17.10.1962
Sameinað þing: 3. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í D-deild Alþingistíðinda. (2867)

12. mál, innlend kornframleiðsla

Eysteinn Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég get ekki stillt mig um að minnast aðeins á nokkrar af þeim athugasemdum, sem hér féllu hjá hæstv. landbrh. í tilefni af þessari till., sem hér er flutt. Till. er um það og það eitt, að innlent korn njóti jafnréttis við erlent korn að því er snertir niðurgreiðslur úr ríkissjóði. Till. er um þetta og aðeins þetta. Hæstv. landbrh. hefur ekki undanfarið gert ráðstafanir til þess, að innlent korn nyti jafnréttis við erlent korn, og heldur ekki til þess, að íslenzkir kornframleiðendur nytu á Íslandi jafnréttis við erlenda kornframleiðendur, sem selja korn sitt í landinu. Og mönnum hefur verið það hreinasta ráðgáta, hvernig hæstv. ráðh. kæmist að þeirri niðurstöðu, að það ætti að mismuna á þennan hátt íslenzkum kornframleiðendum í áhag. Það hefur enginn botnað neitt í, hvernig á því stendur, að hæstv. landbrh, skuli hafa látið það dragast að láta innlenda kornframleiðendur njóta jafnréttis að þessu leyti. Ég fullyrði, að jafnt stuðningsmenn hæstv. ráðh. sem aðrir hafa alls ekki skilið þetta.

En nú kemur fram í fyrsta skipti, að ég held, og það kom mér til þess að standa upp, tilraun af hendi hæstv. ráðh. til að skýra þessa einkennilegu framkvæmd hans á þessu máli. Og hugsunarhátturinn er þessi, eftir því sem kemur fram í ræðu hæstv. ráðh., hann segir: „Það er ekki kominn tími til þess að styðja íslenzka kornrækt, af því að hún er á tilraunastigi.“ Þessi till., sem hér liggur fyrir, er alls ekki um að styðja á einn eða annan hátt íslenzka kornrækt. Og þess vegna er það alger misskilningur og furðulegt að heyra það frá hæstv, ráðh. úr ríkisstj., að þessi till. ætti í raun og veru að orðast þannig, að hún væri um það, að þeir, sem rækta korn á Íslandi, fái til þess fjárhagslega aðstoð. Er það hugsanlegt, að ráðh. í ríkisstj. Íslands áliti þetta í raun og veru, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að þessi till. sé um þetta? Álítur þá hæstv. ráðh., að það fjármagn, sem notað er af íslenzku ríkisfé til að greiða niður erlent korn, sé stuðningur við erlenda kornframleiðendur? Ber að skilja ráðh, þannig? Vitanlega er ekki hægt að skilja hæstv. ráðh. öðruvísi, að svo miklu leyti sem nokkur meining er í þessu, en það, sem greitt er af íslenzku ríkisfé til að lækka verð á erlendum fóðurbæti í landinu, sé styrkur til erlendra kornframleiðenda.

Það er ekkert annað, sem farið er fram á, en það eitt, að það sé sams konar lækkun gerð á verði íslenzka kornsins og erlenda kornsins, þannig að íslenzkt korn og erlent sé að þessu leyti gert hliðstætt. Ég vil vona, að þegar hæstv. ráðh. íhugar þetta nánar, sjái hann, að þessi rök hans fái alls ekki staðizt. Þessi till. á ekkert skylt við, að stungið sé upp á því að styrkja sérstaklega innlenda kornrækt umfram það, sem verið hefur, heldur aðeins farið fram á, að innlendir kornframleiðendur sitji við sama borð að þessu leyti og erlendir.

En hæstv. ráðh, sagði meira. Hann sagði, að það væri vafasamt, hvort ætti að hvetja íslenzka bændur til að rækta korn, á meðan ekki væri búið að gera enn meiri tilraunir með kornrækt, og kornræktin orðin árvissari. Það kom því hreinlega fram hjá hæstv. ráðh., og það oftar en einu sinni í ræðu hans, að hann vill gera íslenzkri kornrækt erfitt fyrir með því að láta hana ekki njóta sömu kjara að þessu leyti og erlenda kornið nýtur, til þess, eins og hæstv. ráðh. sagði, að hvetja menn ekki til að leggja út í kornrækt. M.ö.o.: hæstv. ráðh. vill ekki, að íslenzkir kornframleiðendur búi við jafnhagstæð skilyrði hér í landinu sjálfu og erlendir. Hann álítur, að það eigi ekki að freista íslenzkra bænda til að leggja út í kornrækt, á meðan ekki sé búið að gera meiri tilraunir, eins og hæstv. ráðh. orðaði það.

En hvernig halda menn, að farið hefði um íslenzka atvinnuvegi yfir höfuð og íslenzkar atvinnugreinar, ef þessi hugsunarháttur hæstv. ráðh. hefði verið ráðandi hér í landinu undanfarna áratugi og yfirleitt undanfarið, að það eigi að hræða menn frá því að leggja í áhættu, það eigi að hræða einstaklingsframtakið í landinu frá. því að leggja í áhættu við að reyna nýjar atvinnugreinar með því að ætla þeim erfiðari kost en erlendum í landinu sjálfu? Með því eigi t.d. nú að halda mönnum frá því að reyna kornræktina á því stigi, sem hún er. Hæstv. ráðh. fræddi okkur um, að það ætti eftir að gera miklar og merkilegar tilraunir í kornrækt. Þetta vissum við allir. Við vitum líka, að það er eftir að gera stórkostlegar og merkilegar tilraunir í grasrækt, sem þó hefur verið stunduð á Íslandi líklega frá því fyrst að menn komu hér til landsins. Samt sem áður er eftir að gera stórkostlegar og vafalaust mjög merkilegar tilraunir í grasrækt engu síður en í kornrækt. Og það er hægt að verða fyrir tjóni og áföllum í sambandi við grasrækt enn í dag, eða hvað vilt hæstv. ráðh. segja um kalið í túnunum og önnur slík áföll, sem menn verða fyrir í stórum mæli?

Vill ekki hæstv. ráðh. eftir þessum hugsanagangi sínum fara að greiða hér niður erlent, innflutt hey, til þess að menn skuli ekki freistast að leggja í þá áhættu að rækta gras, á meðan er ekki alveg búið að komast fyrir um, af hverju kalið í túnunum stafar, og koma í veg fyrir, að menn geti orðið fyrir tjóni af þeirri ógætni að reyna að rækta gras á Íslandi, á sama hátt og hæstv. ráðh. vill ekki láta íslenzka kornframleiðslu njóta jafnréttis, til þess að hafa þannig vit fyrir mönnum, að þeir leggi ekki út í kornrækt, fyrr en búið sé að gera einhverjar sérstakar tilraunir, sem hann nú hafi lagt grundvöll að?

Hæstv. ráðh. talar eins og hann viti ekki, að hér hafa verið hafðar uppi tilraunir um kornrækt alveg rétt í nágrenni við hann áratugum saman, og það liggja fyrir stórmerkar niðurstöður af þeim tilraunum, sem bændur eru nú að reyna að notfæra sér í framleiðslu heima hjá sér.

Auðvitað getur hæstv. ráðh. komið hér hnakkakerrtur og sagt, að það hafi misheppnazt kornrækt s.l. sumar. Það var líka óvenjulega vont sumar. Það var líka stórkostlegt kal í túnunum í sumum landshlutum, þannig að menn hafa ekki hálfan heyskap. Og við vitum, að það þarf að eiga sér stað stórkostleg tilraunastarfsemi í sambandi við kornrækt og í sambandi við grasrækt og fjölmarga aðra ræktun.

Það, sem kom mér til að standa hér upp, var að vekja athygli á þessum hugsanagangi hæstv. ráðh., sem engan veginn fær staðizt. Ég vil biðja hæstv. ráðh, að endurskoða þessa afstöðu sína, því að hann sér, að það hlýtur náttúrlega að leiða út í fullkomið óefni, ef hann ætlar að taka það só sér með þessari niðurgreiðslupólitík sinni að ákveða, hvenær tímabært sé fyrir bændur, sem hafa áhuga á því að leggja í kornrækt á eigin áhættu og eigin reikning, og hvenær ekki. Og hvað ætlar hæstv. ráðh. að bíða lengi eftir þessum tilraunum, sem hann segist nú hafa sett í gang? Hvað á að biða lengi eftir þeim, og hver á að vera dómari í þessum efnum?

Hér er komið út á svo fáránlega braut, að ég vona, að hæstv. ráðh. sjái, að þetta getur ekki staðizt, og hann við nánari athugun komist að þeirri niðurstöðu að reyna að stuðla að því, eins og hann getur, að jafna hér metin á milti innlendrar kornræktar og erlendrar, ekki með því að ætla inntendri kornrækt styrk í þessu sambandi, heldur með því að láta hana að þessu leyti til, að því er varðar niðurgreiðslurnar, njóta jafnréttis við erlenda kornrækt. Ég er alveg sannfærður um, að um þetta eru nær allir sammála. Það er af einhverjum undarlegum misskilningi, hlýtur að vera, að hæstv. ráðh. hefur ekki gert þessa ráðstöfun, og ég vil skora á hann að bæta úr þessu.

Ég er alveg viss um það, að honum verður ekki álasað af þeim bændum, sem kunna að verða fyrir áföllum vegna slæmrar veðráttu. Hæstv. ráðh. þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því, að honum verði álasað eða honum verði kennt um það tjón, sem menn kunna að verða fyrir á kornræktinni, þó að hann taki þetta helsi af henni, sem á henni liggur núna, þar sem henni er synjað um niðurgreiðslur til jafns við það, sem gert er á erlenda kornið. Það er alveg sjálfsagt að halda áfram með þessar tilraunir og efla þær á alian hátt, en þær koma bara þessu máli ekki nokkurn skapaðan hlut við. Eða hvað segðu menn t.d. um það, ef þessi regla, sem hér hefur komið fram, ætti að gilda um nýjar atvinnugreinar yfirleitt, sem mönnum dytti í hug að reyna, að þeim skyldi neitað um jafnréttisaðstöðu, þangað til einhver ráðherra hefði komizt að þeirri niðurstöðu, að það væri óhætt fyrir menn að leggja í þennan eða hinn reksturinn? Hvað er þá orðið um einstaklingsframtakið í landinu, sem við vitaskuld verðum að treysta svo stórkostlega á?