27.03.1963
Sameinað þing: 42. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í D-deild Alþingistíðinda. (2889)

14. mál, raforkumál

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Efni þeirrar till. til þál., sem hér liggur fyrir um raforkumál á þskj. 14 og flutt er að 17 fulltrúum Framsfl. hér á hinu háa Alþingi, er að skora á ríkisstj. að láta hraða áætlunum um áframhaldandi framkvæmdir við rafvæðingu landsins, er miðist við það, að öll heimili hafi fengið rafmagn í síðasta lagi fyrir árslok 1968. í till. er það svo nánar fram tekið um þetta verkefni, að gera skuli áætlanir um ný orkuver, aðalorkuveitur og dreifilínur um sveitir ásamt áætlunum um að koma upp einkastöðvum fyrir einstök heimili, sem kunna að vera svo afskekkt, að ekki þyki fært að leggja raflínur til þeirra frá samveitum, enda sé aðstoðin ákveðin til þeirra heimila með hliðsjón af þeim stuðningi, sem veittur er íbúum samveitusvæðanna.

Till. svipaðs efnis var flutt af hálfu Framsfl. á Alþ. 1961–62, en varð ekki afgreidd á. því þingi. Nú hefur till. sú, sem hér liggur fyrir, hlotið afgreiðslu í allshn. þingsins, þó ekki þannig, að n. hafi orðið sammála um þá afgreiðslu. Meiri hl. n. vill vísa málinu til ríkisstj. Við vitum, hvað sú afgreiðsla þýðir, ef samþykkt yrði. Hún þýðir, að Alþ. vilji ekki sjálft taka afstöðu til till., að það vilji ekki skora á ríkisstj. að gera það, sem till. fjallar um. Í slíkri afgreiðslu felst ekki hvatning frá Alþingi, enginn þingvilji. Við minnihlutamenn í n., en þeir eru auk mín hv. 5. þm. Norðurl. v. og hv. 7. landsk. þm., við sættum okkur ekki við svo neikvæða málsmeðferð. Við leggjum til við þingið, að það samþykki till. á þá leið, að rafvæðingaráætlunum skuli lokið fyrir 1. okt. n.k. Þar sem afgreiðsla till. hefur dregizt í nokkra mánuði, síðan hún var flutt í byrjun þings s.l. haust, þykir okkur nú rétt, að við það sé miðað, að áætlanirnar séu tilbúnar, þegar næsta reglulegt þing kemur saman. Óhætt ætti að vera að gera ráð fyrir, að athugunum og rannsóknum sé nú svo vel á veg komið um land allt í þessu máli, að þetta eigi að vera framkvæmanlegt.

Með bréfi, dags. 27. nóv. s.l., sendi allshn. raforkumálastjóra till. á þskj. 14 til umsagnar. Umsögn hans er dags. 20. des. s.l. eða um það leyti, sem þinghlé hófst fyrir jól. Í þessari umsögn er í rauninni ekki tekin afstaða til þess máls, sem hér liggur fyrir, en í henni eru nokkrar upplýsingar um framkvæmd 10 ára áætlunarinnar o.fl., m.a. um rekstrarhalla rafveitnanna, sem hv. frsm. meiri hl. gerði grein fyrir hér áðan. Það kemur fram í þessari umsögn raforkumálastjóra og kom aftur greinilega fram í ræðu hv. frsm. meiri hl., að nú sé um að ræða á vegum raforkumálayfirvaldanna 10 ára áætlun, sem ráðgert að að vísu að ekki komi til framkvæmda fyrr en árið 1965, þar sem núv. 10 ára áætlun muni í rauninni taka 11 ár. Af þessu virðist mega ráða og kom reyndar glöggt fram í ræðu hv, frsm. meiri hl. hér áðan, að raforkumálastjórnin sé ekki að láta vinna þetta áætlunarverk á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í till. á þskj. 14. í umsögn raforkumálastjóra og ræðu hv. frsm. meiri hl. var talað um nýja 10 ára áætlun. En í till., sem fyrir liggur á þskj. 14, er talað um 5 ára áætlun. Það er sitt hvað, og með sérstöku tilliti til þess kemur glöggt í ljós, hvað það þýðir að vísa till. til ríkisstj., eins og hv. meiri hl. n. leggur til að gert verði.

Það skal tekið fram, að þegar allshn. tók þetta mál til endanlegrar meðferðar og afgreiddi það, sem var í febrúarmánuði, var hv. frsm. meiri hl., hv. 1, þm. Vestf., ekki á fundi, hann var þá erlendis og tók ekki þátt í störfum n. og þá ekki heldur þátt í þeirri afgreiðslu og ekki þátt í þeirri meirihlutasamþykkt, sem þar var gerð um að leggja til, að málinu yrði vísað til ríkisstj. Síðan er langur tími liðinn. Minni hl. beið átekta í nokkra daga, eftir að álit meiri hl. kæmi fram, en þegar það kom ekki fram, skilaði minni hl. áliti sinu, og er það dags. 28, febr. Síðan leið og beið, og er það ekki sök hv. frsm. meiri hl., því að eins og ég tók fram var hann erlendis, þegar þetta gerðist, og þá mun það ekki hafa verið ráðið, að hann yrði frsm., heldur trúlega þá öðrum ætlað, þó að hann síðar hafi tekið að sér það verkefni að skila nál. og hafa framsögu. En nál. hv. meiri hl., sem hér liggur fyrir á þskj. 448, er ekki dags. fyrr en 22. marz og var ekki útbýtt hér á hinu háa Alþingi fyrr en 25. marz, og var þá víst rúmlega mánuður liðinn frá því, að málið var afgr. á fundi nefndarinnar.

Ég hlustaði með athygli á þá ræðu, sem hv. frsm. meiri hl. flutti hér áðan. Og það, sem mér kom í hug, þegar ég hafði hlustað á þessa ræðu, var þetta: Hvernig stendur á því, að þessi hv. þm. hefur ekki undirritað álit minni hl., sem þá hefði orðið meiri hl., og lagt til, að till. yrði samþ., í stað þess að undirrita þessa neikvæðu till., sem prentuð er á þskj. meiri hl., nr. 448, því að mér virtist, að í ræðu hans kæmi glöggt fram sá hugur, að hann væri um margt einmitt sammála okkur, sem höfum flutt þáltill. á þskj. 14, að honum þætti hafa gengið seint og treglega að rafvæða landið og að honum þætti þeir, sem verða að bíða eftir rafvæðingunni, verða fyrir misrétti, þar sem þeir greiddu fé af höndum, sem varið væri til rafvæðingar í öðrum byggðum, en fengju sjálfir ekki neitt, og að hann þar af leiðandi teldi, að það bæri að hraða því að ljúka rafvæðingunni? Ræða hans hné mjög í þá átt. Hann sagði, að það væri hvorki sæmilegt né rétt að viðhalda þessu misrétti. En hvernig stendur þá á því, að hann skuli ekki hafa orðið minni hlutanum samferða um það að vilja samþ. þá till., sem hér liggur fyrir um 5 ára áætlun? Eins og ég sagði var hann ekki viðstaddur, þegar n. afgreiddi málið.

Þessi hv, þm, vakti athygli á því m.a., sem er alveg rétt, að á rekstri rafveitna ríkisins hefði orðið mikill halli og að í staðinn fyrir, að ríkið greiddi jafnóðum það, sem með þyrfti af stofnkostnaði við að leggja þessar veitur, þá hefðu ríkisrafveiturnar verið látnar taka lán til að greiða hallann eða safna skuldum, og hann las upp tölur jafnframt, sem sýna það og eru reyndar líka birtar í grg. með till. okkar framsóknarmanna á þskj. 14, að í staðinn fyrir að auka framlög ríkissjóðs á síðustu árum, eins og hefði þurft að gera til þess að mæta þessum stofnkostnaði og þessum halla og þeirri miklu hækkun á verðlagi, sem orðið hefur á þessum árum, þá hafa þessar upphæðir lækkað. Til dæmis má nefna það, að liðurinn til nýrra raforkuframkvæmda var 12 millj. kr. á árinu 1957, en á árinu 1961 var hann ekki nema 10 millj, kr., þrátt fyrir stórhækkun verðlags í landinu. Um þetta ræddi hv. frsm. meiri hl. Og hann nefndi hér ýmsar fleiri tölur, sem sýna, hvernig af ríkisins hálfu hefur í seinni tíð verið haldið á þessum málum, hvernig stofnkostnaður er vangreiddur, hvernig rekstrarhalli hefur hlaðizt upp frá ári til árs og verið látið undir höfuð leggjast af hálfu þjóðfélagsins að horfast í augu við það verkefni, sem menn hafa verið að reyna að leysa, og hef ég í raun og veru ekki miklu við það að bæta, sem hann sagði um það. Þar talaði áhugamaður um þessi mál, sem er óánægður yfir því, sem hefur verið að gerast í þessum málum, og telur, að þjóðfélagið hefði átt að taka þau fastari tökum.

Hann sagði enn fremur í lok ræðu sinnar, að því mætti ekki blanda saman að leysa þann vanda, sem nú væri fyrir hendi, vegna þess að stofnkostnaður hefði ekki verið greiddur og rekstrarhalli hefði myndazt, við það, sem fram undan væri, að rafvæða það, sem eftir er af landinu. Það mál, rafvæðinguna, yrði að leysa út af fyrir sig. Og fleira ræddi hann um þetta mál.

Það er í rauninni engin þörf fyrir mig að vera að deila á hv. frsm. meiri hl. fyrir hans ræðu, því að það er margt í hans ræðu, sem ég einmitt get tekið undir og finn, að við erum sammála um, annað en niðurstöðuna hjá honum, sem er náttúrlega röng og meinlega röng, því að eftir að hann hefur gert sér grein fyrir öllum þessum hlutum, þá telur hann, að ekki sé þörf á að gera áætlun þá, sem við förum fram á, það sé bezt að vísa málinu til ríkisstj. og láta hana halda áfram að gera sína tíu ára áætlun, láta það dragast um 10 ár, sem gera skal,— láta haldast enn í tíu ár það ástand í rafvæðingarmálunum, sem hann hefur sjálfur komizt svo að orði um að sé hvorki sæmilegt né rétt að viðhalda. Auðvitað er það ekki rétt, það er nokkuð út í bláinn mælt að slá því fram, að áætlanir eins og þær, sem hér er um að ræða, hafi enga þýðingu, af því að það vanti fé, en ekki áætlanir. Þegar um það er að ræða að gera áætlanir, þá er auðvitað átt við það jöfnum höndum að gera áætlanir um framkvæmdir og gera áætlanir um, hvernig þær framkvæmdir eigi að vera mögulegar.

Tíu ára áætlunin, sem nú á að vera langt komið að framkvæma, um rafvæðingu landsins byggist á lögum nr. 53 21. apríl 1954, sem eru viðauki við hin eldri raforkulög frá 1946. Með þessum viðaukalögum var í raun og veru tíu ára áætlunin ákveðin eða undirstaða hennar lögð á löggjafarsviðinu, eins og ég sagði, og var þar ákveðið, að í tíu ára áætluninni skyldu felast þau verkefni, er nú skal greina:

1) Að koma upp raforkuverum rafmagnsveitna ríkisins utan orkuveitusvæðis Sogs- og Laxárvirkjananna.

2) Að gera aðalorkuveitur og dreifiveitur rafmagnsveitna ríkisins og héraðsrafmagnsveitna ríkisins fyrir kaupstaði, kauptún og sveitir víðs vegar um landið.

3) Að veita bændum lán til að koma upp smárafstöðvum, vatnsafls- og mótorstöðvum.

4) Að lækka raforkuverð, þar sem það er hæst.

Þetta voru þau viðfangsefni tíu ára áætlunarinnar, sem mörkuð voru með lögunum frá 1954.

Það er talið, að framkvæmd tíu ára áætlunarinnar skv. lögunum hafi hafizt hið sama ár sem þau voru samþykkt, þ.e.a.s. á árinu 1954, og átti því að verða lokið á árinu 1963. En samkvæmt þeim upplýsingum, sem fram komu í umsögn raforkumálastjóra og einnig hefur komið fram frá hv. frsm. meiri hl., þá dregst áætlunin um eitt ár, þannig að það mun mega gera ráð fyrir, að henni verði ekki lokið — eða því, sem nú er kölluð tíu ára áætlun — fyrr en á árinu 1964. Þess má einnig geta, að eins og kunnugt er, þá hafa nú síðustu árin verið felldar niður úr þeirri tíu ára áætlun, sem fyrir lá hjá rafmagnsveitum ríkisins árið 1957 og margir þm. hafa haft í höndum, bæði aðalorkuveitur og orkuver, sem áformað hafði verið að koma upp á síðustu árum áætlunarinnar. Af því leiðir, að ekki hefur verið hægt að leggja dreifiveitur út frá þeim orkuveitum eða orkuverum, eins og búizt hafði verið við, og þá í stað þess stundum leitað úrræða, sem síður geta talizt til frambúðar. En þessi þáttur málsins þarf sérstakrar athugunar við í sambandi við hina nýju áætlun, sem hér er um að ræða.

Samkvæmt upplýsingum, sem fyrir liggja og ég hef haft í höndum, virðist hafa verið varið til framkvæmda skv. þeim töluliðum í raforkulögunum, sem ég las fyrst upp, þ.e.a.s. 1. og 2. tölul., til byggingar aðalorkuvera og dreifiveitna á vegum rafmagnsveitna ríkisins, þar á meðal héraðsrafmagnsveitnanna, fjárupphæðum þeim, sem tilgreindar eru í nál. minni hl, á þskj. 336. í þessu nál. bendum við á það, minnihlutamenn, að það sé að sjáifsögðu ekki einhlítt, ef menn vilja gera sér grein fyrir því, hvað unnið hafi verið að þessum málum á einstökum tímabilum eða einstökum árum, að nefna þær krónutölur, sem fyrir liggja í reikningum, svo mjög hefur verðlagið breytzt á þessum árum. Fyrir milljónina, sem lögð er fram á þessu ári, var að sjálfsögðu hægt að vinna miklu meira á fyrsta ári áætlunarinnar 1953, svo að dæmi sé tekið.

Ég hef þess vegna gert það til fróðleiks að láta umreikna þessar tölur af fróðum mönnum á verðlagi ársins 1962 skv. vísitölu. Því miður hef ég ekki getað fengið í hendur vísitölu rafvæðingarkostnaðar, sem væri sú rétta vísitala til þess að reikna þetta eftir. Rafvæðingarvísitala mun að vísu hafa verið notuð við einhverja áætlunargerð, en er talin ekki einhlít til notkunar, og ég hef ekki getað fengið í hendur þá vísitölu til notkunar. En í stað þess hef ég látið reikna þetta út skv. byggingarvísitölunni, hinni opinberu byggingarvísitölu, sem hefur verið birt á þessum árum, frá 1954, á fyrsta ári rafvæðingaráætlunarinnar, og fram á þennan dag. Ég hafði gert ráð fyrir því, að þessi byggingarvísitala mundi vera nálægt framkvæmdavísitölu rafvæðingarinnar, en þó þótti mér líklegt, að nokkru meiri hækkun mundi hafa orðið á rafvæðingarvísitölunni, og í viðtölum við fróða menn hef ég fengið það staðfest, að það sé bersýnilegt, að rafvæðingarvísitalan hafi hækkað eitthvað meira en byggingarvísitalan á þessum tíma, og bið ég hv. þm. að hafa það í huga. Upphæðir þær, sem ég nefni um framkvæmdir á vegum ríkisrafveitnanna á þessum árum tíu ára áætlunarinnar, eru sem sé byggðar á umreikningi með byggingarvísitölu, en umreikningur með rafvæðingarvísitölu, ef fyrir hendi væri, mundi sýna nokkru hærri upphæðir hin fyrstu ár áætlunarinnar en þær, sem nú verða lesnar.

Samkvæmt þessum umreikningi hefur verið varið til þessara framkvæmda sem hér segir á vegum rafmagnsveitna ríkisins og héraðsrafmagnsveitna ríkisins á árunum 1954–62, reiknað á verðlagi ársins 1962:

Árið 1954 51 millj. Árið 1955 72 millj. Árið 1956 104 millj. Árið 1957 118 millj. Árið 1958 173 millj. Árið 1959 49 millj. Árið 1960 111 millj. Árið 1961 64 millj.

Tölur úr reikningum fyrir árið 1962 hef ég ekki haft í höndum, þar sem þeir munu ekki liggja endanlega fyrir, en skv. upplýsingum, sem ég hef reynt að afla mér um það mál, mun þessi framkvæmdakostnaður á árinu 1962 hjá rafmagnsveitum ríkisins og héraðarafmagnsveitunum vera eitthvað innan við 80 millj. kr., en ekki mikið innan við þá tölu, og þá tölu þarf að sjálfsögðu ekki að umreikna, þar sem það er árið 1962 og verðlag þess árs, sem allar tölurnar byggjast á.

Ég hef athugað lauslega, hvað kemur út, ef meðaltöl eru tekin af þessu, sem lagt hefur verið fram til rafvæðingarinnar. Annars vegar hef ég tekið þriggja ára meðaltal af árunum 1956–58, og þá hefur verið lagt fram að meðaltali rétt um 132 millj. kr. á ári. Sé sams konar meðaltal tekið fyrir árin 1959–62, kemur í ljós, að meðaltalið á ári er 75 millj. eða því sem næst á móti 132 millj. á fyrra tímabilinu, og reikna ég þá með því, sem ég hef fyrir satt, að kostnaðurinn á árinu 1962 sé rétt innan við 80 millj. kr.

Ég skal taka það fram, sem þegar er tekið fram í nál., að orkuveita sú til Keflavíkurflugvallar, sem lögð var á árinu 1959, er hér ekki með talin, enda tel ég, að hún komi ekki við þeirri rafvæðingu, sem í tíu ára áætluninni átti að felast.

Þetta er þá að segja um aðalframkvæmdirnar. Auk þess er svo þess að geta um hina aðra liði, sem í raforkulögunum frá 1954 voru taldir, þar sem gerð er grein fyrir hlutverki áætlunarinnar, þá hafa verið veitt á áætlunartímanum lán til smárafstöðva eða heimilisrafstöðva og alltaf árlega nokkuð bæði til vatnsaflsstöðva og dísilrafstöðva, og er gerð grein fyrir því í nál, á þskj. 336, og skal ég ekki lesa þær tölur, en geta má þess, að flestar vatnsaflsstöðvar hafa verið reistar eða lánað til á einu ári 28, og dísilstöðvar flestar 71, að ég ætla.

Varðandi það verkefni áætlunarinnar að hafa með höndum virkjunarrannsóknir og undirbúning rafveitna, þá liggja nú ekki fyrir glöggar upplýsingar um það, enda hafa virkjunarrannsóknir í þágu tíu ára áætlunarinnar mjög blandazt saman við aðrar virkjunarrannsóknir eða almennar rannsóknir á vatnsafli landsins, t.d. vegna stórvirkjana. Síðasti liðurinn, sem um getur í lögunum, að lækka raforkuverðið, þar sem það er hæst, mun hafa verið framkvæmdur á einhverju tímabili a.m.k. á þann hátt að veita sérstök lán til nokkurra dísilstöðva í þorpum, sem talið var þá að stuðlaði að lækkun raforkuverðs þar.

Eins og fram er tekið í grg. till. á þskj. 14 og einnig vikið að í nál. minni hl. á þskj. 336, fjallar till. sú, sem hér liggur fyrir, um að hraða áætluninni um áframhaldandi framkvæmdir, þannig að miðað verði við það, að öll heimili hafi fengið rafmagn í siðasta lagi fyrir árslok 1968. Margir gerast nú óþolinmóðir í dreifbýlinu, ekki vegna þess, að menn hafi ekki gert sér grein fyrir því, að það er ekki hægt að rafvæða öll heimili í sveitunum í einu vetfangi, á einu eða tveim árum, því að menn hafa gert sér fyllilega grein fyrir því. Menn hafa gert sér grein fyrir, að slíkt tekur mörg ár og hefur þegar tekið ein 10 ár frá. því, að viðaukalögin frá 1954 voru sett. En menn eru óþolinmóðir út af því í dreifbýlinu að geta ekki fengið að vita, hvað þeir eiga í vændum, geta ekki fengið að vita, hvort það er ætlunin, að eitt eða annað byggðarlag verði aðnjótandi samveitu, að einhver bær verði á samveitusvæði eða hvort hann getur ekki gert ráð fyrir öðru en einhvers konar einkastöð, jafnvel dísilstöð. Þetta hafa menn hug á að fá að vita. Þess vegna skiptir þan svo mjög miklu máli að gera, áætlanir í þessu efni, sem verði birtar almenningi og þá fyrst og fremst þeim, sem eiga hlut að máli.

Við, sem erum hér í höfuðborginni eða annars staðar þar, sem rafljósin loga og þar sem menn njóta þæginda í sambandi við alls konar vélar, sem ganga fyrir rafmagni, gerum okkur ekki alltaf grein fyrir því, hvernig þeir hugsa, sem hafa ekkert af þessu, en eru kannske í næsta nágrenni við þá, sem hafa ljósin frá rafstöðvunum, eru kannske í því héraði, sem leggur til kraftinn, þar sem fallvatnið er, og kannske alveg í næsta nágrenni við það, en fá samt ekki neitt. Það á þess vegna ekki að gera lítið úr mikilvægi áætlana á þessu sviði, það á ekki að gera það, það er misskilningur að gera það, það er ekki rétt að gera það, — og menn, sem eru góðviljaðir og áhugasamir í þessu máli, eiga ekki að gera það. Enda er það svo, að þegar um slíka áætlun er að ræða, eins og ég ræddi um áðan, þá er ekki bara um tæknilega áætlun að ræða, það er ekki bara um það að ræða að gera rafvæðingarkort, þar sem sýndar séu línurnar og sýndar séu dreifiveiturnar og sýndir séu bæirnir, sem eiga að fá orkuna, og merkt við, það er líka að gera áætlun um það, hvernig fjár verði aflað í meginatriðum til þess að framkvæma þetta, og það leiðir af sjálfu sér, þegar slík áætlun er gefin út á vegum ríkisins, þá stendur það á bak við þá áætlun með sinni fjárhagslegu getu. Og hvað sem menn segja nú um framlög bændanna, sem búa á jörðunum, og framlög héraðanna, að þau eigi skv. raforkulögum að vera svo og svo mikill hluti af kostnaðinum og þegar héruðin hafi lagt fram þennan hluta, þá geti þau bara sagt: Gerið svo vel, hérna eru peningarnir, ég vil fá mína rafveitu í haust eða vor, — þá er meginatriðið í þessu máli það, að auðvitað er það ríkið, sem verður að hafa hér forgöngu um, og á því hvílir byrði rafvæðingarinnar, á samfélaginu, sem þegar er búið að láta 90% eða fram undir það, — svo að ég fari með tölur hv. frsm. meiri hl., — af þjóðinni hafa raforku, en hinir hafa ekki fengið neitt nema borga til þess, sem gert hefur verið. Ég held nú reyndar, að það sé lægri tala hjá raforkumálaskrifstofunni, sem eftir er, en það mun stafa af því, að hún telur þar, að þeir hafi fengið rafmagn skv. rafvæðingaráætluninni, sem hafa komið upp dísilstöð. En náttúrlega er ekki hægt að telja. dísilstöðvar almennt lausn á þessu máli til frambúðar. Þær eru bráðabirgðalausn og verða að sjálfsögðu lagðar niður á einstökum bæjum, þegar þeir koma inn á samveitusvæði.

Ég veit, að uppi eru nokkuð mismunandi skoðanir á því, hvernig haga beri rafvæðingu landsins, og að sá skoðanamunur á raunar einnig við ýmsar aðrar framkvæmdir, sem sérstaklega varða landsbyggðina. Sumir telja það skynsamlegt sjónarmið og það eina rétta að láta þjóðfélagið ekki leggja fé í framkvæmdir til almenningsnota, fyrr en hægt er að sýna fram á, að þessar framkvæmdir til almenningsnota geti borið sig fjárhagslega. Skv. þeirri kenningu eiga hin fjölmennari og þéttbýlli byggðarlög jafnan að sitja fyrir slíkum framkvæmdum. Þar sem fólki hefur fjölgað nógu mikið, eiga framkvæmdirnar að koma, því að þá má gera ráð fyrir, að þær geti borið sig eða a.m.k. nálgazt það að bera sig. Það er þessi hugsun, sem maður verður sums staðar var við, og það er hægt að færa fyrir henni ýmis rök, sem sumir telja ágæt rök og þjóðholl rök. En mér er þá spurn: Hvenær verður það, hvenær fjölgar fólki þar, sem þau skilyrði vantar, sem nú á tímum teljast undirstaða atvinnurekstrar og menningarlífs? Hvenær fjölgar því nógu mikið til þess, að það þyki eiga rétt á að búa við þessi skilyrði og að þjóðfélagið leggi í kostnað þess vegna? Hvenær verður það? Hvenær gerist það? Heldur ekki fólkinu áfram að fjölga,

þar sem skilyrðin eru? Stendur ekki fólkstalan í stað eða lækkar, þar sem þessi skilyrði eru ekki? Og hvað þá að vera að tala um það, að menn skuli fá raforku, að menn skuli fá rafvæðingu, að menn skuli fá eitt og annað til almenningsnota, þegar fólkið sé orðið nógu margt til þess að geta borið það fjárhagslega? Ég segi: Sú röksemdaleiðsla og sú hugsun er ekki mikils virði, a.m.k. ekki fyrir þá, sem búa á þessu svæði, og ekki fyrir þjóðina, því að ég held, að það verði þjóðfélaginu bezt og þá verði sjálfstæði landsins bezt tryggt, ef landið helzt í byggð, sem mest af því í byggð, ef jafnvægið helzt.

Ég held, að óhjákvæmilegt sé að hugsa þetta mál á allt annan hátt, að fyrst verði, þegar um eitthvert landssvæði er að ræðs með sæmilega góð skilyrði til byggðar af náttúrunnar hálfu, að reyna að gera þetta svæði sem byggilegast á nútímavísu. Þá fyrst sé von til þess, að byggð haldist og aukist, að þar sem orkulindin er farin að streyma, séu líkur til, að byggðin þéttist. En þar sem orkuna vantar í strjálbýlinu, sé hætta á, að það verði enn strjálla og fari eins og hefur farið í hreppunum norður við Djúp í Ísafjarðarsýslu. Einn af þeim fór í eyði fyrir nokkrum árum, heill hreppur, og annar er vist því miður kominn í eyði líka.

Á landnámsöld reistu menn bæi sína þar, sem vatn var nóg, þar sem engjar voru og beitilönd, skógar eða rekafjara til eldsneytis og húsabygginga. Svo komu nýir tímar, og þá þurftu ræktunarskilyrðin einnig að vera til staðar. Nú er að mestu hætt við engjaheyskap. Nú taka menn fóðrið af ræktuðu landi, og nú er fleira komið til. Hver mundi nú í dag reisa bæ sinn þar, sem ekki væri nein von um veg eða síma? Það vita allir, það mundi enginn gera, a.m.k. mjög fáir gera, að nema land, reisa nýjan bæ á þeim stað, þar sem ekki væri vegur eða von um hann alveg á næstunni og sömuleiðis um símasamband. Þetta vita allir. Þessu eru menn búnir að gera sér grein fyrir. Nú er líka búið að leggja síma á flesta bæi á landinu. Fyrir nokkru fannst mönnum það fjarstaða, það eru ekki margir áratugir síðan ýmsir álitu, að það væri varla út í það leggjandi að leggja síma um attar hinar strjálbýlu sveitir Íslands. Og þeir bæir eru nú orðnir nokkuð margir og sennilega miklu meiri hl., kannske mestur hluti af sveitabæjum á þessu landi, þar sem ökutæki er fært heim í hlað, þegar góð tíð er og þurrt. Þó að þar geti víða ekki talizt um veg að ræða, þá er samt hægt að komast þetta á einhverju farartæki. En það verður ekki hjá því komizt að láta sér nú skiljast, að nú er að því komið, að hið sama fari að gilda einnig um raforkuna. Hún fer að verða talin eins nauðsynleg, eins óhjákvæmileg fyrir hvert heimili, fyrir hvern atvinnurekstur, eins og vegur, eins og simi, eins og allt hitt, sem hefur verið talið óhjákvæmilegt, eins og vatnsbólið, sem feður okkar og mæður reistu bæi sína við í öndverðu. Ekki svo að skilja, að enginn muni framar geta hugsað sér að búa í sveit nema hafa raforku. Það munu sjálfsagt fyrirfinnast menn fyrr og síðar, sem geta hugsað sér það, alveg eins og menn hafa alltaf getað hugsað sér það af einhverjum ástæðum að búa á jörðum, sem voru að einhverju leyti gallaðar, t.d. voru vatnslitlar. Svo komu tímar, og sá, sem tæknina hafði á sínu valdi, sló stafnum á helluna, og þar spratt upp hið langþráða vatn. En slíkt heyrir til undantekninga. Undantekningar verða alltaf til, stundum nokkrar. En þjóðfélagið verður að miða gerðir sínar við hið almenna. Og það almenna og sú staðreynd, sem við verðum að gera okkur grein fyrir á komandi árum, er, að til þess að jörð haldist í byggð eða byggist og til þess að býlum fjölgi, þurfa þau almennu skilyrði að vera fyrir hendi, sem hæfa þykja á hverjum tíma, og eitt þeirra skilyrða er nú raforka frá samveitu, einhvers konar, samveitu, með þeirri tryggingu, sem raforka frá samveitu veitir. Raforka frá samveitu er náttúrlega allt annað en raforka frá lítilli dísilstöð. Hún er allt annað.

Samkv. skýrslum raforkumálaskrifstofunnar í árslok 1961, sem ég hef haft undir höndum og athugað, höfðu þá samtals, þ.e.a.s. í árslok 1961, 2408 sveitabýli fengið rafmagn frá samveitum, en 492 sveitabýli höfðu á sama tíma raforku frá vatnsaflsstöðvum, sem þau áttu sjálf eða þeir, sem þar bjuggu. Þetta voru samtals í árslok 1961 2900 býli, sem telja mátti að hefðu raforku til frambúðar, því að við verðum að telja, að vatnsaflsstöðvarnar séu til frambúðar, flestar þeirra, nokkuð langrar frambúðar a.m.k., og ýmis býli, sem hafa slíkt rafmagn, eru vel sett, sérstaklega ef nokkuð langt er síðan vatnsorkustöðin hefur verið byggð. En til eru líka vatnsorkustöðvar, sem eru svo litlar og þá kannske einnig svo af sér gengnar, að þær eru ekki til frambúðar, og bæir, sem eru með slíkar stöðvar, munu að sjálísögðu taka rafmagn frá samveitunum, ef þeir eiga þess kost. Jafnvel má víða sjálfsagt gera ráð fyrir því, að býli, þó að þau hafi eins og sakir standa nægilegt rafmagn frá vatnsaflsstöð, taki línu heim til sín frá samveitu, bæði til þess að greiða fyrir málinu, framkvæmdinni, og eins af því, að þau telja í því aukið öryggi.

En niðurstaðan er sem sé þessi, að í árslok 1961 eru samtals 2900 býli, sem telja mátti að hefðu raforku til frambúðar, annaðhvort frá samveitum, sem var mestur hluti, eða frá vatnsaflsstöð. Skv. þessum sömu skýrslum höfðu á sama tíma, í árslok 1961, 511 býli raforku frá litlum dísilstöðvum, þ.e.a.s. einkadísilstöðvum, en 2589 býli höfðu þá enga raforku. Hafa þá 3100 býli í árslok 1961 annaðhvort enga raforku haft eða þá aðeins af dísilstöðum. Það er tekið fram í skýrslunum frá raforkumálaskrifstofunni, að gengið sé út frá því, að býlatalan sé 6000, og þessar tölur eru við það miðaðar, að býlatalan sé 6000.

Nú segir raforkumálastjóri í umsögn sinni til allshn., að hann hafi ekki nákvæma tölu um fjölda sveitabýla í byggð, og er það raunar undarlegt, ef opinberar stofnanir geta ekki komið því í framkvæmd að vita, hve byggð býli í landinu eru mörg á hverjum tíma. Í raun og veru undrast ég það, og ég held, að menn hljóti að vita þetta nokkurn veginn. Menn segja að vísu, að það sé ýmiss konar skilningur á því, hvað sé býli. En þegar á að telja býli í landinu, verða menn auðvitað að gera sér grein fyrir því, hvað telja skuli býli, þ.e. að búa til skilgreiningu á því, hvað sé býli, og þegar það hefur verið gert, sem aðeins þarf að verða samkomulag um, þá á það að vera vandalaust á hverju ári að fá að vita það og það á skömmum tíma, hvað býlin eru mörg í landinu, hvort sem það eru nú búnaðarsamtökin, sem eiga að afla þeirrar vitneskju, eða raforkumálaskrifstofan. Það á að vera á hennar færi og mjög auðvelt, ef hún vildi taka sér fyrir hendur að framkvæma það.

En hvað sem því líður, þá þarf auðvitað að bæta úr þessu um býlatöluna. Býlatalan þarf að liggja fyrir, áður en lokið er þeirri áætlun, sem þáltill. fjallar um. Ég held, að þar sé ekki um neitt vandamál að ræða og taki því naumast að vera að tala um það. Það er aðeins gert af því, að raforkumálastjórinn hefur minnzt á þetta í bréfi sínu, og hv. frsm. meiri hl. gat einnig um það í sinni ræðu, að óvissa væri um býlatöluna. Ég álít, að sú óvissa skipti ekki miklu máli. En auðvitað á ekki að þurfa að vera um óvissu að ræða, þetta á að liggja alveg greinilega fyrir. Og talan 6000 mun ekki fara langt frá því, sem rétt er. Þessi tala er vitanlega ekki óbreytileg. Hún breytist frá ári til árs. Það eru stofnuð nýbýlí og jarðir fara í eyði. Þær eru nú víst sem stendur fleiri, því miður, sem fara í eyði nú síðustu árin, eftir því sem upplýst hefur verið. Annars hef ég ekki kynnt mér það sérstaklega. En sé gengið út frá tölum raforkumálaskrifstofunnar í árslok 1961 og gert ráð fyrir, að 200 býli hafi fengið samveiturafmagn eða frá einkavatnsaflsstöðvum á árinu 1962, ættu 3100 býli að hafa rafmagn til frambúðar nú í dag, en 2900 að vera án rafmagns eða hafa rafmagn frá litlum dísilrafstöðvum. 2900 býti ættu nú í dag, skv. þessum upplýsingum, að vera án rafmagns eða hafa rafmagn frá, litlum dísilrafstöðvum. En eitthvað eru þessi býli færri, sem vantar orkuna, ef býlatalan í heild kynni að reynast eitthvað neðan við 6000, og trúlega er hún heldur neðan en ofan við það mark.

Hér er um að ræða stórt viðfangsefni, en jafnframt viðfangsefni, sem Alþ. og þjóðfélagið verður að horfast í augu við og ekki þýðir að leiða hjá sér. Þess vegna væntum við þess, meirihlutamenn í allshn., að Alþ. samþykki nú till. þá, sem fyrir liggur á þskj. 14.