17.10.1962
Sameinað þing: 3. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í D-deild Alþingistíðinda. (2868)

12. mál, innlend kornframleiðsla

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er ekki ástæða til að segja mikið eftir þessar tvær ræður, sem hér hafa verið fluttar. Mér virðist, að hv. ræðumenn haldi sig ekki við það, sem er aðalatriðið í íslenzkri kornrækt, heldur við aukaatriðið, þ.e. smámálið, þessa hálfa millj. kr., sem talað hefur verið um. Það er eins og íslenzk kornrækt í nútíð og framtið velti á því, að þessi hálfa millj., sem hv. 1. flm. nefndi hér áðan, verði greidd nú úr ríkissjóði. En íslenzk kornrækt stendur ekki eða fellur með því. Íslenzk kornrækt stendur og fellur með því, að það sé unnið að því að finna það afbrigði, sem þrífst hér á landi og bændur hafa ekki tjón af að sá í jörðina. Það er þetta, sem nú er verið að vinna að. Og það verður ekki ég eða annar ráðh., sem ákveður, hvenær þetta er tímabært, heldur eru það vísindamennirnir, sem rækta þetta afbrigði. Það er spurt: Hversu langan tíma á að bíða? Ég á ekki gott með að svara því. En ég hef heyrt vísindamennina segja: 2–3–4 ár e.t.v., þá verði hægt að benda bændum á ákveðið afbrigði, sem mætti telja árvisst.

Hv. 1. þm. Austf. talaði um, að ég vilji hræða bændur frá því að rækta korn, hræða þá frá því að leggja í áhættu. Ég spyr: Er það eðlilegt, að bændurnir leggi í áhættu, ef þeir geta komizt hjá því? Er ekki eðlilegra, að ríkið eða opinberar stofnanir leggi í áhættuna og beri kostnaðinn af tilraununum, heldur en bændurnir sjálfir? Og vissulega hafa íslenzkir bændur við nægilega mikla erfiðleika að etja, þótt þeir taki ekki á sig þessa áhættu.

Ég talaði við bónda um síðustu helgi, sem setti niður korn í nokkra hektara á s.l. vori, og hann sagðist hafa tapað 20 þús. kr. á því. Uppskeran hafði brugðizt. Það er að vísu sagt, að sumarið í sumar hafi verið lélegt. Þó er það svo, að slík sumur geta oft komið. Og þegar hv. 1. þm. Austf. er að bera saman grasræktina og kornræktina, þá er það vitanlega alveg út í hött, því þótt það geti komið fyrir kal í túnum einstöku sinnum, þá er þó grasræktin með þeirri tækni, sem við nú þekkjum, og erlenda áburðinum orðin árviss, og sem betur fer hefur ekki orðið grasbrestur hér á landi áratugum saman og verður vonandi ekki.

Ég mælti ekki gegn till., sem hér er flutt. En það þykir, að ég hafi mælt linlega með henni. Og það er vegna þess, að hv. flm., sem talaði hér áðan, og hv. 1. þm. Austf. talaði í svipuðum dúr, — það er eins og þeir telji þetta eitthvert aðalatriði fyrir kornræktina., hvort að því verður horfið að greiða niður sem nemur allt að hálfri millj. kr. íslenzkt korn. Og það er talað um, að íslenzkir bændur njóti ekki jafnréttis að þessu leyti við erlenda bændur. Ég minntist á það áðan, að hér væri ekki hægt að tala um neina samkeppni á milli íslenzks korns og erlends vegna þess, hversu íslenzka kornið er lítill þáttur. Það er ekki nema 1–2% af því fóðurkorni, sem notað er í landinu. Og það er hreinn útúrsnúningur, þegar hv. 1. þm. Austf. talaði um það hér áðan, að e.t.v. vildi ég halda því fram, að niðurgreiðslan á erlenda kornið væri styrkur til erlendra kornræktarbænda. Það liggur í augum uppi, að ef hér er um styrk að ræða, þá er það til íslenzkra bænda, og væri þó ekki heldur rétt að segja það, vegna þess að eftir því sem fóðurkornið er ódýrara, þessi 98–99% af fóðurkorninu, sem er útlent, eftir því verður það, sem framleitt er, mjólkin og kjötið, ódýrara. Og þess vegna er náttúrlega ekki heldur hægt að segja, að þetta sé beinn styrkur til bænda, ekki a.m.k. nema að nokkru leyti.

Það hefur verið að því fundið, að erlenda kornið njóti óeðlilega góðra kjara í frögtum og tollum. En það gegnir sama máli um það að nokkru leyti. Er þetta styrkur ekki aðeins til bænda, heldur til þess að koma í veg fyrir, að landbúnaðarvörurnar hækki í verði.

Ég tel ekki ástæðu til að ræða þetta miklu meira, en ég vil aðeins benda á, að þótt kornræktartilraunir hafi staðið hér í 30 ár og ýmislegt gott ha.fi leitt af þeim tilraunum, þá býst ég við, að þær séu ekki fullnægjandi. Og þrátt fyrir ágæta viðleitni og góð störf þess manns, sem að þeim tilraunum hefur staðið, þá býst ég við um þær tilraunir, sem nú eru gerðar á vegum atvinnudeildar háskólans, að það megi vænta meiri árangurs af þeim á styttri tíma en fengizt hefur af 30 ára starfi, sem unnið hefur verið á Sámsstöðum undir allt öðrum og lakari skilyrðum en tilraunum nú er boðið undir stjórn hinna hæfustu manna, sem hafa fengið miklu meiri menntun en þessi ágæti maður, sem hér er vitnað til og ég vil ekki á neinn hátt gera lítið úr. En ég segi það enn, að það er vitanlega virðingarvert, þegar bændur eru framtakssamir og áhugasamir, eins og þeir eru yfirleitt. En þegar um það er að ræða að ráðast í áhættufyrirtæki, sem kornræktin er enn í dag, þá held ég, að það sé eðlilegt, að þeir ráðist í þennan atvinnuveg án hvatningar frá því opinbera. En þegar það er heppilegt að áliti hinna fróðustu manna að sá korni án áhættu, eins og vísindamenn telja að ekki verði langt að bíða eftir, þá er vitanlega sjálfsagt og nauðsynlegt að hvetja íslenzka bændur til að taka upp þennan atvinnuveg, sem gæti þá orðið eins árviss og árangursríkur og mjólkurframleiðsla og sauðfjárrækt, svo að eitthvað sé nefnt. Og ég vil enn segja það, að ef bændur almennt ráðast í kornrækt, á meðan á tilraununum stendur, og verða fyrir varanlegu tjóni af því, þá, er það vísasta leiðin til þess að hindra og tefja fyrir því, að kornrækt verði almennt tekin upp, áður en langur tími liður. Og það væri vissulega slæmt, og það væri ástæða til að harma það. En núv. ríkisstj. hefur með því að koma af stað umfangsmiklum tilraunum undir stjórn hinna færustu manna, verja til þess fjármunum, verið að leggja grundvöllinn að kornrækt í framtíðinni á Íslandi, sem við getum áreiðanlega bundið miklar vonir við.