07.11.1962
Sameinað þing: 9. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í D-deild Alþingistíðinda. (2911)

43. mál, endurskoðun laga um lánveitingar til íbúðabygginga

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Við hv. 1. flm. þessarar þáltill., sem hér er til umræðu, áttum nokkrar umræður um þessi mál í hv. Ed. á síðasta Alþ. varðandi þær tölur, sem hann minntist hér á, og skal ég láta nægja að vísa til þeirra umræðna hvað þá hlið málsins snertir.

Ég vil að öðru leyti segja það um þessa þáltill., að mér sýnist, að ekkert nýtt sé í henni, annað en þá ef vera má síðasta atriði till., þ.e.a.s. um lánveitingar til endurbóta á eldra húsnæði. Þó vitum við það, að húsnæði hefur á öllum árum verið að ganga úr sér og er ekki meira um það í ár en áður miðað við húsafjölda í landinu eða íbúðafjölda, og ekki hafa lánastofnanir treyst sér til að opna sérstaka lánamöguleika til endurnýjunar þess, þó að það skuli hér viðurkennt, að nauðsyn sé á því, að þeir aðilar, sem slíkar endurbyggingar hefðu í huga, ættu kost á lánum. En ég bendi á reynslu undanfarandi ára, sem hefur verið jafnbrýn þá og nú í þessum efnum, og að til þessa hefur ekki verið lagt af neinni ríkisstj.

Varðandi aðstöðuna til lána, sem hv. flm. minntist sérstaklega á, þá vona ég, að ekki sé um það ágreiningur meðal hv. alþm., að þeir, sem þar njóta hagstæðra lána, þ.e.a.s. á vegum þess opinbera af húsnæðismálastjórn og í verkamannabústöðum, það séu þeir aðilar, sem í mestri þörfinni séu. Um jöfnun aðstöðu við þetta fólk er því ekki að ræða, það hefur algera sérstöðu um sína íbúðaþörf. Ég vil ekki leggja þann skilning í málflutning hv. flm., að það hafi verið hans hugmynd, að þetta fólk ætti ekki sérstaka fyrirgreiðslu skilið, eftir að hafa um lengri eða skemmri tíma þurft að búa við öryggisleysi húsnæðisleysisins eða þá í algjörlega heilsuspillandi húsnæði.

Um þessa till. til þál. og þessi mál almennt vil ég segja, að það hefur verið fastur liður við byrjun hvers stjórnarsamstarfs undanfarin 10 ár a.m.k. að hefja endurskoðun á l. um húsnæðismál og þá sérstaklega lánveitingahlið þessarar löggjafar. Af framangreindum ástæðum hafa nokkrar breytingar orðið á l. um húsnæðismál, bæði hvað viðkemur húsnæðismálastofnuninni sjálfri og l. um verkamannabústaði, ásamt þeim kafla l, um húsnæðismálastofnun, sem sérstaklega fjallar um lánveitingar til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis. Löggjöf um þessi efni hefur í endurteknum endurskoðunum, að mínu áliti, tekið góðum framförum, þannig að í dag eru einnig orðnar svo rúmar heimildir til tæknihliðar þessara mála, að í þeim efnum skortir ekki sérstaklega endurskoðun l., svo sem 2. gr. l. um húsnæðismálastofnun ber með sér. Um lánveitingarnar sjálfar er það að segja, að þar skortir enn töluvert fé, til þess að mögulegt sé að fullnægja löglegri eftirspurn. Ég segi: löglegri eftirspurn, og á þar að sjálfsögðu við það hámark, sem í lögunum er í dag, svo að öllum má ljóst vera, hve þörfin er mikil, ef fara ætti að óskum hv. flm., sem fram komu í hans framsöguræðu hér áðan.

Síðasta athugun um lánsfjárþörf hjá húsnæðismálastofnuninni fór fram 1. sept. s.l. að lokinni allsherjarendurnýjun lánaumsókna þar. Þörfin miðað við löglegar umsóknir reyndist þá vera 87 millj. kr. Í kjölfar þessarar athugunar fór fram lánveiting á 50 millj. kr., sem er stærsta lánveiting, sem fram hefur farið í einu lagi á vegum stofnunarinnar, þannig að þörfin miðað við fyrrgreinda athugun hefur verið þá um 37 millj. eftir fyrrgreinda 50 millj. kr. lánveitingu, til þess að ná mætti því marki að fullnægja löglegum umsóknum. Tölur í þessum efnum eru þó breytilegar, því að sífellt og daglega berst fjöldi nýrra lánsumsókna og umsóknir um viðbótarlán frá umsækjendum, sem einhver byrjunarlán hafa fengið. Fjöldi lánsumsókna hefur á þessu ári farið mjög vaxandi, svo og sala íbúðateikninga frá teiknistofu stofnunarinnar.

Mjög hefur verið um það deilt á undanförnum þingum, hve hámarkslánin ættu að vera há, þ.e. hve mikill hluti af byggingarkostnaðinum. En inn á þær brautir skal ég ekki, eins og ég áðan sagði, fara sérstaklega að þessu sinni, til þess eru umr. frá síðasta þingi of ferskar. Eitt eru allir sammála um. Það er, að æskilegast sé, að lánin séu sem hæst, lánstími sem lengstur og vextir sem lægstir. Um það, hvernig eigi hins vegar að gera þessa hluti að veruleika, gera þá að meira en innantómum áróðri. vandast málið, eða svo virðist a.m.k., því að það kemur þá ávallt fram, hvort tillögurnar eru bornar fram af stjórnarliði eða stjórnarandstöðu.

Í öllum þeim miklu umr., sem fram hafa farið um þessi mál á s.l. tíu árum, hafa aðeins verið nefndar tvær raunhæfar leiðir til fjáröflunar. Það er í fyrsta lagi erlend lántaka og í öðru lagt, að ákveðinn hluti sparifjármyndunar landsmanna renni til útlána í þessu skyni.

Hin erlenda lántaka hefur oft verið rædd og ekki hvað minnst á stjórnarárum hæstv. vinstri stjórnar, sem hv. flm. þessarar till. voru velflestir góðir stuðningsmenn að. Hugmyndin um erlendu lántökuna til íbúðabygginga var þá, eins og fyrr og síðar, afgreidd með þeim rökum, að erlend lán yrði að nota til annarra þarfa þess opinbera, eða þar, sem féð ylti hraðar. Erlent lán eða erlent fé mætti ekki festa í lánum til svo langs tíma. Þetta hafa verið rökin, sem allan þennan tíma hafa verið notuð gegn erlendu fé til íbúðarhúsabygginga,

Um síðari leiðina, að hluta af sparifjármyndunarfé landsmanna yrði varið til útlána í íbúðarhúsabyggingar, er svipaða sögu að segja. Það hefur allan tímann þar til nú í ár verið talið, að sú litla sparifjármyndun, sem átt hefur sér stað, yrði að notast til útlána á öðrum sviðum, svo sem til höfuðatvinnuveganna: sjávarútvegs, landbúnaðar og iðnaðar. Með hinni auknu sparifjármyndun nú hefur hins vegar á yfirstandandi ári tekizt fyrir forgöngu hæstv. félmrh. samkomulag við viðskiptabankana og stærstu sparisjóði landsins um kaup á skuldabréfum byggingarsjóðs fyrir um 25 millj. kr., og skiptu þessir aðilar bréfakaupunum eftir sparifjármyndun hvers um sig. Stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs hefur og drengilega stutt sjóðinn síðustu tvö ár og keypti nú á yfirstandandi ári bréf sjóðsins fyrir nálega 25 millj. kr. Fé þessu var öllu ráðstafað í lánveitingu í septembermánuði s.l. Skyldusparnaðurinn, sem fyrstu 3 árin reyndist alldrjúg tekjulind fyrir byggingarsjóð, hefur sífellt verið að dragast saman vegna aukinna endurgreiðslna og mun að gleggstu manna yfirsýn vera genginn í sjálfan sig á næstu 2–4 árum, þannig að af honum verða ekki tekjur til útlána.

Vandamálin í húsnæðismálum verða æ fleiri og margs konar. Svo sem er um flest önnur hin stærri vandamál okkar, eru þau nátengd hvert öðru, sem glíma verður við, eins og t.d. um hina öru tilflutninga fólks milli hinna ýmsu landshluta og stofnun nýrra byggðarlaga, allt of langan byggingartíma og fjárskort, auk hins háa byggingarkostnaðar. Þá má og minna á nauðsyn þess, að ávallt þarf að endurnýja úrelt og gamalt húsnæði, auk þeirra íbúða, sem beinlínis hafa verið taldar heilsuspillandi. Hv. alþm. eru öllum kunnir hinir öru fólksflutningar, sem hér hafa átt sér stað á undanförnum árum og óhjákvæmilega knýja á um stóraukna íbúðaþörf í hinum ýmsu landshlutum, og er þó íbúðaþörfin mest áberandi á svæðinu frá Þorlákshöfn vestur um til Ólafsvíkur. Auk beinna fólksflutninga til þessa landssvæðis er með breyttum atvinnuháttum að færast í það horf, að fullkomnara atvinnuöryggi sé árið um kring á þessum hluta landsins en annars staðar, sem mun eiga einna drýgstan þátt í því, að fólk uni almennt ekki við hið eldra húsnæði. Bættur efnahagur knýr og á um endurnýjun húsnæðis. Utan þessa landssvæðis munu Dalvík og Sauðárkrókur eitt gleggsta dæmið um íbúðaþörf, án þess að um fólksfjölgun sé að ræða. Á þessum stöðum hefur s.l. 2–3 ár verið mjög svipaður fólksfjöldi, en þó miklar byggingarframkvæmdir miðað við þennan fólksfjölda, eða 200 íbúðir á hvorum stað á ári.

A þessum 20 árum hefur Reykvíkingum fjölgað úr 38 þús. í 72 þús., eða um 90%. 1 sama tíma er fólksfjölgun í öllu landinu talin vera 56 þús., eða 45%, þar af var því aukningin í Reykjavík og nágrenni rúmlega 90%. Fólksfjölgun í bæjum og kauptúnum með yfir 300 íbúa o.fl., þ.e. á þeim stöðum, sem lánakerfi verkamannabústaða og húsnæðismálastjórnar nær til, varð á árunum 1940–1958 frá 62–79%. Þessar tölur skýra nokkuð það, sem fyrr er sagt, hver íbúðaþörfin hlýtur á næstu árum að verða — og verða bundin ákveðnum landssvæðum.

Byggingartími íbúðanna hefur þrátt fyrir aukna tækni sífellt verið að lengjast, og mun meðalbyggingartími íbúða nú vera því sem næst 21/2 ár, frá því að hafizt er handa og þar til íbúðin er fullgerð. Þessi öfugþróun kemur fram í því, að aukinn fjöldi fjölskyldna býr í hálfgerðum íbúðum. Orsakirnar til þessa eru þessar að mínu áliti: 1) Við byggjum stærri, vandaðri og varanlegri, en um leið dýrari íbúðir en flestar aðrar þjóðir, og kröfurnar til aukins íburðar fara vaxandi. 2) Mannekla í byggingariðnaði og þó sérstaklega í einstökum greinum hans. 3) Fjárskortur. 4) Óskipulagðir og lítt breyttir byggingarhættir.

Í ágúst 1957 komu hingað til lands tveir sérfræðingar á vegum félagsmáladeildar Sameinuðu þjóðanna til þess að athuga, hvort rétt væri, að Sameinuðu þjóðirnar veittu tækniaðstoð til endurbóta á sviði íbúðabygginga. Að athugun þeirra lokinni mæltu þeir eindregið með slíkri aðstoð. Þessi aðstoð hefur þegar reynzt mjög mikilvæg og komið fram í því, að sendir hafa verið sérfræðingar hingað til lands og sérmenntaðir Íslendingar hafa átt þess kost að kynna sér þróun þessara mála í þeim löndum, sem við hliðstæðust vandamál eiga að etja og hér á, landi.

Um áramótin 1959–1960 kom hingað til lands bandarískur byggingasérfræðingur, sem hefur áratuga reynslu í þeim málum, og dvaldist hann hér á landi um alllangt skeið. Niðurstaða rannsókna hans var m.a. sú, að við notuðum 21/2 sinnum meira fé til íbúðabygginga en Vestur-Þjóðverjar, miðað við hverja þúsund íbúa annars vegar og þjóðarframleiðslu hins vegar, en byggjum samt sem áður færri íbúðir á hverja þúsund íbúa. Meðalíbúð hér kostar því sem næst 5 árslaun, en í Bandaríkjunum 21/2 árslaun, í Bretlandi 2,7, Noregi 3,4, Svíþjóð það sama, Danmörku 3,6, Vestur-Þýzkalandi 3,8 árslaun og í Finnlandi 4 árslaun.

Nýtingu gólfrýmis telur sérfræðingurinn mun verri hér en víðast hvar annars staðar og tekur í því sambandi 24 önnur lönd til samanburðar. Þar reynist meðalgólfrými fyrir hvern íbúa 15.8 fermetrar, en hjá okkur 24.5 fermetrar á hvern íbúa. Nýting þessara þjóða á gólfrými er því sem næst 78% á móti 60% hjá okkur.

Af fyrrgreindri athugun er einnig ljóst, að við byggjum mikinn meiri hluta íbúða okkar mun stærri en allar okkar nágrannaþjóðir, en um 60% íbúða okkar eru íbúðir með 4 herbergi og eldhús og stærri, á móti 10% hjá t.d. Dönum, 20% hjá Vestur-Þjóðverjum. Þessi samanburður verður öfugur, þegar tala íbúða, sem eru 3 herbergi og eldhús og minni, er tekin til hliðsjónar. Mánaðarlegur húsnæðiskostnaður er hér einnig hærri en hjá fyrrgreindum þjóðum á árunum 1931–1955. Á árinu 1931 er þessi kostnaður talinn 12 daglaun hjá Svíum, en 13 daglaun hjá okkur. Árið 1955 er hann talinn 5 daglaun í Svíþjóð, en 14 daglaun hjá okkur. Svíþjóð hefur því lækkað húsnæðiskostnað sinn um 7 daglaun á þessum árum, á sama tíma sem hann eykst hjá okkur um ein daglaun.

Allir þessir erfiðleikar hafa blasað við s.l. 10–20 ár og allt upp í 30 ár, og hafa þó allir stjórnmálaflokkar komið við sögu um stjórn landsmálanna á þessum tíma. Sannleikurinn um þessi mál er öllum, sem um þau vilja hugsa, tiltölulega einfaldur og ljós, en vandamálin hafa samt sem áður reynzt torleyst. Ein viðbótarendurskoðun þessara mála nú leysir ekki þennan vanda, sem hér er um að ræða. Svo sem fyrr er sagt, skortir ekki heldur á lagaheimildir til þess að ráðast til lausnar þessum erfiðleikum.

Við þurfum að ráðast gegn fyrrgreindum erfiðleikum eftir nákvæmri og fyrirframgerðri áætlun, því að þar verður ekki eitt atriði þessara mála leyst án þess, að jafnframt þurfi að leysa hin. Sameina þarf fjárhagslega aðstoð við húsbyggjendur í einni stofnun á vegum þess opinbera. í dag skipta þeir aðilar tugum, sem lána fé í einu eða öðru formi til íbúðabygginga, og skapar það ótrúlega erfiðleika í framkvæmd lánveitinganna og torveldar alla heildarstjórn í þessum mátum. Stuðla þarf að því, að nýjungar í byggingariðnaði eigi auðveldara uppdráttar, m.a. með því, að byggt verði í stærri og skipulagðari heildarframkvæmdum með fyrir fram tryggðu fjármagni. Á þennan hátt mætti stytta byggingartímann að mun og stórlækka með því einu byggingarkostnaðinn, um leið og starfsorka byggingarmannanna nýttist mun betur. Það er staðreynd, að við eyðum mun meira fé á hvern íbúa landsins til íbúðabygginga miðað við aðrar þjóðir, en afrakstur þessa er að sama skapi færri íbúðir fyrir þetta fé. Allt þetta, ásamt stórauknum rannsóknum í byggingariðnaði ásamt tilraunum, er nauðsynlegur undanfari að því að fullnýta það fjármagn, sem til þessara framkvæmda fer í dag, en um það vona ég að allir hv. alþm. geti verið sammála.