111.9 millj., en urðu 77.1 millj. eða 34.8 millj. undir áætlun. Flestir liðir 20. gr. fylgdu áætlun, en vegna stofnunar ríkisábyrgðasjóðs samkv. lögum frá síðasta Alþingi þurfi ekki að greiða úr ríkissjóði 38 millj. kr., sem áætlað hafði verið í 20. gr. fjárlaga, vegna áfallinna ríkisábyrgða. Í ríkisábyrgðasjóðinn var ákveðið að rynni verulegur hluti af gengishagnaði útflutningsbirgða í ágúst 1961.

Heildarútgjöld ríkissjóðs samkv. fjárlögum, þ.e. bæði rekstrargjöld og útgjöld samkv. 20. gr. fjárlaga, voru áætluð rúmar 1588 millj., urðu tæpar 1587 millj., eða rúmlega 1 millj. undir áætlun.

Þar sem ríkisreikningurinn og frv. um samþykkt á honum liggur nú fyrir Alþingi, get ég verið stuttorðari en ella um einstök atriði hans. Auk tekna og gjalda samkv. fjárlagaliðum eru ýmsar útborganir og innborganir hjá ríkissjóði, sem hafa áhrif á greiðslujöfnuðinn. Eru það einkum breytingar geymslufjár, veitt lán, aukið rekstrarfé ríkisstofnana, fyrirframgreiðslur vegna fjárlaga næsta árs o.fl.

Þegar finna skal greiðslujöfnuð ríkissjóðs, þ.e.a.s. greiðsluafgang hans eða halla, hafa fleiri reglur en ein verið viðhafðar. í ríkisreikningnum fyrir 1961 hefur nú eins og 1960 verið tekin upp grg. um greiðslujöfnuðinn, en slíka grg. hefur ekki verið að finna áður í ríkisreikningum. Í þeim skýringum kemur það m, a. fram, að sú aðferð, sem ríkisbókhaldið hefur haft, er nokkuð frábrugðin þeim reglum, sem Seðlabanki Íslands notar. Þessi munur liggur m.a. í því, hvernig telja skuli breytingar á geymslufé, fyrningar o.fl. Samkv. aðferð ríkisbókhaldsins varð greiðsluafgangur ríkissjóðs árið 1961 um 57 millj. kr. Seðlabanki Íslands hefur um nokkurra ára skeið notað aðra reikningsaðferð við ákvörðun greiðslujafnaðar ríkissjóðs, og hefur það komið fram í tímariti bankans, Fjármálatíðindum. Seðlabankinn notar hér svipaða aðferð og ýmsar alþjóðlegar fjármálastofnanir, svo sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Alþjóðabankinn og Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, OECD. Í stuttu máli er hún fólgin í því, að reiknuð er sú breyting, sem orðið hefur á árinu á sjóði, bankainnstæðum og lausaskuldum ríkissjóðs. Ef breytingin á þessu þrennu samanlagt er jákvæð, hefur orðið greiðsluafgangur, sem því nemur, ef hún er neikvæð, er greiðsluhalli. Samkv. þessum reglum, sem nú hafa hlotið allalmenna viðurkenningu, var greiðsluafgangur ríkissjóðs á árinu 1961 72.4 millj. Þessi regla Seðlabankans og alþjóðlegra fjármálastofnana er einföld í notkun, gefur glögga mynd af afkomu ríkissjóðs og gerir auðvelt að átta sig á áhrifum afkomu ríkissjóðs á efnahagslífið. Til fróðleiks skal hér getið um greiðslujöfnuð ríkissjóðs árið 1950 og síðan samkv. þessari aðferð Seðlabanka Íslands.

1950 var greiðsluafgangur 23.9 millj. 1951 var greiðsluhalli 9.1 millj., 1952 greiðsluhalli

38 millj., 1953 greiðsluafgangur 7.2 millj., 1954 greiðsluafgangur 15.5 millj., 1955 greiðsluhalli 5 millj., 1956 greiðsluhalli 28.4 millj., árið 1957 greiðsluhalli 36.8 millj., árið 1958 greiðsluafgangur 52.7 millj., árið 1959 greiðsluafgangur 13.2 millj., árið 1960 greiðsluafgangur 35.4 millj. og árið 1961 greiðsluafgangur 72.4 millj. Þetta eru tölurnar samkv. þeim reglum, sem Seðlabankinn og alþjóðlegar fjármálastofnanir nota.

Nú munu menn spyrja: Þarf að ríkja einhver óvissa um það, hvernig reikna skuli raunverulega afkomu ríkissjóðs á hverju ári? Er ekki hægt að setja um það fastar reglur og skapa samræmi frá ári íil árs? Svarið er, að að þessu er einmitt unnið. Nú hefur á annað ár verið undirbúin ný löggjöf um ríkisbókhald og endurskoðun. Er gert ráð fyrir verulegri breytingu á gerð fjárlaga og ríkisreiknings til þess að fá glögga mynd af afkomu ríkissjóðs og gott samræmi milli fjárlaga og ríkisreiknings. En eins og hv. alþm. er kunnugt, skortir mjög á, að svo sé nú. Oft er örðugt um samanburð á fjárlögum, ríkisreikningi og frv. til laga um samþykkt á honum. Með undirbúningi þessarar nýju löggjafar er m.a. að því stefnt að fá slegið fastri reglu um það, hvernig reikna skuli greiðslujöfnuð, greiðsluafgang eða halla ríkissjóðs, sú regla verði lögfest og þar með tryggt samræmi milli ára, svo að um þetta þurfi ekki að deila. Drög að slíku frv. og ýtarleg grg, hafa verið samin og eru nú til athugunar hjá ýmsum sérfræðingum um þessi efni. En hér er um að ræða mjög nauðsynlega umbót í ríkisrekstrinum, sem þarf að koma í framkvæmd sem fyrst, en jafnframt verður að vanda mjög allan undirbúning þeirrar umbótar.

Skuldir ríkissjóðs eru í árslok 1961 taldar um 995 millj. kr. Þær hafa lækkað um 348 millj. á árinu, en sú skuldalækkun liggur fyrst og fremst í því, að Seðlabankinn hefur með samningi við fjmrn. tekið að sér skuldir við Alþjóðabankann og Gjaldeyrissjóðinn. Það er nýmæli í skuldamálum ríkissjóðs, að tekjuafgangi ársins var nú fyrst og fremst ráðstafað til að greiða upp lausaskuldir ríkisins. Þær voru í ársbyrjun 1961 42.8 millj. kr., en voru greiddar að fullu á árinu. í lok 1961 voru því engar lausaskuldir hjá ríkissjóði. En lausaskuldir ríkissjóðs hafa undanfarin ár verið sem hér segir miðað við árslok: 1950 91.9 millj., 1951 84.4 millj., 1952 80.5 millj., 1953 72.8 millj., 1954 69.2 millj., 1955 105 millj., 1956 31.5 millj., 1957 89.5 millj., 1958 voru þær 60.8 millj., árið 1959 voru þær 28.1 millj., árið 1960 42.8 millj. og í lok ársins 1961 engar.

Eignir ríkisins umfram skuldir, — það, sem kallað er skuldlausar eignir, — eru nú taldar 1292.4 millj. kr. og höfðu aukizt um 1.4 millj. á árinu.

Varðandi horfur um afkomu ríkissjóðs á árinu 1962 er þess að geta, að rekstrartekjur ríkissjóðs voru áætlaðar í fjárlögum 1748.8 millj. og rekstrarútgjöld 1637.7 millj. 30. sept. s.l. voru rekstrartekjur orðnar 1347 millj. og rekstrarútgjöld 1293.8 millj. Tekjur af innflutningi munu reynast nokkru meiri en ráðgert var, bæði sökum vaxandi magns innfluttra vara svo og þess, að samsetningur innflutningsins virðist færast í það horf, að tolltekjur af hverri krónu verði meiri. Enn fremur má búast við, að tekju- og eignarskattur verði hærri en fjárlög gera ráð fyrir. Á hinn bóginn munu verða umframgreiðslur á liðnum til niðurgreiðslu á vöruverði innanlands og til uppbóta á útfluttar landbúnaðrafurðir. Enn fremur munu launabætur þær, er veittar hafa verið á árinu, óhjákvæmilega valda umframgreiðslum. Eins og nú horfir, er rétt að gera ráð fyrir greiðsluafgangi hjá ríkissjóði á yfirstandandi ári, en ógerlegt er að svo komnu að nefna tölur um það efni.

Heildarútgjöld fjárlaga fyrir yfirstandandi ár voru áætluð 1748.7 millj. kr. Heildarútgjöld fjárlagafrv. fyrir næsta ár, sem hér liggur fyrir, eru áætluð um 2113.4 millj., og er það hækkun um 364.7 millj, kr. Sú upphæð skiptist þannig, að áætlun um rekstrarútgjöld hækkar um 347.5 millj., en útgjöld vegna eignahreyfinga á 20. gr. um 17.2 millj. Í frv. er gert ráð fyrir greiðsluafgangi á næsta ári, sem nemur um 12.8 millj. kr.

Ástæður til þeirra hækkana, sem eru á þessu fjárlagafrv. frá gildandi fjárlögum, eru einkum þær, sem nú skal greina:

1) Vegna fólksfjölgunar í landinu hækka ýmsir liðir óhjákvæmilega frá ári til árs. Má þar nefna sem dæmi kostnað við kennslumál vegna fjölgunar barna og unglinga við nám. Á rekstrarreikningi hækkar kostnaður við skólamálin um 18.4 millj., og á 20. gr. hækka framlög til byggingar menntaskóla og kennaraskóla um 2 millj. Kostnaður við kennslumálin hækkar þannig um rúmar 20 millj. kr.

2) Framlög til félagsmála hækka um 85.9 millj. Framlagið til atvinnuleysistryggingasjóðs er að upphæð 32.9 millj. á næsta ári. í gildandi fjárlögum var gert ráð fyrir, að framlagið fyrir þetta ár yrði greitt á nokkrum árum. Hefur nú verið ákveðið, að það greiðist á næstu 4 árum, og er fyrsta fjárveitingin vegna framlags fyrir árið 1962 tekin upp í fjárlagafrv. nú, en það eru 6 millj. og 875 þús. kr. Þá má vænta breytinga á lögum um almannatryggingar, en heildarendurskoðun á þeim lögum stendur nú yfir. Má gera ráð fyrir nokkrum breytingum, er hafa í för með sér aukin útgjöld, m.a. þeirri breytingu, að allt landið verði nú gert að einu verðlagssvæði. Í frv. er áætlað framlag vegna væntanlegra breytinga á lögum um almannatryggingar 20 millj. kr. Þá hækka einnig framlög til byggingarsjóðs verkamanna, til sjúkratrygginga og kostnaður við ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla.

3) Vegna endurreisnar í stofnlánamálum landbúnaðarins með lögum frá síðasta þingi hækka framlög ríkissjóðs um 9 millj. kr.

4) Vegna laga um aflatryggingasjóð hækka framlög ríkissjóðs um 9 millj. kr.

5) Niðurgreiðslur á vöruverði og uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir hækka um 130 millj. frá núgildandi fjárlögum. Þegar áætlun varð gerð um þennan lið í fjárlögum þessa árs, stóð yfir athugun og endurskoðun á niðurgreiðslukerfinu í heild með það fyrir augum, að draga mætti úr þessum kostnaði. Niðurstaðan af þeirri athugun varð sú, að hætt var við niðurgreiðslu á kartöflum, en aðrar breytingar reyndist ekki unnt að gera. Í þessu sambandi er rétt að benda á þá staðreynd, að neyzla hinna niðurgreiddu vara vex mjög ört. Neyzla landsmanna á kjöti, mjólk, smjöri og fleiri landbúnaðarvörum eykst um 10% á ári, á sama tíma sem fólkinu í landinu fjölgar aðeins um 2%. Astæður þessarar miklu neyzluaukningar, að neyzlan eykst fimmfalt á við fólksfjölgunina, eru væntanlega einkum tvær: önnur batnandi afkoma landsmanna, hin, að hið niðurgreidda verð er lægra hlutfallslega en annað verðlag í landinu, og þessar ástæður kalla á aukna neyzlu. Þessa staðreynd er rétt að hafa í huga í sambandi við niðurgreiðslur í framtiðinni á nauðsynjavörum. Heildarfjárhæð til niðurgreiðslu á vöruverði og til uppbóta á útfluttar landbúnaðarvörur er áætluð 430 millj. í stað 300 millj. í gildandi fjárlögum. A grundvelli þess magns af landbúnaðarvörum, sem seldist innanlands 1961, eru útgjöld til niðurgreiðslu áætluð 352 millj., en til uppbóta á útfluttar afurðir 60 millj. Samkv. fenginni reynslu þótti svo rétt að hækka þessa áætlun um ca. 5% vegna meiri söluaukningar en gert er ráð fyrir í þessum áætlunartölum.

6) Í september s.l. var samkv. hinum nýju lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna samið um 7% launahækkun til handa ríkisstarfsmönnum. Undirbúningi fjárlaga var þá svo langt komið, að ekki þótti gerlegt að endurreikna launaliði í frv. vegna þessarar uppbótar. Þess v egna er uppbótin áætluð í einu lagi á 19. gr. Á s.l. vori var ákveðið að greiða kennurum sérstaka kaupuppbót vegna aukastarfa, sem ekki eru önnur ákvæði um, hvernig greiða skuli, og samsvarar þóknunin greiðslu fyrir 4 stundir á viku þann tíma, sem skóli starfar. Hefur þótt rétt að fá fjárveitingu fyrir þessari launauppbót fyrir árin 1962 og 1963. Framangreindar launauppbætur til ríkisstarfsmanna og séruppbætur til kennara eru áætlaðar 65 millj. kr.

7) Framlög til ýmissa verklegra framkvæmda eru hækkuð. Þannig hækka framlög til flugvallagerðar úr 10.7 millj. upp í 12.7 millj., eða um 2 millj. Framlag til vegaviðhalds hækkar um 5 millj., úr 78 í 83 millj. Framlög til hafnarmannvirkja og lendingarbóta hækka um 3.2 millj., úr 13.8 upp í 17 millj. Til aukningar landhelgisgæzlu er fjárveiting hækkuð um 3.4 millj., upp í 8.4, og er það bæði vegna greiðslu afborgana og vaxta af kaupverði varðskipsins Óðins og vegna kaupa á gæzluflugvélinni Sif. Þá er nýr liður, 31/2 millj., til smíði tveggja nýrra flóabáta, Djúpbáts og Stykkishólmsbáts. Áætlaður byggingarkostnaður hvors báts er 7 millj., og mun ríkissjóður greiða helming smíðakostnaðar. Gert er ráð fyrir, að greiða þurfi 1 millj, af framlagi ríkissjóðs til hvors báts við undirritun smíðasamnings og 750 þús. að auki til hvors þeirra á árinu 1963. Þess vegna nemur fjárlagaliðurinn nú 31/2 millj. Síðan er gert ráð fyrir 250 þús. kr. árlegri fjárveitingu til greiðslu hluta ríkissjóðs, unz greiddur hefur verið helmingur byggingarkostnaðar.

Hér hefur verið getið stærstu liðanna, sem valda hækkun á gjaldahlið fjárl., og sést af þeim, í hverju meginhluti hækkunar fjárlfrv. er fólginn.

Ég skal þá víkja að tekjuáætlun frv. Heildartekjur ríkissjóðs eru áætlaðar á næsta ári 2126.2 millj., og er það hækkun um 374.2 millj. frá gildandi fjárl., án þess að skatt- eða tollstigar séu hækkaðir eða nýjar álögur upp teknar. Þessar ástæður valda aðallega aukningu ríkisteknanna:

1) Vaxandi innflutningur, sem skilar að óbreyttum tollstigum um 270 millj. kr. hærri tekjum en fjárlög nú gera ráð fyrir. Þá er miðað við innflutning, sem nemi um 3500 millj, á næsta ári. Hinn vaxandi innflutningur stafar af aukinni framleiðslu, vaxandi kaupgetu og frjálsari innflutningi.

2) Vaxandi velta innanlands, enda er gert ráð fyrir, að 3% söluskatturinn skili 247.6 millj., eða 32.6 millj. meira en í gildandi fjárlögum.

3) Hækkandi tekjur landsmanna bæði vegna almennra kauphækkana og aukinnar framleiðslu, einkum síldveiði. Tekju- og eignarskattur er áætlaður 155 millj. eða 60 millj. hærri en í gildandi fjárlögum. Koma hér einnig til áhrif skattalaga, sem óvefengjanlega valda réttari framtölum.

Þessir þrír liðir, sem ég gat um sérstaklega, nema um 360 millj. kr. áætluðum tekjuauka. Auk þess hækka nokkrir smærri liðir, og vísa ég til grg. fjárlfrv. um þau atriði.

Ég skal þessu næst víkja í stórum dráttum að helztu gjaldaliðum fjárlfrv.

Í 7. gr. fjárlfrv. er gert ráð fyrir, að vaxtagreiðslur nemi 10.6 millj. kr. Það er hækkun um 1.4 millj. frá gildandi fjárl. og stafar aðallega af kaupum á húseigninni Borgartúni 7, sem ég mun koma nánar að í öðru sambandi.

8. gr. er kostnaður við æðstu stjórn landsins, 1.6 millj.

9. gr. er til alþingiskostnaðar og yfirskoðunar ríkisreikninga, 12.6 millj.

10. gr., til ríkisstj., en þar er innifalinn allur kostnaður við utanríkisþjónustuna, er 50.6 millj, kr.

11. gr. er í þrem liðum. Það er fyrst A, dómgæzla og lögreglustjórn, sem er áætlað að kosti 96.1 millj., en í því er innifalinn kostnaður við landhelgisgæzluna, 11. gr. B, kostnaður við innheimtu tolla og skatta, 32.1 millj., og C, sameiginlegur kostnaður við embættisrekstur, 2.2 millj. kr.

12. gr. fjallar um læknaskipun og heilbrigðismál, og er kostnaður samkvæmt henni 66.1 millj. kr.

13. gr. skiptist í nokkra undirkafla. Eru þar fyrst vegamál, en til þeirra á að verja 114.2 millj. kr. Þá eru samgöngur á sjó 17.6 millj., vitamál og hafnargerðir 34.1 millj., flugmál 12,2 millj. Ég vil geta þess í sambandi við flugmálin, að þetta er aðeins rekstur flugvallanna, en hins vegar er annar liður, sem er nokkru hærri en þetta, á 20. gr. til nýrra flugvalla. Þá er veðurþjónusta 5.2 millj. og ýmis mál, m.a. ferðaskrifstofa ríkisins, ferðamál, land- og sjómælingar o.fl., 6.5 millj.

14. gr. skiptist í tvo undirliði. Það er A, kennslumál, og er gert ráð fyrir, að þau kosti 241.4 mill j. kr. B er til opinberra safna, bókaútgáfu og listastarfsemi, 15.5 millj.

15. gr. er um kirkjumál, og eru veittar til þeirra 16.5 millj.

16. gr. skiptist í fimm undirliði. Eru þar fyrst landbúnaðarmál 95.2 millj., þá sjávarútvegsmál 36.7 millj., þá iðnaðarmál 5.8 millj., þá raforkumál 31.8 millj. og loks rannsóknir í þágu atvinnuveganna o.fl. 12.7 millj.

17. gr. fjallar um félagsmál, þar með framlög til almannatrygginga, og nema þau í fjárlfrv. fyrir næsta ár 504.4 millj. kr.

18. gr. er til eftirlauna og styrktarfjár, 42.3 millj.

19. gr. sem heitir: til óvissra útgjalda o.fl., er 521 millj., en þar er aðalliðurinn að sjálfsögðu 430 millj., sem ætlaðar eru til niðurgreiðslu á vöruverði og uppbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir, sem samkvæmt gamalli venju eru hafðar á 19. gr. Á þessari 19. gr. er einnig sá liður, sem ég gat um hér áðan, til launauppbóta, 65 millj. kr.

Þetta voru útgjöldin samkvæmt rekstrarreikningi fjárl., þ.e. skv. 7.–19. gr.

Í 20. gr. fjárl., sem kölluð er: eignahreyfingar, eru útgjöldin áætluð 128.1 millj. Þar af eru stærstu liðirnir afborganir lána ríkissjóðs 20.1 millj., framlag til ríkisábyrgðasjóðs 38 millj., til bygginga ríkisspítalanna 7.2 millj., til flugvalla 12.7 millj., til ýmissa skólabygginga á vegum ríkisins 8.4 millj., til byggingar lögreglustöðvar 3 millj., og skal ég ekki rekja það hér lengur. En þó vildi ég af sérstöku tilefni minnast á einn lið í 20. gr., sem er hækkaður nú frá gildandi fjárl., og það er til byggingar menntaskólans í Reykjavík. Í gildandi fjárl, voru veittar 2 millj., og sú fjárveiting er nú hækkuð upp í 3 millj. Á undanförnum árum hefur safnazt saman nokkurt fé, sem veitt hefur verið til byggingar menntaskóla, og er nú eftir af fyrri fjárveitingum ónotað um 5.2 millj. kr. Húsnæðismál menntaskólans eru eitt af hinum mestu nauðsynjamálum, sem vinda þarf bráðan bug að því að hrinda í framkvæmd. Það er aðkallandi að ákveða, hvert stefna skuli í þeim málum, hvort það á að byggja nýtt menntaskólahús og þá væntanlega á þeim grunni, sem grafinn var fyrir nokkrum árum í Hlíðum suður, eða hvort á að byggja viðbótarbyggingar austanvert við núverandi menntaskóla eða gera hvort tveggja, og tel ég það æskilegast. Gamli menntaskólinn, sem þar hefur starfað í yfir eitt hundrað ár, á að starfa áfram. Slíkar minningar eru tengdar við það hús, að því verður að halda við, svo lengi sem kostur er. Það er ekki aðeins vegna skólahaldsins sjálfs, heldur var þar Þjóðfundurinn haldinn, Alþingi í mörg ár, þar sat Jón Sigurðsson öll sín þing, því að alþingishúsið, sem við nú erum í, var ekki byggt fyrr en að honum látnum. Ég ætla, að það sé mjög aðkallandi að taka sem fyrst ákvarðanir um, hvert stefna skuli í byggingarmálum menntaskólans, og afla samþykkis skipulags- og byggingaryfirvalda í þeim efnum. Þegar þetta liggur fyrir, sem ég vona að verði áður en langt um liður, á ekki að standa á fé til þessara nauðsynlegu framkvæmda. 5.2 millj. eru sem sagt geymslufé og 3 millj. er gert ráð fyrir að veita í fjárlfrv. fyrir 1963. Og um leið og hafizt verður handa af myndarskap og röggsemi, verður að hækka fjárframlögin frá ríkinu og auk þess að útvega lánsfé, eftir því sem nauðsyn er, því að í þessum málum má enginn dráttur lengur verða, svo mikið er í húfi fyrir æsku Reykjavíkur og æsku alls landsins, auk þess sem hér er þjóðarmetnaður á bak við.

Í sambandi við þessa grg. fyrir einstökum tekju- og útgjaldagreinum fjárl. og þeim hækkunum, sem af ýmsum ástæðum hljóta að verða á tekjum og gjöldum ríkisins, þykir mér rétt að minnast hér nokkuð á sum þau atriði, sem starfað hefur verið að varðandi hagsýslu, hagræðingu og sparnað í vinnubrögðum á vegum ríkisins.

Í síðustu fjárlagaræðu gat ég um nokkur þau atriði í þessum efnum, sem ýmist væru komin til framkvæmda eða á undirbúningsstigi. M.a. gat ég þess þá, að í vegaframkvæmdum hefði orðið veruleg umbót, einkum í því efni, að við skiptingu vegafjár hefði verið farið inn á nýjar brautir. Það var öllum mönnum orðið ljóst, að með því að skipta vegafénu á mjög marga staði, þannig að aðeins lítið kom í hlut hvers, var verið að kasta peningum á glæ, því að oft fór meginhluti fjárveitingar til tiltekins vegar fyrst og fremst í það að flytja mannskap og verkfæri og vélar á staðinn og þaðan aftur. Í fjárl. 1959 var vegafénu skipt niður á 219 staði. Í fjárl. fyrir 1960, 1961 og 1962 var snúið við á þessari braut og fækkað þeim vinnustöðum, sem ætti að vinna að hverju sinni, en fjárveitingin aukin að sama skapi, þannig að á yfirstandandi ári hafa þeir staðir, sem fjárveitingarnar hafa farið í, verið 132, í staðinn fyrir 219 árið 1959. Á því er enginn vafi, að af þessari fækkun vinnustaða og þá hækkun fjárveitingar í hvern stað leiðir betri nýtingu fjárins, og sparast þannig mikið fé, sem kemur landsmönnum til góða í því, að þeir fá meiri vegagerð fyrir sama fé.

Sameining á innheimtu þinggjalda, útsvars, fasteignagjalda til borgarsjóðs Reykjavíkur og sjúkrasamlagsiðgjalda til Sjúkrasamlags Reykjavíkur er nú komin í kring, og hóf innheimtustofnunin nýja starfsemi sína 1. sept. s.l. undir nafninu Gjaldheimtan. Þess er að vænta, að skattborgurum þyki hagkvæmara að geta greitt öll sín gjöld á einum stað í stað þriggja eða fleiri áður. Nú þegar Gjaldheimtan er komin á stofn, virðist áætlunin um kostnað við hana hafa verið nærri lagi, og má vænta þess, að fyrir ríkissjóð verði af þessari endurskipulagningu sparnaður, sem nemi eigi minna en 21/2 millj, kr. á ári, en auk þess mikill sparnaður fyrir aðra þá aðila, sem að innheimtustofnuninni standa. Þessi framkvæmd er einn þáttur í breyttu skipulagi við álagningu og innheimtu skatta og tolla í ríkissjóð, og meðan við þennan þátt var unnið, hafa aðrir þættir verið látnir bíða, enda var beðið eftir breytingunni á skattalögunum, sem gerð var nú í ár, áður en lengra yrði haldið. Nú er ný tollskrá einnig í undirbúningi. Verður nú haldið áfram undirbúningi þess hvors tveggja að koma á sparnaði og bættum vinnubrögðum við álagningu og innheimtu skatta og tolla í ríkissjóð, en á því er engin vafi, að eins og sparnaður verður mikill við gjaldheimtuna, sem ég nefndi, þá er einnig hægt að spara mikið fé varðandi þessi atriði.

Eins og minnzt var á í fyrra, hefur verið til athugunar kostnaður við bifreiðar og vinnuvélar ríkisins. Sú athugun er komin töluvert áleiðis og svo langt, að nú þegar má sjá, að mjög mikils sparnaðar er að vænta með skynsamlegri endurnýjun á bifreiða- og vélakosti. Það er auðséð, að tugir milljóna fara árlega í súginn vegna þess, hve lélegar og viðgerðarfrekar flestar bifreiðar og vinnuvélar ríkis og ríkisstofnana eru. Það er ljóst, að endurnýjun getur ekki dregizt lengur og að verja þarf miklu fé til hennar á næstu árum. Sparnaður í viðgerðum á að verða mjög mikill, auk þess sem betri nýting á hverju einstöku hinna nýju tækja þýðir, að fækka má tækjum og halda þó sömu afköstum og áður.

Undanfarið hafa t.d. ríkisstofnanir, sem hafa haft mikið af gömlum bifreiðum og vinnuvélum í notkun, neyðzt til að koma sér upp miklum varahlutabirgðum til að tryggja sig gegn því, að tæki þeirra stöðvuðust hvað eftir annað vegna varahlutaskorts. Slíkar varahlutabirgðir draga til sín óhemju fé, og nema vextir af því fé, sem liggur í samantöldum varahlutabirgðum ríkisstofnana, nú nokkrum milljónum. Sem dæmi má geta þess, að varahlutabirgðir Vegagerðar ríkisins einnar munu nú nema um 22 millj. kr. Ef endurnýjun tækjanna fer mátulega ört fram, losnar þetta fé að miklu leyti, og jafnframt verður að reyna að samræma og sameina hinar ýmsu varahlutabirgðir ríkisstofnana. Sú athugun, sem fram hefur farið í þessu efni, hefur einkum snert nokkrar ríkisstofnanir, og urðu eftirtaldar stofnanir fyrir valinu, vegna þess að þar er um mestan véla- og birgðakost að ræða samkvæmt eðli málsins. Það er vegagerð ríkisins, póst- og símamálastjórn, vita- og hafnarmálastjórn, vélasjóður ríkisins, rafmagnsveitur ríkisins, landnám ríkisins og flugmálastjórn. Við þá athugun, sem þegar hefur farið fram og ekki er lokið að fullu, hefur það m.a. komið í ljós, að tegundafjöldi hjá þessum stofnunum er 25. Það eru 25 tegundir véla og bifreiða hjá þessum stofnunum og af ýmsum árgerðum og stærðum. Bifreiðar þessara stofnana eru 213 talsins, þegar sú skýrsla var gerð, sem ég hef hér fyrir framan mig, og meðalaldur þessara bifreiða er um 12 ár, þar af eru 15 sendibifreiðar 10 ára og eldri og 37 vörubifreiðar 15 ára og eldri. Mikill hluti bifreiðanna var keyptur hjá sölunefnd varnarliðseigna og aldur þá oft nálægt 20 árum. Varahlutir í ýmsar þessar bifreiðar fást ekki lengur. Af þessu sést, hversu erfitt er og kostnaðarsamt að fá varahluti í þennan gamla, sundurleita og úrelta flota. Fyrir viðgeróir og varahluti voru á s.l. ári greiddar 9.4 millj., og rekstrarkostnaður alls hjá þessum stofnunum á bifreiðum og vélum varð um 18 millj. kr. Í till., sem liggja fyrir um þetta efni, segir m.a.: „Ef tegundum yrði fækkað niður í 5–8 jafnframt endurnýjun tækjanna, sést, hver reginmunur yrði á fjárfestingu vegna varahluta, þar sem vitað er, að notkun þeirra er hverfandi lítil, ef bifreiðarnar eru endurnýjaðar á 3–5 ára fresti.“ Gert hefur verið yfirlit um endurnýjun á 35 jeppum, sem ríkisstofnanir þær, sem hér voru taldar, hafa, og það er gert ráð fyrir því, að ef þeir væru endurnýjaðir, mundi mega spara um 1 millj. kr. á ári í rekstrarkostnaði, þó að í útgjöldum sé gert ráð fyrir afskriftum og vöxtum af útlögðu stofnfé, sem þessi endurnýjun krefst. Og ef hið sama ætti að gera um aðra bifreiðaeign þessara stofnana, má því gera sér í hugarlund, að þar yrði sparnaður, sem næmi mörgum millj. kr.

Þetta mál hefur fengið rækilega athugun, og verða á næstunni tilbúnar till. til framkvæmda í því efni. Á því er enginn vafi, að rétt er og hagkvæmt að ráðast í þessa miklu aðgerð, að endurnýja þennan gamla og úrelta flota eins og tök eru á. En að sjálfsögðu kostar það töluvert stofnfé, meðan verið er að koma því í framkvæmd, en það mun skila sér fljótt.

Í húsnæðismálum ríkisstofnana hefur það m.a. gerzt, að keypt var húseignin Borgartún 7 í Reykjavík, þar sem margar ríkisstofnanir hafa lengi verið til húsa í leiguhúsnæði. Nú er verið að ljúka undirbúningi undir það, að aðrar ríkisstofnanir, sem hafa verið í leiguhúsnæði, flytjist þangað, en eftir athugun á þessu máli kom í ljós, að það væri mjög hagkvæmt fyrir ríkissjóð að festa kaup á þessu húsi, sem margar ríkisstofnanir, eins og ég gat um, voru í leiguhúsnæði í, og er ætlunin að stækka þetta hús, m.a. byggja ofan á hluta þess, en slík bygging yrði töluvert ódýrari en nýbygging, þar sem allar undirstöður eru fyrir hendi. Í fjárlagafrv. er komið inn á þetta mál, bæði þar sem æskt er heimildar í 22. gr. og auk þess kemur þetta fram í vaxtagreiðslum og afborgana á frv. Til skýringar má geta þess, að í þessu húsi eru nú m. a. Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins, embætti fræðslumálastjóra, húsameistari ríkisins, skipulagsstjóri ríkisins, bifreiðaeftirlit, en gert er ráð fyrir, að fleiri ríkisstofnanir og skrifstofur geti þangað flutt. En til þess að gefa mönnum nokkra hugmynd um þær leigugreiðslur, sem ríkissjóður þarf að inna af hendi, má geta þess, að á s.1. ári námu greiðslur ríkis og ríkisstofnana fyrir leiguhúsnæði 9.4 millj. kr. Með öflun eigin húsnæðis á vegum ríkisins má spara þarna stórar fúlgur.

Ríkissjóður á, þótt hann þurfi að hafa starfsemi sína í margvíslegu og dýru leiguhúsnæði, fjölda húseigna, sem dreifðar eru um allt land. Það eru húseignir á ríkisjörðum, prestsseturshús, aðrir embættisbústaðir og ýmis önnur hús, sem notuð eru í ýmsu skyni. Það er eins með þessar eignir sem bifreiðar og vinnuvélar ríkisins, sem áðan var á minnzt, að mikið fé kann að fara í súginn, ef viðhald er ekki framkvæmt í tæka tíð eða jafnvel alls ekki. Nú er í athugun skipulagning á eftirliti með húseignum þessum og jafnframt á þeim fjölda skólahúsa, sem einnig eru dreifð um land allt, að vísu ekki að nafninu til í eigu ríkissjóðs nema sum, en þó jafnmikið í mun, að haldið sé eðlilega við, af því að ríkissjóður greiðir stóran hluta af stofn- og rekstrarkostnaði skóla. Hér leikur á mjög miklum fjárhæðum, og er gleggst að sjá það á því, hve mikið fé er áætlað í fjárlagafrv. til viðhalds skólahúsanna einna saman. En á því er enginn vafi, að miklu fé þarf að verja á næstu árum til viðgerða og viðhalds á mörgum þessum húsum ríkisins, sem því miður hafa lent í allt of mikilli niðurníðslu.

Í sambandi við þessa starfsemi á sviði hagsýslu, hagræðingar og sparnaðar vildi ég enn nefna árangurinn, sem þegar er sýnilegur af lögunum um ríkisábyrgðir og stofnun ríkisábyrgðasjóðs. Ég skal ekki rekja það mál að öðru leyti en því, að flestum ætla ég að hafi verið ljóst orðið, að hér var stefnt í óefni með ríkisábyrgðirnar, enda fann Alþingi sig knúið til þess fyrir fáum árum að samþykkja þál. um að æskja gagngerðrar endurskoðunar og lagasetningar um þessi mál. Það er einkum ein breyting, sem gerð var með hinum nýju lögum um ríkisábyrgðir, sem þegar er farin að sýna áhrif sín f sparnaðarátt. Áður fyrr var það aðalreglan, að þegar ríkið gekk í ábyrgð, var það sjálfskuldarábyrgð, sem þýðir, að ef skuldari greiddi ekki á réttum gjalddaga, gat lánveitandinn snúið sér beint til ríkissjóðs án þess að reyna innheimtu hjá skuldaranum. Með hinum nýju lögum var breytt til gagngert, þannig að hér eftir skyldi meginreglan vera einföld ábyrgð, en það þýðir, að þegar ríkið hefur gengið í ábyrgð fyrir einhvern aðila og ekki er greitt á réttum gjalddaga, verður lánveitandinn fyrst að reyna innheimtu hjá sjálfum skuldaranum og kanna til þrautar, hvort hann er borgunarmaður fyrir, áður en hann snýr sér að ríkissjóði.

Nú er það svo, að frá þeim tíma, í marzlok 1961, sem lögin voru afgreidd frá Alþingi, hefur þessari reglu verið fylgt að veita einfaldar ábyrgðir. Nú er að sjálfsögðu nauðsynlegt og óhjákvæmilegt að halda áfram veitingu ríkisábyrgða í mjög mörgum tilfellum til þess að greiða fyrir margvíslegum nauðsynlegum framkvæmdum, bæði sveitarfélaga og annarra aðila. Og síðan lögin öðluðust gildi, hafa verið veitt lán með einfaldri ábyrgð að upphæð 145.6 millj, kr. Nú er komið hálft annað ár síðan, og að sjálfsögðu hefur nokkuð af vöxtum og afborgunum fallið í gjalddaga á þessu tímabili, en ríkissjóður hefur ekki þurft að greiða enn þá einn einasta eyri af þessum ábyrgðalánum. Að sjálfsögðu mun það verða svo á næstunni, að mikið af eldri sjálfskuldarábyrgðum er í gildi og heldur gildi um margra ára skeið, þær sem búið var að gangast undir áður, og þess vegna er viðbúið, að töluverðar greiðslur falli á ríkið eða ríkisábyrgðasjóð á næstu árum. En sú litla reynsla, sem þegar er fengin af breytingunni í einfalda ábyrgð, boðar vissulega gott og sýnir, að hér var farið inn á rétta braut.

Að lokum vil ég segja það, að auk hins beina sparnaðarárangurs, sem leitt hefur af hagsýsluaðgerðum síðustu ára, er þegar farið að bera á því, að forstöðumenn ríkisstofnana og aðrir starfsmenn þeirra séu farnir að fá og sýna meiri áhuga fyrir skipulagsbreytingum og hagræðingu í sparnaðarátt en áður var, og hraðvaxandi skilningi virðist vera að mæta í þessum efnum.

Núv. ríkisstj. hefur nú haldið um stjórnvölinn í nærfellt þrjú ár. Í tíð hennar hafa þrenn fjárlög verið samin og þau fjórðu nú lögð fyrir Alþingi. Þegar litið er yfir heildarsvip fjármála ríkisins á þessu tímabili, blasa við augum m. a. þessar myndir:

1) Einn þáttur í viðreisnaraðgerðunum í febrúar 1960 var breyting á tekjuöflunarkerfi ríkisins, m.a. með lögfestingu söluskatts og lækkun tekjuskatts. Síðan hafa verið sett saman og lögð fyrir Alþingi fjárlagafrv. fyrir árin 1961, 1962 og 1963 án þess að hækka nokkra skatta, tolla eða aðrar álögur.

2) Hallalaus fjárlög hafa verið lögð fyrir þing og afgreidd fyrir fjárhagsárin 1960, 1961 og 1962, og svo er einnig um frv. fyrir 1963, sem hér liggur fyrir.

3) Bæði árin 1960 og 1961 varð einnig hallalaus ríkisbúskapur í reynd, en ekki aðeins í fjárlögunum. Greiðsluafgangur varð bæði árin, og svo verður einnig á því ári, sem nú er að liða.

4) Gagnger endurskoðun hefur farið fram og verið lögfest á skattalögum, að frátöldum lækkunum fyrir allan almenning, og heilbrigt skattakerfi skapað fyrir atvinnureksturinn.

5) Tollar voru lækkaðir verulega í nóvember 1961 á ýmsum hátollavörum, þannig að verð lækkaði á mörgum vörutegundum, svo að mjög hefur dregið úr smygli, og ríkissjóður hefur fengið meiri tolltekjur af þessum vörum en áður, eins og kemur fram f því, að á fyrstu sex mánuðum yfirstandandi árs urðu tolltekjur um 171/2 millj. meiri en á fyrstu sex mánuðum ársins 1961 af þessum sömu vörum, sem tollar voru lækkaðir á s.l. haust.

6) Allt tollakerfið hefur verið endurskoðað, og ný tollskrá verður lögð fyrir þetta þing með samræmingu tollakerfisins og enn nýrri lækkum aðflutningsgjalda á ýmsum vörum.

7) Unnið er að hagsýslu, hagræðingu á fjölmörgum sviðum ríkisstarfseminnar, til þess að lagfæra skipulag og vinnubrögð, spara ríkisfé og bæta þjónustu. Þessi starfsemi hefur þegar sparað ríkinu stórfé og á eftir að skila enn meiri árangri, áður en langt um liður.

8) Með nýrri löggjöf og framkvæmd varðandi ríkisábyrgðir og stofnun ríkisábyrgðasjóðs erum við nú á góðri leið að losna úr því öngþveiti og þeirri óreiðu, sem fyrirhyggjulitlar ríkisábyrgðir höfðu leitt út í. Hér munar fljótlega tugum milljóna fyrir ríkissjóð.

Og í níunda lagi og ekki sízt hafa alinannatryggingar verið stórauknar á þessu tímabili, svo að tryggingar á Íslandi eru nú mörgum öðrum þjóðum til fyrirmyndar.

Herra forseti. Ég vildi í lok máls míns bregða upp þessum myndum af fjármálastarfsemi ríkisins á þessu tímabili. Ég hef haldið mig við fjárlögin sjálf og fjármál ríkisins, en ekki farið út f önnur mál, eins og efnahagsmál þjóðarinnar almennt. Ég hef ekki séð ástæðu til í þessari framsöguræðu, sem á að fjalla um fjárlagafrv. fyrir 1963, að hefja almennar umr. um þjóðmál, enda gera þingsköp ekki ráð fyrir því, að 1. umr, fjárlaganna sé gerð að eldhúsdegi. Ef aðrir ræðumenn gefa tilefni til, verður að sjálfsögðu reynt að svara og gefa upplýsingar um önnur mál, eftir því sem efni gefast til.

Ég vil svo að lokum leggja til, að frv. til fjárlaga fyrir árið 1963 verði vísað til hv. fjvn.