17.10.1962
Sameinað þing: 3. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í D-deild Alþingistíðinda. (2866)

12. mál, innlend kornframleiðsla

Flm. (Karl Guðjónsson):

Í tilefni af þeirri ræðu, sem hæstv. landbrh. hefur hér haldið um þetta mál, skal ég að sjálfsögðu taka það fram, að ég held, að það sé öllum flm. þessarar till. ljóst, að hér er ekki flutt mál, sem fullnægja mundi í einu og öllu kornræktinni á Íslandi, þótt samþ. væri. Hér er aðeins fjallað um einn þátt þessa máls, en ýmsir aðrir þættir koma einnig til kasta Alþingis og ríkisstj. fyrr eða síðar til þess að auka og efla þennan atvinnuveg, sem greinilega er í uppsiglingu hjá okkur nú. Það er þess vegna nokkuð út í hött að hafa hér almennar umræður um íslenzka kornrækt og alla þætti hennar í sambandi við þessa till. Hér er fjallað um afmarkað svið, sem sagt það, hvort íslenzk kornrækt á að standa á jafnréttisgrundvelli við innflutta kornið frá útlöndum, hafa sams konar möguleika á markaði og erlenda kornið með þeim hætti, að kornið, sem ræktað er í landinu, njóti sömu viðbótagreiðslna og nemur niðurgreiðslunum á innflutta korninu.

Það má vera, að ég hafi ekki verið nógu nákvæmur í orðalagi til þess að fullnægja hugmyndum hæstv. ráðh., þegar ég sagði á þá leið, að íslenzka kornræktin væri komin af tilraunastigi. Auðvitað er það hárrétt hjá honum, að hún er ekki komin af því stigi, þannig að ekki þurfi að gera fleiri tilraunir, enda var það ekki það, sem átti í mínum orðum að felast. En hinu held ég fram, að þegar hætt er að framleiða korn eingöngu á tilraunastöðvum reknum af íslenzka ríkinu eða stofnunum landbúnaðarins og bændur almennt eða nokkuð almennt eru teknir að rækta korn sem grein í sínum búskap, þá er kornræktin í mínu hugskoti komin af því að vera á algjöru tilraunastigi. Það var þetta, sem ég átti við. Það er þess vegna í rauninni utan við þetta mál að ræða um það, að kornræktin að komin af tilraunastigi í þeirri merkingu, að ekki þurfi að gera fleiri tilraunir í henni, enda er það sannast mála, að við íslendingar eigum engan þann atvinnuveg, sem í þeirri merkingu væri kominn af tilraunastigi.

Ég skal einnig viðurkenna það, sem vel hefur verið gert í tíð núverandi landbrh. í sambandi við kornræktina. Það er rétt, sem hann drap hér á, að það var ekki greiddur neinn jarðræktarstyrkur fyrir það land, sem brotið var til ræktar undir korn. Og í þeim till., sem hér hafa áður verið fluttar, hefur einnig verið vikið í grg. að þeim þætti málsins. Í þessu hefur nú verið ráðin bót, eins og ráðh. lýsti. Við frumræktun lands undir korn er greiddur jarðabótastyrkur til jafns við túnrækt, og það er að sjálfsögðu skref í rétta átt. En að öðru leyti verð ég að segja það, að mér finnst hér um slíkt réttlætismál að ræða, og eins og hæstv. ráðh. hefur viðurkennt ekki stærra fjármál en svo, að það ætti að vera sjálfsagt að samþykkja það. Þess vegna hef ég orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með undirtektir ráðh., þar sem hann segir að vísu, — og það er allra góðra gjalda vert, svo langt sem það nær, — að hann sé ekki á móti þessu máli. En hann leggur ákaflega lítið upp úr því, hvort þetta er gert eða ekki, og gefur í rauninni með óbeinum hætti þar með í skyn, að hann sé ekki sérstaklega áfram um það, að þessu réttiæti, sem mér finnst íslenzk kornrækt mega krefjast, verði fullnægt. Það eru mér nokkur vonbrigði. En kannske á ráðh, eftir — og það vona ég — að athuga þetta mál nánar og mæla með samþykkt þessarar till., eða hreinlega hefja framkvæmd á efni þessarar till., því að það getur hann, hvort sem till. væri afgreidd eða ekki.

En Alþingi væri það á engan hátt vansalaust að láta líða hið þriðja ár, þannig að það hefði mál þetta til meðferðar, en afgreiddi það ekki efnislega, eins og því miður hefur gerzt tvisvar sinnum. Þó að upphæðin, sem hér er fjallað um, sé næsta lítil og lág, þá er málið ekki eins lítið, því að það skiptir verulegu máli, auk þess sem tilraunir vísindamanna skipta máli um framþróun þessara mála, að bændur nokkuð almennt afli sér reynslu í kornrækt. Og það gera þeir því aðeins, að þeir finni, að þeirra korn sé ekki minna virði, þegar á markað kemur, en það korn, sem inn í landið er flutt frá útlöndum.

Um skeið var því haldið fram, að það væri mjög vafasamt, hvort íslenzkt korn væri að gæðum sambærilegt við það korn, sem við flytjum inn erlendis frá. En þær efnagreiningar, sem farið hafa fram á íslenzku korni, benda ótvírætt til þess, að það hallist ekki á um gæðamismuninn, a.m.k. ekki svo, að það sé íslenzka korninu í óhag.

Af öllu þessu þykist ég mega vænta þess, að Alþingi taki efnislega afstöðu til þessa máls innan tíðar. Og að lokum vildi ég beina þeirri till. til hæstv. forseta, að málinu verði á einhverju stigi vísað til fjvn.