03.04.1963
Sameinað þing: 44. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í D-deild Alþingistíðinda. (2894)

14. mál, raforkumál

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég þarf raunverulega ekki að svara miklu hv. frsm. minni hl. í sambandi við þetta mái. Það er ekki svo gífurlegt djúp á milli okkar skoðana í þessu máli, að ég þurfi að vera að svara því miklu. Sá ágreiningur, sem á milli okkar er, er sá, að hann telur, að þáltill. á þskj. 14 hafi mjög mikla þýðingu, verði hún samþ., og flýti málinu. Ég er ekki þeirrar skoðunar, að svo sé. Ég færði fyrir því allsterk rök í minni framsöguræðu, en skal þó rétt aðeins minna hér ofur lítið á nokkur atriði, sem enn styðja það, að álit meiri hl. við afgreiðslu málsins er eðlilegt.

Hér er ætlazt til þess í þáltill, að skora á ríkisstj, að láta hraða áætlun um framhaldandi framkvæmdir við rafvæðingu landsins. Eftir að ég sem frsm. og eftir að n. hafði fengið upplýsingar um, að það er verið að hraða þessum málum, og það er yfirlýsing frá mþn. um, að hún ljúki þessari athugun fyrir 1. okt. á þessu ári, þá sé ég ekki, að samþykkt þessa liðar í till. breyti þar nokkru um.

Það er einnig talað hér um, að það miðist við, að öll heimili hafi fengið rafmagn í síðasta lagi fyrir árslok 1968. Þótt þetta væri samþ. hér, þá er það engin sönnun fyrir, að svo yrði, því að það þarf til þess samþykki meiri hl. Alþ., sem tekur málið síðar til athugunar og umræðu og ákveður fjármagn til framkvæmdanna. Ekki heldur þessi liður flýtti fyrir framkvæmdum, þótt samþ. væri, á þessu stigi málsins.

Svo segir hér enn, að hér séu gerðar áætlanir um ný orkuver og aðalorkuveitur. Nú er það upplýst einnig í minni framsöguræðu, að það er ekki skortur á orku, sem veldur því, að dreifbýlið getur ekki fengið rafmagn. Það er yfirlýsing einnig um það á þskj. 448 frá raforkumálastjóra, að það þurfi ekki að byggja nein sérstök orkuver til þess að geta haldið áfram að lýsa þau heimili, sem enn eru ólýst og hægt er að lýsa með samveitum, svo að ekki heldur samþykkt á þessum hluta mundi flýta neitt málinu.

Þá er um dreifilínurnar um sveitirnar. Það á að gera áætlun um þær. Ég hef líka gert grein fyrir því í minni framsögu, að það skortir ekki áætlanir, það skortir fé til að framkvæma það, sem ógert er, en áætlað hefur verið. Þó að þessir hlutir yrðu samþ., mundi það ekki heldur flýta fyrir málinu.

Og sama er að segja um áætlun um aðstoð til að koma upp einkastöðvum fyrir einstök heimili, sem eru svo mjög afskekkt, að ekki þykir fært að leggja rafmagn til þeirra frá veitunum. Ekkert af þessu mundi flýta fyrir þessum framkvæmdum, þó að till. væri samþ.

Eftir að ég hafði fullvissað mig um, að þessi mál eru öll í athugun ásamt öðru máli, sem ég skal koma að síðar, þá er mér það alveg ljóst, að afgreiðslan á þskj. 448 er fullkomlega eðlileg, og þó að samþ. væri sú till., sem hér liggur fyrir á þskj. 14, mundi það ekkert hraða málinu.

Hv. þm. talaði um, að það væri allt annað að ákveða, eins og ákveðið er í hans till., að það ætti að gera 5 ára áætlun eða 10 ára áætlun. Meiri hl. n. segir ekkert um það, hvort eigi að gera 10 ára áætlun. Hann segir einmitt þvert á móti hér: „Meiri hl. allshn. lítur svo á, að þáltill. sú á þskj. 14, sem um ræðir, greiði á engan hátt úr þeim vanda, sem hér er við að eiga, og leggur því til, að henni verði vísað til ríkisstj., sem þegar hefur falið hinum færustu mönnum að vinna að þessum málum.“ Og það er yfirlýst frá þeirri n., sem vinnur að þessu, að hún ætli sér að skila þessu áliti, eins og ég tók fram áðan, fyrir 1. okt.

Í ræðu minni tók ég það fram, að við væntum þess, að síðan yrði þessum framkvæmdum hraðað, eftir því sem unnt væri. Við bindum það ekkert við 10 ára áætlun. Það er hvergi nefnt, hvorki í nál. né í minni framsöguræðu, að það skuli miðast við 10 ára áætlun. Þegar sú áætlun liggur fyrir og vitað er, hvað þetta kostar, þá er það alveg á valdi þingsins að ákveða, hvort það skuli framkvæmt á 10 árum, 5 árum, 2 árum eða 1 ári. Þess vegna hefur samþykkt þessarar till. engin áhrif á það atriði. Ég veit, að í bréfi raforkumálastjóra er minnzt á nýja 10 ára áætlun. En hann er enginn aðili til að ákveða það, hvenær sú áætlun verður framkvæmd. Þótt hann geri áætlun um 10 ára framkvæmdir, getur Alþ. tekið aðra afstöðu. Það hefur það allt í hendi sér og getur ákveðið, að áætlunin skuli framkvæmd á 5 árum. Sem sagt, það hefur enga þýðingu, þó að till. verði samþ., um það atriði út af fyrir sig.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að hér er svo mikið stórmál á ferðinni, að Alþ. má ekki láta sig engu skipta afgreiðslu þess. En Alþ. lætur sig nefnilega mjög miklu skipta afgreiðslu málsins, eins og meiri hl. leggur til. Hann undirstrikar það ekki einasta í nál., heldur og mjög í framsöguræðu, að vanda þessara mála verði að leysa og ríkisstj. verði að beita sér fyrir því, að það verði hægt að koma þessum mátum öllum á viturlegan og hagkvæman rekstrargrundvöll. Það er síður en svo, að meiri hl. afgreiði þetta mál neikvætt. Hann afgreiðir það einmitt mjög jákvætt, þannig að það er engin ástæða til þess að gagnrýna okkar afstöðu, eins og gert er af minni hl. nefndarinnar.

Hv. þm. sagði hér áðan í sinni ræðu, að skilyrði fyrir því, að sveitabæirnir gætu fengið raforku, væru, að orkuverin séu fyrir hendi. Skv. því, sem raforkumálastjóri upplýsir og ég var að segja frá áðan, þá er orkan fyrir hendi til þess að raflýsa sveitirnar. Það eru aðeins ekki fyrir hendi dreifilínurnar, og þess vegna er engin ástæða til þess að vera að ræða um það, hvort frestað sé að byggja ný orkuver á héraðsveitusvæði. Það kemur hins vegar mjög við á því svæði, þar sem á að byggja orku fyrir stóriðju, en það er ekki það, sem er mest aðkallandi fyrir okkur, sem höfum áhuga fyrir dreifbýlinu.

Þá vildi ég nokkuð ræða við hv. 1. þm. Norðurl. v. Hann vildi skilja þannig afgreiðslu meiri hl., að það kæmi til með að velta mjög mikið á því um áframhaldandi framkvæmdir, hvort komið væri í lag rekstrarhalla rafveitnanna. Ég hélt nú satt að segja, að manni, sem hefur haft með svo mikinn rekstur að gera á sinni ævi og þekkt inn í almennan rekstur, væri það ekki alveg ókunnugt, að það veltur ekkert lítið á því, hvernig afkoma fyrirtækja er almennt, svo að það sé ekki neitt óeðlilegt, þó að það sé bundið nokkuð saman: áframhaldandi framkvæmdir og hvernig leystur verði sá vandi, sem hefur skapazt við það, að framkvæmt hefur verið meira en til var fé fyrir. Ég taldi það skyldu mína, þegar ég var valinn sem frsm. fyrir meiri hl., að gera mér alveg ljóst, hvernig hagur rafveitnanna stendur og hvaða líkindi væru til þess, að hægt væri að koma þeim á eðlilegan rekstrargrundvöll, og hver ástæðan væri fyrir því, að hagurinn er svo sem hann er. Ég hef þess vegna reynt að greina þetta mál í sundur í 3 flokka:

Í fyrsta lagi ríkisrafveiturnar, þ.e. aðalorkuveitur og orkuverin, sem skv. tögum koma héraðsbúum ekkert við. Það er eingöngu mál ríkisins sjálfs og kemur ekkert öðrum aðilum við í landinu, nema það kemur þeim við, ef það er lagður á þá sérstakur skattur, eins og til hverra annarra framkvæmda. En hagur ríkisrafveitnanna stendur þannig vegna þess, að ríkissjóður sjálfur og þá einnig Alþ. hefur aldrei lagt nægilega mikið fram til þessara mála. Það er ekkert annað, sem er í veginum.

Þegar hæstv. ráðh. var að tala um það hér áðan, að raunverulega skulduðu rafveitur ríkisins, — ég veit nú ekki, hvort hann átti þar við héraðsrafveiturnar eða hvort hann átti við ríkisrafveiturnar eða báðar í heild, — ríkissjóði altmikið fé, þá er það náttúrlega frá mínu sjónarmiði á allmiklum misskilningi byggt, því að ég sé ekki annað en að ríkissjóður skuldi rafveitunum, svo tengi sem hann hefur ekki greitt allan þann hluta, sem átti til þess að fara að standa undir kostnaðinum, svo að hægt væri að reka raforkuverin og rafveiturnar hallalaust, því að til þess er ætlazt í lögunum. Það er hins vegar engan veginn, hvorki núv. hæstv. ríkisstj. að kenna og því síður hæstv. raforkumálaráðh., að svo hefur ekki verið gert. Það er Alþ. að kenna og engum öðrum. Ef Alþ. hefur ekki viljað taka á fjárl. nægilega stórar fjárhæðir til þess að greiða þetta, sem það hefur ekki gert, og þá ekki heldur viljað akapa nýja tekjustofna til þess að ná. þessu, þá er hvorki að saka um raforkumálastjórnina né ríkisstj. Það er að saka Alþingi um allt það mál.

Hinn þátturinn er héraðsrafveiturnar, og þar er um allt annað atriði að ræða. Þar ber raunverulega raforkumálastjórninni að sjá um, að ekki séu gerðar neinar framkvæmdir, nema því aðeins að á móti komi allt það fé, sem á að standa undir framkvæmdunum, og það svo, að héraðsrafmagnsveiturnar geti á eftir staðið fjárhagslega undir rekstrinum með eðlilegum gjöldum. Þetta er skv. lögunum. En þar vantar, eins og ég sagði í minni framsöguræðu, rúmar 85 millj. frá ríkissjóði og 45 millj, frá héruðunum. Ef þessar 45 millj. frá héruðunum væru greiddar í dag, þá mundi sannarlega batna allmikið hagur héraðsrafveitnanna. Þannig er alveg útilokað að slíta í sundur rekstrarafkomu þessara stofnana eða þessara fyrirtækja og nýjar framkvæmdir. Og í sambandi við þetta vildi ég leyfa mér að spyrja hæstv. raforkumálaráðh.: Ef eitthvað af þeim héruðum, sem ekki hafa fengið raforku í dag, og þar munu vera um 11 þús. íbúar, eru tilbúin að leggja fram að fullu sinn hluta í áætlunarkostnaðinn, verður þeim þá neitað um rafmagn í framtíðinni eða verða þau látin ganga fyrir í framkvæmdum? Þeir menn eiga kröfu á því frá mínu sjónarmiði að fá að ganga fyrir, ef þeir uppfylla kröfurnar betur en hinir, sem búnir eru að fá rafmagnið, og leggja einnig á sínar herðar þungar byrðar vegna rekstrarhallans.

Það getur vel komið til mála, að ýmsir hlutar úr þeim héruðum, sem enn eru ólýst, vilji taka á sig þessa byrði. Ég þekki m.a. um 10 bæi, sem eru í einum hnapp, en það mun vera um 6 eða 7 km frá aðallínu, sem fyrirhugað er að leggja nú á þessu ári, til þess að ná að fyrsta bæ. Mér þætti mjög líklegt, að þessir menn vildu leggja á sig það að greiða sinn hluta að fullu skv. l., ef þeir fengju þá framkvæmdirnar samstundis. En það er engan veginn réttlátt að neita þessum mönnum um rafmagn, ef þeir uppfylla það skilyrði laganna, en halda áfram að leggja á þá aukabyrði, til þess að hinir geti fengið, sem ekki hafa staðið í skilum, því að það er staðreynd, að 45 millj. hafa ekki komið úr héruðunum, eins og lögin mæla fyrir um.

Ég held, að það sé óþarfi að vera að deila mjög hver á annan í sambandi við þessar framkvæmdir. Okkur er víst öllum ljóst, að ekki einungis sé þörfin til þess að leysa þennan vanda, það verður ekki hjá því komizt að gera alveg sérstakar ráðstafanir til þess, að þau býli, sem hafa ekki enn fengið rafmagn, verði rafvædd á einn eða annan hátt, og það má ekki frá mínu sjónarmiði blanda. því saman við að leysa hinn vandann, hvernig eigi að bæta rekstrarhaginn, þannig að það sé öruggt, að þær geti staðið undir sínum eigin rekstri, hvort heldur um er að ræða héraðsrafveitur eða rafmagnsveitur ríkisina. Hér er um verulega stóra upphæð að ræða, eftir því sem Jóhannes Nordal upplýsti mig um, og eins og ég tók raunverulega fram í minni framsöguræðu, mundi þurfa margfalt hærri upphæðir en rekstrarhallinn er á rafmagnsveitum ríkisins, en hann er í dag um 50 millj. kr., til þess að greiða upp allan rekstrarhallann. Það þarf að gera meira. Það þarf líka að greiða niður mikinn hluta af kostnaði, svo að reksturinn geti staðið undir sér. Til þess að ná því takmarki þarf að finna ákveðnar leiðir, og þessar leiðir er nefndinni ætlað að benda á.

Það er nákvæmlega sama um héraðsrafveiturnar. Þar er stórkostlegur rekstrarhalli, sem mun vera núna um 15 millj. kr. á ári. Það er ekki nægilegt, að ríkissjóður taki að sér að greiða þann halla, heldur þarf einnig að finna einhverja leið til þess að greiða svo mikið niður af kostnaðinum, að veiturnar geti staðið undir sér á eftir. Og það mundi lagast mjög mikið, ef ríkissjóður legði fram þessar 85 millj., sem hann skuldar enn þá héraðsrafveitunum, og héruðin legðu fram sínar 45 millj., sem þau skulda. Þá mundi sannarlega hagur þeirra mjög batna. En ég tók það fram í minni framsöguræðu og bezt að endurtaka það, að ég tel, að það sé ekki gerlegt að innkalla hvoruga þessa upphæð, hvorki frá ríkissjóði né frá héruðunum, nema tryggja þeim einhverja sérstaka tekjuöflun á móti.

Að öðru leyti skal ég ekki ræða þau atriði, sem þeir hafa deilt um, hæstv. ráðh. og stjórnarandstaðan. Ég tel, að hann sé fullfær um að svara þeim málum sjálfur, en vildi hins vegar hafa upplýst þessi atriði við þessa umr.