07.11.1962
Sameinað þing: 9. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í D-deild Alþingistíðinda. (2884)

14. mál, raforkumál

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er nú fátt, sem ég þarf að athuga í ræðu hv. síðasta ræðumanns, vegna þess að við erum í höfuðatriðum alveg sammála. Við erum alveg sammála um, að það þurfi að flýta þessari áætlun, sem hér er um að ræða. Við erum sammála um, að það eigi að láta eins marga bændur og mögulegt er hafa rafmagn frá samveitum. En það er aðeins eitt, sem við erum ekki alveg sammála um, og það er það, hvort raforkumálaskrifstofan hefur unnið að þessum framkvæmdum af þeim hraða, sem sanngjarnt er að krefjast af henni.

Ég býst við því, ef menn reyna að setja sig inn í þau störf, sem raforkumálaskrifstofan hefur með höndum, og það vænti ég, að hv. alþm. eigi hægara með, eftir að ég gaf þá skýrslu, sem ég gerði hér áðan, þá sannfærist menn um, að það sé ekki sanngjarnt að halda því jafnvel fram, að þessir menn vinni ekki eins og hægt er að búast við. Þetta er ákaflega mikið starf, og ég verð að viðurkenna það, að í fyrstu bjóst ég við, að það væri unnt að leysa það á skemmri tíma en rann hefur á orðið. En það má náttúrlega alltaf deila um það, hvað eigi að meta mest. Það eru þarna í aðalatriðum tveir meginþættir, eins og ég minntist á áðan, og ég er innilega sammála því, að það eigi að hraða þessu eins og unnt er. En ég get ekki verið með ásakanir í garð raforkumálastióra eða starfsliðsins á raforkumálaskrifstofunni fyrir seinagang, vegna þess að mér virðist, að þetta sé svo víðtækt starf. sem þeir hafa, ekki aðeins að teikna upp þessa bæi og vegalengdir, sem eru utan 10 ára áætlunarinnar, heldur Svo margt annað, sem er óhjákvæmilegt að vinna í sambandi við framhaldsvirkjanir og orkuöflun og endurbyggingu ýmissa veitna, sem þurfa að flytja meiri orku en þær voru byggðar fyrir.

En við skulum nú vona, að það dragist ekki lengi, að þessi áætlun liggi fyrir, frumáætlun, sem unnin er af starfsliði raforkumálaskrifstofunnar og unnin verður á svipaðan hátt og undirbúin og 10 ára áætlunin. Það er auðvitað alls ekki rétt, að raforkuráð hafi unnið að 10 ára áætluninni. Það var raforkumálastjóri og hans starfslið, sem vann að 10 ára áætluninni. En raforkuráð hafði svo aftur með höndum ýmis framkvæmdaatriði, og þannig verður vitanlega með framhaldsáætlunina. Það er raforkumálastjóri og verkfræðingar raforkumálaskrifstofunnar, sem undirbúa framhaldsáætlunina, og raforkuráð hefur svo með höndum framkvæmdirnar og vitanlega mikið um það að segja, hversu langt verður gengið í því að leggja samveitur heim á hina einstöku bæi.

Það er svo lítið, sem mér og hv. frsm. ber á milli í þessu máli, að ég held, að það sé ekki þörf á því að ræða það öllu meira núna.