13.12.1962
Sameinað þing: 21. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í B-deild Alþingistíðinda. (292)

1. mál, fjárlög 1963

Frsm. 1. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Það fjárlfrv., sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, er hið fjórða, sem núv. ríkisstj. leggur fram, og segja mætti nú kannske, að það væri það fimmta, því að eitt hefur hún tekið aftur, og kom það ekki til afgreiðslu. En með því að fjárl. sýna það jafnan, hvað er að gerast í fjármálum þjóðarinnar, og þegar ein og sama ríkisstj. er að enda sitt kjörtímabil og hefur gert árlegar áætlanir um tekjur og gjöld ríkisins um þetta langt árabil eftir ákveðnum reglum, sem hún kveður sig fara eftir í efnahagsmálum, þá verður að telja, að komið sé í ljós, hvert stefnir, og ég tel, að vart sé hægt að skila svo áliti um væntanlega fjárlagaafgreiðslu, að ekki sé lítillega að því hugað, á hvaða leið við erum um fjármál ríkisins.

Hv, frsm. meiri hl. fjvn. hefur hér í ræðu drepið á það, að lánstraust Íslendinga erlendis hafi farið vaxandi á síðustu árum, og eigi það m.a. að sanna sérstaklega, hve fjárhagur íslenzka ríkisins sé traustur. Því skal á engan hátt neitað, að ríkíð hefur tekið til sín svo stórar summur fjár af þegnunum á undanförnum árum, að það býr ekki við neina fátækt í dag. En það væri alrangt, ef menn héldu, að þetta sama ætti við um íslenzka þegna yfirleitt. Þar hefur verið sveigt til meiri fátæktar á tímabili núv. ríkisstj. en áður var, þótt ríkisstj. sjálf hafi tekið til sín svo mikið fé, að ekki eru dæmi til neins svipaðs áður í sögu landsins.

Síðasta árið, áður en þessi ríkisstj. tók við völdum, hljóðuðu fjárlög upp á 1 milljarð og 33 millj. kr., 1033 millj. kr. Það voru fjárlög ársins 1959. Seint á því ári tók núv. ríkisstj. við og hefur ráðið ferðinni síðan, og heildarupphæðir fjárl. hafa breytzt í samræmi við fjármálastjórn núv. ríkisstj., þannig að árið 1960 var heildarupphæð fjárl. komin í 1501 millj., 1961 var hún komin í 1588 millj., 1962 var hún komin í 1752 millj., og ekki er annað sýnna en þau fjárl., sem hér eru til afgreiðslu, verði að heildarupphæð mjög nálægt 2200 millj., þ.e.a.s. fjárl. verði upp á 2.2 milljarða.

Ef við lítum á þá tölu, 2.2 milljarða, sem er líkleg endatala á þeim fjárl., sem hér eru til afgreiðslu, og svo aftur á endatölu þeirra fjárl., sem samþykkt voru næst fyrir viðreisn, sem var 1033 millj., þá sjáum við, að upphæð fjárlaganna hefur á þessu eina kjörtímabili meira en tvöfaldazt, hún hefur vaxið um því sem næst 112%. Þetta mun vera Íslandsmet, og reyndar hygg ég, að slíkar ofsahækkanir á fjárl. séu algerlega umtalsvert afrek, þótt á heimsmælikvarða væri lagt.

Það er þess vegna ekki furða, þótt íslenzka ríkisstj. búi ekki við sárustu fátækt að því er ríkissjóð varðar. Á hinn bóginn er það jafnaugljóst, að þróunin hefur alls ekki orðið svona hjá fólkinu í landinu almennt. Ég hef í nál. mínu gert svolítinn samanburð á tekjuauka þeim, sem ríkisstj. taldi sér nauðsynlegan á þessu tímabili, sem reynist vera 112% hækkun, og þeim tekjuauka, sem orðið hefur hjá almennum launamanni í landinu, og legg þar til grundvallar tímakaup Dagsbrúnarverkamanns og miða við desembermánuð ár hvert, því að þótt dálítið beri af, í hvaða mánuði fjárl. eru samþykkt, er það þó algengasta reglan, að þau eru samþykkt í desembermánuði næst á undan því ári, sem þau eiga að gilda fyrir.

Í desembermánuði 1958, þ.e.a.s. á því tímabili, sem eðlilegt hefði verið að samþykkt hefðu verið fjárl. fyrir árið 1959, síðustu fjárl. fyrir viðreisn, var Dagsbrúnarkaup kr. 23.86 um klukkutímann. Síðan kom fram á því mikil lækkun, og í desembermánuði 1959 og 1960 var kaup Dagsbrúnarverkamanns kr. 20.67. Í desembermánuði 1961, þ.e.a.s. þegar yfirstandandi fjárl. voru samþ., var kaup Dagsbrúnarverkamanns kr. 22.74. Og nú í dag, þegar verið er að samþykkja 2.2 milljarða fjárl., er kaup Dagsbrúnarverkamanns kr. 24.80 um tímann. Á sama tímabili, sem fjárl, hækkuðu um 112% , úr 1033 millj. í 2200 millj., hefur tímakaup fyrir einn unninn tíma hjá Dagsbrúnarverkamanni hækkað úr kr. 23.86 í kr. 24.80. Þetta er hækkun, sem nemur 4%.

Þetta eru blákaldar staðreyndir og breytast ekki við það, þótt margir landsmenn hafi á þessu tímabili tekið að sér að vinna fleiri klukkustundir á hverjum degi en áður tíðkaðist og getað nokkuð hamlað á móti þeirri kjararýrnun, sem þessi þróun óumdeilanlega vitnar um.

En þótt þetta hafi nú þróazt með þessum hætti, að ríkisstj, tekur til sín 112% tekjuhækkun, á meðan almennur verkamaður fær ekkí kauphækkun nema sem nemur 4%, þá telur ríkisstj., að því er ég bezt veit, enn í dag það vera næstum því heilaga skyldu sína að berjast með oddi og egg og beita ríkisvaldinu og dómsvaldinu til þess, eftir því sem hún fær við komið, að hindra það, að samið sé um kaupbreytingar til hækkunar, og hefur reyndar sannað það í verki, svo að ekki verður um deilt.

Í þessum samanburði, sem ég hér hef gert, er aðeins miðað við tölur fjárl. Þær eru þó ekki fullnægjandi samanburður, vegna þess að þrátt fyrir það, sem í fjárl. hefur staðið, hefur ríkisstj. öll árin tekið til sín hærri upphæðir í tekjur en fjárl. gerðu ráð fyrir. Ef hún hefur verið, þegar á árið tók að líða, hrædd um, að tekjurnar ætluðu ekki að fara neitt verulega fram úr áætlun, hefur hún beitt til þess hinni mestu hörku, að þær skyldu gera það samt, og má í því sambandi minna á gengisfellinguna, sem ríkisstj. framkvæmdi í ágústmánuði 1961, og auðvitað stórjók hún tekjur ríkissjóðs. Fjmrh. hæstv. hefur reyndar ekki viljað við það kannast hér á Alþingi, að svo hafi verið, heldur talið gengisbreytinguna ríkissjóði á engan hátt hagkvæma. En hvað sem um það má segja, breytir það þó ekki því, að með þeim tekjum, sem af þessu sköpuðust, voru greiddar milljónatuga fjárhæðir, sem ríkið annars hefði orðið að greiða, svo að það kemur gersamlega út á eitt, hvernig þetta er fært í bókhaldinu, — gengisfellingin færði mjög mikinn tekjuauka, sem ríkið fékk til ráðstöfunar, jafnvel þótt þær tekjur hafi ekki allar farið beint í gegnum ríkissjóðinn sjálfan.

Það mætti nú ætla, að með allri þessari tekjuaukningu, sem ríkissjóður hefur náð til sín á þessu tímabili, hefði hann gerzt umsvifamikill í þeim framkvæmdum, sem hann á ýmist einn og sjálfur eða að hluta til að standa straum af. En því miður er sú raunin ekki á. Framlög ríkissjóðs til mannvirkja eins og t.d. vega, brúa, hafna, flugvalla hafa ekki vaxið í sama hlutfalli og fjárl. hafa aukizt og hvergi nærri. Sum þessara framlaga hafa meira að segja staðið gersamlega í stað á öllum þeim fjárl., sem ríkisstj. hefur staðið að samþykkt á. Auðvitað þýðir þetta það, að í hinni stórvaxandi dýrtíð í landinu hafa ýmsar þessar framkvæmdir hlotið að dragast stórlega saman. Þær hafa líka gert það. Vegamálaskrifstofan tekur árlega saman reikninga og byggir á staðreyndum um það, hvað kostar að byggja brýr, hver brúargerðarkostnaðurinn í landinu er, og vegamálaskrifstofan hefur útbúið sér vísitölu um þetta. Hún miðar við verðlagið í septembermánuði ár hvert, og brúargerðarvísitalan hefur hreyfzt með þeim hætti, sem nú skal greina: Ef vísitalan er miðuð við 100 í septembermánuði 1949, þá var hún orðin 280 1958. 1959 var hún orðin 282. Og svo taka viðreisnaráhrifin að segja til sín: Árið 1960 er hún ekki lengur 282, heldur 347. Árið 1961 er hún 396. Og árið 1962, þ.e.a.s. á yfirstandandi ári í septembermánuði, er vísitala brúargerðarkostnaðar komin upp í 443 stig.

Ég hef í nál. mínu gert dálítinn samanburð á því, hverjar fjárlagatölurnar hefðu átt að vera ár hvert, í fyrsta lagi, ef þær hefðu verið miðaðar við verðlag næstliðins árs á undan og framkvæmdir verið jafnar og þær voru 1959. Og í öðru lagi hef ég sýnt í mínu nál., hvert fjárlagaframlagið hefði þurft að vera, hefði fjárlagaframlag til brúa átt að hækka þannig, að það héldi hlutfalli sínu við heildarniðurstöðu fjárl. Og í þriðja lagi sýni ég í þessu sama nál., hvað brúargerðaframlagið var á fjárl. eða er í fjárlfrv., sem nú liggur frammi. Það sýnir sig af þessum tölum, að miðað við það, að brúargerðaframlagið hefði verið við það miðað að halda sömu framkvæmdum, ekki meiri, heldur bara sömu framkvæmdum og voru, miðað við framlag 1959, þá hefði í ár þurft að leggja til brúargerðanna 15.8 millj., en ef þetta framlag hefði átt að vaxa í hlutfalli við hækkun fjárl. að heildarniðurstöðu, þá hefði brúargerðaframlagið átt að vera í ár, þ.e.a.s. á fjárl. 1963, 21.6 millj. kr., en það er í frv. 11.3 millj.

Af þessu verður auðvitað ljóst, að hér hefur verið stefnt til stórkostlegs samdráttar í framkvæmdum, og sá samdráttur hefur þegar orðið. Hitt er svo annað mál, að það er ekkert notalegt fyrir ríkisstjórn Íslands, það get ég skilið, að uppgötva þann veruleika, sem hún hingað til hefur verið að reyna að halda duldum fyrir sjálfri sér, að hér væri ekki allt með felldu, og nú virðist hún hafa rumskað og séð, að það þýddi ekki annað eða það var ekkert vit í öðru en bæta hér um og leggja meira til framkvæmdanna en verið hefur og reyna nú að sperra síg og halda hlutfallinu til þess að láta ekki á sannast, að í þessum efnum sem og svo mörgum öðrum máske væri ríkisstj. mikill eftirbátur sinna fyrirrennara margra.

Og hvert er þá ráðið? Hefur hún þá ekki fullar hendur fjár til þess að leggja til þess arna? Ekki telur hún það sjálf, því að hún telur nefnilega flest önnur framlög og eyðslu vera þarfari, réttmætarí og sjálfsagðari en að auka fjárframlag til framkvæmdaliða svipaðra þeim, sem ég hér hef nefnt. Nei, ríkisstj. taldi sig ekkert teljandi fé hafa til þess arna, þrátt fyrir alla tekjuaukninguna, sem hún hefur til sín tekið. Hún sendir fjmrh. sinn hæstv. suður til Lundúnaborgar til þess að selja þar skuldabréf, og það hefur verið gert, og ríkisstj. hefur þannig til þess að reyna að geta staðið sig eitthvað betur í framkvæmdum nú en mörg undanfarin ár tekið 240 millj. kr. lán úti í Bretlandi. Og þegar málið er skoðað í því ljósi, sem það hlýtur að standa í, verður það ærið vafasöm skrautfjöður, sem nú er þó sem slíkri mjög hampað af ríkisstj. sjálfri og talsmönnum hennar, að það beri vott um velgengni á Íslandi, að hún skuli fá þetta lán.

Ég held, að eftir þá fjármálastjórn, sem leiðir til þeirrar lántöku, sem hér hefur verið framkvæmd, þar sem ekki á að leggja féð í nein stórvirki, að því er virðist, heldur fyrst og fremst í þær almennu framkvæmdir, sem dregizt hafa aftur úr og trassaðar hafa verið á undanförnum árum, þá sé lántakan ekki fjármálastjórn landsins til neins sóma. Á hinn bóginn verð ég að láta í ljós ánægju mína yfir því, að ríkisstj. skuli þó nú hafa uppgötvað þau sannindi, sem við stjórnarandstæðingar höfum verið að reyna að segja henni hér á þingi allan tímann, að hér hafi verið of litið framkvæmt, hér hafi verið of lítið aðhafzt á vegum ríkisins á undanförnum árum, og jafnvel þótt svo sé komið, að mitt í þeim góðærum, sem nú ganga yfir land og þjóð, treystist ríkisstj. ekki til þess að leggja fé til hinna nauðsynlegustu framkvæmda af eigin aflafé, heldur sæki það á lánamarkað í útlöndum; þá tel ég samt, að það horfi til bóta, að nú á þó að vinna verkin að einhverju leyti a.m.k.

Þessi erlendu lán, sem tekin hafa verið, eitthvað yfir 240 millj. kr., eiga síðar að koma til úthlutunar og sumpart til endurlána. Því er yfirlýst af ríkisstjórninni, að að hluta til eigi þau að fara til vegagerðar, að hluta til eigi þau að fara til hafnargerða, og fleiri framkvæmdaliðir hafa verið nefndir. Nú þegar lánið er tekið og komið á reikning íslenzka ríkisins, hefði ekki verið úr vegi, að samhliða fjárl. hefði það verið lagt fyrir fjvn., sem lögum skv. á að fjalla um þetta mál jafnhliða fjárlögunum, og hefði þá mátt við afgreiðslu fjárl. hafa hliðsjón af því að nokkru, hverjar framkvæmdir áttu þess von að fá lán og hverjar ekki, en þrátt fyrir fsp. í fjvn, hefur ekki fengizt nein skýrsla um það, til hverra framkvæmda lánið sé fyrirhugað, og hefur í fjvn. verið upplýst, að slík áætlun sé ekki til frá ríkisstj. hálfu enn sem komið er.

En í sambandi við þessa lántöku hlýtur að vakna spurning, sem er á þessa leið: Er frekar hægt að borga upp lán á næstu árum, lán til vega, lán til hafna, sem ríkið á ýmist að öllu eða nokkru að borga úr sínum sjóði, heldur en að auka ríkisframlagið verulega til þessara hluta? Ég sé ekki, að ef ekki er hægt að auka framlagið verulega og miklu meira en þinglið ríkisstj. í fjvn. hefur gert till. um, þá sé heldur hægt að borga af stórum lánum í framtíðinni af fé úr ríkissjóði. Þess vegna hlýtur að vakna sá grunur, að í uppsiglingu sé hjá ríkisstj. að leggja á nýja skatta til þess að standa undir greiðslum af þessum lánum. Það hefur af hennar hálfu og hennar talsmanna verið lögð á það allmikil áherzla, bæði við framlagningu fjárlagafrumvarpsins og æ síðan, að hér séu á leiðinni fjárlög, sem ekki samanstandi af neinum nýjum sköttum eða tollum. Það er rétt, það eru ekki nein ný nöfn á sköttum eða tollum í þessu frumvarpi. Hins vegar gefa þeir skattstofnar, sem ríkisstj. hefur nú tekið sér — og framlengir endalaust líka þá, sem áttu bara að vera til bráðabirgða, þeir gefa miklu meiri tekjur en Alþingi hafði upplýsingar um fyrir fram. En engu að síður er nú svo komið, að við afgreiðslu fjárlaga og með hliðsjón af þeim lánum, sem tekin hafa verið, virðist nýr skattur vera í uppsiglingu, sem máske verður þá með eitthvað minni lofgerðarrollum af ríkisstj. hálfu laumað inn í löggjöf landsins að fjárlögum afgreiddum og að þögnuðum ræðuhöldunum um það, að hér séu fjárlög án nýrra tolla eða skatta á ferðinni.

Í skemmstu máli blasir það við að þessum hlutum athuguðum, að í fyrsta lagi er það einkenni núverandi fjármálastjórnar í landinu, að verðgildi íslenzkra peninga fer stöðugt rýrnandi og dýrtíð stöðugt vaxandi. Í öðru lagi: skattþungi sá, sem ríkið leggur á herðar sínum þegnum, fer vaxandi, hraðari skrefum en dæmi eru til um áður, og gildir einu, hvort þyngjast gamlir skattstofnar eða ný nöfn eru gefin. Í þriðja lagi: ríkisvaldið grípur í vaxandi mæli inn í gerð almennra kaupsamninga til að hindra kaupbreytingar til samræmis við verðlag. Hið fjórða, sem ég vildi telja sem sérstakt einkenni á fjármálastjórn landsins, eins og hún er nú, er það, að framkvæmdir á vegum ríkisins hafa dregizt verulega saman þrátt fyrir tekjuauka. Í fimmta lagi: þegar nauðsyn þykir til þess vegna kosninga að halda í horfinu um framkvæmdir, þá finnast ekki til þess önnur úrræði en að taka lán í útlöndum, svo að nemur hundruðum milljóna. Í sjötta lagi: þó að skattar eða tollar með nýjum nöfnum séu ekki í þeim fjárlögum, sem hér á að afgreiða, virðist fjármálastjórnin stefna að því, að þeir skattar eða tollar séu samt í uppsiglingu. Í sjöunda lagi einkennist sú fjárlagaafgreiðsla, sem hér fer fram, og þar með fjármálastjórn ríkisins á okkar dögum af því, að þar fer stöðugt fram feluleikur um það, hvað er að gerast. Nú er það á allra manna vitorði, að ríkisstj. áformar og viðurkennir, jafnvel lofar með beinum eða óbeinum hætti verulegum kaupbreytingum hjá starfsmönnum ríkisins. Á þessum loforðum ætlar hún að fleyta sér fram yfir kosningar. Þess vegna er ekki gert ráð fyrir þeim útgjöldum að einu eða neinu ieyti í því fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, en það mun vera ætlun hennar, ef hún má hér ráða málum að kosningum loknum, að borga með nýrri gengisfellingu. Það er hennar leið, það hefur hún margsannað.

Ég held, að ég hafi hér undirstrikað þá helztu þætti, sem almennt koma fram við athugun þeirrar fjárlagaafgreiðslu, sem hér er fyrirhuguð. Fjárlagafrv., eins og það var lagt fram, er að niðurstöðu til upp á 2126 millj. kr. Fjvn. eða meiri hluti fjvn. hefur lagt til 72 millj. kr. hækkun á því, og er þá sýnilegt, að frv, kemst í 2198 millj. kr. hæð, og gæti auðvitað vel farið svo, að það færi í eða yfir 2200 millj., eins og ég hef hér sett fram sem áætlunartölu og aldrei mun láta fjarri.

Varðandi þær tillögur fjvn., sem hækka frv. um þessar 70 millj., sem ég hér hef minnzt á, eða u.þ.b., þá lýsi ég því yfir f.h. Alþb., að það styður flestar þær tillögur, en áskilur sér að öðru leyti óbundna afstöðu um einstakar þeirra.

Samstarfið í fjvn. hefur verið gott og alger samstaða um afgreiðslu fjölmargra erinda, þótt mikið beri á milli um skoðanir 1. minni hl. og stuðningsmanna ríkisstj. í nefndinni um fjármálastjórn landsins yfirleitt og þar með um afgreiðslu fjárlaga.

Þessu nál., sem ég hér skila, fylgja nokkrar brtt. við fjárlögin. Þær eru í 38 liðum, samtals til hækkunar um nálægt 60.2 millj. kr., en einnig til lækkunar um nállegt 8.2 millj., og fylgja því þessu nál. tillögur um 52 millj. kr. hækkun á fjárlögunum, þó þannig, að verulegur hluti af þeirri upphæð fellur saman við þær brtt., sem fjvn. í heild hefur gert. Ég hef með þessu nál. ekki gert till. um breyt. á tekjuliðum frv., en það er mín skoðun og okkar Alþb.-manna, að hækkun á móti þeim tillögum, sem hér eru gerðar, rúmist vel á þeirri tekjuáætlun, sem ástæða er til að gera um að núverandi skattstofnar ríkisins gefi, og mun ég þess vegna við 3. umr. málsins gera till. til breyt. á tekjuliðum frv. að því leyti, sem samþykktir á tillögum okkar Alþb: manna kunna að gefa tilefni til, því að það er ekki ætlun okkar Alþb.-manna, að hér eigi að afgreiða fjárlög með greiðsluhalla.

Vil ég því næst fara fáeinum orðum um þær till., sem þessu nál. fylgja. Þær eru á þskj. 176.

Við 10. gr. fjárlaganna, sem fjallar um fjárveitingar til ríkisstj. og þeirra stofnana, sem henni heyra, eru gerðar hér nokkrar tillögur til breytinga til sparnaðar.

Fyrsta tillagan fjallar um varnarmáladeild utanrrn. Þessi svokallaða varnarmáladeild er skrifstofa, sem rekin er einhvers staðar á vegum utanrrn. og er svo dýr í rekstri, að hún kostar meira en 1/2 millj. kr. Er það reyndar hærri fjárhæð en sum ráðuneytin hafa sjálf til sinna þarfa, en hins vegar hefur a.m.k. þeim þingmönnum, sem sæti eiga í fjvn., orðið það ærið kunnugt, að þeir Íslendingar, sem til þessarar deildar leita með fyrirgreiðslu og leiðréttingu sinna mála, fá þar oft harla litlar undirtektir undir mál sín, og gagnsemi skrifstofu varnarmáladeildar utanrrn. er harla vafasöm í marga staði. Og þótt ég sé sannfærður um það, að hún fengi of mikla fjárveitingu í hlutfalli við gagn það, sem hún kynni að gera þótt farið væri eftir minni tillögu, þá hef ég lagt til, að framlag til hennar yrði lækkað um helming, úr 539 þús. í 269 þús. kr.

Ég sleppi hér að lesa nánari útfærslu á lægri fjárhæðum. Í fjárlagafrv. má sjá, að kostnaður við sendiferðir á snærum ríkisstj. í útlönd er ærið hár. Það eru ekki færri en 3 liðir á fjárlagafrv. og á gildandi fjárlögum, sem um þessi mál fjalla. Einn þeirra heitir: kostnaður við alþjóðaráðstefnur á vegum annarra en utanrrn. Annar heitir: kostnaður vegna samninga við erlend ríki á vegum utanrrn. Og sá þriðji heitir: kostnaður vegna þátttöku í alþjóðaráðstefnum á vegum utanrrn. Þessir liðir eru samtals nokkuð á 4. millj. kr., en í mínum brtt, við fjárlögin er lagt til, að kostnaður verði lækkaður um þriðjung á öllum þessum liðum, og gæfi Alþingi með samþykkt þeirra tillagna til kynna, að því finnst þegar of langt gengið í eyðslusemi á þessu sviði og vill stilla þeim málum meira í hóf en gert er.

Það er gamalt áform ríkisstj., sem oft hefur borið á góma í þessum ræðustól, að hægt væri að spara verulega sendiráðskostnað Íslendinga. Það hefur verið talað um, að það mundi vera nóg fyrir Íslendinga að hafa eitt sendiráð á Norðurlöndum. Þetta er samhljóða áliti okkar Alþb.-manna, og höfum við gert tillögur um þetta á mörgum undanförnum árum. Það verður ekki sagt, að tillögum þeim hafi verið illa tekið, að öðru leyti en því, að þær hafa að vísu verið felldar. En í umr. hefur komið fram, að það finnst fleiri en okkur Alþb.- mönnum, að hér sé um rétt og sjálfsagt mál að ræða. Ríkisstj. hefur hins vegar öll sín tilveruár haldið því fram, að enn væru málin ekki nægilega undirbúin til þess, að hægt væri að gera samþykktir um þetta. En nú hefur hún haft góðan tíma til að undirbúa málin, svo að enn flytjum við Alþb.-menn hér þá till., að lögð verði niður sendiráðin í Stokkhólmi Kaupmannahöfn og Osló og upp verði sett í einhverri þeirri Norðurlandaborg, sem ríkisstj. ákvæði, eitt íslenzkt sendiráð, sem ætti að ná til allra þessara landa.

Þá hef ég leyft mér að gera till. um nokkra lækkun á fjárframlögum til sendiráðs Íslands í París. Ef maður reiknar með, að við það bætist þær till., sem í fjvn. hafa verið samþ., þá er sendiráðið í París eitt allra íslenzkra sendiráða með kostnað yfir 3 millj. kr. Það er mitt álit, að slíkar fjárhæðir séu stærri en við Íslendingar eigum að leyfa okkur. Ég álít, að við höfum skyldu til að gæta meira hófs í fjárframlögum til sendiráðanna en við höfum að undanförnu gert, og hef miðað mínar till. við það, að 21/2 millj. kr. yrði hámarksframlag af Íslands hálfu til þeirra sendiráða, sem það rekur í ýmsum löndum. Enda er það mála sannast, að ég hygg, að sendiráðin gætu öll sinnt fullkomlega sínum hlutverkum, þótt fjárframlög til þeirra yrðu að hámarki bundin við 21/2 millj.

Á 11. gr. fjárl. eru tveir fjárlagaliðir, sem ég hef leyft mér að gera brtt. við.

Annar sá liður fjallar um ríkislögregluna á Keflavíkurflugvelli. Samkvæmt fjárlagafrv. eru ríkislögreglunni á Keflavíkurflugvelli ætlaðar til sinna þarfa 4 millj. 564 þús. kr. Þetta er lögregla, sem starfar innan við girðingu á því svæði, sem í íslenzku stjórnarkerfi er nánast flokkað undir útlönd og látið heyra undir utanrrn. Það hljóta að vera meira en lítið óspekta- og lagaleysumenn, sem þar dveljast, ef hér er ekki um óhófsupphæð að ræða til löggæzlu. Til samanburðar má geta þess, að áætlunarupphæðin um ríkislögreglu alla utan Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar nær ekki alveg 1 millj. í fjárl. Það þýðir, að til ríkislögreglunnar á Keflavíkurflugvelli er ætlað 4–5 sinnum meira framlag en til allrar þeirrar ríkislögreglu, sem kostuð er utan Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Með tilliti til alls þessa þá tel ég, að hér sé um óhóf að ræða, og þótt ég teldi, að einfaldast í þessu máli væri það að láta rýma Keflavíkurflugstöðina og spara íslenzka ríkinu þennan kostnað, þá hef ég í sambandi við fjárlagaafgreiðslu að sjálfsögðu viðurkennt þá staðreynd, að þarna er þessi herstöð og þarna er sjálfsagt óhjákvæmilegt að halda uppi einhverri löggæzlu af hálfu íslenzka ríkisins, en ég hef gert tillögu um það, að ekki verði meira fé varið til þessa lögregluhalds en 2 millj. kr.

Þá hef ég gert till. um það, að niður verði felldur úr fjárl. liðurinn til rekstrar vinnuhælis að Kvíabryggju. Sú stofnun er rekin af Reykjavíkurbæ, og út frá því sjónarmiði einu saman, að ríkið eigi að borga svo að millj. skipti tugthúshald fyrir eitt byggðarlag landsins, þá er málið að sjálfsögðu mjög óréttlátt. En það, sem þó er aðalatriðið, er hitt, að ég leyfi mér að draga í efa, að þetta fangelsishald, sem er hreint skuldafangelsi, eigi sér stoð í því réttarfari, sem á Íslandi á að ríkja, en þar er ekki gert ráa fyrir því, að hægt sé að hneppa menn í skuldafangelsi. Ég hef því lagt til, að þessi liður verði felldur burt af fjárlagafrv.

Sparnaðartill, þær, sem ég hef hér lýst, við 10. og 11. gr. fjárlaganna, nema, eins og ég áður hef tekið fram. rösklega 8 millj. kr., ef samþ. yrðu.

Við 12. gr. fjárl. hef ég leyft mér að gera tvær brtt.

Ég hef leyft mér að flytja till. um það, að rekstrarstyrkur sá, sem ríkissjóður greiðir sjúkrahúsunum, sem bæjar- eða sveitarfélög reka, verði að þessu sinni með tilliti til þess, hvernig komið er okkar dýrtíðarmálum, borgaður ekki einasta eftir lögum þar um, heldur með 30% álagi og verði hækkaður úr áætlunarupphæðinni 5 millj. í 7 millj. og 500 þús.

Þá hef ég leyft mér að leggja til, að byggingarstyrkur sjúkrahúsa verði hækkaður úr 7 í 10 millj. kr. Það er alkunnugt, að víða á landinu eru í byggingu mjög dýr og vönduð sjúkrahús, sem ríkið er þátttökuskylt í kostnaði við, en ríkið stendur illa í skilum um að greiða sitt framlag og greiðir ekki fyrr en löngu eftir á. Það er einnig vitað, að á fjölmörgum stöðum á landinu er hin mesta nauðsyn á því, að hafin verði sjúkrahúsbygging,

en á þeim byrjunarframkvæmdum er af ríkisins hálfu setið fastar en eðlilegt getur talizt, og ríkið dregur sem sagt, eftir því sem það getur, úr því, að slíkar sjúkrahúsbyggingar geti hafizt, þótt þörfin sé óumdeilanleg. Það væri nokkuð hægt að bæta hér úr og rýmka um með því að hækka framlagið eins og hér er lagt til. En engan veginn er þó víst, að hægt verði að ganga svo langt í þessum efnum sem nauðsyn krefði, þótt framlagið yrði fært í 10 millj. kr., sem ég tel nokkurn veginn lágmark þess, að hægt sé að standa með skaplegum hætti við skuldbindingar ríkisins í þessum efnum.

Á 13. gr. fjárl., samgöngumálagr., eru af minni hálfu gerðar nokkrar till. Þær eru byggðar á því, að eins og þau rök hníga að, sem ég hef fyrr vikið að í minni ræðu, þá hafa þessar framkvæmdir dregizt mjög aftur úr á síðustu árum. Það væri máske eðlilegt að gera till. um það, að allir þessir liðir hækkuðu um svo sem eins og 112% frá því, sem þeir voru árið 1959, til þess að halda hlut sínum á fjárl. Af hófsemi minni hef ég þó miðað till. mínar við það að tvöfalda fjárframlögin til þessara samgöngumálaþátta frá því, sem þau voru í fjárl. fyrir árið 1959. Ég hef einnig að því er vegina varðar dregið frá þeirri upphæð, sem út úr tvöföldun fjárlagaupphæðar til vega árið 1959 kom, 5.4 millj. kr., sem samkvæmt till. fjvn. eru nú ætlaðar til samgöngubóta á landinu. Það orkar að sjálfsögðu tvímælis, hvort átt hefði að draga alla þessa upphæð frá vegunum, hvort ekki hefði átt að skipta henni, þannig að eitthvað af henni kæmi þá á till. um brýr, en allt slíkt væri að sjálfsögðu auðvelt að gera nýjar áætlanir um, ef meginkjarni málsins fengi hér þær undirtektir, sem ég leyfi mér að vona.

Í samræmi við þetta hef ég lagt til, að framlag til nýrra akvega hækki úr 20 millj. 480 þús., eins og það er í fjárlfrv., í 26 millj. 260 þús.; að endurbygging þjóðvega hækki úr 800 þús. kr. í 1.6 millj.; að framlag til brúargerða hækki úr 11 millj. 280 þús. í 19 millj. 910 þús.; að framlag til endurbyggingar gamalla brúa hækki úr 1 millj. 425 þús. kr. í 3 millj.; að framlag til fjallvega hækki úr 1 millj. í 1.6 millj. En síðan hef ég gert till. um, að einn þáttur á samgöngumálagrein breytist eftir allt öðrum reglum en ég nú hef hér talið. Það hefur sem sagt lengi staðið í fjárl. 100 þús. kr. fjárveiting til malbikunar eða steypu á þjóðvegum í bæjum og þorpum. Síðar var þessi fjárlagaliður lækkaður í 95 þús., og þannig hefur hann staðið í fjárl, á hinum síðustu árum. Allir, sem eitthvert hugboð hafa um kostnað við varanlega gatnagerð, hljóta suðvitað að sjá, að það er alveg nákvæmlega sama, hvort þessi upphæð stendur á fjárl. eða alls engin upphæð til þátttöku í þessum kostnaði, og hef ég þess vegna leyft mér að leggja til, að þessi upphæð verði hækkuð í 2 millj. kr. Þá er hugsanlegt, að hún geti verkað sem hvatning til einhverra þorpa eða bæja til þess að framkvæma eitthvað af þeim nauðsynjum, sem fyrir liggja í flestum bæjum um varanlega gatnagerð.

Ég hef einnig leyft mér að flytja till. um framlag til hafnargerða og lendingarbóta, sem byggð er á sömu hugsun og ég hér hef lýst áður, þ.e. tvöföldun á framlagi ársins 1959, og hef lagt til, að framlag til hafnarmannvirkja og lendingarbóta hækki úr 17 millj. í 24 millj. 410 þús. En því er svo varið um hafnir landsins, að ríkissjóður tekur þátt í kostnaði við byggingu þeirra eftir vissum reglum, ýmist að hálfu eða að 2/5 hlutum, og hefur gengið svo mörg undanfarin ár, að ríkið hefur ekki lagt fram nægilegt fé á fjárlögum ár hvert til þess að standa við þær skuldbindingar, sem mynduðust árlega, og hefur þess vegna í höfnunum safnazt nokkur skuldahali, sem fjvn. góðu heilli hefur nú gert till. um að greiddur verði upp, að vísu ekki með fjárlagagreiðslum á einum fjárl., heldur verði þeirri uppborgun skipt á fleiri ár. Nú hefur verið lagt til, að 4 millj. kr. verði til þessa notaðar, og er það allra góðra gjalda vert, þótt ekki sé það fullnægjandi á nokkurn hátt, og vafasamt er og reyndar ólíklegt, að þær 4 millj. verði nægilegar til þess að vega upp á móti þeim skuldahala, sem líklegur er til að myndast á árinu 1963. Af því má sjá, þótt viðleitnin sé góðra gjalda verð, að hún er langt frá því að vera fullnægjandi. Ef ríkissjóður ætlaði á n.k. ári að greiða hlut sinn að fullu í þeim hafnarframkvæmdum, sem þegar hafa verið gerðar, og hinum, sem vitamálaskrifstofan telur einsýnt að gerðar verði á næsta ári, þá mundi þurfa að áætla á fjárl. til hafnarmannvirkja og lendingarbóta fé, sem næmi u.þ.b. 50 millj. kr.

Kem ég þá að 14. gr. fjárl., sem fjallar um mennta- og menningarmál, en við þá gr. hef ég gert till. um það, að framlög, sem ríkið á að nokkru lögum samkv. að leggja til ýmiss konar mannvirkjagerða, sem varða skólahald í landinu, íþróttamannvirki o.s.frv., þau framlög verði öll hækkuð nokkuð, en á undanförnum árum hefur byggingarkostnaðurinn, eins og alkunnugt er, risið svo hátt, að í rauninni hefur alls ekki verið neitt nálægt því, að ríkið héldi í horfinu eða legði fram það fé, sem ýmist er lögbundið, að ríkið eigi að leggja til, eða sanngjarnt hlýtur að teljast, að það leggi fram sem byggingarstyrki.

Ég hef í fyrsta lagi lagt til, að framlag til byggingar barnaskólanna hækki úr 25.9 millj., eins og það er í fjárlagafrv., í 30 millj. kr. Með því að hækka framlagið þannig, væri hægt að leyfa upphaf á skólabyggingum á nokkrum þeim stöðum, þar sem óumdeilanlega er hin brýnasta þörf fyrir að svo verði gert, þar sem héruðin hafa einnig áhuga á því og nokkurt fjármagn til að byrja, en geta ekki byrjað vegna lagaákvæða um það, að ríkissjóður er ekki framlagsskyldur til skólabygginga fyrr en framlag hefur verið ákveðið til viðkomandi skóla á fjárlögum. Það má nefna í rauninni fjölmarga staði, sem telja verður óumdeilanlegt að hafi sannað þörf sina fyrir að fá að hefjast handa um skólabyggingar nú, en fá það ekki samkv. þeim tili., sem fram eru komnar, enda þótt lofsvert sé, og mér er kunnugt um það, að ýmsir hv. samnm. mínir, einnig í stuðningsliði ríkisstj., hafa lagt sig fram um það að ná samkomulagi við stjórnarvöld landsins um að fá hækkun á þessum lið og hafa náð nokkrum árangri í því, þótt ófullnægjandi sé.

Ég hef lagt til, að framlag ríkissjóðs til íþróttasjóðs verði hækkað frá því að vera 2 millj. 250 þús., eins og það er nú í fjárlagafrv., í 5 millj. kr. Íþróttasjóður er sá sjóðurinn, sem greiða á vissan hluta af byggingarkostnaði íþróttamannvirkja, en stöðugt hefur safnað á sig skuldum og hvergi nærri haldið í horfinu. Ríkisframlög til hans hafa að vísu verið aukin næstum árlega á undanförnum árum, en því miður hvergi nærri til samræmis við þarfirnar, og er það lágmark þess, sem sýnilegt er að til þarf, ef íþróttasjóðurinn á ekki beinlínis að sökkva í sínum eigin skuldum, að veita honum 5 millj. kr. framlag úr ríkissjóði á n. k. ári.

Byggðasöfn og bygging bókasafna eiga að njóta framlags úr ríkissjóði, og er það viðurkennt á fjárlögum með 100 þús. kr. fjárveitingu til byggðasafna og með 166 þús. kr. framlagi til bókasafnsbygginga. Þessar fjárhæðir sem styrkur til bygginga, sem allir vita að þurfa að vera veglegar og dýrar, eru auðvitað eins og dropi í hafið, og hef ég því lagt til, að sýnd verði nokkur viðleitni til þess að koma með dálítið raunhæfari hætti til móts við þarfirnar, sem fyrir liggja í þessu efni, með því að hækka hvorn þessara liða í 1/2 millj. kr.

Við 16. gr. fjárl., þar sem fjallað er um atvinnumál, hef ég lagt fram brtt. nokkrar. l;g hef leyft mér að flytja till. um það, að fjárhæð sú, sem lögð verði fram úr ríkissjóði til mjólkurbúa og smjörsamlaga, byggingarstyrkur, verði hækkuð úr 1:, millj., eins og nú er á fjárlagafrv., í 2 millj. Það er sömu sögu að segja um þennan lið og alla þá liði yfirleitt, sem standa undir byggingarkostnaði, að þar hefur dýrtíðin vaxið öllum fjárframlögum ríkissjóðs langt yfir höfuð, og til þess að ríkíssjóður ætti með sómasamlegum hætti að standa við sínar skuldbindingar í þessum efnum, mundi ekki veita af 2 millj. kr. framlagi.

Þá hef ég lagt til, að á B-lið 16. gr., sem fjallar um sjávarútvegsmál, verði ákveðið að taka inn á fjárlög 250 þús. kr. til þess að greiða þann kostnað, sem líklegt er að myndaðist við það, ef tekið væri upp kerfi til þess að fylgjast frá landstöðvum með ferðum íslenzkra fiskiskipa. En það er hin brýnasta öryggisráðstöfun, enda liggur hér fyrir Alþingi nú till. um, að svo verði gert. Auðvitað geta allír menn sagt sér það sjálfir, að slíku verður ekki á komið nema af því hljótist einhver kostnaður, og hygg ég, að það væri erfiðara að forsvara marga þá útgjaldaliði, sem á ríkissjóði hvíla, heldur en þann að verja 250 þús. kr., sem er áætlunarupphæð, og yrði að sjálfsögðu að verja því, sem liðurinn kostaði, til þess að reyna að auka á öryggi íslenzkra sjómanna á fiskiskipaflotanum við strendur landsins — og raunar bara ekki við strendur landsins, því að svo sem alkunnugt er, hefur fiskveiði landsmanna nú færzt á dýpri mið á undanförnum árum og kallar að sjálfsögðu á fullkomnara og betra eftirlit til öryggis. En þessi liður hefur ekki verið í fjárlögum hingað til. Ég legg til, að hann verði tekinn upp sem nýr liður undir sjávarútvegsmálalið fjárlaga.

Þá hef ég einnig lagt til, að ríkissjóður leggi fram 2 millj. kr. til byggingarkostnaðar á fiskirannsóknarskipi, en um byggingu þess skips hefur lengi verið rætt hér í Alþingi. Til byggingar þess hafa verið lagðir tekjustofnar, sem ég hefði haldið að óreyndu að gætu nægt til þess, að bygging slíks skips þyrfti ekki svo mjög úr hömlu að dragast sem raun er á. En það er till. mín, að Alþingi segi sitt orð í þessu máli með því að leggja fram eða bjóða fram úr ríkissjóði 2 millj. kr. sem stofnkostnað þessa skips, ef verða mætti til þess, að þeir, sem fyrir þeim málum ráða að byggja fiskirannsóknarskip fyrir Íslendinga, megi gera allt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að ekki dragist lengur en orðið er að koma því nauðsynjamáli, sem hér um ræðir, í framkvæmd. Það hefur þegar of lengi dregizt.

Við 17. gr. fjári., sem fjallar um félagsmál, hef ég leyft mér að gera nokkrar brtt.

Það er í fyrsta lagi, að ég hef leyft mér að leggja til, að þar verði tekinn upp nýr liður: til skolpveitna eftir ráðstöfun félmrn. 1/2 millj. kr. Ríkisvaldið hefur talið sér skylt að reyna að greiða fyrir því, að hin sjálfsögðustu mál, eins og t.d. vatnsveitur og aðrar sambærilegar félagslegar þarfir, gætu notið nokkurrar fyrirgreiðslu frá ríkissjóði, þar sem þarfir kalla mjög á, að framkvæmdir séu hafnar. Víða er það svo, að sérstökum erfiðleikum er að mæta við gerð slíkra mannvirkja sem skolpveitur eru, og teldi ég því eðlilegt, að félmrn. gæti hlaupið undir bagga, þar sem þörfin er slík, að ekki verður hjá komizt að framkvæma slík verk, enda þótt viðkomandi sveitarsjóður sé ekki það sterkur í sínum fjárhag, að hann geti framkvæmt þau verk eins fljótt og örugglega og heilbrigðisleg nauðsyn kallar eftir.

Þá hef ég lagt til, að framlag til byggingarsjóðs verkamanna, þ.e.a.s. framlag til verkamannabústaða, verði hækkað úr 7 millj. í 10 millj. kr. Þegar ég gerði mínar fjárlagatill., var mér ekki kunnugt um, að sá sjóður hefði að nokkru getað sinnt þeim lánveitingum, sem samþykkt var hér á Alþ. í fyrra að hækka að hámarki. Ég hef að vísu lesið í blöðunum í dag, að nú hafi sjóðurinn framkvæmt nokkrar lánveitingar, en meginþátturinn í þeim lánveitingum er sá, að þessi sjóður hefur fengið lán, mest hjá atvinnuleysistryggingasjóði, mest af þeirri eign, sem verkalýðssamtökin sjálf hafa skapað og eiga. En það kemur auðvitað að skuldadögum í því, og auk þess er mér mjög til efs, að þörfunum sé á nokkurn hátt fullnægt þrátt fyrir nokkra fjárveitingu, sem þarna hefur farið fram, og hygg ég því, að sú till., sem ég hér flyt um hækkun á þessum lið, sé öldungis tímabær og nauðsynleg.

Ég hef einnig lagt til, að upp verði tekinn á 17. gr. fjárl. nýr liður, framlag til félagsheimilasjóðs, og legg til, að honum verði ætlaðar 2 millj. kr. Félagsheimilasjóður hefur hingað til haft sínar tekjur utan fjárl. og ekki verið með sérstök ríkisframlög. Hann hefur haft hluta af skemmtanaskatti að tekjustofni. Nú hafa þær aðrar stofnanir, sem þess styrks eiga að njóta, kvartað mjög undan því, að sá skattur skili sér illa og verr en áætlað var. Veldur þar um mestu, að hér í höfuðborg landsins hafa þeir, sem ætlað var að greiða þennan skatt, fundið ráð til þess að komast hjá honum að verulegu leyti með því að selja ógjarnan aðgang að skemmtunum, en leggja heldur það, sem annars hefði komið inn í aðgangseyri að skemmtunum, ofan á verðlag veitinganna, en af þeim er ekki borgaður neinn slíkur skattur, ekki neinn skemmtanaskattur. Þannig hefur þessi tekjustofn að verulegu leyti brostið, og hefur fjvn. fengið erindi um það annars staðar frá. Félagsheimilasjóður hefur hins vegar gert mikið gagn, en er einn þeirra sjóða, sem nú eru svo sokknir í skuldir, að þeir eru langt frá því að geta innt sínar greiðslur af höndum á þeim tíma, sem til ætti eða mætti ætlast. Legg ég þess vegna til, að það verði tekið upp til félagsheimilasjóðs beint framlag á fjárl., 2 millj. kr. að þessu sinni.

Þá hef ég lagt til, að styrkur til A.S.Í., sem verið hefur 150 þús. kr. og er það á fjárlagafrv., verði hækkaður um 100 þús. Dómstólar landsins hafa gert þessu sambandi að auka mjög félagatölu sína, og er það augljóst mál, að af svo stórkostlegri fjölgun sem í Alþýðusambandinu er orðin hlýtur að leiða mjög mikinn kostnaðarauka á rekstri sambandsins. Ég teldi þess vegna eðlilegt, að ríkissjóður hækkaði framlag sitt til A.S.Í. um 100 þús. kr.

Þá hef ég einnig lagt til, að liðurinn: til orlofsheimilis verkalýðssamtakanna — verði á fjárl. hækkaður frá frv., þar sem hann er 475 þús., í 1 millj. kr. Verkalýðssamtökin eða A.S.Í. hefur haft það í undirbúningi að undanförnu að byggja orlofsdvalarheimili fyrir verkafólk, og hygg ég, að ég megi fullyrða, að þeim undirbúningi sé svo langt komið, að hafizt verði handa um byggingu slíks orlofsdvalarheimilis á komandi ári. Það leiðir af sjálfu sér, að eftir því sem vinnudagur er lengri, þá er þörf verkafólks fyrir hvíld í orlofi að sjálfsögðu meiri. Nú fer það ekki á milli mála, að vinnudagur íslenzka verkafólksins hefur aukizt, hefur lengzt á undanförnum árum, og verður þörfin fyrir orlofsheimili þeim mun brýnni, og hygg ég því, að hér sé eingöngu fram á sanngirni farið, að ríkið vilji taka sinn þátt í að mæta hinum auknu þörfum í þessu efni með því að hækka framlagið í 1 mill j. kr.

Það hefur verið reynt að sinna fjölmörgum erindum, sem virðast á sanngirni byggð, frá félagssamtökum um einhvern stuðning af hálfu ríkisins. Til þessa hefur þó ekki verið sinnt erindi frá Menningar- og friðarsamtökum kvenna, sem sótt hafa um nokkurn styrk til sinnar starfsemi. Hér er um að ræða landssamband, sem hefur allmikla og umsvifamikla starfsemi í sinum höndum, og þætti mér eðlilegt, að orðið yrði við beiðni þess um fjárstyrk, og hef lagt til, að því verði ætiaðar 30 þús. kr. á fjárlögum.

Á framkvæmdagrein fjárl., þ.e.a.s. á þeirri framkvæmdagrein, sem ríkið hefur sjálft með höndum á sínum eignum, 20. gr., hef ég lagt til, að fé til flugvallagerða verði hækkað úr 12 millj. 720 þús., eins og það er í frv., í 15 millj. kr., og vitna til þess, sem ég hef áður sagt hér um framkvæmdaliði ríkisins, og þess til viðbótar, að flugið er yngsti þáttur okkar samgöngumála og í þeim efnum hefur landið verið lítt numið til þessa. Flugmálastjórnin hefur sýnt lofsverðan áhuga um það að koma upp kerfi flugvalla um landið, en í þeim efnum getur að sjálfsögðu ekki miðað nema ofur hægt, nema því aðeins að ríkið sýni nokkurn myndarskap í því að leggja fram fé til þessara þarfa.

Þá hef ég leyft mér að flytja till. um, að inn komi á heimildagr, fjári., 22. gr., nýr liður, að heimila ríkisstj. að taka allt að 12 millj. kr. lán, sem endurlánað verði bæjarstjórn Vestmanneyjakaupstaðar til vatnsveituframkvæmda, gegn þeim tryggingum, sem ríkisstj. metur gildar. Lánið skal þó ekki nema meira en 60% af áætluðum heildarkostnaði við framkvæmd verksins. Þessi till. liggur fyrir hér í þinginu í sérstöku frv., sem hv. 3. þm. Sunnl. hefur flutt. Það hefur farið í gegnum eina umr. í Nd. og liggur nú í n. þar. Með því að mér sýnist, að eðli sínu samkv. sé málið beinlínis fjárlagamál og mörg hliðstæð mál hafa fyrr og síðar verið afgr. sem fjárlagamál, teldi ég rétt, að þetta mál yrði afgreitt samhliða fjárl. og tekið inn í þau.

Ég vil svo að lokum þakka öllum hv. meðnm. mínum og ekki sízt formanni fjvn. fyrir góða samvinnu og vænti þess, að svo megi haldast við alla afgreiðslu fjárl., sem að sjálfsögðu er ekki lokið, þótt til 2. umr. séu lögð þau skilríki og till., sem fram eru komnar.