29.01.1963
Sameinað þing: 26. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í D-deild Alþingistíðinda. (2843)

62. mál, senditæki í gúmbjörgunarbáta

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Ég flutti snemma á þessu þingi ásamt Ragnari Guðleifssyni till. til þál., sem þannig hljóðar, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta endurskoða reglugerð um eftirlit með skipum með það fyrir augum að fyrirskipa, að gúmbjörgunarbátar verði búnir senditækjum.“

Ég hygg, að það fari ekki á milli mála, að ein beztu öryggistæki, sem komið hafa í skip, séu sendi- og móttökutæki. Það fer ekki heldur á milti mála, að síðan farið var að nota gúmbjörgunarbáta, hafa þeir sannað gagnsemi sína í reynd. Hins vegar hafa gúmbjörgunarbátar þann ókost, eins og tekið er fram í grg. með þessari þáltill., að þeir sjást ekki vel langt að, og þá ber hratt yfir fyrir vindum og straumum vegna þess, hversu léttir þeir eru. Oft er það þannig, þegar slys ber að höndum, að ekki gefst tími til að gefa upp staðarákvörðun, þegar skip er yfirgefið, og það mundi þess vegna hafa mjög mikla þýðingu, ef hægt væri að koma fyrir í gúmbjörgunarbátunum tækjum, sem hægt væri að nota til að senda út með og gefa upp staðarákvörðun síðar. Nú er það hins vegar þannig, að gúmbjörgunarbátarnir verða að vera léttir og meðfærilegir, og þessi senditæki þurfa þess vegna að vera þannig útbúin, að þau séu fyrirferðarlítil og létt. Það munu vera komnar á markaðinn nokkrar legundir af slíkum tækjum, en ekkert þeirra uppfyllir þær kröfur, sem ráðstefna um öryggi mannslífa á hafinu gerði til slíkra tækja árið 1960, en á þeirri ráðstefnu var mættur skipaskoðunarstjóri og annar fulltrúi héðan, og þeir fjölluðu m.a. um þetta mál á þeirri ráðstefnu. Þetta kemur fram í grg., sem við flm. till. höfum, síðan hún var lögð hér fram, fengið hjá skipaskoðunarstjóra, og þar er einnig að finna ýmsar fleiri gagnlegar upplýsingar um þetta efni. Mér er þess vegna ljóst, að fengnum upplýsingum skipaskoðunarstjóra, að það er varla hægt að samþykkja till. í því formi, sem hún núna er, en ég vildi beina því til þeirrar nefndar, sem fær málið til meðferðar, að hún athugi hvort tveggja, till, og grg. skipaskoðunarstjóra, og endursemji þá ályktun um málið, eins og tilefni gefst til.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum, en leyfi mér að leggja til, herra forseti, að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.