19.04.1963
Sameinað þing: 51. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í D-deild Alþingistíðinda. (2855)

228. mál, hafnarskilyrði í Kelduhverfi

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég get að sjálfsögðu ekki gefið um það fræðilegar upplýsingar, hvað það mundi kosta að rannsaka þetta hafnarstæði, en vil aðeins leyfa mér að endurtaka það, sem ég sagði í framsöguræðu minni, að það hefur að sjálfsögðu lengi verið talið, að hér væri höfn frá náttúrunnar hendi, þar sem þessi staður var fyrir svo löngu eða árið 1883 gerður að löggiltum verzlunarstað. Ég vil einnig leyfa mér að minna á það, að merkur maður og þjóðkunnur, sem hér átti um hríð sæti á Alþingi og var allra manna kunnugastur íslenzkri strönd, Ásgeir heitinn Sigurðsson skipstjóri, flutti hér eitt sinn till. um þetta mál, um Fjallahöfn, og í sambandi við hafnargerð þar lét einmitt þau orð falla, að þetta væri einn af þeim stöðum hér við land, sem telja mætti til lífhafna í vissum kringumstæðum. Þetta virðist mér benda til þess, að í sjálfu sér liggi það nokkuð Ljóst fyrir, að þarna sé hægt að gera höfn. En hitt er samt vandamál í þessu sambandi, sem að sjálfsögðu þarf að athuga, hvort þar kynni að vera hætta á sandburði, því að þarna er löng sandströnd að austanverðu við Fjallahöfnina, og þyrfti að íhuga það, hvort hætta stafar af þeim sandi og hvernig mætti afstýra þeirri hættu. Og þetta er náttúrlega einstakt tækifæri til þess að athuga einmitt það, fyrst væntanlegur er hingað þessi útlendi sérfræðingur, sem er frægur maður á sínu sviði, sérstaklega sérfróður um sandburð. Því tæktfæri finnst mér að megi ekki sleppa, eins og á stendur, því að á sínum tíma getur það orðið ákaflega mikilsvert að vita, hvort þessi staður er sérlega heppilegur hafnarstaður vegna Jökulsárvirkjunar, þegar þar að kemur. Víst er um það, að það verða gerðar ráðstafanir til þess, að þessi sérfræðingur komi hingað, og hann verður hér. Hæstv. sjútvmrh. upplýsti það á sínum tíma hér í þinginu. Er þess vegna til staðar tækifæri til þess að gera þetta, sem e.t.v. verður ekki jafngott aftur fyrst um sinn.