03.04.1963
Sameinað þing: 44. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í D-deild Alþingistíðinda. (2895)

14. mál, raforkumál

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér í þær deilur um tölur, sem hér hafa farið fram. Það virðist vera allmikið um það hér í þinginu, að rætt sé um samanburð á ríkísstjórnum, og menn verða ekki sammála um, hver hafi verið snjallastur að stjórna málum. En það er nú svo, að það er meira jákvætt að horfa á framtíðina en fortíðina, því að við lifum ekki það aftur, sem við erum búnir að lifa.

Mér virtist á hæstv. raforkumálaráðh., að hann gerði lítið úr því, að það væri nauðsyn á að fá áætlun gerða um rafmagn í framtíðinni. Það eru sennilega eitthvað um 11 þús. menn, sem búa án þeirra þæginda að hafa rafmagn hér á landi. Það er ekki stór hluti af allri þjóðinni, en rafmagnsmál eru samt stórmál fyrir þennan hluta þjóðarinnar, það vitum við. Og þó að fólk hafi unað því að búa án rafmagns fyrir nokkrum áratugum, þá unir það því illa nú, þegar það veit, að aðrir hafa þessi þægindi. Við búum við allt önnur kjör og gerum allt aðrar kröfur en foreldrar okkar gerðu. Og ástæðan til, að það er nauðsynlegt fyrir fólkið að fá áætlun, er nú, að það fái að vita um, hvers það má vænta. Þetta er ekkert aukaatriði, því að ef það getur ekki vænzt rafmagna á næstu árum, þá þykir mér líklegt, að flestir, sem geta, reyni að fá sér mótora.

Ég hef sjálfur mótor, og ég er sannfærður um, að það er ódýrara að hafa hann heldur en t.d. AGA-vélar og önnur ljósatæki. Það er meiri stofnkostnaður í bili, og þó munar það ekki mjög miklu. Ég hygg, að AGA-vélarnar kosti milli 20 og 30 þús., en 3 kw. mótor kostar 44–45 þús. En viðhald á AGA-vélunum er mikið, það er náttúrlega nokkuð á mótorunum líka, en svo er rekstrarkostnaður á mótorunum miklu minni en á AGA-vél og öðrum ljósfærum, fyrir utan að það eru ýmis þægindi, sem hægt er að hafa af dísilstöð. 3 kw. mótor í góðu lagi nægir fyrir heimili, og það er hægt að vinna mikið með honum. Það er t.d. hægt að hafa mjaltamótor við hann, og rafmagnsmjaltamótor er miklu ódýrari en benzínmótorarnir. Auk þess er benzínið mjög dýrt, þannig að ég álít, að fyrir bændur, sem ekki geta vænzt rafmagns á næstu 3- árum, borgi sig að kaupa dísilstöð. Það er því ekki aukaatriði, að fólk fái að vita það sem fyrst, hvort það megi vænta þess að fá rafmagn, því að sennilega eru allmörg býli, sem aldrei geta vænzt þess að fá það. Það þarf að fá úr þessu skorið.

Í öðru lagi álít ég, að það sé betra fyrir þá, sem hafa framkvæmd þessara mála með höndum, m.a. viðkomandi ráðh., að gera ákveðna áætlun, heldur en að allir séu að suða í þessum mönnum, raforkumálaskrifstofunni, ráðherrum og þm., um það, hvenær þeir eigi að fá rafmagn. Það er betra, að þetta sé alveg hreint, og það er nauðsynlegt að fara eftir einhverjum ákveðnum reglum, þannig að ekki sé beitt hlutdrægni í þessum málum. Við vitum þetta, sem til þekkjum. Við erum ekki spurðir um annað oftar, sem erum þm. fyrir kjördæmi, þar sem víða vantar rafmagn, heldur en það. Fólkið er sí og æ að spyrja okkur um, hvenær það megi vænta þess að fá rafmagnið. Og ég veit, að hæstv. raforkumálaráðh. veit þetta ofur vel sjálfur, því að áróðurinn í þessum efnum er jafnan geysilega mikill.

Þess vegna er það bezt fyrir alla aðila, bæði þá, sem hafa með framkvæmd þessara mála að gera, og eins fyrir þá, sem vantar rafmagnið, að þetta verk sé unnið. Hitt efa ég ekki, að þeir hafi haft mikið að gera á raforkumálaskrifstofunni. Ég hef talað um þetta við þá og spurt þá, hvort þeir geti ekki fengið aukavinnu til þess að hraða þessum mátum, og þeir hafa talið, að þetta gætu ekki aðrir gert en þeir, þeir væru ekki nógu kunnugir til þess. Ég efast ekki um, að þetta er mikið verk. Og náttúrlega kemur það mjög til álita, við hvaða vegalengd á að miða. því miður hefur nú ekki verið algerlega farið eftir því, þegar rafmagn hefur verið lagt, hver vegalengdin er milli bæja, nokkurrar hlutdrægni hefur gætt. Ég held, að það sé yfirleitt mjög hæpið að láta mikillar hlutdrægni gæta í þessum efnum, því að það er nú svo, að vanalega skaðar hlutdrægnin þann, sem hana fremur, frekar en þann, sem hún bitnar á.

Viðvíkjandi þessum halla, sem talinn er vera á rafmagninu, þá sé ég nú ekki annað en það sé eðlilegast að hafa það með rafmagnið eins og aðra vöru, að selja það á kostnaðarverði eða láta rafmagnið bera sig. Þið megið vita um það, að bændur, sem hafa rafmagn, og íbúar kaupstaða og kauptúna, það er miklu ódýrara fyrir þá heldur en fyrir hina, sem ekki hafa rafmagn. Fjárhagslega er það miklu ódýrara, fyrir utan öll þægindin af því. Og einhvern veginn þarf að borga þetta. Annaðhvort er þetta tekið af þegnunum í gegnum skattakerfið, og þá borga þeir sinn hluta, sem ekki hafa rafmagnið, eða þeir verða að borga það, sem njóta rafmagnsins, og það er ekki nema eðlilegt, að hver borgi eðlilegt verð fyrir þá vöru, sem hann fær, eða fyrir þá hluti, sem hann fær.

Ég álít, að það sé ekkert við það að athuga að skipa nefnd í þessum málum. Það er ekkert út á það að setja. En það ætti einnig að gera rækilegar athuganir á því, hvort það væri ekki hægt að reka þetta á hagkvæmari hátt en gert hefur verið, hafa minni kostnað, reka þetta kerfi af meiri hagkvæmni en gert hefur verið. Ég er ekki nógu kunnugur til þess, að ég geti farið að krítisera þá starfrækslu, og ætla ekki heldur að fara út í það. En það er svo með marga hluti, að ef fyllstu hagsýni er gætt, þá má ná betri útkomu, og á þessu sviði hygg ég, að það sé alveg eins ástæða til að athuga, hvort ekki er hægt að nota meiri hagkvæmni í rekstri, eins og á ýmsum öðrum sviðum.

Ég efast eigi um það, að ríkisstj. vill greiða fyrir þessum málum. Það er ekki ástæða til þess að vera með stóryrði eða miklar deilur í þessu efni. En ég vildi benda á þetta atriði, að það er ekki aukaatriði fyrir fólkið, sem ekki er búið að fá rafmagn, að þetta verk sé framkvæmt, og ég held, að það sé betra fyrir alla aðila. Og það er ósanngjarnt að draga mikið úr framkvæmdum viðvíkjandi raflögnunum, vegna þess að það sé halli á sölu rafmagnsins. Það er ekki sanngjarnt að láta rekstrarhallann bitna þannig beint og óbeint á þeim, sem enn þá vantar rafmagn. Og ég held, að það borgi sig fyrir þjóðfélagið, það er ekki sú fjárhæð, sem þetta kostar, að ljúka við þá rafvæðingu, sem ástæða er til að gera. Ég held, að það borgi sig fyrir alla aðila að reyna að hraða þessu sem allra mest. Það getur vel verið, að það sé of stuttur tími, eins og ráðgert er í þessari þáttill., að ljúka þessu árið 1968. Það má vel vera. En það er ekki aðalatriði, hvort það skakkar einu ári til eða frá, og í aðalatriðum held ég, að það sé bezt fyrir alla að gera áætlun, framkvæma hana á réttlátan hátt og reyna að hraða verkinu sem allra mest. Svo tel ég það aukaatriði, hvort menn borga þúsund krónum meira eða minna fyrir rafmagnið á býli eða ekki. Það er aukaatriði miðað við að fá þessi þægindi, því að þótt það séu mikil þægindi að því að hafa dísilstöðvarnar, þá er það ekki sambærilegt við það að hafa öruggt rafmagn frá rafveitum. En samanburður og þjark um ýmis aukaatriði, það leysir ekki vandann, og hann verður bezt leystur með samhug og sem beztu samstarfi í þessum málum.