07.11.1962
Sameinað þing: 9. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í D-deild Alþingistíðinda. (2882)

14. mál, raforkumál

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins við upphaf þessarar umr. gefa nokkra skýringu á því, sem ætlazt er til að gert verði í sambandi við þáltill. á þskj. 14, um raforkumál, sem hv. framsóknarmenn flytja, en það er sams konar till. og flutt var á síðasta þingi, þ.e. að skora á ríkisstj. að láta hraða áætlunum um áframhaldandi framkvæmdir um rafvæðingu landsins, er miðist við það, að öll heimili hafi fengið rafmagn í síðasta lagi fyrir árslok 1968. Séu gerðar áætlanir um ný orkuver, aðalorkuveitur og dreifilínur um sveitir ásamt áætlunum um aðstoð við að koma upp einkastöðvum fyrir einstök heimili, sem eru það afskekkt að geta ekki komizt í samveitur. Eins og upplýst var á síðasta þingi, hefur verið lagt fyrir raforkumálastjóra að vinna þetta verk, sem minnzt er á hér í till., og hefur raforkumálaskrifstofan unnið að því síðan, en hefur ekki lokið við það enn, enda er hér um mikið verkefni að ræða.

Ég hef áður haft það eftir raforkumálastjóra, að í árslok 1964, þegar 10 ára áætlun er lokið, muni 182 þús. Íslendingar hafa raforku frá vatnsaflsvirkjunum, samveitum eða stærri dísilvélum, þar sem kalla má nokkurn veginn varanlegt rafmagn. Og þá er einnig áætlað, að um 8 þús. íslendingar hafi ekki varanlegt rafmagn, séu annaðhvort rafmagnslausir eða fái raforku frá minni stöðvum, sem þykja ekki eins góðar til raforkuvinnslu. En það, sem felst í þessari till. og í bréfi rn. 1960, er ekki aðeins, hvernig eigi að láta þessi 8 þús. Íslendinga fá raforku, sem hafa ekki fengið hana í árslok 1964, heldur einnig hitt, hvernig á að tryggja það, að þeir 182 þús. Íslendingar, sem fengið hafa rafmagn, hafi framvegis nægilegt rafmagn, og þá þarf vitanlega að athuga um nýjar virkjanir og nýjar veitur, sem geta flutt meiri orku en þær, sem nú eru fyrir hendi.

Athugun raforkumálaskrifstofunnar er þannig tvíþætt, og raforkumálastjóri hefur gefið mér skýrslu um, á hvaða stigi þessi mál eru nú. Hann hefur tjáð mér, að raforkumálaskrifstofan hafi lagt megináherzlu á annan þáttinn, enn sem komið er, þ.e. að athuga virkjunarmöguleika og aðstöðuna til þess að koma rafmagninu ekki aðeins til þessara 8 þús. Íslendinga, heldur tryggja það, að allir landsmenn hafi nægilega raforku eftirleiðis og undirbúningur verði hafinn til þess að mæta hinni stórum auknu raforkuþörf. Vil ég þá gefa nokkrar upplýsingar um. hvernig þessari athugun er háttað og á hvaða vegi hún er.

Raforkumálastjóri segir, eins og ég áðan sagði, að á vegum raforkumálastjóra er nú unnið að rannsóknum og áætlunum um áframhaldandi rafvæðingu og um öflun raforku til að mæta vaxandi orkuþörf. Auk þessara áætlana er einnig unnið að því að athuga, á hvern hátt megi koma raforkunni til þeirra, sem svo illa eru í sveit settir, að vafasamt þyki, hvort þeir geti komizt í samveitukerfi. Og þá er helzt um það rætt, að ef þeir eru það langt frá, í það miklu strjálbýli, að ekki sé unnt að koma þessum býlum í samveitukerfi, verði þeirra raforkumál leyst með dísilrafstöðvum, sem séu þá annaðhvort styrktar af almannafé eða þá að veitt séu svo hagkvæm lán, að flestum eða öllum bændum sé gert kleift að eignast vélarnar.

Um Suðvesturland hefur raforkumálastjóri athugað um framkvæmdir, þ.e. svæðið frá Vík í Mýrdal til Borgarness. Unnið er að rannsóknum og áætlun um virkjun Þjórsár við Búrfell og miðlun í Þórisvatni í því sambandi með stóriðju fyrir sugum, en frá Búrfellsvirkjun fengist jafnframt mikil raforka til almenningsnota. Athuganir á fleiri virkjunum í Þjórsá og þverám hennar í framhaldi af Búrfellsvirkjun, svo sem um Urriðafoss, Hrauneyjarfoss, Tungnaárkrók og víðar, eru á byrjunarstigi. Unnið er að almennum rannsóknum á Hvítársvæðinu og að áætlun nm virkjun við Brúará til almennra þarfa. Enn fremur er unnið að áætlun um jarðhitaorkuver í Hveragerði, einnig til almennra þarfa.

Um Snæfellsnes: Tvær leiðir eru helzt taldar koma til greina til að sjá fyrir aukinni raforkuþörf á Snæfellsnesi: 1) að virkja Hraunsfjarðarvatn í 2–3 þús. kw. orkuveri, og 2) að leggja háspennulínu frá Borgarfirði og tengja Snæfellsnes þannig við orkusvæði Sogsins og Andakílsár. Eru báðir þessir möguleikar í athugun. Báðar þessar leiðir eru kostnaðarsamar, og nokkur ár líða, þar til þær komast í íramkvæmd, og þangað til verða dísilstöðvar að sjá fyrir þeirri orkuþörf. sem núv. vatnsorkuver anna ekki. Er nú verið að áætla, hverjar viðbætur í dísilsamstæðum séu nauðsynlegar í því skyni.

Dalir: Hentugir virkjunarstaðir hafa engir fundizt í Dölum þrátt fyrir leit. Er því gert ráð fyrir að leysa raforkumál þessa svæðis með dísilstöðvum fyrst um sinn, en tenging við vatnsaflsstöðvar í nálægum landshlutum er einnig til athugunar. Nokkur tími mun líða, áður en slík ráðstöfun kemur til greina, vegna kostnaðarins.

Vestfirðir: Yfirlitsrannsóknir á Glámusvæðinu. sem er þýðingarmesta vatnsorkusvæði Vestfjarða, standa nú yfir. Sú rannsókn miðar að því að fá heildaryfirlit yfir virkjun á svæði þessu í megindráttum, en slíkt yfirlit er nauðsynlegt að hafa, áður en ráðizt er í frekari virkjunarframkvæmdir í Dynjandi eða Mjólká, en þær ár eiga upptök sín í Glámuhálendinu sem kunnugt er. Um nýja vatnsvirkjun þarna gildir hið sama og sagt var um Snæfellsnes, að hún er svo kostnaðarsöm, að raforkunotkun á Vestfjörðum þarf að aukast allmikið frá því, sem nú er, áður en ráðizt er í slíka virkjun. Jafnframt eru í athugun möguleikar á að auka orkuvinnslu núv. vatnsaflsstöðva með gerð miðlunarmannvirkja. Að öðru leyti verða dísilstöðvar að sjá fyrir aukningu um hríð, og er verið að áætla nauðsynlegar stækkanir dísilstöðva í því sambandi.

Strandir: Ráðgerð er stækkun Þverárvirkjunar við Hólmavík um helming næsta ár. Kostnaður við þá aðgerð er áætlaður 5 millj. króna.

Norðurland: Á næsta ári er ráðgerð spennuhækkun á hluta af Húnaveitu og bygging spennistöðva í Víðidal og í mynni Vatnsdals í því skyni að auka flutningsgetu veitunnar. Einnig er ráðgert að auka á næsta ári flutningsgetu veitunnar út vesturströnd Eyjafjarðar til Dalvíkur. Í athugun eru ýmsir virkjunarstaðir á Norðurlandi, er komið gætu til greina til að mæta vaxandi raforkuþörf þessa landshluta. Unnið er að áætlun um viðbótarvirkjun í Laxá, í Suður-Þingeyjarsýslu. Einnig er í athugun að leggja aðalorkuveitu frá Akureyri til Skagafjarðar og tengja þannig vesturhluta Norðurlands við orkusvæði Laxár, e.t.v. með hliðartengingu inn á orkusvæði Skeiðsfossvirkjunar. Skagafjörður og Húnavatnssýsta eru þegar samtengd, sem kunnugt er, og yrði með þessu móti komið á samhangandi raforkukerfi um allt Norðurland. Þessar veitur koma til samanburðar við fleiri smærri virkjanir, ef athuganir sýna, að völ sé á hagkvæmum virkjunarstöðum fyrir þær. Hér er því enn þannig varið, að nokkur tími mun líða, áður en fært þykir að ráðast í þessa framkvæmd. Þann tíma, sem það tekur, verður að brúa með dísilstöðum, og er nú í athugun að stækka dísilstöðvar á Sauðárkróki og Akureyri e.t.v.

Þá er unnið að rannsóknum og áætlunum um virkjun Jökulsár á Fjöllum, bæði byrjunarvirkjun við Dettifoss og að gerð miðlunarmannvirkja og viðbótarvirkjana í framhaldi af henni. Enda þótt slík virkjun geti látið í té mikla raforku til almennra þarfa, eru þessar rannsóknir, sem kunnugt er, gerðar með virkjun til stóriðju fyrir augum, og fullyrða má, að virkjun Jökulsár á Fjöllum til almennra nota eingöngu kemur ekki til greina vegna kostnaðar um langan aldur enn þá.

Norðausturland, Austfirðir og Suðausturland: Á Norðausturlandi, þ.e. frá Kópaskeri til Vopnafjarðar, mun enn um sinn verða að mæta aukinni raforkuþörf með stækkun dísilstöðvanna, sem nú sjá landshluta þessum fyrir rafmagni. Er á næsta ári ráðgerð stækkun dísílstöðvanna á Þórshöfn og Vopnafirði. Til athugunar eru möguleikar á tengingu Vopnafjarðar við Grímsárkerfið, og einnig er leitað að hentugum virkjunarstöðum í nágrenni kauptúnanna. Á Miðausturlandi eru í athugun möguleikar á að auka orkuvinnslugetu Grímsár, og leit að virkjunarstöðum fer fram. Koma virkjanir þar til samanburðar við tengingu Austurlands við Laxárvirkjun. Við slíka samtengingu opnast fleiri möguleikar í virkjunarmálum á Norður- og Austurlandi, svo sem Lagarfossvirkjun, sem þá, fær miklu stærra orkuveitusvæði en ef engin slík tenging væri fyrir hendi, og getur þetta ráðið úrslitum um hagkvæmni þeirrar virkjunar. Þar til slíkar ráðstafanir í raforkumálum Miðausturlands verða tímabærar, verður aukinni raforkuþörf mætt með dísilstöðum, og er á næsta ári ráðgerð stækkun dísilstöðvarinnar í Neskaupstað.

Á sunnanverðum Austfjörðum, þ.e. frá Fáskrúðsfirði til Djúpavogs, virðast heppilegustu ráðstafanirnar vera stækkun dísilstöðvanna, a.m.k. nú um sinn, enda þótt tenging við Grímsárvirkjun og einstakar smærri virkjanir í nágrenninu komi einnig til athugunar. Á næsta ári er áformuð stækkun dísilstöðvarinnar á Djúpavogi. Fyrir veitukerfið í Hornafirði og nálægum sveitum er um að ræða stækkun dísilstöðvarinnar á Höfn eða virkjun Smyrlabjargaár. Sú virkjun hefur allmjög verið til umr., sem kunnugt er, en telja má víst, að einhver tími tíði, unz hún verður talin tímabær.

Stórvirkjanir utan Þjórsár, Hvítár og Jökulsár: Enda þótt þessar þrjár ár ásamt þverám séu mikilvægustu vatnsorkuforðabúr okkar og því beri að leggja áherzlu á rannsókn þeirra öðru fremur, þykir samt ekki fært að vanrækja með öllu rannsóknir annarra stóráa, svo sem Hvítár í Borgarfirði og Norðlingafljóts, Blöndu, Jökulsánna í Skagafirði, Skjálfandafljóts, Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal. Eru rannsóknir á þessum ám sumpart í gangi og sumpart fyrirhugaðar á næstu árum. Reynt verður kostnaðar vegna að takmarka þær við yfirlitsrannsóknir, en fresta nákvæmum rannsóknum einstakra virkjunarstaða, eftir því sem fært þykir.

Af þessu yfirliti má sjá, að raforkumálaskrifstofan hefur ærin verkefni með höndum, og ljóst, að verkfræðingar hennar hafa ekki haldið að sér höndum. Þetta rannsóknarstarf og athugunar er ákaflega umfangsmikið, og þarf þess vegna ekki að undra, þótt ekki sé enn að fullu lokið öllu því, sem raforkumálaskrifstofunni var falið að gera með bréfi rn. í febrúar eða marz 1960 um ötl þessi atriði.

Hitt er svo alveg rétt, sem stendur í till. hv. framsóknarmanna, að það er æskilegt, að þessu verði hraðað sem mest. Og það er unnið að þessu af eins miklum hraða og unnt er að fá fram. Það er vitanlega æskilegt fyrir bændur að vita, hvort þeir eigi von á rafmagni og hvenær, — þá bændur, sem eru eftir, þegar 10 ára áætluninni er lokið 1964. Og þetta mætti segja þeim nú þegar, ef framhaldsáætluninni væri lokið hjá raforkumálaskrifstofunni.

Það þarf að fara fram aliviðtæk athugun á þessu. Það liggur ekki enn fyrir á raforkumálaskrifstofunni, hve miklar vegalengdir samtals eru á milli þessara býla, sem eftir verða. Það þarf að fara fram, eins og þeir kalla, næstum því ný kortlagning yfir þetta og mælingar, og svo þarf að draga línur og áætlanir þarna á milli.

Eins og kunnugt er, var ákveðið með þeirri tíu ára áætlun, sem nú er unnið eftir, að miða vegalengdina á milli býla við sem næst 1 km. Nú er spurningin, hvort á að miða eftir framhaldsáætluninni við 11/2 km eða 2 km, segja sem svo: Þeir bæir, sem ekki er meiri fjarlægð á milli til jafnaðar en 2 km, skulu komast á samveitusvæði. Sumir mundu jafnvel segja: Það á ekki að miða við 2 km, heldur 21/2 eða 3. En afstaða til þessa hefur ekki verið tekin enn af raforkumátaskrifstofunni eða stjórnarvöldunum og er ekki unnt að gera, fyrr en séð er, hvað er hér um miklar vegalengdir að ræða, hvað eru þetta margir km í háspennulínu, sem þarf að leggja um þær byggðir landsins, sem enn eiga eftir að fá rafmagn. Ég geri ráð fyrir því, að ákvörðun í þessu efni fari dálítið eftir því, hvað kostar að leggja háspennulínu til þessara manna, sem eru eftir yfirleitt. Og sjálfsagt finnst mér að teygja sig í þessu efni eins langt og fært þykir mögulega, því að vitanlega er miklu heppilegra og betra fyrir menn að vera í sambandi við samveitu heldur en hafa litla dísilvél heima til raforkuvinnslu, enda þótt dísilvélarnar séu nú orðnar gangvissar.

Þetta er það, sem raforkumálastjóri er að vinna að núna. Hvort hann lýkur því á þessum vetri eða næsta sumri, það hef ég ekki fengið ákveðið svar um enn hjá honum, en honum er alveg fyllilega ljóst, að þessu þarf að hraða, þessu verki þarf að flýta.

Ég held nú, að bændur landsins, sem eftir eiga að fá rafmagn, geti allavega reiknað með því, að rafmagn fái þeir. Spurningin er: Verður það með samveitu eða verður það með dísilstöð? Og margir bændur hafa nú þegar fengið sér dísilstöð, jafnvel þótt þeir séu nokkurn veginn öruggir um að fá rafmagn frá samveitu í framhaldsáætluninni.

En mig undrar ekkert, þótt svona till. komi fram. Það er þetta, sem fjöldi manns bíður eftir, og það er kunnugt, að sumar jarðir, hvort þær verða byggðar eða ekki, það fer eftir því, hvort rafmagn verður lagt þangað heim eða ekki. Og að því leyti get ég endurtekið það, sem ég sagði hér í fyrra, að það er mjög æskilegt, að það dragist ekki mjög lengi, að þessi framhaldsáætlun komi fram, enda þótt það sé ekki að neinum baga vegna framkvæmdanna sjálfra, því að framkvæmdir eftir framhaldsáætluninni byrja ekki fyrr en á árinu 1965. Fjárframlög til raforkuframkvæmda nú hin síðari ár hafa miðazt við það, að 10 ára áætluninni megi ljúka 1964. Og þar sem verðlag hefur mjög hækkað, eins og kunnugt er, hefur orðið að auka fjárframlög til framkvæmdanna sem því nemur, til þess að unnt verði að halda þessari áætlun. Það hefur verið gert. Áætlunin stenzt, vegna þess að fjárframlög til framkvæmdanna hafa verið aukin í fullu samræmi við aukinn tilkostnað.