28.11.1962
Sameinað þing: 17. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í D-deild Alþingistíðinda. (2812)

42. mál, hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulag í atvinnurekstri

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það er ósköp eðlilegt, að fram komi þær hugleiðingar, sem hér hafa komið fram hjá hv. 9. þm. Reykv., út af þessu máli. Ég hef því miður ekki hér við höndina skýrslu, sem er til um þetta mál, þar sem skýrt er frá reynslu sem hefur orðið af þessu í ýmsum löndum. Það eru víða í löndum starfandi fyrirtæki, sem hafa reynt þetta fyrirkomulag. og hefur verið talið, að það hafi gefið góða raun. En það skal hins vegar játað, að sums staðar hefur það ekki gert það, eftir því sem þessi gögn sýna. Og það er auðvitað sjálfsagt, að sú nefnd, sem fær þetta til athugunar, fái þær upplýsingar í hendur. En af því að ég hef ekki þessi gögn við höndina, verð ég að biðja hv. fyrirspyrjanda að afsaka það, að ég þori ekki að fara með tölur í því sambandi eða nefna nöfn fyrirtækja, til þess að ekki sé hætta á, að það fari á milli mála. En hitt er alveg rétt, sem hann sagði og ég tók enda fram í minni ræðu áðan, að ég hefði enga tröllatrú á þessu sem nokkurri allsherjarlausn á þessu vandamáli, heldur væri hér aðeins um að ræða tilraun, sem sjálfsagt væri að athuga, hvort ekki gæti hentað hér, því að hún hefur víða verið gerð, eins og ég sagði og segir í grg., og allvíða með góðum árangri. En mér dettur ekki í hug að halda því fram, að þetta muni reynast eitthvert allsherjarbjargráð til lausnar þessu mikla vandamáli. Þá væri vandamálið miklu auðleystara en þal í raun og veru er, því að það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að vandinn í þessu ötlu saman er tortryggnin, sem er á milli vinnuveitandans og launþegans. Og það hefur veriti andstaða gegn þessu fyrirkomulagi ekkert síður frá vinnuveitendum en frá launþegum, vegna þess að það er sannarlega ekki víst, að menn kæri sig um að gefa starfsmönnum aðild að fyrirtækjum. Og það veldur auðvitað alltaf ágreiningi, hvað sú aðild á að vera. mikil og hvernig þetta fyrirkomulag er framkvæmt.

Þetta getur litið allt saman ágætlega út á pappír, en getur orðið allt annað upp á teningnum, þegar á að fara að framkvæma það. Og ég skal fúslega fallast á það, sem hv. þm. sagði, að það væri heppilegra að orða till. þannig að láta rannsaka, hvort þetta fyrirkomulag henti hér eða ekki, heldur en að slá því föstu, að það skuli aðeins athugað, hvernig eigi að innleiða það. Það kann vel að vera að það komi í ljós, að það sé ekki grundvöllur undir því að fá samkomulag vinnuveitenda og launþega um þetta skipulag. Og ég læt mér ekki heldur detta í hug, að það muni verða nein allsherjarlausn, heldur muni það fyrst í stað vera á takmörkuðu sviði og hjá einstökum fyrirtækjum. Það hafa verið gerðar hér ýmsar tilraunir í þessa átt, t.d. eins og með ákvæðisvinnu og jafnvel á vissan hátt með arðþátttöku. Það eru til dæmi þess hér. Það hefur verið talið gefa góða raun, þar sem það hefur verið reynt. En það er alls ekki víst, að það gefi alls staðar góða raun. Þetta fer eftir því, hverjir eru aðilar að fyrirtækjunum, og er auðvitað mjög komið undir því, hvernig eðli fólksins er, sem að þessu vinnur og fyrirtækjunum stjórnar og ræður, hvort hægt er að framkvæma þetta eða ekki, því að það, sem fyrst og fremst veltur á, er, að hér sé hægt að skapa gagnkvæmt traust og hvorugur aðilinn telji, að með þessu kerfi sé verið að hlunnfara hann. Ef sú tilfinning er fyrir hendi, að hér séu menn aðeins að finna upp eitthvert tæki til að blekkja annan aðilann eða hlunnfara, þá er auðvitað málið vonlaust.

Það er mjög eðlilegt, að sú spurning vakni, og það má segja, að það sé neikvætt með þetta skipulag, sem hér er, hvernig á því stendur, að það skuli ekki almennt hafa rutt sér til rúms, frá því að fyrst var farið að framkvæma þetta. Og vissulega virðist það fljótt á litið sýna, að þetta sé ekki mjög heppileg leið. En ég er ekki alveg viss um, að það þurfi að vera nein sönnun þess, vegna þess að eins og hv. þm. sagði, þá er hér við að glíma svo mikla tortryggni, að það getur vel verið, að um sé að ræða raunverulega, heppilega lausn, ef hægt yrði að skapa hið rétta andrúmsloft, og þó að ekki hafi tekizt að skapa það enn, þá geti þessi leið leitt til góðs, ef tekst að fá hinn rétta anda frá báðum aðilum mátsins til hugmyndarinnar. Hvað sem þessu liður og þó að segja megi, að það séu gagnrök í málinu, að þetta hafi ekki leitt til þess, að þetta úrræði hefði rutt sér til rúms á þessum áratugum, frá því að fyrst var farið að gera tilraun með það, það geti talað gegn málinu, þá tel ég það ekki vera rök fyrir því að sinna ekki þessari hugmynd, einmitt að þessum ástæðum, sem ég tilgreindi, að hér er við að glíma svo erfiða tortryggni milli þessara tveggja höfuðþátta í atvinnurekstrinum, að það getur vel átt sinn þátt í því, að ekki hefur verið reynt fyrirkomulagið, þótt það að öðru leyti gæti verið til góðs. Og ég held, að þrátt fyrir það, þó að þær tilraunir, sem gerðar hafa verið bæði á þessu sviði og mörgum öðrum til þess að leysa þennan vanda með því að uppræta tortryggnina og skapa sem nánast samstarf milli vinnuveitandans og launþegans. — þrátt fyrir alla þessa erfiðleika mega menn ekki gefast upp á að reyna að leysa þetta vandamál, því að ef við gerum það, þá sé ég ekki með góðu móti, að það sé hægt að vænta þess, að yfirleitt sé hægt að skapa heilbrigt efnahagskerfi, sem leggi grundvöll að raunhæfum og eðlilegum framförum. Og það er sannarlega svo mikið í húfi, að það sé hægt að leysa þetta alvarlega vandamál, sem er alvarlegasta vandamál í okkar efnahagslífi, að það má, einskis láta ófreistað, sem hugsanlegt væri til úrtausnar vandanum. Ég er því ákveðið þeirrar skoðunar, þótt ég hafi enga tröllatrú á því, að þetta sé endilega nein lokalausn á þessum vanda, að þá sé rétt að athuga málið gaumgæfilega og hleypidómalaust og rannsaka, hvort hér geti þó ekki verið leið, sem ásamt öðrum leiðum kunni að vera skref að því marki að uppræta þessa alvarlegu tortryggni, sem hér er vissulega til staðar.