28.11.1962
Sameinað þing: 17. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í D-deild Alþingistíðinda. (2933)

47. mál, geðveikralög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er rétt, að ég skýri frá því, að það mun hafa verið í ágúst 1961, að ég lagði fyrir landlækni að hefja söfnun gagna til undirbúnings setningu reglna um þau efni, sem hv. flm. gerði hér að umræðuefni. Síðan hefur verið að málinu unnið, en það hafa ekki enn þá verið samdar heilsteyptar till., vegna þess að heilbrigðisstjórnin lagði kapp á að ljúka fyrst lyfsölulöggjöfinni, og enn fremur er unnið að endurskoðun löggjafarinnar um áfengissjúklinga, en þetta er málefni, sem vissulega er aðkallandi að reglur verði settar um. Þetta þótti mér rétt að kæmi hér fram, en ég er sammála hv. flm. um, að málið verði athugað í nefnd.