28.11.1962
Sameinað þing: 17. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í D-deild Alþingistíðinda. (2811)

42. mál, hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulag í atvinnurekstri

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Ég stend ekki upp til þess að andmæla á neinn hátt þessari till., sem hér liggur fyrir, og ég mun fyrir mitt leyti samþykkja hana til athugunar í nefnd. Ég hefði að vísu ef til vill kosið svolítið annað orðalag á till. Það segir í upphafi hennar: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta rannsaka og gera till. um, hvar og hvernig megi bezt koma á hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulagi í atvinnurekstri íslendinga.“ Ég hefði frekar kosið, að talað hefði verið um að láta rannsaka og gera till. um, hvort hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulagið teldist henta hér á landi eða ekki, hvort það teldist hagkvæmt eða heppilegt.

Ég stend aðallega upp til þess að inna hv. frsm. eftir því, hvort hann geti frætt okkur um það, hvernig reynslan sé af þessu fyrirkomulagi erlendis. Ég sé á greinargerðinni, að þegar árið 1937 er fullyrt, að fengin hafi verið mikil reynsla erlendis í þessum efnum. Þess er að vísu ekki getið, hvort sú mikla reynsla sé góð eða ill, aðeins talað um, að þá hafi þegar verið fengin mikil reynsla. Nú eru nokkrir áratugir liðnir síðan, og ég spyr, af því að ég er ófróður um þetta: Hver er reynslan af þessu í dag? Hefur þetta rutt sér til rúms víðs vegar í lýðræðislöndum og hvar þá helzt?

Ég hef hins vegar orðið þess var, að mér finnst á því, sem ég hef lesið um þessi mál í erlendum blöðum og tímaritum, að menn standi uppi enn í dag eiginlega ráðalausir gagnvart vandamálinu: missætti, tortryggni á milli atvinnurekenda og launþega. Eins og hv. frsm. tók fram, hafa ýmsar aðrar leiðir verið reyndar, almenningshlutafélög, samstarfsnefndir launþega og atvinnurekenda í fyrirtækjunum. En ég held, að árangur af öllum þessum tilraunum sé víðast hvar talinn mjög neikvæður. Þetta hefur engan árangur borið. Ég hef líka heyrt um skýringar á þessu. T.d. mun þetta mál hafa verið talsvert rætt í Danmörku seint á s.l. sumri. Þaðan heyrði ég, að menn hefðu skýringar á þessu. Þó að einhver góð leið virtist vera fundin til að sætta fjármagnið og vinnuna, þá kæmi fyrr eða síðar í ljós, að sú leið væri ekki fær, — og hvers vegna? Vegna þess að launþegarnir hafa alltaf orðið varir við það, þegar reynsla kemur á þessa hluti, að þetta er ekki gert fyrir þá, heldur fyrir fjármagnið. Nú kann vel að vera, að í þessum till. fellst eitthvað jákvætt, því að þar er gert ráð fyrir jafnvel ákvörðunarrétti starfsmannanna um stjórn á fyrirtækinu. Og ef það væri framkvæmt, ef starfsmenn fyrirtækis fengju að hafa fullan ákvörðunarrétt til jafns við atvinnurekandann t.d. eða eilítið meira, þá er ég viss um, að búast mætti við góðum árangri. Við vitum ósköp vel, að launþegar, starfsmenn í fyrirtækinu, þeir eru eins og dauðar vélar, sem framleiða eins og fyrir þá er lagt. Þeim er sagt að framleiða þetta eða hitt. Þeir eru ekki spurðir um álit á því, hvort þeim finnist þetta vera þörf framleiðsla eða kannske skaðleg framleiðsla. Þeir eru ekki spurðir um það. Það er jafnvel til, að fyrirtæki láti framleiða, við skulum segja barefli, táragas eða eitthvað slíkt til þess að berja á starfsmönnunum með síðar, ef á þarf að halda, svo að það er ekki við góðu að búast, eina og er. En ég held, að fálmaðgerðir í þessu máli hafi litla þýðingu. Ég held, að það sé búið að reyna þetta, ef ekki hér, þá erlendis.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð, en vil aðeins endurtaka fyrirspurn mína um það, hvort hv. frsm. geti upplýst mig um það, og okkur, hvernig reynslan er af þessu fyrirkomulagi, sem hér er um að ræða, sem var talin mikil þegar árið 1937 og hlýtur því að vera enn meiri nú.